10.05.1965
Efri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2329)

122. mál, skrásetning réttinda í loftförum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hafði óskað eftir því að heyra framsögu um þetta mál. Ástæðan til þess var sú, að ég hafði heyrt það utan að mér, að til þess væri ætlazt, að þetta mál og raunar þau mál bæði, sem hæstv. ráðh. mælti fyrir hér áðan, væru afgreidd á þessu þingi. En mig fýsti í framsöguræðu hæstv. ráðh. að heyra ástæðurnar fyrir því, að það lægi svo mjög á þessum málum, að það þyrfti nauðsynlega að afgreiða þau á þessu þingi.

Nú kom að vísu sú málaleitun fram hjá hæstv. samgmrh., að þessi frv. yrðu afgreidd á þinginu. En hins vegar verð ég því miður að játa, að ég varð ekki miklu fróðari um það, hvaða ástæður liggja því til grundvallar, að nauðsynlegt þyki að afgreiða þessi mál með þvílíkum hraða sem hér er ætlazt til. Og ég verð að segja, án þess að orðlengja mikið um það, að ég er satt að segja dálítið hissa á þessum tilmælum hæstv. ráðh., þegar tillit er tekið til þess, hvernig þetta mál er vaxið. Eins og hann tók réttilega fram, var þetta mál — eða þessi mál raunar bæði tvö lögð fram á öndverðu þingi eða snemma þingtímans í Nd. og þar hafa þau svo verið síðan, en koma nú fyrst til umr. hér í þessari hv. d., þegar tveir dagar eða máske þrír eru eftir af þeim tíma, sem þinginu er ætlað að sitja. Og til þess er ætlazt af þessari hv. d. og þeirri n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún afgreiði það á þessum skamma tíma. Ég verð að segja, að það er til nokkuð mikils ætlazt, vegna þess, eins og hæstv. ráðh. líka réttilega gat um og hv. þm. er sjálfsagt ljóst, að hér er um all viðamikinn lagabálk að ræða, sem er um réttindi á skrásettum loftförum, 5 kaflar og í 37 greinum með all ýtarlegum aths. og fskj. og í þessu frv. eru mörg lögfræðileg atriði, sem full ástæða er fyrir alþm. að kynna sér gaumgæfilega, áður en þeir láta svona mál frá sér fara.

Hæstv. ráðh. nefndi þann, sem samið hefur þetta frv. og það er vitanlega ágætur maður og fróður um þessi málefni og önnur lagaatriði. En það réttlætir það auðvitað ekki, að þm. láti mál; sem frá honum koma eða hverjum öðrum, fram hjá sér fara án þess að lesa þau í gegn. En ég vil nú efast um það, — þó að hæstv. ráðh. segði, að það væri að vísu gert ráð fyrir því og mætti ætlast til þess, að mér skildist, af þm., að þeir læsu þau mál; sem útbýtt væri, — að allir hv. þdm. hafi lesið þetta frv. í gegn eða sé ljóst, hvað í því felst. En mér skilst, að það sé dálítil breyting í því frá gildandi reglum. M.a. skilst mér, að það sé meiningin með því að koma á fót einni allsherjarskráningu fyrir landið á loftförum og sú skrásetning fari fram hér í Reykjavik við embætti borgardómara. Nú kann það að vísu að vera réttmætt og eðlilegt, að það sé haldin slík skrá á einum stað í landinu. Þær raddir hafa komið fram um þinglýsingu líka, að það væri heppilegasta kerfið, að það væri allt á einum stað, en ekki hefur verið að því ráði horfið þar. Ég bara bendi á þetta eina atriði sem ofur lítið umhugsunarefni, þannig að það er full ástæða til þess fyrir þm., þó að ég geri ekki ráð fyrir því, að það verði gerðar breytingar yfirleitt á þessu frv. og þó að ég geri ráð fyrir því, að það sé þannig úr garði gert, að við megi una, finnst mér, að þm. eigi ekki að láta slíkt mál sem þetta fara fram hjá sér með þeim hætti; sem hér er til ætlazt. Mér sýnist satt að segja það ekki samboðið virðingu þessarar hv. d. að ætla að bjóða henni slík vinnubrögð.

