18.03.1965
Efri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2314)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá hv. Nd. Var hv. menntmn. Nd. sammála um að mæla með samþykkt þess, eftir að hún hafði gert við það allmargar brtt., sem samþ. voru shlj. Hv. Nd. afgreiddi síðan frv. við 3. umr. fyrir nokkrum dögum og var það samþ. þar með öllum greiddum atkv. gegn einu. Um þetta mál náðist því mjög víðtæk samstaða í hv. Nd. og vona ég, að svo verði einnig hér í hv. Ed., enda er hér tvímælalaust um mjög merka lagasetningu að ræða.

Núgildandi lög um barnavernd og ungmenna voru sett árið 1947 og eru því orðin nær 18 ára gömul. Lögin, sem í gildi voru fyrir 1947, voru frá árinu 1932. Voru það fyrstu lögin um barnavernd hér á landi. Urðu Íslendingar verulega á eftir hinum Norðurlandaþjóðunum varðandi setningu allsherjarlaga um barnavernd, en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku höfðu slík lög verið sett um síðustu aldamót. Þótt lögin frá 1947 hafi verið vönduð lagasetning á sínum tíma, er þó tvímælalaust orðið tímabært að endurskoða þau og setja ný lög um þessi efni. Á þeim næstum tveim áratugum, sem liðnir eru, frá því að lögin voru sett, hafa orðið svo gagngerar breytingar á þjóðfélagsháttum hér á landi, að á ýmsum málum barna og ungmenna þarf nú að taka með öðrum hætti, en eðlilegt var og skynsamlegt fyrir 15–20 árum. Fólksfjölgun hefur orðið mikil og mjög ör þróun frá dreifbýli til þéttbýlis. Hefur þetta í för með sér ýmis félagsleg vandamál, sem nauðsynlegt er að hið opinbera láti til sín taka.

Mér þykir þó rétt að láta þess getið hér, að í kjölfar vaxandi þéttbýlis hér á landi virðist ekki hafa orðið hliðstæð aukning lausungar og lögbrota og átt hefur sér stað í ýmsum nágrannalandanna. Kemur þetta fram í opinberum skýrslum barnaverndarnefnda undanfarna áratugi, svo og skýrslum um lögbrot barna og unglinga. Í síðustu skýrslum barnaverndarnefndar Reykjavíkur segir t.d., að hún hafi haft afskipti af færri heimilum, en á árinu áður vegna ófullnægjandi aðbúnaðar barna. Skýrslur um lögbrot barna síðustu áratugi sýna ekki heldur neina aukningu slíkra afbrota að ráði og raunar hlutfallslega fækkun þeirra, ef tekið er tillit til fjölgunar fólks á því aldursskeiði, sem um er að ræða. Tala stúlkna, sem barnaverndarnefndir hafa haft afskipti af, hefur þó farið nokkuð hækkandi, en þó ekki hlutfallslega, þ.e. ef miðað er við fjölda telpna á því aldursskeiði, sem barnaverndarnefndir hafa afskipti af. Þegar barnaverndarnefndir hafa afskipti af telpum, er það vegna útivistar, flakks og stundum lauslætis. Um brot gegn hegningarlögunum er það hins vegar að segja, að þeim hefur fækkað hlutfallslega tvo síðustu áratugina og eru nú færri hlutfallslega, en síðustu árin fyrir stríð. Skýrslur um börn, sem hafa orðið uppvís að lögbrotum tvivegis eða oftar sýna, að hundraðstala þeirra barna, sem tvívegis hafa orðið uppvís að brotum, er nálega sama nú og á fjórða áratug aldarinnar, en hundraðstala þeirra, sem oftar, en tvívegis hafa orðið sek um brot, hefur hins vegar farið verulega lækkandi.

Þetta, sem nú var sagt, á við skýrslur úr Reykjavík, en skýrslur úr hinum kaupstöðunum sýna svipaða þróun. Þó að ástand í þessum efnum sé sem betur fer áreiðanlega ekki eins slæmt og ýmsir virðast stundum álíta og hefur ekki heldur farið versnandi, er engu að síður hafið yfir allan efa, að aukinna aðgerða í þessum efnum er þörf frá því, sem verið hefur og brýn nauðsyn á átaki til þess að bæta starfsaðstöðu barnaverndarnefnda, svo og að koma á fót ýmsum stofnunum í þágu barnaverndar og starfrækja þær.

