29.10.1964
Neðri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (2383)

19. mál, lækkun skatta og útsvara

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um tvö meginatriði. Annað er um lækkun skatta og útsvara, sem álögð hafa verið í ár, hins vegar um endurskoðun á skipan skatta- og útsvarsmála.

Varðandi fyrra atriðið er rétt að rifja það hér upp, að í miðjum ágústmánuði rituðu Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja ríkisstj. og fóru fram á, að viðræður yrðu hafnar við fulltrúa þessara tveggja sambanda um, hvernig skatta- og útsvarsmálum hefði verið hagað á þessu ári. Ríkisstj. taldi sjálfsagt að verða við þessum tilmælum. Voru haldnir tveir viðræðufundir með fulltrúum ríkisstj. og þessara aðila. Á síðara fundinum náðist samkomulag um það, að tilnefndir yrðu 4 menn til þess að athuga alla möguleika á því að veita afslátt og frekari greiðslufrest á álögðum opinberum gjöldum og kanna nánar önnur þau atriði, sem fram höfðu komið í viðræðunum. Þeir, sem skyldu tilnefna þessa fulltrúa, voru ríkisstj., Samband ísl. sveitarfélaga, Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Þessir 4 menn, en það voru þeir Jónas Haralz, Páll Líndal, Árni Halldórsson, Guðmundur Ingvi Sigurðsson, tilnefndir í sömu röð og ég taldi aðilana áðan, tóku þegar til starfa og unnu að þessu af mikilli samvizkusemi og nákvæmni. Þeir hafa skilað mjög ýtarlegri grg. og skýrslu um þetta mál allt. Þeir hafa reynt að kanna það, hvernig útsvör og skattar hafa komið við ýmsa tekjuhópa úr ýmsum stéttum á þessu ári og athugað þróun þessara mála undanfarin ár. Þessi ýtarlega grg. þeirra verður væntanlega birt almenningi nú innan skamms tíma og skal ég ekki fara út í það mál frekar að sinni, en þó taka það fram, að allir þessir 4 menn urðu sammála um grg. og þær niðurstöður, sem þar fengust og tillögur.

Varðandi hitt atriðið, um endurskoðun útsvars- og skattalaga til frambúðar, er þess að geta, að ríkisskattstjóra var á sínum tíma falið að gera till. hér til endurskoðunar og breytinga á. Ég geri ráð fyrir, að innan skamms verði lagt fram á Alþingi frv. um breytingar á tekjuskattsl., sem ríkisskattstjóri hefur undirbúið. Útsvarsmálin hafa einnig verið í athugun, en áður en frv. um breytingar á útsvarsl. verður lagt fram, verður að sjálfsögðu haft náið samráð við Samband ísl. sveitarfélaga.

Það, sem þetta frv. fer fram á varðandi árið 1964 er, að allur tekjuskattur lagður á einstaklinga í ár skuli lækkaður um 7 þús. kr. á hvern gjaldanda, en einstaklingstekjuskattur, sem lægri er en 7 þús. kr., skuli felldur niður. Framtalsskyldir einstaklingar nú á þessu ári voru 84.550. Af þeim voru tekjuskattslausir 51.305. Tekjuskattur í ár var þannig lagður á 33.245 einstaklinga. Þegar reynt er að gera sér grein fyrir, hvernig þetta frv. mundi verka á tekjuskatt manna, kemur í ljós, að samkv. frv. mundu til viðbótar þeim, sem tekjuskattslausir eru þegar í landinu, rúm 51 þús., þá mundu rúmlega 24 þús. manns verða tekjuskattslausir til viðbótar, þ.e.a.s. þeir, sem hafa lægri skatt í ár, en 7 þús. En þeir, sem hafa yfir 7 þús. kr. í tekjuskatt, eru rúmlega 9 þús., en allir þeir eiga að fá afslátt, sem nemur þessari upphæð. Alls mundi þetta frv. hafa í för með sér lækkun á álögðum tekjuskatti í ár um ca. 125 millj. kr.

Varðandi útsvörin er gert ráð fyrir í 2. gr., að öll tekjuútsvör lögð á einstaklinga á árinu 1964 skuli lækkuð um 20%. Eftir þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir, má gera ráð fyrir, að tekjuútsvör einstaklinga álögð í ár séu um það bil 730 millj., e.t.v. rösklega það. Afslátturinn, sem hér er því lagt til að veittur verði, nemur upp undir 150 millj. kr. Það, sem þetta frv. felur þannig í sér að ríkissjóður taki að sér á þessu ári, er ýmist niðurfelling eða beinar greiðslur, sem nema samtals líklega um 275 millj. kr. Og þetta á að gerast á mánuðunum október-desember nú á þessu ári.

