18.03.1965
Efri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (2315)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til þess að fara nokkrum orðum um þetta mál, sérstaklega af því að hæstv. menntmrh. (GÞG) er staddur í þessari hv. deild.

Mér skildist á hæstv. ráðh., að hann teldi að vísu ekki ástandið í barnaverndarmálum hér á landi sérlega gott eða til fyrirmyndar, en þó hins vegar ekki sem allra verst. Hér get ég ekki verið hæstv. ráðh. sammála. Ég held, að ástand barnaverndarmála hér á landi sé hér um bil eins slæmt og það getur orðið. Annað mál er svo hitt, hverju er um að kenna. Ég tel, að ástandið sé og hafi árum saman, ef ekki alltaf, verið eins bágborið og frekast má verða og ég vil telja, að í þessum málum hafi hjá okkur til þessa dags gengið allt á tréfótum. Barnaverndarnefndirnar hafa verið látnar vinna til þessa dags við mjög frumstæð og ófullkomin skilyrði. Tilfinnanlegur skortur hefur verið á hvers konar uppeldisheimilum og öðrum barnahælum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, ekki hvað sízt nú síðustu árin, að íslenzk börn eru vinnuþrælkuð úr hófi fram og ég vil bæta því við, að sennilega er börnum á skólaskyldualdri yfirleitt, a.m.k. í Reykjavík, íþyngt um of með skólanámi. Það er talið, að áfengisneyzla barna og ungmenna fari vaxandi á síðari árum. Í skýrslum barnaverndarnefnda má lesa um það, að börn, — ég veit ekki, hve mörg, — hætti skyldunámi á hverju ári í ótíma eða svo gott sem, þegar þeim býður við að horfa og hverfi þannig úr skóla furðulega fákunnandi og jafnvel ólæs. Menn standa ráðþrota gagnvart börnum og ungmennum, sem fremja afbrot eða leggjast í flakk, lauslæti og óreglu. Menn hafa engin tök eða tæki til þess að hjálpa þessum börnum. Það er jafnvel ekki einsdæmi í okkar þjóðfélagi nú á dögum, að börn séu fangelsuð. Það sýnir bezt öngþveitið í þessum málum.

Þannig er þá ástandið í barnaverndarmálum okkar í dag. Nú mætti kannske segja, að þetta væri málað of dökkum litum eða ýkt og ég skal mjög stuttlega rökstyðja þessar fullyrðingar mínar, eftir því sem tök eru á í stuttu máli.

Ég hef hér fyrir framan mig skýrslu um störf barnaverndarnefndar Reykjavíkur árið 1963. Í þessari skýrslu segir m.a., með leyfi hæstv. forseta, — það er talað um brot barna, sérstaklega lauslætisbrot stúlkna og síðan segir orðrétt í þessari skýrslu:

„Samfara brotunum eru oft ýmis önnur vandræði, sem ekki er að jafnaði getið í skýrslum nefndarinnar. Má hér t.d. nefna fjarvistir barna úr skólum. Mörg börn á fræðsluskyldualdri hætta að sækja skóla án lögmætra ástæðna og án þess að rönd verði við reist við núverandi aðstæður. Flest eru börn þessi á tveim síðustu árum fræðsluskyldunnar, en önnur hafa ekki lokið barnaprófi, er skólavist þeirra lýkur. Eru sum þeirra mjög fákunnandi, jafnvel ólæs. Er hér um vanda að ræða, sem nauðsyn ber til að taka föstum tökum.“

Á þessa leið segir í skýrslunni um þetta efni. En það er fleira fróðlegt í þessari ársskýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur 1963 og ég vil lesa örstuttan kafla til viðbótar til þess að skýra mínar fyrri fullyrðingar, með leyfi hæstv. forseta, — í skýrslunni segir m.a. svo:

„Þau vandamál, sem barnaverndarnefnd Reykjavíkur fæst við, eru ærin og vaxandi. Barnaverndarstarf er hér hins vegar ungt að árum og frumbýlingslegt miðað við það, sem bezt gerist erlendis. Til samanburðar má geta þess, að á þessu ári voru um 270 manns starfandi hjá barnaverndarnefnd Kaupmannahafnar eða milli 6 og 7 sinnum fleiri, en í Reykjavík, miðað við íbúatölu þessara borga. Mestur þrándur í götu, er þó skortur á hvers kyns barnaheimilum og uppeldisstofnunum. Þessi skortur veldur því. að nefndin getur lítið sem ekkert gert til að bjarga hluta þeirra barna og unglinga, sem til hennar er vísað og þarfnast hjálpar.“

