03.11.1964
Neðri deild: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (2386)

19. mál, lækkun skatta og útsvara

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég mun hér gera að umræðuefni aðeins aðra hlið málsins, það er þá hlið, sem að sveitarfélögum landsins snýr, niðurjöfnun útsvara.

Ég hygg, að þm. sé öllum ljóst, að það er ekki á valdi Alþingis að ákveða útsvar hvers og eins, heldur eru það sveitarstjórnirnar hver fyrir sig, sem þar ráða. Það eru sveitarstjórnirnar, sem ákveða heildarupphæð útsvara á hverjum stað, og það er ákveðin leið, hve stóran hluta af tekjum sínum hver og einn gjaldandi í sveitarfélaginu verður að greiða. Það, sem að Alþingi snýr í því sambandi er, hvernig skipting útsvaranna verður innbyrðis í hverjum tekjuflokki og er það þar bundið af útsvarsstiganum, sem ákveðinn er í l. um tekjustofna sveitarfélaga. Er lög um tekjustofna sveitarfélaga voru sett og þá í fyrsta sinn lögbundinn útsvarsstigi til handa sveitarfélögunum að fara eftir, þá var þegar við þá breytingu að því stefnt að lækka útsvörin á hinum lægri tekjum. Allar breytingar, sem síðan hafa verið gerðar á þessum l., hafa miðað í þá átt, þessa sömu átt, að lækka útsvör á hinum lægri tekjuflokkum. Síðasta breytingin, sem gerð var á l. um tekjustofna sveitarfélaga á síðasta þingi, gekk enn frekar en áður, í þessa sömu átt, að lækka útsvör á hinum lægri tekjum, en hámark í útsvarsstigunum var látið halda sér 30%, eins og áður hafði verið.

Ég hafði aðstöðu til þess að fylgjast nokkuð með þeirri breytingu, sem gerð var á útsvarsl. á síðasta þingi og samkv. þeim upplýsingum, sem þar lágu fyrir, var það af fróðum mönnum um sveitarstjórnarmál talið mjög hæpið, að sveitarfélögin næðu til að geta jafnað niður þeim upphæðum, sem þær í sínum fjárhagsáætlunum höfðu ákveðið að útsvör skyldu vera, með stiganum og þeim breytingum til lækkunar, sem á honum voru gerðar þá, nema nota heimild l. um að leggja ákveðnar prósentur, allt að 20%, ofan á stigann í heild. Eftir niðurjöfnun kom það í ljós, að sums staðar hafði þetta farið , eins og óttazt var, að sum sveitarfélög náðu ekki í tekjurnar með útsvarsstiganum, heldur urðu að bæta ofan á hann, eftir að niðurjöfnun hafði verið lokið, til þess að geta náð út þeim tekjum, sem áætlað hafði verið að útsvörin ættu að gefa. Almennt mun hafa verið svo í kaupstöðunum, að nokkur afsláttur hafði verið gefinn á útsvörum, eftir að niðurjöfnun hafði átt sér stað og hygg ég, að meðaltal muni þar vera um 10%, þó að hafi borið við, eins og ég sagði áðan, að sum sveitarfélög gátu engan afslátt gefið, en urðu þess í stað að bæta við stigann.

Eftir því sem ég þekki til sveitarstjórnarmála og sveitarstjórnarmanna, er ég sannfærður um, að hver og ein sveitarstjórn hefur það ávallt að markmiði að þurfa ekki að leggja á hærri útsvör en frekast er hægt að komast af með, þannig að vilji er þá ábyggilega fyrir hendi að fara ekki lengra niður í vasa borgaranna, en sveitarstjórnirnar á hverjum tíma telja alveg nauðsynlegt. Okkur, sem lengi höfum staðið í sveitarstjórnarmálefnum, er ljóst, að um áratugabil hefur verið háð barátta af samtökum sveitarstjórnarmanna um að fá nýjan, óbeinan tekjustofn sveitarfélögunum til handa. Því miður höfðu stjórnir landsins ávallt daufheyrzt við þessum kröfum. Sveitarstjórnarmenn gerðu þetta að sjálfsögðu í tvennum tilgangi og þó náttúrlega aðallega í þeim tilgangi að hafa útsvörin hverju sinni eins lág og frekast væri kostur á og geta lækkað þau með óbeinum tekjustofni og einnig til þess að tryggja rekstur sveitarfélaganna, því að útsvörin höfðu fram að síðustu árum, vil ég segja, reynzt mjög hæpinn og oft erfiður tekjustofn, ef halda átti öllum greiðslum sveitarfélaganna í lagi og þau geta staðið í skilum, eins og af þeim var krafizt.