Varðandi það atriði, hvernig eigi að afla fjár til þessa mikla afsláttar og tekjurýrnunar, er farið heldur fljótt yfir sögu og lauslega í frv. Þar segir aðeins, að ríkissjóður skuli leggja jöfnunarsjóði sveitarfélaga þetta til. Og síðan segir á bls. 3 í grg. frv., með leyfi hæstv. forseta: „Ríkissjóður er þess vel megnugur að taka á sig þessa byrði.“ Þannig er það mál afgreitt.

Varðandi afkomu ríkissjóðs nú í ár hef ég nýlega við 1. umr. fjárl. gert grein fyrir því, að afkoma ríkissjóðs verður örðug á þessu ári og stafar það af þeim orsökum, sem ég greindi, sumpart að megintekjustofnar ríkissjóðs virðast ekki fara, a.m.k. neitt að ráði, fram úr áætlun á þessu ári og sumir þeirra verða undir áætlun, hins vegar hafa hlaðizt á ríkissjóð á þessu ári ýmsar greiðslur og það verulegar, sem ekki var gert ráð fyrir, þegar fjárlög voru afgreidd og á ég þar fyrst og fremst við niðurgreiðslur á vöruverði til þess að halda vísitölunni óbreyttri og er það auðvitað langstærsti útgjaldaaukinn, sem hér veldur líka mestu um. Það er því engan veginn hægt að gera ráð fyrir því, að ríkissjóður hafi á þessu ári nokkra möguleika eða bolmagn til þessarar tekjulækkunar og framlaga, sem þetta frv. fer fram á. Þvert á móti má segja, að það séu engar líkur til þess, að hann sé í ár eða verði aflögufær til þess.

Þá er spurningin, hvort mætti taka af greiðsluafgangi undanfarinna ára til að fá fé til þessara greiðslna, sem eins og ég rakti eru hátt á 3. hundrað millj. kr., nú fyrir áramót. Það er rétt, að ríkissjóður hefur haft allverulegan greiðsluafgang, bæði á árinu 1962 og 1963. Þeim greiðsluafgangi hefur þegar verið ráðstafað að töluvert miklu leyti. Er þess fyrst að geta, að lagðar voru 100 millj. í jöfnunarsjóð ríkisins samkv. l. frá 1932, sem ekki höfðu komið til framkvæmda fyrr, en tilgangur þessa sjóðs er sá, að í hann sé lagður greiðsluafgangur eða hluti af greiðsluafgangi ríkissjóðs og hann á að geyma til þess að mæta erfiðum árum, sem eftir lögmálum náttúrunnar venjulega koma öðru hvoru, hvort sem það yrði með aflabresti, ótíð, markaðstregðu, verðfalli eða af öðrum ástæðum okkur óviðráðanlegum. Það er engin heimild til þess í l. að taka þessar 100 millj. úr jöfnunarsjóði ríkisins og verja því til að lækka tekjuskatt og útsvar manna. Ef það er ætlunin að verja nú fé úr þessu í þessu skyni, þyrfti þetta frv. að sjálfsögðu að fela í sér slíka heimild, en hún er ekki í frv. En efnislega er það náttúrlega fráleitt og gersamlega gagnstætt tilgangi þessa sjóðs, ef í góðæri eins og nú er og veltiári á marga lund, þar sem næg er atvinna í landinu að undanteknum einstaka stað, sem vegna staðhátta eða tímabundins atvinnuleysis hefur orðið fyrir þungum búsifjum, en yfirleitt er hér góðæri í landi, mikill afli, miklu meiri þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur, en nokkru sinni fyrr og að fara að verja 100 millj. úr þessum sjóði nú til þess að lækka útsvör og tekjuskatt er gersamlega gagnstætt tilgangi sjóðsins og í rauninni óverjandi. Varðandi tekjuafgang ríkissjóðs að öðru leyti undanfarin ár hefur töluverðum hluta af honum verið varið til þess að greiða niður skuldir ríkisins og að því leyti búið að ráðstafa honum. Þetta hefur m.a. haft þau áhrif, að um undanfarin þrenn áramót hefur ríkissjóður ekki haft neinar lausaskuldir. Í þriðja lagi hefur verið lagt til af hendi ríkisstj. í fjárlagafrv. að verja 40 millj. til að grynna á vangoldnum framlögum til hafna og sjúkrahúsa, en eins og kunnugt er, hefur það verið um mörg ár og jafnvel áratugi þannig, að ríkissjóður hefur ekki greitt jafnóðum sín lögboðnu framlög eða sinn lögboðna hluta til þessara framkvæmda og er þessi ráðstöfun gerð m.a. til þess að reyna að lækka þessa skuld, ef má orða það svo, eða grynna á þessum vangoldnu framlögum. Að öðru leyti en þessu þrennu er greiðsluafgangur ríkissjóðs undanfarin ár rekstrarfé ríkissjóðs og nægir það þó hvergi nærri til, þannig að t.d. á þessu ári hefur ríkissjóður orðið mikinn hluta ársins að sækja verulegar upphæðir til rekstrar í Seðlabanka Íslands.