Næstum tveggja áratuga gömul löggjöf um þessi mikilvægu efni hlýtur að vera orðin úrelt að ýmsu leyti. Það var þess vegna, að ég á árinu 1961 skipaði n. manna til að endurskoða gildandi lög um vernd barna og ungmenna. Í n. áttu sæti Sveinbjörn Jónsson hrl., formaður barnaverndarráðs og var hann skipaður formaður n., Ármann Snævarr háskólarektor, Guðmundur Vignir Jósefsson hdl., þáverandi formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur, séra Gunnar Árnason barnaverndarráðsmaður, dr. Gunnlaugur Þórðarson varaformaður barnaverndarráðs, Magnús Sigurðsson skólastjóri og barnaverndarráðsmaður og dr. Símon Jóh. Ágústsson sérfræðingur barnaverndarráðs. Varð n. að mestu sammála um frv., eins og það var lagt fyrir hv. Nd., en aðalatriði frv. og þau, sem n. lagði sérstaka áherzlu á, voru fyrst og fremst þessi:

Í fyrsta lagi taldi n., að bæta þyrfti starfsaðstöðu barnaverndarnefnda og barnaverndarráðs, sérstaklega að því er snerti húsnæði og sérmenntað starfslið.

Í öðru lagi: Í gildandi l. er ákvæði um, að koma skuli upp ýmsum stofnunum í þágu barnaverndaryfirvalda, svo sem athugunarstöð og vistheimilum fyrir drengi og stúlkur. Eina athugunarstöðin, sem til er, er gersamlega ófullnægjandi að dómi n. Vistheimili, sem starfrækt er í Breiðuvík fyrir drengi, fullnægir ekki þörfinni, þótt n. hafi talið, að þar hafi verið unnið nytsamlegt og þakkarvert starf. Hliðstætt heimili fyrir stúlkur hefur hins vegar ekki verið stofnsett enn.

Í þriðja lagi: N. undirstrikaði sérstaklega nauðsyn þess, að barnaverndarnefndir hefðu í þjónustu sinni sérmenntað fólk, einkum og sér í lagi í stærri kaupstöðum. Taldi n. þurfa að hefjast handa um að styrkja fólk til að sérmenntast á þessu sviði og benti á, að efna þyrfti til nokkurrar kennslu í þessum fræðum hér á landi, t.d. í tengslum við háskólann, kennaraskólann eða fóstruskólann.

Í fjórða lagi: N. benti einnig á, að barnaverndarráð þurfi mjög á fleiri sérmenntuðum starfsmönnum og ráðunautum að halda.

Í fimmta lagi: Meiri hl. n. taldi rétt að fjölga meðlimum barnaverndarráðs um tvo og tryggja það, að þar ættu ávallt sæti sálfræðingur, læknir, lögfræðingur, auk prests og kennara.

Í sjötta lagi: N. benti á, að svo mikið vald sé lagt í hendur barnaverndaryfirvalda, að nauðsyn sé að tryggja betur, en nú er gert, vandaðri meðferð mála og rökstuddar úrlausnir og treysta með öðrum hætti réttaröryggi á þessu mikilvæga sviði.

Í sjöunda lagi: N. tók til sérstakrar athugunar ýmis atriði í starfsháttum barnaverndarnefnda og tengslum þeirra við barnaverndarráð sem og löggæzlu og dómsvald.

Í áttunda lagi: N. gerði till. um breytingar á ákvæðum gildandi l. um fóstruskóla.

Í níunda lagi: N. endurskoðaði gildandi lagaákvæði um vinnuvernd barna og unglinga og kvikmyndaeftirlit, jafnframt því sem hún gerir till. um nýmæli varðandi vegabréf unglinga.

Í tíunda og síðasta lagi: N. benti á, að í nágrannalöndum sé fjallað um barnaverndarmál í félmrn., en ekki menntmrn., eins og hér sé gert, en gerði þó ekki till. um breytingu í því efni hér.

