17.11.1964
Efri deild: 18. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (2373)

72. mál, mat á matjesíld

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á l. nr. 53 11. júní 1938, um mat á matjessíld og skozkverkaðri síld, er samhljóða frv., sem lagt var fram í þessari hv. d. á síðasta þingi. Efni frv. er ofur einfalt og er eingöngu það, að matsgjald á útflutningsmetna síld er hækkað úr 50 aurum á tunnu, eins og það er nú, og upp í 6 kr. Þetta gjald hefur verið nokkuð stöðugt, frá því að það var fyrst sett. Þá var gjaldið 25 aurar á tunnu, var síðan hækkað upp í 50 aura og síðan ekki meir. Kostnaður við matið hefur hins vegar aukizt mjög mikið á þessu tímabili og er nú kominn talsvert á aðra millj. kr., sem greidd hefur verið úr ríkissjóði, þar sem matsgjaldið hefur ekki hrokkið nema fyrir broti af matskostnaðinum. Hins vegar er allur undirmatskostnaður af skreið, freðfiski og saltfiski greiddur af framleiðendum og meiningin hefur verið, að þessi matskostnaður á síldinni væri einnig greiddur af þeim. Það er þess vegna lagt til, að þessi hækkun verði gerð, sem talið er að muni nema nokkurn veginn því, sem þarf til þess, að útgjöldin við matið fáist endurgreidd. Það munu vera um 200 þús. tunnur, sem metnar eru á þennan hátt, ef til vill eitthvað lítils háttar meira og með 6 kr. gjaldi á tunnu eiga að fást 1.2 millj. kr. upp í þetta, sem mun langt til nægja að greiða kostnaðinn.

Vegna þess að hv. dm. er þetta frv. kunnugt frá síðasta þingi, sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn., en ég mundi mjög vilja fara þess á leit við hana, að hún afgreiddi málið fljótt og greiðlega, því að m.a. fjmrn. leggur verulega upp úr því, að þetta mál fái afgreiðslu nú á þessu þingi.