10.05.1965
Efri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (2332)

122. mál, skrásetning réttinda í loftförum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vildi nú mega skilja hæstv. ráðh. svo, að hann í sinni síðari ræðu félli frá till. sínum um það, að þetta mál væri afgr. á þessu þingi og hann legði það algerlega á vald n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort hún afgreiðir það. Þegar þannig er í pottinn búið, efast ég ekki um það, að n. sér þann kostinn réttan að afgreiða þetta mál ekki, þar sem þess er enginn kostur fyrir hana, hvorki að lesa þetta í gegn rækilega og athuga það gagnvart öðrum lögum né kveðja höfund þess á sinn fund o.s.frv. Og ég verð að telja, að hún muni því frekar viðhafa þessi vinnubrögð, þar sem mér virtist það algerlega upplýsast í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan, að það væri alls engin þörf á því að afgreiða þetta nú. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri fylgifiskur með loftferðal. og það hefði verið gert ráð fyrir því, þegar þau voru sett, að þessi lög yrðu sett líka. Það má allt rétt vera. En loftferðal. voru sett á sínum tíma og mér er ekki kunnugt um annað en þau hafi verið í notkun og verið beitt alveg með eðlilegum hætti, án þess að þessi lög væru fyrir hendi. Og enn fremur upplýsti hann það, sem vel má vera rétt líka og hann veit auðvitað betur um en ég og aðrir hv. þm., sem þessum málum eru ekkert sérstaklega kunnugir, að í framkvæmdinni hafi þetta verið svo sem gert væri ráð fyrir í þessu frv., að skráning hafi farið fram á einum stað. Þá fæ ég ekki séð, fyrst svo er, að það riði á svo miklu að fá þetta frv. samþykkt 6 mánuðum fyrr en ella. Ég held þessvegna, að þessi hv. d. eigi að láta þetta mál liggja og þar með undirstrika það, að svona vinnubrögð láti hún ekki bjóða sér, minna með því hæstv. ráðh. á, að það er þeirra skylda að fylgjast með afgreiðslu þeirra þingmála, sem þeir leggja fyrir þingið, hvernig þeim miðar áfram í deildum og gæta þess, að hvor d. um sig fái til umráða hæfilegan og nægilegan tíma til þess að fjalla um mál.