11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2309)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Björn Pálsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. talaði um það, að foreldrar færu frá ungum börnum. Það má vel vera og ég get vel fallizt á það, að konur vinni of mikið úti hér á Íslandi. En það tíðkast nú meira, að konur vinni úti, þar sem flokksbræður þessa hv. þm. ráða ríkjum, því að mér hefur verið sagt, að þær séu óléttar í steypuvinnu hjá Rússum, það sagði mér maður, sem sá það. Hvað frúrnar hafa gert af börnum sínum, ef þau hafa verið fædd, skal ég ekki fullyrða, en ekki geta konur bæði unnið úti, eins og yfirleitt mun gert þar og litið eftir krökkum. Vafalaust eru þau látin á barnaheimili. Það er nú annað að hugsa um sín heimili, eins og sem betur fer margar konur geta, verið heima og hugsað um börn sín. En þar mun vera algengast, að þær vinni úti, nema hjá gæðingum flokksins.

Þá hefur þessi hv. þm. mikið talað um 13 ára dreng, sem hafi orðið fyrir slysi við vinnu. Vitanlega er alltaf leiðinlegt, þegar menn verða fyrir slysi. En það hafa nú margir fullorðnir orðið fyrir slysi. Og eru ekki alltaf slysin hér á götunum? Og er það ekki einmitt af því, að börnin eru að slæpast á götunum? Það er sannarlega minni hætta, hygg ég, við flesta vinnu, sem börn stunda hér á landi, að þau verði fyrir slysi við vinnu, heldur en einmitt af því að vera að slæpast á götunum. En hitt er annað mál og það tók ég fram strax við 1. umr., að ég álít rétt, að ekki sé gert of mikið að því að hafa ung börn með vélar eða tæki, sem er vandasamt að fara með, þó að slys geti vitanlega viljað alltaf til og ekki síður hjá gömlu fólki en ungu, því að yfirleitt eru unglingar fljótari að hugsa en aldraðir menn.

Þá ruglaðist þessi hv, þm. á hlutverki hreppstjóra og oddvita hér áðan. Þessi hv. þm. sá ekkert nema blessaða hreppstjórana. En á því tímabili, sem hann man eftir, voru það oddvitar, sem ráðstöfuðu fátæklingum, sem því miður var ekki búið nógu vel að í mörgum tilfellum. Og það var hér áður fyrr á árum, að það var búið illa að fleirum. Fullorðið fólk hrundi niður úr hungri, og það er vafalaust, að börnin hafa dáið líka, en sem betur fer eru þeir tímar liðnir. Og það þýðir ekkert að vera að gala um, hvað var einhvern tíma, það er bara ekki nú. Fólkinu líður miklu betur en því leið, sem betur fer. Og það þýðir ekkert að bera saman erlendar iðnaðarborgir og Ísland. Í þessu stóra landi býr fólk eins og í einni götu í stórborg. Og það á líka við um blaðsöludrengina, það er allt önnur umferð hér eða í stórborgunum. Þar er blátt áfram bannað að hafa börn á götunni. Þau eru ekki látin fara í skólana öðruvísi, en þeim sé fylgt. En hitt er annað mál, að það væri alveg saklaust og meinlaust, ég skyldi ekki vera á móti því, að börnum væri bannað að selja blöð á götu, því að sannarlega getur fólkið keypt þetta í búðunum, ef það vill kaupa það, í bókabúðunum.

Ég var ekki að tala um, að það væri gert of mikið fyrir börn, því fer fjarri. Það, sem ég var aðallega að tala um, voru þessar hlægilegu refsingar við því, að börn ynnu og ef börn gerðu einhverjar yfirsjónir eða unglingar. Nú eru þetta engin börn, þetta er upp í 18 ára aldur.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. var að tala um það, að börn um fermingu mættu vinna í 8 tíma. Ég áleit nú, að börn væru fermd 14 ára, það er kannske í Eyjafirði, að þau séu fermd 16 ára, og það má ekki vera nema hálfur aldurinn, svo að ef þau eru fermd 14 ára, eru það 7 tímar. Fermingaraldurinn er í mesta lagi 14 ára aldur og sum eru fermd 13 ára, þá er það 61/2 tími. Ég hef aldrei verið neitt að tala um, að það væri ekki nóg vinna hjá 8 ára barni, 4 tímar. 8 ára barn á bara alls ekkert að vinna nema að gamni sínu.

