01.03.1965
Neðri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2348)

131. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., hefur hér á undanförnum þingum, ég hygg tvisvar, verið flutt þáltill. um endurskoðun l. um eignarrétt og afnotarétt fasteigna og í þeirri þáltill. var stungið upp á því að kjósa mþn. til að endurskoða lög nr. 63 frá 1919, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, svo og lagaákvæði um atvinnurekstrarréttindi útlendinga hér á landi. Var í sambandi við þessa þáltill., sem flutt var af fjórum framsóknarþm., minnt á, að það mundi vera þörf á því að endurskoða báða þessa þætti málanna, sem sé bæði réttindi útlendinga til að eiga hér fasteignir og aðrar eignir og enn fremur, sem er annar þáttur, réttindi sömu aðila til að reka hér atvinnu, þ.e. hafa hér atvinnurekstur. Var bent á, að l. um þessi efni væru mjög ófullkomin, en brýna nauðsyn bæri til að endurskoða þau og gera þau fyllri, gleggri, skýrari og sterkari með tilliti til þess, að hættara væri við því nú á næstunni, en áður hefði verið, að útlendingar vildu eignast hér eignir umfram það, sem Íslendingar kærðu sig um að þeir eignuðust. Voru færð rök fyrir þessu.

Þessari þáltill. var visað til hæstv. ríkisstj., eins og ráðh. sagði og hefur hún látið skoða þessi mál nokkuð og leggur nú fram frv. til l. um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem á að koma í staðinn fyrir l. frá 1919, en þetta frv. fjallar, eins og hæstv. ráðh. tók fram, eingöngu um þessa hlið, þ.e.a.s. um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, en ekki um atvinnurekstrarréttindin. Á hinn bóginn fylgja nokkrar upplýsingar um, hvaða reglur gilda hér á landi um atvinnurekstrarréttindin, þótt frv. fjalli ekki um þann þátt málanna, heldur einvörðungu um réttinn til þess að eiga hér fasteignir eða hafa afnot af fasteignum.

Vil ég víkja nokkuð að frv. Það kemur fram í 1. gr. sú breyting, að menn skuli þurfa að hafa ríkisborgararétt til að geta öðlazt rétt til að eiga hér fasteignir, en áður var það eitt skilyrði, að menn væru hér heimilisfastir. Getur víst ekki verið ágreiningur um, að þetta atriði er til bóta frá því, sem verið hefur, því að það þrengir möguleika útlendinga til að eignast hér fasteignir.

Þá eru hér ákvæði um, að til þess að hlutafélög hafi þessi réttindi, skuli meiri hl. hlutafjárins vera eign íslenzkra ríkisborgara og íslenzkir ríkisborgarar fara með meiri hl. atkv. á hluthafafundum, sem sé, ef einfaldur meiri hl. hlutafjárins er í höndum Íslendinga, eiga þau að hafa þennan rétt, jafnvel þótt 49% væru í höndum útlendinga. Í sambandi við þetta vil ég minna á, að í grg. er sagt frá, hvernig þessu er háttað á Norðurlöndum. Kemur í ljós, að Finnlandi, Noregi og Svíþjóð hafa ekki önnur hlutafélög þennan rétt til að eignast fasteignir, en þau, þar sem 60–80% af hlutafénu eru í höndum innlendra aðila í Svíþjóð, en 80% í höndum innlendra aðila í Noregi og Finnlandi. Til þess að félög hafi þennan rétt í þessum löndum, þarf því mjög aukinn meiri hl. hlutafjárins að vera í höndum landsmanna sjálfra. Þetta er vafalaust gert í varúðarskyni til að tryggja, að þau félög, sem hafa þennan rétt til að eiga fasteignir, séu raunverulega á höndum innlendra aðila, en ekkí aðeins að nafninu til. Og hefur þá sýnilega þótt tryggasta leiðin til að gera þetta öruggt að gera slíkar kröfur um hlutaféð.

Ef útlendingar eiga meira í félögunum en 20% í Finnlandi og Noregi og meira en 20–40% í Svíþjóð, hafa þau ekki rétt til þess að eiga fasteignir, en verða að sækja um leyfi til ráðuneytanna eins og erlendir aðilar.