Þá er talað í þessari skýrslu um mestu og erfiðustu viðfangsefni nefndarinnar, sem eru vandræðaungmenni, sem þarf að koma fyrir á uppeldisheimilum. Það er sagt frá, að til sé í landinu eitt heimili slíkt fyrir drengi, heimilið í Breiðuvík, þörf sé orðin mikil á, að annað drengjaheimili verði sett upp og síðan heldur áfram orðrétt:

„Verst er þó ástandið að því er varðar unglingsstúlkur, sem lent hafa í brotum. Fyrir þær höfum við, sem kunnugt er, engan samastað. Þess er áður getið, að kvenlögreglan hafði á árinu afskipti af 43 stúlkum, 16 ára og yngri, vegna ýmiss konar brota, mest lauslætis og óreglu. Nokkrar þessara stúlkna hafa verið til lækninga vegna kynsjúkdóma og aðrar hafa eignazt börn. Nokkrar hafa einnig lent í þjófnaðarbrotum. Ein þessara stúlkna hefur orðið uppvís að 15 þjófnuðum á einu ári. Nemur verðmæti þess, sem hún hefur tekið, um 45 þús. kr. Fárra úrræða er völ til hjálpar þessum stúlkum. Fáeinum hefur á undanförnum árum verið ráðstafað á uppeldisheimili í Danmörku. Fáum öðrum hefur verið komið fyrir á einkaheimilum úti á landi, með misjöfnum og þó oftar litlum árangri. Flestar lifa þó lífi sínu áfram, án þess að barnaverndarnefnd eða aðrir fái rönd við reist. Þær, sem verst eru staddar, eru á vergangi milli stofnana eins og upptökuheimilisins að Elliðavatni, Farsóttahússins og Kleppsspítalans:

Þetta segir í skýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur um þau efnisatriði nokkur, sem ég minntist á hér í upphafi míns máls.

Ég minntist á, að alkunn væri vinnuþrælkun íslenzkra barna. Nýlega var hér í Reykjavik gerð athugun á atvinnu skólabarna í Reykjavík sumarið 1962. Athugunin náði til 3.94 barna á aldrinum 12, 13 og 14 ára og það eru um 90% allra barna á þeim aldri á þessu ári. Niðurstaða þessarar athugunar var að mínum dómi mjög sorgleg. Ég skal aðeins geta nokkurra atriði í þeirri niðurstöðu.

Aðeins 2.3% barnanna 12, 13 og 14 ára stunduðu engin reglubundin störf sumarið 1962. En yfirleitt hófu börnin vinnu strax að skóla loknum að vorinu og hættu ekki fyrr en í septembermánuði. Vinnudagurinn hjá þessum ungu börnum var þá 8 klst. eða meira hjá 67% barnanna. Og loks má bæta því við, þó að það komi þessu máli kannske ekki sérstaklega við, að áberandi var, hversu laun þessara barna voru lág, t.d. höfðu 1300 börn undir 2500 kr. yfir sumarið.

Ég get ekki látið hjá líða í þessu sambandi að geta þess til skilningsauka á þessu þjóðfélagslega vandamáli, að yfirvöld Reykjavíkur voru siður en svo hneyksluð á þessari niðurstöðu. Þau voru svo hrifin af þessari niðurstöðu, barnavinnunni, að það var gerð sérstök samþykkt í borgarstjórn Reykjavikur þess efnis að benda samtökum iðnrekenda og annarra greina atvinnulífsins á þá miklu möguleika, sem felast í vinnuafli barna. En það er kannske önnur saga.

Varðandi vinnuþrælkun barna vil ég aðeins minna á eitt, sem er harla lærdómsríkt. Það var í júní mánuði 1963, að annað stjórnarblaðið, Morgunblaðið, birti fagnandi frásögn fréttamanna um heimsókn þeirra í eitt af frystihúsum landsins. Fögnuðurinn var einkum fólginn í því, að þar reyndust vera 34 börn að vinnu og þau yngstu 8 ára gömul. Fréttamennirnir töluðu við tvö af þessum 8 ára börnum, dreng og stúlku, og spurðu þau ýmislegs varðandi vinnuna og kaupið og hvað þau ætluðu að gera við kaupið. En aðdáun fréttamannanna á þessu fyrirbæri var ótvíræð. En meðan fréttamaðurinn var að tala við börnin, kom verkstjórinn þar að og áminnti börnin um að láta ekki fréttasnápa vera að tefja sig, þau skyldu halda áfram að vinna.

