05.11.1964
Neðri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (2393)

19. mál, lækkun skatta og útsvara

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. kemur með þær upplýsingar nú, að tekjuskattur verði líklega ekki nema 265 millj. á þessu ári, en hann er búinn að skýra frá því í grg. með fjárlagafrv., að skatturinn verði á næsta ári að óbreyttum lögum um 600 millj. Hvernig víkur þessu við? Er hægt að fá nokkra skýringu á þessu núna? Mér sýnist, að þetta stangist eitthvað.

Í fyrradag var hv. 3. þm. Sunnl. að ræða um frv., sem hér er til umr. og þ. á m. um afslátt af útsvörum. Hann nefndi dæmi um það, að ef eitthvert sveitarfélag hefði notað 30% af skattstiganum og svo yrði þetta frv. samþ., þar sem ætti að gefa eftir 20%, þá væru ekki eftir nema 10%. Ja, mér datt í hug vísan: „Þegar dragast þrír frá sex, þá eru eftir fjórir“. Hvernig reikna þeir í Vestmannaeyjum þetta? Mér skilst, að ef einhver gjaldandi hefði átt að borga 10 þús. kr., ef útsvarsstiginn væri allur notaður, ætti hann að greiða 3.000 kr., ef 30% af honum er notað, og ef svo ætti að lækka þessar 3.000 kr. um 20%, þá fæ ég ekki út nema 600 kr. afslátt. En hv. þm. komst að því, að þá væru bara 1.000 eftir. Er ekki einhver skekkja í þessum reikningi hjá honum eða hefur hann misskilið frv.? Ég held, að það sé ekki hægt að láta þessar umr. fara svo fram að leiðrétta ekki svona skekkjur, að 20% afsláttur af útsvari þýðir ekki 20 þús. af 30 þús. eða 2 þús. af 3 þús. Þetta hélt ég að þyrfti ekki bæjarstjóra til þess að reikna.