Það, sem þetta frv. felur í sér raunverulega, ef þetta er rakið sundur, er annaðhvort það, að þessar 275 millj. eigi að sækja í Seðlabankann sem viðbótarrekstrarfé til handa ríkissjóði og nota það til þessara hluta. Hvort það er hyggileg ráðstöfun fyrir efnahags- og atvinnukerfi landsins í heild að taka þannig upp undir 300 millj. kr. til viðbótar úr Seðlabankanum og dæla því út, það er svo annað mál og í rauninni býst ég ekki við, að neinn maður muni mæla með þeirri leið. Hin leiðin, ef á að taka þetta frv. alvarlega, hlýtur þá að vera sú, að leggja þurfi á nýja skatta til að afla fjár til þessara greiðslna. Og þá erum við komin að því, sem í rauninni er efni þessa frv., það er frv. um að lækka útsvör og skatta með því að leggja á nýja skatta. Að vísu hafa hv. flm. ekki gert tilraun til að leggja fram þær till., að leggja skuli á nýja skatta, en þegar málið er skoðað, er auðvitað engin leið til önnur en þessi, ef á að taka frv. alvarlega.

Það hefur löngum verið vinsælt að bjóða upp á brauð og leiki, og það má vel vera, að það verði vinsælt fyrir Framsfl. að bjóða rúmlega 24 þús. landsmanna að strika út tekjuskatt þeirra og bjóða svo öðrum 9 þús. upp á það að lækka þeirra tekjuskatt um 7 þús. kr., bjóða svo öllum landslýðnum upp á það að lækka útsvarið um fimmtung. Þetta er kannske vinsælt, en ég hefði nú haldið, að Íslendingar væru það hugsandi menn og hefðu þá ábyrgðartilfinningu, að þeir tækju svona hluti ekki fyrir góða og gilda vöru. Hins vegar tel ég sjálfsagt að taka því með þökkum, að hv. 1. flm. fullyrti að, að áliti Framsfl. gæti ríkissjóður vel tekið þetta á sig án sérstakra ráðstafana og felur það náttúrlega í sér mikla traustsyfirlýsingu til fjármálastjórnarinnar, sem skylt er að þakka. Hins vegar finnst mér ákaflega lítil þakklætiskennd koma hjá hv. 1. flm. í garð ritstjóra málgagns Framsfl., því að í sinni löngu ræðu hér er hann alltaf að vitna til stuðnings máli sínu í Morgunblaðið og Alþýðublaðið og Vísi, en sýndi ekki sínu flokksblaði og hinum ötula málsvara flokksins, sem veitir því blaði forstöðu, þann sóma að vitna til hans og finnst mér þetta ómaklegt, þegar það er athugað, hversu mjög hann hefur lagt sig í líma um að styðja þennan málstað.

Í sambandi við álagða skatta nú á þessu ári og útsvör mun gefast tækifæri til þess, þegar skýrsla fjórmenninganna verður birt, að taka það mál allt rækilega til athugunar og ég mundi telja, að sú nákvæma og samvizkusamlega rannsókn og grg., sem þar liggur fyrir, gefi réttari mynd af þessu, en ýmis þau blaðaummæli, sem hv. 1. flm. las hér upp í sinni ræðu. En varðandi þessi mál til frambúðar gefst tækifæri til að ræða þau öll ýtarlegar, þegar ríkisstj. leggur fram sín frv. til breytinga á tekjuskatts- og útsvarslögum.