Hitt kemur svo oft fyrir og blöð skýra frá því, að börn verði fyrir alvarlegum slysum á vinnustöðum og þar með alvarlegum slysum í sambandi við verksmiðjuvinnu. Allt þetta hefur gerzt og gerist enn í okkar þjóðfélagi og hefur farið í vöxt vafalaust á síðari árum.

Ég gat þess lauslega í upphafi míns máls, að ég hefði grun um, að börnum væri íþyngt um of við skólanám, a.m.k. í Reykjavík. Máli mínu til stuðnings get ég nefnt það, að árið 1949 athuguðu skólalæknar í Reykjavík lengd námstíma barna og heimavinnu. Og þá kom í ljós, að flest börnin höfðu mjög langan vinnudag. T.d. var niðurstaðan sú, að 12 ára börn og eldri hefðu lengri vinnudag en almennt gerðist um fullorðna við svipuð, en þó léttari störf. Skýrsla skólalæknanna sýndi m.a., að 12 ára drengir höfðu þá allt að 44 klst. vinnu á viku, 12 ára stúlkur 52 klst. vinnuviku, 13 ára drengir 46 klst. og 13 ára stúlkur 51 klst. á viku. Þetta gefur mér tilefni til að hafa ákveðinn grun um, að börnum sé ekki aðeins íþyngt um of við sumaratvinnu, heldur sé þeim íþyngt um of með störfum allan ársins hring.

Ég skal svo ekki hafa þessa upptalningu miklu lengri, en aðeins minna á, af því að ég minntist á fangelsun barna, að í des. 1963, að ég hygg, skýrðu blöð frá því, að 14 ára dreng úr fátækrahverfi Reykjavíkur hefði verið stungið inn í tukthúsið við Skólavörðustíg. Eitt blaðið hafði tal af formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur, og sagði hann, að pilturinn væri í fangelsinu á hennar vegum. Þessum dreng höfðu orðið á ýmiss konar alvarlegir hlutir eða alvarlegri hlutir, en vanalegt er um bernskubrek og því var talið nauðsynlegt að koma honum í tímabundna gæzlu og til yfirheyrslu, en aðbúnaður barnaverndarnefndar væri með þeim eindæmum, að hún teldi sig í þessu tilfelli ekki eiga í annað hús að venda með drenginn, en hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Og það kom fram í viðtalinu við formann barnaverndarnefndar Reykjavíkur, að þetta væri ekki einsdæmi, að skjólstæðingi barnaverndarnefndar væri stungið þarna inn, að vísu hefði það þó aðeins komið fyrir örsjaldan.

Ég hef þá lýst nokkuð og gert grein fyrir því öngþveitisástandi, sem er í barnaverndarmálum hér á landi nú.

Þá vildi ég aðeins með örfáum orðum koma að því, hver er orsök þessa vandræðaástands. Hver er orsök öngþveitisins? Er þetta ástand að kenna úreltum lögum eða er orsökina að finna annars staðar? Gildandi lög um barnaverndarnefndir voru sett árið 1947. Þau eru því orðin 18 ára gömul. Ég er algjörlega sammála því, sem kemur fram í grg. með þessu frv., að þessi lög eru mjög vönduð að gerð og ég vil hiklaust neita því, að úrelt lög eigi sök á þessu ófremdarástandi. Ég vil meina, að innan ramma gildandi laga um barnavernd hefði verið hægt að gera og mætti gera allt, sem nauðsynlegt er í þessum efnum til úrbóta.