Það er fyrst þegar núv. ríkisstj. tekur við völdum hér á landi, sem þessum tilmælum sveitarfélaganna er sinnt. Það er í fyrsta skipti, sem þau hafa fengið nokkra fyrirgreiðslu hér á Alþingi. Það skref, sem stigið var með l. sem jöfnunarsjóð sveitarfélaga, varð sveitarfélögunum mjög til hagræðis, tryggði rekstur þeirra og aflaði þeim óbeinna tekna, sem þau lengi og ég vil segja, um áratugabil, höfðu þráð og höfðu farið fram á við stjórnarvöld landsins að þeim yrði séð fyrir. Nú eftir 4 ár er komin allveruleg reynsla á, hvernig þetta kemur út fyrir sveitarfélögin. Opinberar skýrslur um þetta, sem félmrn. hefur safnað árlega eftir niðurjöfnun útsvara hjá sveitarfélögunum sýna, að í kaupstöðunum mun þetta nema 15–20%. Þessar tekjur úr jöfnunarsjóði munu nema 15–20%, miðað við álögð útsvör. Í hinum smærri sveitarfélögum hefur breytingin orðið mun meiri. Það var á s.l. ári, 1963, við þá niðurjöfnun, sem þá fór fram og úthlutun úr jöfnunarsjóði, þá var það komið svo, að fjöldi sveitarfélaga, mjög stór hópur sveitarfélaga, var kominn að og í skerðingarmarkið, sem er í lögunum, þannig að þau voru komin í það að fá greidd 60% úr jöfnunarsjóði, miðað við álögð útsvör árið áður.

Það segir sig alveg sjálft, að fyrir hin smærri sveitarfélög hefur jöfnunarsjóður sveitarfélaga verkað mjög til hagræðis, tryggt þeirra fjárhag og skapað þeim aðstöðu til að þurfa ekki að leggja nema 2/5 hluta af gjöldum hreppsins á í útsvörum, miðað við það, að jöfnunarsjóður hefði ekki verið til. Og í kaupstöðum var þetta og er komið á það stig, að þeir fengu s.l. ár sennilega 15–20% úr jöfnunarsjóði, miðað við niðurjöfnun útsvara árið áður.

Ég held, að það sé óhætt að segja, að öll hin smærri sveitarfélög hafi á árinu 1963 haft aðstöðu til að veita verulegan afslátt frá hinum lögbundna útsvarsstiga, flest yfir 30–40%, jafnvel allt upp í 70–80%, þannig að aðeins 20% af útsvarsstiganum var notað hjá þessum sveitarfélögum, sem hæstan afslátt veittu.

Einnig hefur sveitarfélögunum nú í fyrsta sinn verið mætt af núverandi ríkisstj. í margra ára baráttu sinni fyrir ákveðnum tekjustofni til lagningar vega úr varanlegu efni. Þetta er búið að ganga í gegnum öll þing sveitarstjórna, ég vil segja síðustu 20–30 árin, en þessum kröfum hefur aldrei verið sinnt og þau aldrei fengið neina leiðréttingu í þessu fyrr, en nú við samþykkt vegalaganna á síðasta Alþingi.

Þá hefur einnig nú á síðustu árum af núverandi ríkisstj. verið komið á móts við þá margra ára kröfu sveitarfélaganna, að ríkissjóður tæki enn frekari þátt, en áður hafði verið, í kostnaði þeirra vegna lögreglumála. Og mun nú á þessu og á næsta ári vera svo komið, að sveitarfélögin fá endurgreiddan lögreglukostnað úr ríkissjóði, og skiptir þetta hin stærri sveitarfélög mjög miklu máli fjárhagslega séð.

Einnig var á s.l. þingi með þeirri breyt., sem gerð var á l. um sjúkrahús, mjög komið á móti tilmælum sveitarfélaganna um frekari styrk bæði hvað rekstur og byggingu sjúkrahúsa snertir.