En ég vil segja um 16 ára þroskamikil börn, stúlkubörn, sem hefur liðið vel, eru algerlega fullþroska til vinnu 16 ára gamlar, þá er miklu meiri ástæða með blessaðar kerlingarnar, sem eru búnar að eiga mörg börn, 50–60 ára, að banna þeim að vinna nema 4 tíma, en lofa stelpunum að vinna í 10–12. Ég held, að þessi hv. mannúðarpostuli, 3. þm. Reykv., ætti að taka frúrnar, sem eiga mörg börn — og þótt þær séu í steypuvinnu hjá Rússum, er það engin fyrirmynd — og banna algerlega, að þær séu að þræla í marga tíma, það væri mannúðarverk. En að láta stelpurnar ekki vinna nema örstutt og fara svo á strákaveiðar, það er hreint engin mannúð. Þetta stangast algerlega, að mega ekki vinna og mega ekki syndga. Það er eins og ég sagði í byrjun, þeir eru þá meiri en guð almáttugur, því að hann sá, að það væri hentugast, að menn hefðu eitthvað að starfa og yrðu að vinna fyrir sínu daglega brauði, til þess að syndin yrði ekki algerlega í algleymingi. Adam og Eva áttu víst ekkert að gera fyrst og byrjuðu undireins að syndga.

Þá var þessi hv. þm. að tala um, að aldrei hefði verið sett reglugerð viðvíkjandi þessum barnaverndarlögum, sem nú eru. Satt að segja eru barnaverndarnefndir í hreppunum og ég held, að þær hafi ekki farið neitt illa með sitt vald og það þarf ekki að kvarta yfir því. En það er einmitt þetta, sem getur forðað frá slysum, það er, að unglingunum sé komið í vinnu, en séu ekki að slæpast á götunum fyrir bílum og öðrum tækjum. En það er spurning, hvort ætti ekki einmitt í skólatímanum, þessa 7 mánaða skólatíma, að hafa meiri verklega kennslu en er. Börn hafa ekkert að gera með að sitja 6 ár, 7 mánuði á hverju ári, til þess að læra bóklegt nám, sem lært er undir framhaldsskóla. Það er algerlega óþarfi. Sveitabörnin taka þetta á 12–14 mánuðum og jafnvel 6–8 mánuðum og eru ekkert verr að sér en hin. Nei, það er ekki það, sem ég er að finna að, að það sé gert of mikið fyrir börnin, heldur þessi dæmalausu ákvæði.

Þá segja þessir hv. herrar, að það sé alls ekkert talað um það, að börn megi ekki vinna eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu. Þetta stendur bara orðrétt: „Þá skal einnig setja ákvæði í reglugerð, er sporni við yfirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu barna og ungmenna“ upp að 18 ára aldri. Það er tiltekið í þessu frv. 16–18 ára. Og hvað er að sporna við? Það er ekki að reyna að sporna við. Það er sagt bara : „er sporni við”, sem komi í veg fyrir, þýðir það á íslenzku máli. Við hverju á að sporna? Það er ákveðið sagt: að koma í veg fyrir yfirvinnu, næturvinnu og sunnudagavinnu. Það er ekki neitt undanfæri. Ráðh. á að setja reglugerð, sem kemur í veg fyrir, að það sé unnin yfirvinna, næturvinna og helgidagavinna. Það er ekkert annað. Þetta á að ná til 18 ára aldurs og hér er alveg skýrt fram tekið, að hámarksvinna á að vera 8 stundir án undantekninga. Nú er það þannig, bæði til sjávar og sveita, að það er ekkert hægt að gera suma daga, svo að meðaltalsvinna getur orðið langt undir 8 tímum, þótt í mörgum tilfellum sé unnið miklu meira en í 8 tíma. Það er ekki hægt að miða atvinnuvegi okkar Íslendinga við stórar iðnaðarborgir, það er allt annað. Hér getum við ekki unnið alla daga og ef tekið væri fram, að þetta væri aðeins innivinna í verksmiðjum, þá er það sannarlega nóg, að börnin ynnu þetta. En atvinnulíf okkar er þannig, að það horfir allt öðruvísi við. Og þetta er alveg skýrt fram tekið, það á að koma í veg fyrir, að það sé unnin yfirvinna, næturvinna og helgidagavinna. Meira að segja bændurnir mega ekki biðja börn sín upp að 18 ára aldri, hvað stórir dólar sem þetta eru, að reka kýrnar fyrir sig á sunnudegi. Það er hægt að kæra þá fyrir það eða mjólka. Og svo verða gömul hjón að basla við að gera þetta sjálf, ekki má biðja blessuð börnin, það er hægt að kæra fyrir það. Þetta kalla ég vitlaus lög.