Þetta voru aðalatriðin, sem n. miðaði starf sitt við og byggði tillögugerð sína í frv. á.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja hér í einstökum atriðum þær breytingar á gildandi lögum, sem fólust í frv. n. Um eitt atriðið vildi ég þó fara nokkrum orðum, þ.e. ákvæðin um vinnuvernd barna og unglinga, enda voru þau ákvæði einna mest rædd í hv. Nd.

Í gildandi l. eru nokkur ákvæði um vinnuvernd barna og unglinga. Annars staðar eru þó slík ákvæði ekki í barnaverndarlögum, heldur í heildarlögum um vinnuvernd. Hér á landi hefur ekki enn verið sett heildarlöggjöf um vinnuvernd. Þess vegna taldi n., sem þetta frv. samdi, eðlilegt að halda ákvæðinu um vinnuvernd barna og ungmenna í barnaverndarlögum, þótt hún telji barnaverndarnefndina að vísu hafa örðuga aðstöðu til þess að fylgjast með því, að farið sé eftir slíkum ákvæðum. N. taldi og ráðlegt og raunar ógerlegt að setja víðtækt ákvæði um þetta í sjálfan lagatextann. Hún taldi hyggilegra að hafa almenn ákvæði í lögunum og setja síðan reglugerð til fyllingar þessum ákvæðum.

Ýmsar breytingar lagði hún þó til á gildandi lagaákvæðum. Í fyrsta lagi er nú gert ráð fyrir, að heimilað sé að leggja bann við því, að börn og unglingar vinni með tækjum eða umgangist tæki, sem slysahætta stafar af. Sama gildir um vinnu, sem hefur á annan hátt slysahættu í för með sér. Taldi n., að þau hörmulegu slys, sem orðið hafa á síðustu árum fyrir það, að börn eða ungmenni hafi unnið með tækjum, sem sérstök slysahætta stafar af, gerðu það mjög brýnt að setja bannákvæði sem þessi.

Í öðru lagi lagði n. til, að reglugerðarheimildin væri einnig látin ná til ákvæða, sem sporni við eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu barna og ungmenna og kveði á um, að læknisskoðun fari eftir atvikum fram til úrlausnar um það fyrir fram, að vinna sé ekki barni eða ungmenni um megn.

Í þriðja lagi lagði nefndin til, að sett verði ákvæði um heimild til setningar reglugerðar um störf, sem siðferði barna geti stafað hætta af. Þá gerði hún og till. um nokkrar breytingar á gildandi ákvæðum um ráðningu ungmenna til starfa á skipum og að bannað sé að ráða karlmenn yngri en 15 ára og konur yngri en 18 ára til starfa í loftfari.

Þá skal ég með nokkrum orðum gera grein fyrir þeim breytingum, sem hv. Nd. gerði á frv. skv. einróma till. hv. menntmn.

Í frv. var gert ráð fyrir því, að barnaverndarnefnd skuli vera í hverjum kaupstað og hverjum hreppi landsins. Þessu var breytt þannig, að hafa megi sameiginlegar barnaverndarnefndir fyrir fleiri en einn hrepp, þar sem þeir eru fámennir.

Í frv. var ákvæði um, að ekki megi kjósa í barnaverndarnefnd eldra fólk en 66 ára gamalt. Þetta ákvæði hefur verið fellt úr frv.

Allmikil breyting var gerð á frv. varðandi skipun barnaverndarráðs. Hingað til hefur barnaverndarráð verið skipað skv. tilnefningu nokkurra samtaka: Prestafélags Íslands, Sambands íslenzkra barnakennara, Læknafélags Íslands o.s.frv. Menntmn. Nd. lagði til, að ráðh. skipaði barnaverndarráð án tilnefningar nokkurra samtaka. Hins vegar var því haldið í frv., að formaður ráðsins skuli vera embættisgengur lögfræðingur og virðist það vera eðlilegt vegna þess, að barnaverndarráð er að ýmsu leyti dómstóll og þarf að taka ákvarðanir, sem hafa mjög alvarleg áhrif á líf og örlög þeirra barna og þeirra fjölskyldna, sem hlut eiga að máli.