Ég tel rétt, að þetta komi fram við þær umr., sem hér hafa orðið um það frv., sem hér liggur fyrir, því að allt þetta, sem ég hef bent á, er beint til þess að létta útsvarsbyrðinni af gjaldendum í hinum ýmsu sveitarfélögum landsins. Að sjálfsögðu er það markmið sveitarfélaganna, að jöfnunarsjóður verði enn efldur og honum útvegaðir frekari tekjustofnar, þó að það, sem þegar hafi verið gert, hafi að mínum dómi gerbreytt allri aðstöðu fyrir sveitarstjórnarmenn að starfa að sveitarstjórnarmálum, miðað við það, sem áður var, meðan sveitarfélögin höfðu útsvörin ein sem tekjustofn.

Ég tel mig hafa reynslu af þessu, af því að ég hef lifað sem sveitarstjórnarmaður báða þessa tíma og finn muninn á því, hvernig það er í dag að starfa að þessum málum hvað fjárhag sveitarfélaganna við kemur og hvernig það var áður. Og þar sem nú bregður svo við, að hér í þessari hv. d. liggur þetta frv. fyrir um lækkun skatta og útsvara og fleira, það er flutt af að mér sýnist öllum hv. deildarmönnum Framsfl. að tveimur undanskildum, þá væri fróðlegt fyrir þá, ekki síður en okkur, að rekja það nokkuð, hvað Framsfl. gerði fyrir sveitarfélögin, hvernig hann mætti þeirra kröfum, meðan hann hafði hér aðstöðu á Alþingi. Það er mjög fljótfarið yfir þá sögu, því að sannleikurinn er sá, að þar er ekkert, sem hægt er að benda á í þá átt, að þessi flokkur hafi nokkurn tíma orðið við nokkrum tilmælum sveitarfélaganna um úrbætur um aðstöðu til að geta létt útsvarsbyrðarnar á gjaldendum hinna ýmsu sveitarfélaga.

Mér er það kunnugt, að í a.m.k. einu sveitarfélagi, sem ég er kunnugur, var útsvarsstiginn ekki kominn í hámarkið 30%, hann var kominn í hámarkið 42% og náði þar allt niður í hæstu verkamannalaun. Ég hygg, að ef nú í ár eða á s.l. þingi hefði verið lögfestur slíkur útsvarsstigi, þá hefði margur fyrir því fundið. Ég bendi á þetta hér til að sýna fram á, að við þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið í þá átt að skapa sveitarfélögunum óbeinan verulegan tekjustofn, eins og nú er, hefur skapazt aðstaða til þess einnig að létta á útsvarsbyrðunum í hverju sveitarfélagi og á hverjum gjaldanda, þó að það að sjálfsögðu komi misjafnlega niður á hverjum stað, eins og ég hef bent á, þar sem í kaupstöðunum var á s.l. ári sennilega ekki afsláttur hærri en 10% að meðaltalí, en liggur þegar fyrir, þó að allar skýrslur séu ekki komnar inn frá hinum dreifðari sveitarfélögum og smærri hreppum, að þar er afslátturinn þegar kominn hjá sumum allt upp í 70%, almennt segir ráðuneytið mér 30% og þar yfir, en dæmi eru um, að afsláttur sé þar allt upp í 70%, þannig að ef ríkissjóður grípur nú inn og endurgreiddi 20% af þessu, þá mundu gjaldendur í þeim sveitarfélögum, þar sem afslátturinn er slíkur, aðeins greiða 10% af því, sem útsvarsstiginn ætlaði þeim að greiða.

Mér þótti rétt hér, vegna þess að hér er um frv. að ræða, sem Framsfl. eða þm. hans í þessari hv. d. standa nokkuð óskiptir að, að benda á þá staðreynd, sem liggur fyrir í þessum málum, að sveitarfélögin fengu aldrei og útsvarsgreiðendur aldrei neina leiðréttingu sinna mála, á meðan Framsfl. var og hét og réð um stjórn landsins.

Það segir í grg. með þessu frv., sem er að sjálfsögðu alveg rétt, að þetta 20% mark hafi verið sett inn í lögin vegna þess, að það væri svo auðvelt að reikna lækkun út eftir þeim leiðum. Þetta er sjálfsagt alveg rétt. Það er ákaflega auðvelt að draga 20% frá. Ég held, að flestir sveitarstjórnarmenn væru mjög vel færir um það. En spurningin er, hvort þetta sé í alla staði réttlátt.