Gildandi lög eiga sannarlega ekki sökina á þessu, svo mikið er vist. Hitt mun vera sönnu nær, að framkvæmd laganna hafi frá upphafi og sé enn í dag í megnasta ólestri. Og þar hygg ég, að hundurinn liggi grafinn. Það er ekki úreltum lögum um að kenna, heldur slælegri framkvæmd ákvæða þessara laga. Þeir, sem hafa farið með yfirstjórn þessara mála í 18 ár, síðan lögin voru sett, — og mér þykir leitt að þurfa að benda á, að núv. hæstv. menntmrh. hefur farið með þessi mál helming þessa tíma, — það eru þeir, sem hafa vanrækt skyldur sínar umfram alla aðra í þessum efnum. Þeir hafa ekki skeytt um, þótt barnaverndarnefndir mættu heita óstarfhæfar vegna aðstöðuerfiðleika og skorts á starfsfólki. Ekki meinuðu gildandi lög þeim að bæta aðstöðu barnaverndarnefnda í þessum efnum. Þeir hafa einnig vanrækt að framkvæma — blátt áfram vanrækt að framkvæma sumt af því, sem lögin buðu þeim að gera, skylduðu þá til að gera. Og þeir hafa ekki hirt um að notfæra sér heimildir, sem lögin veittu þeim eða veita þeim til bættrar þjónustu á sviði barnaverndar.

Þetta er sannleikurinn í þessu máli. Hann er sá, að lögin frá 1947 hafa ekki komið til framkvæmda enn í dag í veigamiklum atriðum. Ég skal nefna örfá dæmi þessa.

Samkvæmt lögunum er ríkisstj. skylt að setja á stofn hæli, þar sem vistuð skuli börn og ungmenni, er framið hafa lögbrot eða eru á annan hátt á glapstigum. Í lögunum segir, að þessi hæli skuli vera a.m.k. tvö, annað handa stúlkum, en hitt handa piltum.

Stúlknahælíð er ókomið enn, eins og fram kom í skýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Þó er það ekki hvað sízt í þessum efnum, sem skórinn kreppir að og hefur lengi gert. Þörfin er auðsæ, enda hefur oft verið þrýst á um þetta stúlknahæli, m.a. á hinu háa Alþingi, en alltaf fyrir daufum eyrum þeirra, sem þessum málum stjórna.

Ráðherra hefur allt til þessa dags, þrátt fyrir ótvíræða nauðsyn, enn ekki hirt um að setja reglugerðir, er taki yfir landið í heild, þar sem nánar sé kveðið á um aldur barna til vinnu í tiltekinni starfsgrein, hvíld barna, vinnutíma, orlof og önnur vinnuskilyrði. Í lögunum er ráðh. veitt heimild til þessa og um þörf á beitingu þeirrar heimildar þarf ég ekki að fjölyrða.

Þá er ríkisstj. skylt samkv. gildandi lögum að reisa og reka athugunarstöð eða stöðvar handa börnum, sem framið hafa lögbrot eða eru á annan hátt á siðferðilegum glapstigum. Eitt slíkt hæli er að vísu rekið, hælið í Elliðahvammi, en það er með þeim myndarbrag, að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur stundum þótt skárra að leita með börnin á náðir fangahússins við Skólavörðustíg, heldur en á þetta hæli. Svo lélegt kvað það vera að öllum húsbúnaði.

Það má loks telja til vanrækslusynda þeirra, sem með stjórn þessara mála hafa farið á umliðnum árum, að enda þótt lögin um barnavernd séu æ ofan í æ fótum troðin og það í stórum stíl, þannig að blöðin birti af þessu frásagnir undir stórum fyrirsögnum, þá hreyfa yfirvöld hvorki legg né lið til þess að kippa í lag, til þess að draga sökudólga fyrir rétt og láta þá standa ábyrga sinna gerða. Ég hef a.m.k. ekki heyrt þess getið, að ríkisvaldið hafi látið til skarar skríða gegn lögbrotum eins og verksmiðjuvinnu barna 8 ára gamalla eða fangelsun drengsins, sem ég nefndi áðan. Ég held, að það hafi allt saman verið látið heita gott og gilt og jafnvel nánast ágætur fréttamatur blaða og annað ekki.

Nei, það er enginn efi á því, að gildandi lög eiga ekki hér sökina, heldur er það sök þeirra, sem með völdin fara, hvernig umhorfs er á þessu sviði.

Ég skal ekki ræða frv. hér neitt ýtarlega. Það segir í athugasemdum, að menntmrh. hafi á árinu 1961 skipað nefnd manna til að endurskoða lög um vernd barna og ungmenna. Þetta er að vissu leyti þakkarvert framtak hjá hæstv. ráðherra og ber ekki að lasta það. Endurskoðun gamalla laga er nauðsynleg og á alltaf rétt á sér og raunar er það tilfellið um ýmis önnur lög frekar en þau, sem hér er um að ræða.

