05.11.1964
Neðri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2390)

19. mál, lækkun skatta og útsvara

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja að þessu sinni í tilefni af ræðu hv. 3. þm. Sunnl., bæði hér áðan og eins sem hann flutti fyrir 2 dögum.

Hv. 3. þm. Sunnl. brá upp mynd af mjög svo vinsamlegri afstöðu núv. ríkisstj. í garð sveitarfélaganna og nefndi því til sönnunar löggjöf, sem sett hefði verið á valdatímabili núv. hæstv. ríkisstj., svo sem löggjöfina um hlutdeild sveitarfélaganna í jöfnunarsjóðsgjaldi, löggjöfina um lögreglumenn, löggjöfina um vegalög og að síðustu löggjöf um sjúkrahús. Hv. 3. þm. Vesturl. (HS) kom inn á margt af því, sem hefði getað gefið tilefni til að ræða vegna ræðu hv. 3. þm. Sunnl. hér fyrir 2 dögum, og mun ég því láta það liggja kyrrt.

Mig langar til þess að víkja að einu atriði, bregða upp einni mynd, sem ég hygg að sé algerlega sönn og skýri það nokkuð vel, að sú vinsemd, sem hæstv. ríkisstj. hefur sýnt sveitarfélögunum með löggjöfinni um jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, er ekki svo stórkostleg, að hægt sé að halda um hana stóra ræðu, eða hún sé þess eðlis, að hún beri sérstakri vinsemd ríkisstj. í garð sveitarfélaganna mikinn vott. Það er staðreynd, að bæði hæstv. ríkisstj. og eins sveitarstjórnirnar verða að taka sínar tekjur fyrst og fremst með álögum á tekjur og eignir gjaldendanna. Ríkissjóður gerði þetta aðallega í formi aðflutningsgjalda og einnig að nokkru leyti í formi beinnar skattheimtu. Sveitarfélögin hins vegar hafa aðallega gert þetta með álagningu á tekjur gjaldenda, þ.e.a.s. bæði einstaklinga og félaga. Eins og öllum hv. dm. er vafalaust kunnugt, hefur skattheimta ríkissjóðs fyrir hvert ár ætíð komið á undan skattheimtu hinna einstöku sveitarfélaga og þar sem gjaldstofn bæði ríkissjóðs og sveitarfélaganna er að mestu leyti sá sami, þ.e.a.s. tekjur og eignir gjaldendanna, hlýtur það að liggja í augum uppi, að ef ríkissjóður eykur mjög verulega sína skattheimtu, hlýtur það að koma niður á möguleikum viðkomandi sveitarfélags til innheimtu á gjöldum sínum, því að þeim mun meira sem ríkissjóður tekur til sín frá borgurunum, þeim mun minna er eftir fyrir sveitarfélögin að leggja á til sinna eigin þarfa. Samkv. fjárl. 1958 var innheimt af landsmönnum eftir einni eða annarri leið um 804 millj. kr. í beinum og óbeinum sköttum til ríkissjóðs. En samkv. fjárlagafrv. fyrir árið 1965 er áætlað að innheimta 3 milljarða 212 millj. kr. Innheimta ríkissjóðs af landsmönnum hefur því frá árinu 1958 til ársins 1965 meira en fjórfaldazt á þessum 7 árum. Það, sem gerist einfaldlega, er svo það, að ríkissjóður með því að fjórfalda skattaálögur á gjaldendur í landinu hefur að sjálfsögðu með svo gífurlegri aukningu á skattaálögum getað gefið til baka til sveitarfélaganna nokkurn — mjög óverulegan hluta af þessari auknu skattheimtu sinni. Er málið er því grandskoðað, þá sést, að jöfnunarsjóðstillagið til sveitarfélaganna byggist á því, að ríkissjóður eykur stórkostlega skattheimtu sína á gjaldendur í landinu. Með því minnkar hann mjög verulega þá möguleika, sem sveitarfélögin hafa til innheimtu útsvara á gjaldendur í sveitarfélögunum og hann bætir það að nokkru upp með því að skila til baka hluta — mjög óverulegum hluta af þeirri gífurlegu skattaaukningu, sem hefur orðið í landinu á tímabili hæstv. núv. ríkisstj. Þegar málið er skoðað í þessu ljósi, sem ég hygg að sé sanngjarnt, þá hygg ég, að ekki sé af miklu að státa í sambandi við viðskipti hæstv. ríkisstj. og sveitarfélaganna í landinu. Það, sem gerzt hefur er, eins og ég sagði: Ríkissjóður gefur eftir hluta — mjög óverulegan hluta af þeirri auknu skattheimtu, sem hefur verið framkvæmd á yfirstandandi kjörtímabili.

Ég vil svo að endingu aðeins taka undir þá till. hv. 3. þm. Vesturl., sem hann kom með fram áðan, að sett verði á fót sérstök lánastofnun eða lánasjóður til að lána sveitarfélögum úr til framkvæmda. Ég hef um nokkurra ára skeið átt sæti í bæjarstjórn og hef fylgzt með gangi mála í því bæjarfélagi, sem ég er búsettur í og ég þori að fullyrða, að þótt oft hafi verið þar erfitt um fjármagn til framkvæmda og þröngt fyrir dyrum; þá hygg ég, að það hafi aldrei verið í svipuðum mæli eins og nú og svipaða sögu held ég, að ýmsir aðrir sveitarstjórnarmenn geti sagt. Ég held því, að það sé mjög aðkallandi mál, að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir því, að á fót verði komið einhvers konar lánastofnun, sem láni til sveitarfélaganna til þeirra framkvæmda, sem þau þurfa að standa í, á hverjum tíma.