Ég benti á það sem dæmi áðan, að afsláttur í hinum ýmsu sveitarfélögum er mjög misjafn, og þar sem hann kemst upp í 70%, hvort það væri þá réttlátt, að gjaldendur á þeim stöðum fengju einnig 20% afslátt. En það er þó annað, sem ég veit ekki, hvort flytjendur þessa frv. hafa athugað, að ég er ekki viss um, að þessi einfalda framkvæmd, sem þeir bera fram, mundi reynast svo í framkvæmd.

Ef við tökum dæmi af fyrirtæki, sem greiðir 200 þús. kr. í útsvar. Það er áður búið að hafa aðstöðu samkv. lögum að leggja 25% í varasjóð, það er einnig samkv. lögum. (Gripið fram í.) Það mun vera rétt hjá flm. Ég hafði farið fram hjá því. En þó, eins og ég benti á áðan, kemur þetta þegar misjafnt niður vegna hins misjafna afsláttar, sem gefinn er og vegna þess, hvað útsvarsstiginn er mishátt notaður í hinum einstöku sveitarfélögum.

En það er þó staðreynd, að þeir, sem hæstu útsvörin greiða, sem hæstu tekjurnar hafa og maður verður að ætla, að hægast eigi með að greiða útsvörin, maður, sem t.d. hefur það miklar tekjur, að hann greiðir 150 þús. kr. í útsvar, eins og dæmi eru víða um landið, hann mundi fá 30 þús. kr. í afslátt, þó að ég hyggi, að flestir séu sammála um, að hann ætti jafnvel hægara með að greiða sitt 150 þús. kr. útsvar en maður, sem greiðir 20 þús. kr. í útsvar af sínum tekjum, en fengi ekki nema 4 þús. kr. í

afslátt. Ég er því ekki alveg viss um, ef málið er skoðað til botns, hvort réttlætinu, sem hér er verið að prédika, mundi verða komið við eins og eðlilegt væri.

Ég hygg, þegar málið er skoðað eins og það liggur raunverulega fyrir og hér er sett fram í þinginu, þá sé hér, eins og raunar hefur áður verið bent á, um hreina sýndarmennsku að ræða hjá þeim flokki, sem það flytur. Okkur, sem að sveitarstjórnarmálum höfum starfað, hlýtur að detta það í hug vegna þeirrar reynslu, sem við höfum af afskiptum þessa flokks af sveitarstjórnarmálum hér á Alþingi á undanförnum áratugum. Ég ætla ekki að fara að rekja það. Fjmrh. gerði það í sinni ræðu, benti á, að ef þetta frv. ætti að koma að haldi fyrir útsvarsgreiðendur og sveitarfélögin, vantaði alveg fjárhagsgrundvöllinn fyrir því. Hann benti á atriði, sem liggur ljóst fyrir að ekki eru fyrir hendi. Það er ekki bent á neinar leiðir til að afla fjár til að lækka útsvörin, heldur aðeins bent á, að það megi fara í jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þannig lækka þau og ríkissjóður eigi í staðinn að útvega jöfnunarsjóðnum nýjar tekjur.

Fyrir alla, sem nokkuð þekkja inn í þessi mál og lesið hafa frv., liggur þetta auðvitað alveg ljóst fyrir, að svona verða mál ekki afgreidd. Ef þau eru borin fram í alvöru og ekki til að sýnast, þá hlýtur um leið að vera gerð grein fyrir og færð rök fyrir því, að þau ákvæði, sem í lögunum eru, séu framkvæmanleg. Og mér er nær að halda, að ef Framsfl. hefði verið í stjórnaraðstöðu nú og farið með fjárreiður í ríkis- stjórn, þá hefði frv. ekki komið fram a.m.k. hlýtur maður að ætla það, ef maður horfir til baka til afstöðu þessa flokks áður, sem eftir því sem ég hef reynslu af hefur ávallt verið neikvæð. Ég tel, að sveitarstjórnarmenn hljóti um land allt að fagna þeim breytingum, sem orðið hafa á þessum málum hjá hæstv. núv. ríkisstj., og fagna einnig, að Framsfl. skuli þar ekki hafa haft aðstöðu til að setja sitt dauðamark á og sína neikvæðu afstöðu, koma henni við, eins og ávallt var áður, meðan hann hafði nokkra aðstöðu til að ráða gangi mála.