Mér finnst orka tvímælis, hvort heillavænlegra sé nú að framkvæma gildandi lög eða semja ný lög. Það má segja, ef til vill, að það gildi einu, hvor leiðin farin sé, ef áframhaldið á að vera eins og hlutirnir hafa gengið hingað til fyrir sig. Ég lasta hæstv. ráðherra ekki fyrir að skipa þessa nefnd og láta endurskoða þessi lög, þó að ég teldi þau vera góð og í fullu gildi enn. En ég hefði talið miklu lofsverðara, ef hæstv. ráðherra hefði á árinu 1961 tekið sig til og farið að ganga eftir framkvæmd gildandi laga um barnavernd, kippa í lag því, sem aflaga fór, og framkvæma þá hluta laganna, sem aldrei hafa verið framkvæmdir.

Ef til vill er skipun þessarar nefndar 1961 til þess að endurskoða lög um barnavernd eins konar vottur um slæma samvizku og það gæti ég a.m.k. vel skilið. Þá ætti þetta frv. að vera friðþæging fyrir það, sem vanrækt hefur verið á liðnum árum í þessum efnum. Og síðan á að benda á þessi nýju og fullkomnu lög og halda svo áfram að sofa á verðinum værum svefni.

Eins og hæstv. ráðherra tók fram í sinni ræðu, felast í þessu frv. margar breytingar og ég vil telja þær yfirleitt til bóta. En örfáar kunna að orka tvímælis. En öllum þeim breytingum, sem um er að ræða frá gildandi lögum, er það sameiginlegt, að þær eru ekki stórvægilegar. Það eru smávægilegar breytingar til útfyllingar eða uppfyllingar í gildandi lög og breyta ekki miklu í sjálfu sér. Nokkrar af breytingum þeim, sem n. gerði í frv., fengu góða afgreiðslu í hv. Nd., og ég tel ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum á þessu stigi málsins.

Eitt hefði verið ástæða til fyrir þessa n. að endurskoða og athuga. Það er sjálfur kjarni málsins í lögunum, um skipun barnaverndarnefnda. Það tíðkast að kjósa barnaverndarnefndir pólitískt. Í þessum nefndum eru að jafnaði leikmenn, sem hafa ekki neina sérþekkingu á þessum málum og barnaverndarnefndir hafa því einatt með fullum rétti verið gagnrýndar fyrir sín störf. En nefndin, sem endurskoðaði l., hefur ekki séð ástæðu til að hrófla neitt við því, enda er það í sjálfu sér ekki auðvelt hér í okkar strjálbýla landi. Þó vildi ég aðeins benda á, að hér í Reykjavík eða þéttbýlinu hefði mjög komið til álíta að fela þessi störf stofnun sérfræðinga, eins og t.d. Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, þannig að hún hefði algerlega farið með þau mál fyrir höfuðborgina. Þessi tilhögun um skipun pólitískrar nefndar, sem hafi yfirstjórn þessara mála eða umsjón barnaverndar, er ekki aðeins þekkt hér á landi, heldur líka í nágrannalöndum okkar, en hvarvetna er hún frekar óvinsæl og sérstaklega nú á síðari árum og mjög gagnrýnd.

Ég ætla, eins og ég hef tekið fram, ekki að lengja þessar umr. miklu frekar og sízt af öllu með því að tala um einstök atriði frv. Þó langar mig að lokum til að minnast aðeins lítillega á tvö atriði.

Fyrra atriðið snertir yfirstjórn þessara mála. Menntmrn, hefur og á framvegis að hafa yfirstjórn barnaverndarmála með höndum. Þetta er kannske ekki alveg óeðlilegt, eins og horft hefur við nú að undanförnu hér á landi, þar sem skólanefndir í stórum stíl hafa farið með barnaverndarmál í sínum umdæmum. En nú á sú tilhögun að verða samkv. þessu frv., að barnaverndarnefndir skulu skipaðar í öllum hreppsfélögum. Úr því tel ég, að það fari að verða mjög óeðlilegt, að þessi mál, barnaverndin, heyri undir menntmrn. Ég held, að réttara sé að láta þessi mál heyra undir félmrn., eins og ótvírætt kemur fram í aths. við frv. Ég vil þess vegna kasta þeirri uppástungu fram nú þegar, hvort ekki sé rétt að gera þá breytingu á frv., að félmrn. fari með yfirstjórn þessara mála í stað menntmrn. Með leyfi hæstv. forseta, langar mig til þess að lesa örstuttan kafla úr grg. frv. Hann er á bls. 18 og fjallar um 2. gr. Þar segir m.a. svo:

