22.03.1965
Efri deild: 57. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

7. mál, vernd barna og ungmenna

menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á síðasta fundi þessarar hv. d. s.1. fimmtudag svaraði ég með fáeinum orðum fsp. frá hv. 9. þm. Reykv., Alfreð Gíslasyni, um kvikmyndaeftirlitið og Keflavíkursjónvarpið. Ég hef orðið þess var, að orð mín hafa verið misskilin. Dagblaðið Þjóðviljinn spurði og á laugardaginn í fjögurra dálka fyrirsögn að frétt um þessar umr., hvort ég hafi sagt vísvitandi ósatt. Ummæli mín voru svo fáorð, að það kann að hafa gefið tilefni til misskilnings, sem unnt hefði verið að komast hjá, ef ég hefði rætt nánar þau atriði, sem um var spurt. En ég vil ekki, að neinn vafi sé á því, að það, sem ég sagði, er sannleikanum samkvæmt. Ummæli mín voru þessi orðrétt:

„Að síðustu vil ég svo segja þetta í tilefni af fsp., sem hv. þm. beindi til mín í lok ræðu sinnar varðandi kvikmyndaeftirlit með Keflavíkursjónvarpinu:

Sjónvarpið í Keflavíkur heyrir ekki undir menntmrn. á sama hátt og ríkisútvarpið heyrir undir menntmrn. eða kvikmyndasýningar heyra undir menntmrn. Keflavíkursjónvarpið heyrir undir utanrrn., og sú löggjöf, sem um það mundi fjalla, er varnarsamningurinn og reglugerðir settar á grundvelli laga til staðfestingar á varnarsamningnum. Hitt er annað mál, að ég tel það tvímælalaust vera rétt íslenzkra stjórnvalda að hafa fullkomið eftírlit með þeim kvikmyndum, sem birtast í Keflavíkursjónvarpinu. Mér hefur aldrei verið greint frá því og kvikmyndaeftirlitsmönnum ekki heldur, að í Keflavikursjónvarpinu hafi verið sýndar kvikmyndir, sem íslenzkt kvikmyndaeftirlit mundi hafa bannað og þangað til ég hef fregnir eða kvikmyndaeftirlitsmenn hafa fregnir af slíku, hef ég ekki talið og tel ekki ástæðu til neinna afskipta af minni hálfu um þetta efni. En jafnskjótt og ég fæ um það áreiðanlegar fregnir sem yfirmaður íslenzka kvikmyndaeftirlitsins, að sýndar séu í bandaríska sjónvarpinu kvikmyndir, sem íslenzka kvikmyndaeftirlitið hefði bannað eða mundi vilja banna, mun ég taka það mál til þeirrar athugunar og þeirra afskipta, sem ég tel rétt og heimilt.“

Þetta voru orð mín á fimmtudaginn.

Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að kvikmyndaeftirlit ýmissa landa hefur bannað sýningu kvikmynda alveg og bannað að sýna aðrar myndir óstyttar, þ.e. krafizt þess, að þær væru styttar, áður en þær væru sýndar. Er þess t.d. skemmst að minnast, að ein af nýjustu myndum hins heimsfræga sænska leikstjóra, Ingmars Bergmans, Tystnaden, mun hafa verið bönnuð óstytt í ýmsum löndum, m.a. í Noregi og Þýzkalandi. Fyrir skömmu var mikil deila um það í Svíþjóð, hvort yfir höfuð ætti að leyfa sýningu sænskrar myndar, sem ber heitið 491, þar í landi. Sýning hennar mun hafa verið leyfð þar, en var bönnuð sums staðar annars staðar. Þetta nefni ég aðeins sem dæmi. Það, sem ég átti við var, að mér væri ekkí kunnugt um, að í Keflavíkursjónvarpinu hefðu verið sýndar kvikmyndir, sem talin hefði verið ástæða til þess að banna hér annaðhvort algerlega eða nema að áskilinni styttingu.

Ég var ekki að ræða þá spurningu, hvort í Keflavíkursjónvarpinu hefðu verið sýndar kvikmyndir, sem hefðu verið eða mundu verða bannaðar börnum í kvikmyndahúsum hér, né heldur þá spurningu, hvort gera ætti sýningu mynda í Keflavíkursjónvarpinu háða íslenzkri kvikmyndaskoðun með þeim hætti, að þar mætti ekki sýna neina þá kvikmynd, sem bönnuð mundi verða börnum í íslenzkum kvikmyndahúsum. Ég hafði að vísu ekki séð og hef ekki enn séð þann lista, sem annar hinna tveggja kvikmyndaeftirlitsmanna hér í Reykjavík mun hafa látið formann menntmn. Nd. fá um kvikmyndir, sem sýndar hefðu verið í Keflavikursjónvarpinu, en hefðu verið bannaðar börnum í kvikmyndahúsum hér. En það skiptir engu máli í þessu sambandi. Ég hef hins vegar talið, að íslenzkt sjónvarp eigi ekki að vera háð kvikmyndaeftirliti með sama hætti og kvikmyndahús. Menntmn. Nd. var á sömu skoðun ágreiningslaust, því að hún gerði till. um að taka ákvæði um það í frv., að væntanlegt íslenzkt sjónvarp skyldi sjálft bera ábyrgð á þeim myndum, sem það sýndi, þ.e. myndir þess skyldu ekki vera háðar skoðun kvikmyndaeftirlitsmanna. Virðist þá varla koma til greina að láta aðrar reglur gilda um Keflavíkursjónvarpið, þó að það haggi auðvitað ekki þeirri staðreynd, sem ég undirstrikaði í orðum mínum á fimmtudaginn, að auðvitað hafa íslenzk stjórnvöld fullan rétt til afskipta af því, sem sýnt er í Keflavíkursjónvarpinu, ef þau kæra sig um. Nákvæmlega sama regla gildir t.d. í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í engu þessara landa er sjónvarpið háð kvikmyndaeftirlitinu. Sjónvarpsstöðvarnar bera sjálfar ábyrgð á því efni, sem þær sýna. Í öllum þessum löndum eru oft sýndar í sjónvarpi kvikmyndir, sem almenna kvikmyndaeftirlitið hefur bannað börnum aðgang að í kvikmyndahúsum. En yfirleitt er það þó venjan að láta þess getið í dagskrá og jafnvel á undan myndinni, að hún sé ekki heppileg fyrir börn. Hliðstæðri reglu tel ég, að íslenzkt sjónvarp ætti að fylgja og ég fyrir mitt leyti teldi rétt, að slíkar reglur yrðu settar um Keflavíkursjónvarpið, þótt það sé ekki í mínum verkahring að setja þær. Hins vegar tel ég ekki unnt að láta slíka reglu gilda um sjónvarp fremur en raunar um útvarp eða blöð og bækur, að þar megi ekkert birtast, sem börnum er ekki ætlað. Slíkri reglu er hvergi fylgt, þar sem ég hef fengið fréttir af.

Húsráðendur á heimilum, sem hafa sjónvarp og raunar útvarp, verða að gæta þess, svo sem kostur er, að börn horfi ekki á og hlusti ekki á það efni, sem þeim er talið óhollt, með sama hætti og sú skylda hvílir á þeim að gæta þeirra t.d. fyrir óhollu lestrarefni.

Með þessum orðum vona ég, að mér hafi tekizt að skýra þau atriði varðandi Keflavíkursjónvarpið og kvikmyndaeftirlitið, sem lauslega var að vikið hér í þessari hv. d. s.1. fimmtudag og virðast hafa valdið nokkrum misskilningi.