10.11.1964
Neðri deild: 13. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (2405)

36. mál, hafnargerð

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra það af munni hæstv. ráðh., að hafnarlögin séu í athugun hjá rn. og trúnaðarmönnum þess. Og ég skildi hans ummæli á þá leið, að fyrr eða síðar sé að vænta frá ríkisstj. frv. til nýrra hafnarlaga. Ég vildi þá mega vænta þess, að ef dráttur verður á því, að frv. komi fram, þá geti tekizt samstarf milli okkar flm. þessa frv. og hæstv. ráðh. um framgang þessa frv., sem hér liggur fyrir, því að það er aðkallandi að breyta ákvæðunum um kostnaðarhlutföllin.

Það getur verið, að ég hafi misskilið hæstv. ráðh., en mér virtist, að hann hefði lagt þann skilning í frv., sem ekki er í samræmi við efni þess, eins og sjá má af grg. frv. Skal ég þess vegna skýra nokkru nánar það, sem frv. fjallar um, en ég fór ekki langt út í það í framsöguræðu minni áðan.

Frv. er um það, að framlag ríkisins til þeirra mannvirkja, sem þar eru talin, verði 65%, en framlag hafnarsjóðanna 35%. Auk þess gildir þessi regla um þá staði, þar sem framkvæmdakostnaður er enn ekki kominn fram úr 3 millj. kr. Hér er í raun og veru aðeins um að ræða breytingu á ákvæði, sem þegar er í hafnarlögum, það er sem sé ákvæði í hafnarlögum um það nú, að á stöðum, þar sem framkvæmdakostnaður er ekki kominn yfir 1.6 millj. kr., skuli hluti ríkisins vera hærri, en til annarra staða. Og það er þetta ákvæði, sem við tökum þarna upp, en setjum í frv. 3 millj. í staðinn fyrir 1.6 millj., þannig að ákvæðið nær til staða, þar sem framkvæmdakostnaðurinn er ekki kominn í nema 1.6 millj. kr. En ég geri ráð fyrir því, að það sé ljóst eða geti verið ljóst, að þannig getur staðið á, á sumum stöðum, að þar sé verið að byrja á lendingarmannvirkjum og þá ekki að öllu leyti einmitt á þeim mannvirkjum, sem annars eru nefnd í frv., það sé ekki verið að byggja hafnargarð eða bátakví eða afgreiðslubryggju eða að um dýpkun sé að ræða. Það getur verið um framkvæmdir af öðru tagi að ræða. Og ég hef einmitt ákveðna staði í huga, þar sem lendingarbótaframkvæmdir eru með öðru móti að nokkru leyti og við það á þessi málsl. um það, að 65% reglan skuli ná „enn fremur til fyrstu framkvæmda á hverjum stað”, auk þess sem hún nær til þeirra mannvirkja fyrst og fremst, sem tilgreind eru í frvgr.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, enda þekkir hann manna bezt til þessara mála, ekki aðeins sem hafnarmálaráðh., heldur sem embættismaður ríkisins um áratugi á þessu sviði, — alveg rétt hjá honum, að geta hafnarsjóðanna til þess að standa straum af stofnkostnaði, sem taka verður að láni, er mjög mismunandi. Ég ætla, að í hafnarlögunum sé e.t.v. gert ráð fyrir vissum möguleika til að taka tillit til þessa mismunar. En ákvæði frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 37, er einmitt við það miðað, að þátttaka ríkisins sé mest og á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, í sambandi við hin nauðsynlegustu mannvirki, þau mannvirki, sem í raun og veru má kalla undirstöðumannvirki í hverri höfn og við gerum þá auðvitað ráð fyrir því, að þegar slíkum mannvirkjum er lokið, þá taki okkar frv. ekki til þeirra mannvirkja, sem síðar koma. T.d., ef byggðar eru stærri hafnarbryggjur með lengri leguköntum, en gert er ráð fyrir í frv., þá gildi um það hinar almennu reglur hafnarl. Mundi þetta þá í reyndinni verða þannig, að þeir staðir, þar sem mikið er um að vera, ef svo mætti segja, og tekjumöguleikar mestir og þá af eðlilegum ástæðum og öðrum fremur mundu leggja út í það að byggja út hafnirnar, auka hafnarmannvirkin, mundu ekki falla undir þessi ákvæði, sem hér er um að ræða, með þau mannvirki, heldur aðeins með undirstöðumannvirkin. Með þessu er í rauninni að nokkru leyti haft í huga það sjónarmið, sem hæstv. ráðh. skýrði hér frá áðan. Það er alveg rétt, að hafnarmannvirki eru misjafnlega fljót að skapa tekjuauka fyrir hafnarsjóðina. Og það er líka rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að möguleikar sumra staða til þess að leggja fram fé til hafnarmannvirkja eru mjög litlir. Ég get ákaflega vel trúað því, að einhver sveitarstjórn hafi komið til hans og sagt, að hún þyrfti að bæta hjá sér hafnarskilyrðin, en hefði í raun og veru ekki peninga til að leggja fram til þess. Ég er ekki svo mjög undrandi yfir þessu, því að ég veit, að það er víða svo og líka mjög eðlilegt, að sveitarfélög hafa í raun og veru mjög litið eða stundum ekkert fé haft til slíkra framkvæmda, heldur orðið að taka það að láni. Þetta er náttúrlega mjög skiljanlegt, þegar athugað er annars vegar, hve dýr þessi mannvirki eru, — þetta eru yfirleitt milljónafyrirtæki, — og hins vegar, hve litlir tekjuöflunarmöguleikar hinna fámennari sveitarfélaga eru. En það er von manna á þessum stöðum, sem vilja ráðast í hafnarframkvæmdir og það er von okkar allra, sem höfum áhuga á því, að hafnarframkvæmdir verði sem mestar í landinu, að þessar framkvæmdir, þegar þeim er lokið, hafi í för með sér eflingu atvinnulífsins, beina eða óbeina, á hverjum stað og að þá muni um leið tekjur hafnarsjóðanna aukast meira eða minna og þeir verða a.m.k. betur færir um að standa straum af stofnkostnaði hafnanna heldur en þeir eru, á meðan þær eru í smíðum.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. En ég vildi, af því að mér fannst vera tilefni til þess, skýra nánar efni frv., en annars segja það, að það gleður mig, að þetta mál í heild skuli vera í athugun á vegum ráðuneytisins.