Við stjórnarandstæðingar höfum verið sérstaklega samvinnuþýðir, að ég tel, með afgreiðslu mála að undanförnu og ekkert síður að því er snertir þennan hæstv. ráðh., sem hér á hlut að máli, heldur en aðra og höfum raunar greitt fyrir því, að mál færu hér í gegn á síðustu dögum með í raun og veru óforsvaranlega lítilli athugun, en það hefur réttlætzt af því, að það hafa verið mál, sem talin hefur verið þörf á að afgreiða. En ég fæ ekki séð, og þar með skal ég fara að ljúka þessum aths. um málið, að það sé nokkur nauðsyn á því að afgreiða þetta á þessu þingi. Ég fæ ekki betur séð, en aðalröksemdirnar með þessu frv. séu þær, eftir forsendum að dæma, að samþykkt þess sé nauðsynleg, til þess að Ísland geti gerzt aðili að Genfarsáttmálanum svokallaða um flugmál. En þessi Genfarsáttmáli er ekki nýr af nálinni, vegna þess að hann er frá árinu 1948, þannig að við höfum nú komizt af um nokkur ár án þess að þurfa að gerast þar aðili að og ég býst ekki við, að það sé neitt í hættu, þó að það dragist sumarlangt enn um skeið.

Af því að hæstv. ráðh. mælti jafnframt fyrir næsta máli, sem á eftir fer, mætti ég, herra forseti, aðeins til þess að gera þetta þá líka fljótlegra frá minni hendi benda á, að í því er einnig um að ræða, að ég held eftir fljótlega athugun, talsverða undantekningu frá meginreglum laga um uppboð, þ.e.a.s. mér skilst, að eftir þessu ákvæði geti uppboðsbeiðandi komið fram sölu á loftfari, þó að þeir, sem ofar standa eða framar standa með réttindi, fái ekki kröfur sínar að fullu greiddar. Þetta getur hann, ef sérstaklega stendur á. Þetta er, að ég held, undantekning frá þeim reglum, sem almennt gilda um nauðungaruppboð.

Loks verð ég að láta í ljós nokkra undrun yfir því, að þessi mál bæði tvö skuli hafa farið til samgmn. í hv. Nd. Ekki mundum við telja, að frv. um þinglýsingar ættu að fara í landbn., þótt að vísu þau snerti jarðir og alveg eins held ég um þessi efni, þótt þau snerti flugför, að þau mundu frekar eiga heima í allshn. en samgmn. En samgmn. hefur nú fjallað um þetta í Nd. og ekki gert á því miklar breytingar. Eina þó. Höfundur frv. hefur látið vera eyðu fyrir gildistöku þeirra. Hann hefur sýnilega gert ráð fyrir því, að það þyrfti nokkurn aðlögunartíma til þess að koma þessu breytta skipulagi við. En samgmn. Nd. hefur gert þá einu breyt. á þessu frv., að l. skyldu öðlast þegar gildi. Ég hefði talið, að það hefði verið skynsamlegra að gefa svolítinn frest til þess að koma þessum málum öllum í höfn.

En sem sagt, aðalatriðið er, að ég álít, að þessi hv. d. geti ekki látið bjóða sér þau vinnubrögð, sem hér er ætlazt til, þegar engin nauðsyn ber til þess að afgreiða málið og hún verður að stemma stigu við, ef hún vill halda uppi virðingu sinni í framtíðinni og afstýra því, að því sé treyst, að það sé hægt að bjóða henni þvílík vinnubrögð sem þessi. Það er ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs og vildi ekki láta þetta frv. fara hér þegjandi og hljóðalaust í gegn.