10.11.1964
Neðri deild: 13. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2403)

36. mál, hafnargerð

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Það mun hafa verið árið 1958, sem Alþingi ályktaði að fela ríkisstj. að láta í samráði við vitamálastjóra endurskoða gildandi lagaákvæði um skiptingu kostnaðar við hafnargerðir milli ríkis og sveitarfélaga. Enn fremur var í þál. gert ráð fyrir að endurskoða lög um landshafnir og ýmis önnur atriði laga um hafnargerðir, er ástæða þætti til að breyta að fenginni reynslu, og sömuleiðis var þar samþykkt, að gerð skyldi 10 ára áætlun um hafnarframkvæmdir.

Ríkisstj. fól á sínum tíma atvinnutækjanefnd, er þá var starfandi, ásamt vitamálastjóra að framkvæma þetta verk. Ég ætla, að það hafi verið haustið 1961, sem þessu verki var lokið og ríkisstj. þá afhent frv. til nýrra hafnarlaga og sömuleiðis áætlun sú, sem ég nefndi áðan. Nú hefur ekki orðið af því enn þá, að ríkisstj. hafi lagt fyrir Alþingi frv. til nýrra hafnarlaga. Frv. það, sem samið var á sínum tíma, hefur verið í athugun síðan hjá ríkisstj. eða hlutaðeigandi ráðuneyti. Það hefur sem sé ekkí orðið af því enn þá, að það eða annað frv. til nýrra hafnarlaga yrði lagt fram, en vera má, að það verði gert.

Hins vegar virðist okkur flm. þessa frv., að þó að ekki sé samþykkt ný heildarlöggjöf á þessu sviði, þá sé orðið aðkallandi að breyta a.m.k. til bráðabirgða, þangað til ný hafnarlöggjöf yrði sett, sumum ákvæðum í hafnarlögum. Og það, sem við eigum við í því sambandi, eru ákvæðin um skiptingu kostnaðar við hafnargerðir milli ríkisins og hafnarsjóðanna eða þeirra sveitarsjóða, sem standa að hafnargerð á hverjum stað. Og frv. það, sem við höfum lagt fram á þskj. 37, fjallar eingöngu um þetta atriði. Ef það frv. yrði að l., gerum við ráð fyrir, að það mundi verða í gildi ásamt hinum eldri hafnarlögum, þangað til hér á Alþingi yrði sett ný heildarlöggjöf, sem mætti þá fella inn í þau ákvæði, sem í þessu frv. felast eða önnur ákvæði.

Samkv. gildandi lögum er skiptingin á kostnaðinum milli ríkisins og hafnarsjóðanna yfirleitt þannig, að hlutaðeigandi hafnarsjóður eða sveitarfélag, sem þarna á hlut að máli, á að leggja fram 60% af kostnaðinum, en ríkið 40%. Frá þessu eru undantekningar í sambandi við þau hafnarmannvirki, sem ekki hafa kostað meira en tiltekið er í l., en þá er hluti ríkisins nokkru meiri eða 50%. En hin almenna regla er þetta, að hafnarsjóðirnir leggja fram 60% og ríkið 40%.

Við erum þeirrar skoðunar, að þessu verði að breyta. Það hefur sýnt sig, að mjög víða eru hafnarsjóðirnir eða sveitarfélögin ekki þess megnug að standa undir þeim skuldum, sem á þeim hafa hvílt vegna mannvirkjagerðar. Fjár til þess að greiða hluta hafnarsjóðanna hefur að jafnaði verið að verulegu leyti aflað með lántökum og ríkið hefur gengið í ábyrgð fyrir lánunum. Þegar hafnarsjóðirnir hafa svo ekki getað greitt af lánunum vexti og afborganir, þá hefur ríkissjóður orðið að greiða og á þann hátt hafa safnazt fyrir skuldir, sem í seinni tíð hefur verið reynt að semja um á þann hátt. að hafnarsjóðirnir hafa undirritað ný skuldabréf. En í raun og veru er það ekki nein lausn á þessu máli. Sannleikurinn er sá, að mjög víða er svo ástatt, að það er engin von til þess, að hlutaðeigandi byggðarlag geti staðið undir það miklum hluta af hafnargerðarkostnaðinum, sem því er ætlað að bera, a.m.k. ekki á meðan mannvirkjum er ekki lokið. Það er nú svo víða hér á landinu, að þessi hafnarmannvirki eru í smíðum. Þeim er að meira og minna leyti ólokið og meðan svo er, er ekki að búast við því, að þau hafi þau áhrif til eflingar atvinnulífi á hlutaðeigandi stöðum, sem til þess þarf, að von geti verið til þess, að hafnarsjóðirnir hafi tekjur til að standa undir verulegum skuldbindingum. Það er því skoðun okkar, að það sé miklu réttara að breyta hér til og að ríkið taki beinlínis að sér að greiða stærri hluta af hafnargerðarkostnaðinum og yrði það þá e.t.v. til þess, að minna yrði um það, að hafnarsjóðir gætu ekki greitt af lánum og einnig mundi það að sjálfsögðu létta undir með hafnarsjóðum eða sveitarfélögunum við þessar framkvæmdir almennt.