Í frv. var gert ráð fyrir því, að kostnaður af kennslu þeirra unglinga, sem lokið hafa skyldunámi, en eru á vegum barnaverndarnefndar, skuli greiðast hlutfallslega af ríkissjóði og sveitarsjóði skv. fræðslulögum. Sagði í frv., að þetta ætti við, ef foreldrar eða framfærendur væru ekki aflögufærir. Þessi setning hefur verið felld niður og er því frv. nú þannig, að unglingur eigi sama rétt á, að ríki og sveitarfélag kosti fræðslu hans, hvernig svo sem efnahag foreldranna er háttað.

Þá er bætt inn í frv. ákvæði um, að ríkisstj. skuli setja á stofn og reka heimili og skólastofnanir, er annist uppeldi og fræðslu ungmenna og barna, sem eru frá heimilum, sem vanrækja svo mjög uppeldishlutverk sitt, að varhugavert er fyrir börnin að dveljast þar, gáfnasljórra barna, andlega vanþroska barna og ungmenna, barna, sem ekki sækja skóla á viðunandi hátt, barna, sem að dómi kennara og skólastjóra spilla góðri reglu í skólunum og eru miður heppilegt fordæmi öðrum börnum, barna, sem að dómi kennara og skólastjóra og skólalæknis hafa eigi heilsu eða önnur líkamleg skilyrði til að stunda venjulegt barnaskólanám og skuli skipta kostnaði samkv. fræðslulögum. Þessi breyting var tekin inn í frv. samkv. tillögu kennarasamtakanna.

Í frv. var gert ráð fyrir því varðandi meðlög með þeim börnum, sem barnaverndarnefndir þurfa af einhverjum ástæðum að koma fyrir á öðrum heimilum í fóstur, að sveitarstjórn og viðkomandi aðilar skuli semja um greiðslur með þessum börnum. Þessu var breytt þannig, að Tryggingastofnun ríkisins greiðir hreinlega með börnunum og upphæðirnar verða ákveðnar í lögum. Börn innan 7 ára aldurs skulu fá þrefaldan barnalifeyri, en eldri en 7 ára tvöfaldan barnalifeyri.

Þá gerði hv. Nd. nokkrar breytingar á ákvæðum frv. um vinnuvernd barna og unglinga. Hingað til hefur staðið í lögum og stendur í gildandi lögum, að börn innan 15 ára megi ekki vinna í verksmiðjum og hlýtur þetta að þýða það, að þau megi ekki vinna t.d. í frystihúsum, en þetta ákvæði hefur verið og er þverbrotið um land allt. Menntmn. Nd. gerði ekki till. að skilgreina þetta nánar í frv., en hún lagði til, að því yrði bætt í frv., að ekki megi ráða börn innan 15 ára til uppskipuna- og útskipunarvinnu eða byggingarvinnu.

Þá eru tekin í frv. ákvæði um, að hámarksvinnutími barna undir 14 ára aldri skuli vera hálf áratala aldurs þeirra, þ.e. fyrir 14 ára barn 7 stundir á dag, fyrir 13 ára barn 61/2 stund á dag og fyrir 12 ára barn 6 stundir á dag o.s.frv. Þar sem unnið sé 8 stunda vinnutímabil, skuli jafnan koma tveir vinnuhópar barna á móti einum vinnuhóp fullorðinna, þannig að þá vinni 4–5 stundir hvor barnahópur. Þá er ákvæði um það, að alger hámarksvinnutími barna 14–16 ára skuli vera 8 stundir án undantekningar. Loks var bætt inn þessu ákvæði: „Stefna skal að því, að börn stundi ekki vinnu frá því að þau hefja skólagöngu að hausti og þar til skólagöngu lýkur að vori.“

Varðandi kvikmyndaeftirlitið var sú breyting gerð á frv., að barn, sem er á þeim aldri, að það má ekki horfa á kvikmynd skv. úrskurði kvikmyndaeftirlits, skuli ekki heldur mega horfa á myndina, þó að það komi til kvikmyndahússins í fylgd með foreldrum eða öðrum fullorðnum. Ég hef þá, herra forseti, gert grein fyrir helztu brtt., sem gerðar voru á frv. í hv. Nd. samkv. einróma till. hv. menntmn. Með hliðsjón af því, að svo að segja alger samstaða náðist um afgreiðslu málsins í hv. Nd., leyfi ég mér að lokum að vænta þess, að eins fari hér í hv. Ed., svo að málið nái fram að ganga á þessu þingi.