En ég sakna þess, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki tekið neitt tillit til þessa í frv., eins og það liggur fyrir, því að tilsvarandi ákvæði í þessu frv. eru sem sé þannig, að aðeins einfaldur meiri hl. þurfi að vera í höndum Íslendinga, til þess að félag skuli skoðast innlent. Það er nokkuð rætt um þetta í grg. þeirrar þáltill., sem hér var vísað til, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, og leyfi ég mér að taka þau rök upp núna:

„Ljóst er af því, sem hér hefur verið rakið”, það er búið að rekja það áður, að ákvæðin hér eru býsna losaraleg, „að langt er frá því, að ákvæði l. frá 1919 veiti nægilega vörn gegn því, að eignarréttur eða afnotaréttur fasteigna hér á landi færist raunverulega yfir á hendur útlendra ríkisborgara. Það er því full ástæða til að taka löggjöfina um það efni til rækilegrar endurskoðunar. Það þarf að semja ný lög, er setja traustari skorður við hugsanlegri ásælni útlendinga til fasteignaréttinda hér á landi, en þau lög má sjálfsagt byggja á grundvelli l. frá 1919 og því er þessi þáltill. um endurskoðun þeirra laga. En síðan segir, með leyfi hæstv. forseta, og það er það, sem ég vil sérstaklega vekja athygli á: ,;Sérstök þörf er á að setja í þessu sambandi skýrari ákvæði um hlutafélög og áskilja t.d., að þau hlutafélög ein, sem íslenzkir ríkisborgarar ættu tiltekinn, aukinn meiri hl. hlutafjár í, gætu öðlazt hér fasteignaréttindi án sérstaks leyfis. Er enn ríkari ástæða til þessa af þeirri sök, að íslenzk hlutafélagalög eru að ýmsu leyti úrelt og ófullkomin, m.a. að því er varðar skilgreiningu á innlendum og útlendum hlutafélögum.“

Ég sakna þess, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa tekið neitt tillit til þess, hvernig þessum málum hefur verið komið fyrir hjá frændum okkar á Norðurlöndum, því að við þurfum áreiðanlega að sýna í þessum efnum mikla varúð, ekkert síður en þeir. Hvort sem menn hafa meiri eða minni vantrú eða meiri eða minni trú á þátttöku útlendinga í því að eiga hér eignir og jafnvel atvinnurekstur, ættu menn þó að geta verið sammála um, að það getur aldrei í raun og veru orðið hliðstætt gagn að því fyrir Íslendinga, að erlendir reki atvinnureksturinn, á við það, að Íslendingar reki hann sjálfir, því að arður af atvinnurekstri útlendinga mun lengstum sækja út úr landinu, en það er einmitt arðurinn af atvinnurekstrinum, sem verður drýgstur í því að byggja upp til frambúðar.

Þess vegna sýnist mér mjög þýðingarmikið, að þessum málum verði þannig fyrir komið, að Íslendingar geti haft það á sínu valdi sjálfir, hversu mikinn erlendan atvinnurekstur þeir vilja hafa hér og undir hvaða kringumstæðum þeir telja eðlilegt, að erlendir aðilar eigi hér eignir. Því tel ég, að það væri réttara að skoða gaumgæfilega, hvernig Norðurlandamenn hafa gengið frá þessum atriðum, að því er hlutafélögin snertir, og vona, að það verði gert í þeirri n., sem fær málið til meðferðar og þá í þessa átt, sem ég hef hér bent.

Þá er einnig, að gert er ráð fyrir því í frv., að ráðh. geti framvegis, — raunar eins og mér skilst að muni vera hægt núna skv. gildandi l., — að ráðh. geti framvegis veitt þau leyfi, sem honum sýnist, útlendingum til að eiga hér fasteign. Ég tel, að þetta ákvæði þurfi líka að endurskoða í n. og íhuga gaumgæfilega, hvort ekki á að setja þessu sérstakar skorður. Það er að því vikið einnig í grg. þáltill., sem ég gat um áðan, að það þurfi að athuga þessa hlið málanna einnig gaumgæfilega, hvernig skuli ganga frá því að veita undantekningar frá almennu reglunni varðandi eignarrétt og afnotarétt útlendinga á fasteignum.