Í núgildandi lögum um hafnargerðir og lendingarbætur eru taldir upp þeir staðir, þar sem gert er ráð fyrir að ríkið leggi fé fram til hafnareða lendingarbóta, að því tilskildu, að framkvæmdir séu samþykktar af vitamálastjóra. Þessar framkvæmdir eru í l. greindar í tvennt, annars vegar það, sem kallað er í l. hafnir og það, sem kallað er í l. lendingarbætur. Hafnirnar eru alls samkv. l. 35, en lendingarbætur 78, að ég ætla, þannig að hér er samtals um 113 staði að ræða, sem taldir eru upp í hafnarl. Hins vegar fer því fjarri, að um hafnar– eða lendingarbótaframkvæmdir hafi verið að ræða á öllum þessum stöðum. Þeir staðir eru allmargir, þar sem aldrei hefur verið framkvæmt neitt og á sumum stöðunum hafa framkvæmdir ekki verið miklar. En eigi að síður, þótt e.t.v. megi telja, að tilgreindir séu í l. fleiri staðir, en líklegt sé að hér komi til álíta í reynd sem hafnarstaðir, þá eru þær hafnir eigi að síður mjög margar, sem þarf að byggja hér á landi. Og það er víst óhætt að segja það, að í ákaflega mörgum byggðarlögum er það beinlínis eitt frumskilyrði fyrir eflingu atvinnulífs, að unnt verði að koma upp sæmilega viðunandi höfnum. Landsbyggð er nú þannig hér á landi eða hefur þróazt þannig á síðustu öldum, að myndazt hafa þéttbýlisstaðir við firði og víkur, þar sem helzt eru hafnarstæði og mið nálæg og þessir hafnarstaðir eru víðast eins konar miðstöðvar eða það, sem menn nú vilja kalla þéttbýliskjarna, í hlutaðeigandi byggðarlögum. Það er mjög mikilsvert fyrir landsbyggðina, að þessir staðir eflist og verði ekki fyrir áföllum, að þar eigi sér ekki stað hnignun í atvinnulífinu, sem verður til þess að fólk flyzt brott, því að þá er byggðarlagið allt í hættu. En þetta, að atvinnulíf og byggð eflist á þessum stöðum, er víða ákaflega mikið komið undir hafnarmannvirkjunum. Það er nú svo, að það má segja, að nokkuð víða séu hafnirnar vel á veg komnar. En víðast hvar er það samt svo, að mikið vantar á, að þær séu komnar í það horf. sem gert hefur verið ráð fyrir og annars staðar eru þessi mannvirki skammt á veg komin.

Í sambandi við þessa þörf á hafnargerð almennt hér á landi teljum við flm. í sjálfu sér þörf meiri aðgerða, en felast í þessu frv., t.d. að meiri möguleikar verði skapaðir til útvegunar lánsfjár almennt og að öðruvísi fyrirkomulag yrði upp tekið en það, sem er nú í þeim efnum. En við höfum ekki tekið til meðferðar að þessu sinni nema þetta eina atriði, sem er líka mest aðkallandi og um það fjallar frv.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að lokinni þessari umr., að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.