10.11.1964
Neðri deild: 13. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2404)

36. mál, hafnargerð

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. frsm. þessa máls, að árið 1961, í árslokin, skilaði nefnd, sem sett hafði verið til að athuga þessi mál, álíti sem síðan hefur verið til athugunar í samgmrn. Ég vildi aðeins skýra frá því, að þó að nokkur dráttur hafi orðið á því að bera frv. fram hér um þessi atriði, þá er það ekki vegna þess, að rn. hafi gefið málið frá sér á neinn hátt, heldur hefur það verið til athugunar hjá ýmsum aðilum, sem þetta mál snertir og rn. hefur ekki enn þá gengið frá því á þann hátt, að það væri tilbúið til að leggja fram um það frv., en að því hlýtur að draga innan mjög skamms tíma. En ég vildi aðeins segja frá því, í hverju þeir erfiðleikar liggja fyrst og fremst, sem hafa orðið þess valdandi, að um þetta hafa þurft að fara fram allvíðtækar umr.

Ég vildi segja, að í fyrsta lagi væru erfiðleikarnir þeir, að möguleikar sveitarfélaganna til þess að taka þátt í kostnaði við þessa mannvirkjagerð eru mjög mismunandi. Þeir eru allt frá því að vera, ef ég svo má segja, engir upp í það að geta sæmilega vel staðið undir kostnaðinum í þeim hlutföllum, sem gert er ráð fyrir með núverandi hafnarlögum, þ.e.a.s. að viðkomandi sveitarfélag standi undir 60% af kostnaðinum, en ríkissjóður greiði 40%. Sumar hafnir komast vel af með þessa skiptingu á kostnaðinum og geta staðið undir sínum hluta. Aðrar hafa aftur litla eða enga möguleika til að gera það, en hafa þó svo sannarlega þörf fyrir framkvæmdina. Það er og verður sjálfsagt erfitt að „gradera” þessi framlög heimabyggðarinnar, svo að öllum líki, en það þarf samt að gera, til þess að þeim sé ekki ofboðið á neinn veg með hóflegri mannvirkjagerð og ekki heldur hitt, að þau noti ekki það fé, sem inn kemur í hafnarsjóðinn, til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem þeim eru ætluð. Möguleikarnir í þessu efni eru mjög mismunandi hjá hinum ýmsu stöðum og ég tel mig hafa séð fram á, að það sé ekki hægt að hafa alla undir sama hatti. Það er ekki langt síðan, það eru aðeins nokkrir dagar, að til mín barst málaleitun um það að beita mér fyrir því, að fé yrði veitt á fjárl. til lendingarbóta á stað, sem hér er ekki langt í burtu, þ.e.a.s. ekki alveg í næsta nágrenni, en þeirri beiðni fylgdi það, að heimabyggðin mundi ekki geta greitt til þessara framkvæmda einn einasta eyri, og ég hygg, að það sé rétt, því að þar er aðeins um litið sveitarfélag að ræða með örfáum íbúum. Þetta er eitt af því fyrsta, sem þarf að taka til athugunar og reyna að fá einhvern mælikvarða á, eftir því sem mögulegt er og það hefur valdið nokkrum erfiðleikum að finna hann, þó að ég vilji engan veginn segja, að það sé útilokað að gera það, en það verður að gera það, þó að sjálfsagt líki ekki öllum sú niðurstaða, sem fæst eða verður gerð till. um.

Annað atriði, sem er líka ákaflega þýðingarmikið í þessu sambandi, er, að hinar ýmsu gerðir hafnarmannvirkja gefa af sér mismunandi tekjur. Sum hafnarmannvirki gefa tekjur mjög fljótlega, eins og viðlegupláss og þess háttar. Þau skila fyrst af öllum hafnarmannvirkjum þeim tekjum, sem ætla má að nægi til þess, að heimabyggðin geti staðið undir sínum hluta. Aftur eru önnur mannvirki, sem engar tekjur gefa, við skulum segja eins og öldubrjótar, eins og dýpkun yfirleitt, þó að hana megi náttúrlega sums staðar taka í samhengi með viðlegubryggjum, en yfirleitt eru dýpkunarframkvæmdir þannig, að það er ekki hægt að reikna af þeim sérstaklega nein hafnargjöld. Þetta gerir það að verkum, að það er ekki auðvelt að setja þessi hafnarmannvirki öll undir sama greiðsluhlutfall úr ríkissjóði, enda kom það fram í till. atvinnutækjanefndar, að hún lagði til, að ríkisframlögin yrðu nokkuð mismunandi eftir því, hver mannvirkin væru, sem kæmu til framkvæmda. Þá hefur enn torveldað framkvæmdir, vil ég segja, að ríkissjóður hefur verið mjög á eftir með greiðslu á sínum hluta og hefur safnazt fyrir ógreiddur hali, sem hefur valdið byggðarlögunum talsverðum erfiðleikum. Auk vaxtagreiðslna af þessum upphæðum hefur líka leitt af þessu, að sveitarfélögin hafa ekki getað aflað sér þeirra nauðsynlegu lána, sem þau hefðu þurft að gera til þess að koma verkunum í framkvæmd. Nú hefur að verulegu leyti úr þessu rætzt, eins og hv. alþm. hafa séð, þar sem lagt er til á fjárlagafrv. núna, að það verði veittar af greiðsluafgangi ársins 1963 20 millj. í því skyni að greiða upp í ógreiddar eftirstöðvar ríkissjóðs af hafnargerðarkostnaði. Þessi upphæð hjálpar áreiðanlega mjög verulega til og gerir það að verkum, að ógreidda upphæðin úr ríkissjóði verður orðin tiltölulega miklu minni, en hún var og ekki meiri en svo, að vel má hugsa sér, að sjáist fyrir endann á henni innan ekki mjög langs tíma.

Þetta eru þeir aðalerfiðleikar, sem við hefur verið að fást í sambandi við greiðslu hafnargerðarkostnaðarins, bæði vanmáttur ýmissa sveitarfélaga, mismunur í mannvirkjum og ógreidd framlög ríkissjóðs. Þetta verður sjálfsagt allt tekið til meðferðar í væntanlegu frv. að nýjum hafnarlögum.

Þá hefur vitamálaskrifstofan gert 10 ára áætlun um framkvæmdir og er höfð hliðsjón af þeirri áætlun um þau mannvirki, sem ákveðið er að byggja nú á hverjum tíma.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að framlag ríkissjóðs verði hækkað úr 40% upp í 65% á fyrstu 3 millj., sem varið er til hafnargerðarkostnaðar. En mér skilst þá, að það, sem umfram kynni að verða 3 millj., verði áfram greitt á sama hátt og nú er gert, með 40% úr ríkissjóði og 60% frá viðkomandi sveitarfélagi. Þetta er sjálfsagt hugsað sem bráðabirgðalausn og sem slíka hef ég sjálfsagt út af fyrir sig ekkert við hana að athuga, en ef okkur tækist að koma hafnarlögunum fram núna eða leggja fram hafnarlagafrv. tiltölulega fljótlega, vildi ég, að þau yrðu tekin til athugunar í sambandi við afgreiðslu þessa máls eða réttara sagt, þetta mál yrði tekið fyrir í sambandi við afgreiðslu þess, ef þessar bráðabirgðaráðstafanir þá reynast nauðsynlegar, eftir að það hefur verið lagt fram.