Þá vil ég í þessu sambandi vekja athygli á því, sem reyndar kom einnig fram hjá hæstv. ráðh., að í þessu frv. eru ekki nein ákvæði um atvinnurekstrarréttindi útlendinga, enda er, eins og hann segir, þetta frv. einvörðungu um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. En í þessu sambandi eru þó gefnar þýðingarmiklar upplýsingar í grg. frv., þar sem dregin eru fram ýmis lagaákvæði, sem varða rétt útlendinga til þess að reka hér atvinnu í ýmsum greinum og eru þær reglur nokkuð sundurleitar. Þessar reglur eru nokkuð á reiki. Og maður getur ekki komizt hjá að hugsa, að ákvæðin í þessu efni séu hér mjög veik og miklu veikari, en t.d. annars staðar á Norðurlöndum, eftir því sem ég bezt fæ séð. Ég hygg t.d., að á Norðurlöndum séu hliðstæð ákvæði eða hliðstæðar kröfur gerðar til hlutafélaga, þegar um atvinnurekstur útlendinga er að ræða, eins og hérna kemur fram í upplýsingum frá Norðurlöndum, þar sem rætt er um lagaskilyrðið fyrir eignarrétti og afnotarétti útlendinga á fasteignum á Norðurlöndum. Ég hygg, að ákvæðin um atvinnurekstrarréttindi hlutafélaga, sem erlendir eiga í, muni vera mjög hliðstæð, a.m.k. hefur það verið í Noregi.

Mér sýnist því augljóst af því, sem hér kemur fram í grg. um þennan þátt málanna, að okkar ákvæði um þetta séu miklu veikari en þar og þetta styður þá skoðun, sem kom fram í þáltill., að ákvæðin um atvinnurekstrarréttindi útlendinga þurfi einnig gaumgæfilegrar endurskoðunar við. Hitt er svo annað mál, hvort þetta getur orðið tekið inn í þetta mál beinlínis eða ekki, en ég minni á þetta í leiðinni. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hérna fáeinar setningar úr grg. þáltill. um rökin fyrir þessu, sem ég vil gera að mínum rökum:

„Um leið og endurskoðuð eru lagafyrirmæli um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, er rétt, að tekin séu til athugunar ákvæði löggjafarinnar um atvinnurekstrarréttindi útlendinga hér á landi, einkanlega hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð. Þó að lög bindi nú atvinnurekstrarréttindi útlendinga tilteknum skilyrðum, er vafasamt, að þar sé nógu tryggilega um búið, a.m.k. að því er varðar hlutafélög, sem útlendingar kunna að eiga mikið í og raunverulega eru starfrækt af þeim. Þarf að rannsaka ákvæði l. um þessi efni og gera þau skýrari og fyllri, þar sem þörf krefur. Er nauðsynlegt, að mjög ströng skilyrði séu sett fyrir atvinnurekstrarréttindum útlendra aðila. Það má e.t.v. segja, að þess hafi ekki gætt sérlega mikið á undanförnum árum, að útlendingar sæktust eftir að eiga fasteignir eða stofnsetja atvinnufyrirtæki hér á landi. En ýmsar breyttar ytri aðstæður hafa í för með sér aukna hættu í þessum efnum. Landið er ekki svo einangrað sem áður var í þessu tilliti. Það er óneitanlega lítt numið enn að vissu leyti og því ekki óeðlilegt, að það kynni að freista þeirra útlendinga og þá t.d. útlendra auðfélaga, sem eru víða í leit að landsgæðum og aðstöðu. Samkv. núgildandi löggjöf gætu slík félög sennilega stofnað eins konar dótturfélög hér á landi, er gætu keypt eða leigt sér fasteignir og átt atvinnufyrirtæki. En ef útlendingar eignuðust hér fasteignaréttindi í stórum stíl, hefðu Íslendingar blátt áfram glatað frumburðarrétti sínum. Okkur ber því að vera hér vel á verði. Það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í hann, og endurskoðun þessari þarf því að hraða.“

Þetta á nú einkum við um atvinnurekstrarréttindi útlendinga, sem ekki er fjallað um í þessu frv., eins og ég hef margtekið fram og hæstv. ráðh. einnig minnti á. En það er annar þáttur þessara mála, sem engu síður þarf endurskoðunar við en sá þáttur, sem tekinn er til meðferðar í þessu frv.

Ég skal svo láta þetta nægja, en vildi, að þessi rök kæmu fram nú við 1. umr.