10.05.1965
Efri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2330)

122. mál, skrásetning réttinda í loftförum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er vitanlega mjög leiðinlegt, ef hv. þm. er misboðið vegna meðferðar á þingmálum. En það er þó vitað, að þessi frv., sem hér um ræðir, hafa legið fyrir Alþ. meginhluta þess vetrar, sem nú er nýliðinn eða mestan hluta þingtímans. Þótt stutt sé síðan málið kom til þessarar hv. d., eru margir mánuðir síðan þessum málsskjölum var útbýtt hér meðal hv. þm. og ég veit það, að hv. þm., sem hér talaði áðan, lagaprófessorinn, hefur nú alveg gert sér grein fyrir þessum málum, og það er ekki meginástæðan fyrir því, að hann sé ekki búinn að kynna sér málið, að hann telur ekki ástæðu til þess að afgreiða það, heldur að það hafi ekki verið nægilega lengi hér í d. og það sé ekki eins nauðsynlegt og ég vildi vera láta áðan að gera þessi mál að lögum nú. Það er vitanlega rétt, sem hv. þm. sagði, að jafnvel þótt málin yrðu ekki að l., mun vitanlega flugið halda áfram eftir sem áður. En ástæðan til þess, að ég gaf ekki skýringar á því hér áðan, hvers vegna þetta væri nauðsynlegt, er einfaldlega sú, að það vita allir hv. þm., að þessi frv. eru fylgifiskar loftferðal., sem voru afgreidd hér fyrir meira en ári og þá var ætlazt til og boðað þá, að þessi frv. kæmu á eftir. Þau voru ekki tilbúin á síðasta þingi, það var ekki fyrr en í haust, sem þau voru tilbúin og þess vegna gátu þau ekki fylgt loftferðalögunum.

Nú hefur hv. þm., sem talaði hér áðan, farið dálitið út í það að skýra, í hverju þessi mál eru fólgin og talar um t.d. það, að samkv. þessu eigi að skrá loftför á einum stað og það er í samræmi við þann praxis, sem verið hefur. Loftferðaeftirlitið er aðeins hér í Reykjavik, loftferðaskírteini eru gefin út aðeins hér í Reykjavík og þess vegna hefur verið talið eðlilegt til að hafa samræmi í þessum málum, að skráningin færi fram á einum stað, þannig að það væru alls staðar sömu kröfur gerðar. En þetta er tæknilegt mál, sem ég skal ekki fara lengra út í.

Það mundi kannske einhver segja: Það eru óþægindi fyrir flugvélar utan af landi að þurfa að fara til Reykjavíkur til skrásetningar. En oftast er það nú svo, að a.m.k. þegar þær fljúga í fyrsta sinn til landsins, byrja þær með að lenda í Reykjavík, fá loftferðaskírteini og loftferðaeftirlitið verður að setja sinn stimpil á þær og þá er það nú oft, sem skráningin fer fram á þeim tíma, þannig að þeir, sem kunnugastir eru þessu, telja, að þetta muni ekki valda óþægindum.

En ég ætla ekki að eyða tímanum í að fara út í þessi mál. Eins og ég sagði, tel ég það mjög æskilegt, að þau verði að l., bæði þessi frv., vegna þess að þau áttu vitanlega að verða lögfest um leið og loftferðal., en ef hv. alþm. treysta sér ekki til þess, verður það ekki.

Ég hef ekki vanþakkað stjórnarandstöðunni, aldrei haldið því fram, að hún væri eitthvað skilningslaus eða stirð nú síðustu dagana við afgreiðslu mála og alls ekki, að hún hafi verið með málalengingar. Það verður að vera mat hvers einstaks þm., hvort hann vill greiða þessum málum atkv. eða ekki. Það er áreiðanlega æskilegt, að það þurfi ekki að dragast lengur, að þessi mál verði að l., en treysti hv. þm. sér ekki til þess, verður það ekki. En það kemur fram í n., sem fær málin, — þau voru bæði í samgmn. í hv. Nd. og það er venjan, að þau fari í sömu n. í seinni d., en það getur verið matsatriði, ég legg enga áherzlu á það sérstaklega, — það kemur þá fram í hv. n., sem um það fjallar, hvort þm. að athuguðu máli treysta sér til að samþykkja þessi frv., sem þeir hafa nú haft á borðinu hjá sér í allan vetur. Ég ætla, að þegar að því kemur, verði niðurstaðan sú, að það verði talið fært fyrir samvizkunni að afgreiða málin.