„Í öllum norrænu löndunum utan Íslands hefur félmrn. yfirstjórn barnaverndarmála, en ekki menntmrn., svo sem hér er. Eru ýmis rök, sem mæla með því, að mál þessi lúti yfirstjórn félmrn. Barnaverndarnefndir eru kjörnar af sveitarstjórnum og um kosningar þeirra fer eftir sveitarstjórnarlögum, sveitarstjórnir standa fjárhagslega straum af starfsemi þeirra, náin tengsl eru milli framfærslumála og barnaverndar, þ. á m. þarf ráðuneyti stundum að skera úr ágreiningi um fjárhæð meðlags eða framfærslueyris, sem rót sína á að rekja til ákvarðana barnaverndarnefnda, sbr. t.d. 38. gr. frv. Þau tengsl eru milli barnaverndar og menntmála eftir gildandil 1., að í hreppum eru yfirleitt ekki kosnar barnaverndarnefndir, heldur gegna skólanefndir þar störfum barnaverndarnefnda og sérstaklega hitt, að almenn viðhorf í barnaverndarstörfum og markmið þeirra eru nátengd ýmissi þeirri starfsemi sem fram fer undir yfirstjórn menntmrn. Samkv. 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að það skipulag, að skólanefndir utan kaupstaða séu einnig barnaverndarnefndir, verði fellt úr gildi. Ætla má, að þátttaka okkar í norrænni samvinnu á sviði barnaverndar verði örðugri vegna þess, að sambærilegt ráðuneyti fer ekki með yfirstjórn þessara mála hér á landi sem annars staðar á Norðurlöndum. N. vekur athygli á þessum sjónarmiðum, en leggur ekki til að svo stöddu, að sú breyting verði á gerð, að félmrn. fari með yfirstjórn þessara mála.“

Hér eru svo skýrt og skilmerkilega færð rök fyrir því, að þessi mál heyri að réttu lagi undir félmrn., að ég þarf engu hér við að bæta.

Hitt atriðið, sem ég vildi að lokum aðeins minnast á í sambandi við frv., er það, að í 56. gr. þess segir, að enga kvikmynd megi sýna börnum innan 16 ára aldurs nema að undangenginni athugun, sem framkvæmd sé af þar til hæfum mönnum. Í sömu grein segir enn fremur orðrétt: „Skoðunarmenn skulu meta, hvort mynd geti haft skaðsamleg áhrif á siðferði eða sálarlíf barna eða á annan hátt.“ Í þessu sambandi er mér sérstaklega spurn: Verður þetta ákvæði um kvikmyndaeftirlit látið ná til þeirra kvikmynda, sem ameríska hermannasjónvarpið sýnir á þúsundum íslenzkra heimila um þessar mundir? En á þær myndir horfa daglega líklega nokkrar tugþúsundir barna, bæði innan 12 ára aldurs og 12–16 ára. Á þessar kvikmyndir hermannasjónvarpsins horfa mjög ung börn meðal annarra og miklu yngri börn, en venja komur sínar í kvikmyndahúsin. Mig langar til þess að beina þeirri fsp. í þessu sambandi til hæstv. menntmrh., hvort rætt hafi verið um eða gert ráð fyrir nokkru eftirliti með þessum kvikmyndum í sambandi við kvikmyndaeftirlitið í landinu. Ef ekki er unnt að hafa eftirlit með þessum kvikmyndum, kvikmyndum hermannasjónvarpsins, er að mínum dómi álit kvikmyndaeftirlit í landinu unnið fyrir gýg. Ef ekki reynist unnt að hafa eftirlit með þeim kvikmyndum, sem troðið er inn á þúsundir heimila í landinu, er kvikmyndaeftirlitið í landinu yfirleitt ekkert annað en kák að mínum dómi.

Ég læt svo máli mínu lokið, en ég vil leggja til, að þessu frv. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.