17.12.1964
Neðri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. flm. þessarar till. um það, að æskilegt sé að hafa sem mesta viðleitni til samkomulags á milli þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, þ.e.a.s. að freista þess í lengstu lög, að um þessi atriði verði samið af aðilum, en reyna . að koma í veg fyrir, að málið gangi til yfirnefndar eða dóms. Hins vegar hefur reynslan orðið þannig, að þetta hefur stundum tekizt, en stundum ekki. En ég er ákaflega hræddur um, að þegar samkomulag tekst ekki um það að ganga til samninga um málið í verðlagsráðinu, náist ekki heldur samkomulag um oddamann í yfirdómnum, þannig að ég tel mjög litlar líkur til þess, að þegar á þessum manni þarf að halda, þá fáist samkomulag um þetta atriði á milli aðila.

Og annað atriði hefur líka vegið nokkuð þungt í þessu sambandi, og það er, að á það var lögð áherzla af þeim, sem við mig hafa átt orðræður um þetta mál, að það verði reynt að skapa samhengi í þessum úrskurðum yfirdóms, ef til þeirra þarf að koma, þannig að það verði eins um þennan úrskurð og hjá verðlagsráði landbúnaðarins, að sami maðurinn gegni oddastörfum frá ári til árs, til þess að samhengi í sjónarmiðum geti ríkt. Þetta varð til þess, að það var horfið að því, að ráði allra fulltrúa útgerðarmanna og allra fulltrúa sjómanna, sem standa á bak við þetta frv., að oddamaðurinn í yfirdómi yrði fastur, hann yrði ekki ákveðinn einu sinni með samkomulagi af aðilum og í annað skipti, eins og hefur verið, af hæstarétti, þar sem eru kannske sín hvor sjónarmiðin, en nú er hér lagt til, að það verði fastur maður, þ.e.a.s. forstöðumaður Efnahagsstofnunar ríkisins, sem hafi þetta fasta hlutverk frá ári til árs, og væri á þann hátt unnt að ná samhengi í ákvörðunum yfirdómsins. Ég held þess vegna, að það sé ekkert unnið við það að samþykkja till. hv. þm., en kannske frekar stofnað til ósamræmis frá ári til árs, ef hún yrði samþykkt, og vildi ég því leyfa mér að leggjast á móti samþykkt hennar.