01.03.1965
Neðri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2351)

131. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, þyrfti, eins og þegar hefur komið fram bæði hjá hæstv. ráðh. og þeim þm., sem talað hafa, að athuga það mjög vel. Það er engum efa bundið, að það þarf að gera miklar breytingar á þeim l., sem nú gilda í þessum efnum, vegna þess að sú einangrun, sem við höfum búið við undanfarnar aldir, Íslendingar, er nú horfin og þess vegna hættan á áhuga útlendinga á að eignast hér fasteignir orðin miklu meiri, en verið hefur.

Við hv. 5. þm. Vestf. fluttum á þinginu 1962 frv. til l. um breyt. á stjórnarskránni, þar sem var farið fram á, að 68. gr. væri breytt í þá átt, sem segir í 1. málsl. þar — með leyfi hæstv. forseta :

„Fasteignir og náttúruauðæfi hér á landi skulu Íslendingar einir eiga eða stofnanir, sem Íslendingar eiga einir.“

Eftir þessum till., sem við vildum þá reyna að fá innleiddar í stjórnarskrána sjálfa, átti að vera ómögulegt fyrir útlendinga, ekki heldur í gegnum hlutafélög að eiga hér fasteignir. Og ég held, að það sé nauðsynlegt, að það sé athugað mjög gaumgæfilega nú, hvort það er ekki óhjákvæmilegt fyrir okkur að setja miklu strangari skilyrði, en eru í þessu frv. Þó að það sé margt þar til bóta frá því, sem verið hefur, útheimtar það ástand, sem við lífum við, miklu róttækari breytingar að mínu álíti. Þess vegna vildi ég í fyrsta lagi, að sú n., sem fær þetta til umr., athugaði mjög gaumgæfilega þessa till., sem við fluttum þá og vildi taka eitthvert tillit til þess.

Í öðru lagi vildi ég sérstaklega benda á það, fyrir utan það, sem hér hefur nú verið rætt um fiskiðnaðinn, að hvað snertir jarðir eru nú jarðir í Vestur-Evrópu eitt það eftirsóttasta, þegar verið er að festa í verðmætum fé af hálfu þeirra, sem mikið hafa af peningum. Og það er engum efa bundið um svo lítt numið land eins og okkar, að á næstu áratugum koma jarðir, jafnvel þó að þær séu nú að falla í verði og margar hverjar óseljanlegar, eins og kallað er, til með að stiga gífurlega. Ég álít, að það ætti að reyna að stefna að því í því sambandi, að t.d. af þeim bændum, sem núna neyddust til að selja sínar jarðir, af því að þeir flyttu burt frá þeim, keypti ríkið þær jarðir og seldi þær ekki aftur, til þess að gera kleifara seinna meir þeim, sem vildu setjast að á þeim, að geta fengið þær svo að segja ókeypis á leigu frá ríkinu og tryggt þannig sem beztan aðbúnað fyrir þá íslenzka bændur, sem vildu nytja þær í framtíðinni, þegar þar að kemur, að öll jörð á Íslandi verður ræktuð. En nú sem stendur eru jarðir á Íslandi eitt það ódýrasta, sem hægt er að kaupa í Evrópu og einhver sú bezta fjárfesting, sem útlendir auðmenn, sem væru að festa sitt fé til langs tíma, mundu vilja festa fé sitt í, ef þeir hefðu sæmilegan aðgang að. Og ég er ákaflega hræddur um, að hlutafélög með 49% þátttöku útlendinga mundu, eins og nú háttar til, pólitískt á Íslandi geta þýtt, að útlendingar hefðu alger yfirráð yfir þeim, Það mundi vera orðið svo auðvelt fyrir þá nú að fá leppa, að það væri minnstur vandi að kaupa upp heilar sýslur fyrir útlent auðfélag og það eina, sem Íslendingar þá hafa að gera, þegar þeir sæju slíkan voða, væri að grípa til þeirra ráða, sem við vissulega hefðum, að taka slíkt eignarnámi, því að þetta heyrir náttúrlega að öllu leyti undir íslenzk lög. En til þess sem sé að koma í veg fyrir allt slíkt og allt málavafstur af slíku tagi, held ég, að sú n., sem þetta fer til, ætti sérstaklega að athuga um jarðirnar, lóðirnar og allt annað slíkt. Við skulum bara athuga í því sambandi, þegar nú er verið að tala um alúminíumverksmiðju og annað þess háttar, stækkunarmöguleika þar og slíkt, spurninguna um jarðirnar, þar sem á að byggja þetta, fríhöfnina, þar sem þetta á að standa og annað þess háttar. Við þurfum ekki að leita langt til þess að vita, að það er fljótt farið að athuga slíka hluti. Þegar talað var um að staðsetja slíkt fyrir norðan, var farið að kaupa upp vissar jarðeignir þar og þegar rætt var um, að Íslendingar gengju e.t.v. í Efnahagsbandalagið, var þegar búið að undirbúa vissar ráðstafanir til að fara að kaupa upp jarðir í Rangárvallasýslu og víðar. Ég vil þess vegna mjög taka undir það, sem líka hefur komið fram hjá hæstv. ráðh., að þetta mál verði athugað mjög gaumgæfilega í n. og það sé af hálfu Alþ. sleginn verulega sterkur varnagli við þeim hættum, sem þarna vofa yfir.