17.12.1964
Neðri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Út af þeim ummælum; sem hæstv. sjútvmrh. lét hér falla út af brtt. þeim, er við 3. þm. Norðurl. e. flytjum við frv. til l. um verðlagsráð sjávarútvegsins, vil ég aðeins segja nokkur orð.

Hæstv. ráðh. fann tillöguflutningi okkar það helzt til foráttu, að með því að halda opnum þeim möguleika, sem nú er í gildandi l., að oddamaður í yfirnefnd skuli, ef samkomulag fæst um hann í verðlagsráðinu, skipaður eftir tilnefningu verðlagsráðsins, þá fáist ekki samhengi í úrskurði hjá yfirnefndinni. Ég er sammála hæstv. ráðh. um, að það er talsvert atriði, að sem mest samhengi sé í úrskurðum yfirnefndar og þá væntanlega oddamanns, ef hann einn þarf að kveða upp gildandi verðlagsúrskurð frá ári til árs. Tillöguflutningur okkar gerir einnig ráð fyrir því, að forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar eða fulltrúi hans skuli ætíð vera til staðar sem oddamaður í yfirnefnd, ef ekki fáist um hann samkomulag. Hins vegar ef sá möguleiki er fyrir hendi í verðlagsráðinu, að það geti orðið samkomulag um oddamanninn, tel ég fyrir fram fyrir því miklar líkur, að það samkomulag geti gilt ár eftir ár og sami maðurinn verði með samkomulagi í verðlagsráðinu skipaður oddamaður þar í yfirnefndinni frá ári til árs. Enda finnst mér, að ef þeir aðilar, sem mest eiga undir verðákvörðuninni, þ.e.a.s. fulltrúar fiskseljenda og fulltrúar fiskkaupenda, geta komið sér saman um oddamann, þá sé ástæðulaust, að það sé gripið fram fyrir hendur þeirra af löggjafarvaldinu og þeim möguleika lokað, því að þessir menn hljóta væntanlega að gera sér bezta grein fyrir því, hvað í húfi er, þegar þeir eru að reyna að semja um þessi mál og m.a. um það, hvort þeir geti náð samstöðu um, hver skuli vera oddamaður í yfirnefnd.