01.03.1965
Neðri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2347)

131. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það hefur áður komið fram hér í þinginu, að ríkisstj. hefði til meðferðar endurskoðun l. um eignarrétt og afnotarétt fasteigna og á s.l. þingi var þáltill. um endurskoðun þessara l. frá nokkrum þm. vísað til ríkisstj. og með vísun til þeirrar endurskoðunar, sem þá var upplýst, að stjórnin stæði að.

Sá háttur var hafður við þessa endurskoðun, að ráðuneytisstjórar og embættismenn í stjórnarráðinu voru til ráðuneytis ásamt hæstaréttardómurum tveimur, Jónatan Hallvarðssyni og Þórði Eyjólfssyni, eins og nánar kemur fram í aths. við frv.

Það er meginatriði í þessu frv. til breytinga frá núgildandi l., að ríkisborgararéttur er skilyrði til þess að geta öðlazt eignarrétt og afnotarétt fasteigna í þessu frv., en áður var það miðað við búsetu hér á landi. Það er enn fremur í 1. gr. nýtt ákvæði varðandi hlutafélög, þar sem það skilyrði er sett fyrir því, að hlutafélög geti átt réttindi yfir fasteign, að meiri hl. hlutafjár sé eign íslenzkra ríkisborgara og íslenzkir ríkisborgarar fari með meiri hl. atkv. á hluthafafundum.

Þessi meginatriði frv. koma fram í 1. gr. þess. Það er einnig gert ráð fyrir því í 1. gr. að halda óbreyttri þeirri reglu, að ráðh. sé heimilt að veita leyfi til þess að öðlast eignarrétt eða notkunarrétt yfir fasteign, þó að menn uppfylli ekki þessi skilyrði, sem koma fram í hinum fjórum töluliðum 1. gr. Að þessu leyti mundu þá gilda áfram hjá okkur eins reglur og á hinum Norðurlöndunum, en það kemur fram í fskj. II, þar sem er smávegis yfirlit um lagaskilyrði fyrir eignarrétti og afnotarétti útlendinga á fasteignum á Norðurlöndum, en þessi heimild til undanþágu, sem ríkisstj. er veitt, er gildandi í öllum löndum og ríkisborgararéttarskilyrðið er þar einnig, nema í Danmörku, þar sem ríkisborgararéttur er ekki skilyrði fyrir eignar- og afnotarétti fasteigna. Þar eru líka, eins og hv. þm. sjá, nokkur ákvæði, sem eru svipaðs eðlis og þau nýmæli, sem hér eru tekin upp, að í hlutafélögum skuli meira en helmingur hlutafjárins vera eign íslenzkra ríkisborgara, — svipuð ákvæði eru einnig sums staðar, a.m.k. á hinum Norðurlöndunum, þótt að vísu sé miðað kannske við ekki aðeins helminginn, heldur sums staðar við stærri hluta, sérstaklega í Noregi og reyndar Finnlandi líka.

Í 4. og 5. gr. núgildandi l. og í sömu greinum frv. eru reglur um það, hvernig með skuli fara, er aðili, sem ekki uppfyllir skilyrði l., hefur öðlazt réttindi yfir fasteign, svo og hvernig fari, ef hann kemur ekki málum sínum í löglegt horf á þeim fresti, sem honum kann að verða settur til þess.

Og í 6. og 7. gr. er vísað til reglna 4. og 5. gr. með þeim breytingum, sem leiða kann af hinum sérstöku aðstæðum, þegar hjúskapur og síðari slit hans eða erfðir hafa valdið því, að aðili, sem ekki uppfyllir skilyrði l., hefur öðlazt réttindi yfir fasteign. Breytingar þær, sem gerðar eru í 6. gr. frv., á reglum 6. gr. núgildandi l., stafa einvörðungu af þeim breytingum, sem orðið hafa á lagareglum um fjármál hjóna, eftir að núgildandi lög voru sett 1919. En svo sem kunnugt er, voru hinar eldri reglur um fjármál hjóna við það miðaðar, að eiginmaðurinn væri einn talinn fyrir félagsbúinu og hefði því raunar verið þörf á að breyta reglum núgildandi laga við setningu l. um fjármál hjóna, nr. 20 frá 20. júní 1923.

Mér þykir rétt að taka fram í þessu sambandi, að þegar rætt hefur verið um stóriðju hér á þingi og reyndar utan þings, með þeim hætti, að erlendir aðilar fengju aðstöðu til að reka stóriðju hér í sambandi við stórvirkjanir og þá helzt alúminíumbræðslu, eins og kunnugt er, hefur jafnan verið gert ráð fyrir því og ég held, að um það sé enginn ágreiningur, að um slík mál mundu verða gerðir sérstakir samningar, sem Alþingi fengi til meðferðar og afgreiðslu, ef til þess kæmi, að ríkisstj. vildi stofna til slíks.

Að öðru leyti er nokkurt yfirlit til glöggvunar fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar, í fskj. I. Það er yfirlit um réttarstöðu útlendinga með tilliti til fasteigna og atvinnurekstrar á Íslandi, sem tekið var saman af Halldóri Jónatanssyni, starfsmanni í stjórnarráðinu.

Það er ekki gert ráð fyrir því að breyta öðrum lögum beinlínis, en lögunum frá 1919, þ.e.a.s. þau verða felld úr gildi, ef þetta frv. nær fram að ganga. Hins vegar hefur þetta frv. auðvitað efnislega ýmis áhrif á aðra löggjöf í landinu, að svo miklu leyti sem um er að ræða eignarrétt og afnotarétt af fasteignum. Það mætti segja, að það hefði e.t.v. verið ástæða til að breyta fleiri lögum, en það varð samt að ráði að fara ekki út í það. Upp á síðkastið hafa verið sett hér á Alþingi lög, sem miða ekki við ríkisborgararétt í sambandi við atvinnurekstur, en að svo miklu leyti sem slíkur atvinnurekstur verður ekki rekinn nema með afnota– og eignarrétti yfir fasteignum, koma þessi nýju ákvæði þessa frv. til að taka til þess, ef þetta frv. yrði að lögum. En 1963 voru sett á Alþingi lög um veitingasölu, gististaðahald o.fl. og skilyrði til þess að öðlast veitingaleyfi eða önnur leyfi samkv. þeim l. er m.a. heimilisfesti síðasta árið, áður en leyfið er veitt. En miðað við, að þetta frv. taki gildi, mundi hins vegar erlendur aðili eða ekkí íslenzkur ríkisborgari geta fengið slík leyfi, en hann gæti ekki rekið það nema þá með leigu á fasteignum í samræmi við þau skilyrði, sem þar um eru sett í þessum lögum, en þar er afnotarétturinn bundinn við 3 ár. Hann má ekki vera bundinn lengur en til 3 ára, eins og hann er núna eða uppsegjanlegur með árs fyrirvara.

Um ein lögin vil ég taka það fram, lög um verzlunaratvinnu, að þar eru ýmis ákvæði, sem gat komið til álíta að breyta um leið. Ég vil láta þess getið, að ég hef skipað n. á s.l. hausti, sem hefur þá löggjöf í endurskoðun, en henni er ekki lokið enn þá.

Að öðru leyti held ég að, að svo stöddu þurfi ég ekki fleira um þetta frv. að segja og vildi þá mega leggja til, að frv. yrði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.