12.11.1964
Neðri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2410)

44. mál, menntaskóli Vestfirðinga

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá þeim flm. þessa frv., sem hafa talað hér á undan mér, hefur þetta frv. verið flutt í átta skipti hér á hv. Alþingi, fyrst 1946 og síðan 1947 og 1948 í því formi að breyta lögum um menntaskóla, að menntaskólar á landinu skyldu þá verða fjórir: í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði og að Eiðum, og svo aftur síðar, þegar málið var flutt næst á Alþingi, 1959, þá var frv. flutt sérstaklega og í líku formi og nú um menntaskóla á Vestfjörðum, staðsettan á Ísafirði.

Það er mikið talað um nauðsyn þess, að fólkið, sem landið byggir, þjappist ekki allt saman hér í Reykjavík og í næsta nágrenni hennar og það þurfi að gera margvíslegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir það með því að jafna sem mest aðstöðumuninn. Þessum aðgerðum hefur því miður miðaið hægt áfram og þá ekki sízt á sviði menntunar, eftir að barnaprófi lýkur í sveitum úti um landið og gagnfræðaskólaprófi í kaupstöðum úti á landi, að Akureyri undanskilinni. Á Alþingi í fyrravetur urðu miklar umr. um þessi frv., sem þá voru flutt um menntaskóla, bæði frv. um menntaskóla í Reykjavík, frv. um menntaskóla á Ísafirði og frv. um menntaskóla Austfirðinga að Eiðum. Við 2. umr. þess máls komu fram raddir gegn menntaskóla bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum, en 2. umr. lauk ekki, málið var tekið af dagskrá og við vorum þá nokkrir á mælendaskrá, sem ekki höfðum tækifæri til að láta í okkur heyra þá. En það er sami háttur og hafður hefur verið á frá upphafi, að þetta mál hefur ekki fengið þinglega afgreiðslu og við það verður ekki hægt að sætta sig lengur, að mál, sem búið er að flytja í átta skipti, fái ekki þinglega afgreiðslu á Alþingi Íslendinga.

Þessar raddir, sem þá komu fram gegn menntaskóla á Vestfjörðum og Austfjörðum, töldu, að fólk flytti ekki búferlum vegna þess, að menntaskóli væri ekki á þessum stöðum. Ég skal segja þeim mönnum það, sem þessu halda fram, bæði hér á Alþingi og utan þess, að í mínum heimabæ, þar sem ég er fæddur og uppalinn og hef átt heima alla tíð, þekki ég þessi mál jafnvel og betur, en aðrir utan þess staðar og ég veit til þess, að það eru ekki einn eða tveir tugir af fjölskyldum, sem hafa á þessum áratugum yfirgefið bæinn af þessum ástæðum, heldur tugir fjölskyldna. Við vitum, að þegar verkamannafjölskylda, sjómanna- eða iðnaðarmannafjölskylda er að senda 2–3 börn sín til framhaldsnáms í menntaskóla, þá er uppihaldskostnaður barna eða nemenda það mikill, að þessar fjölskyldur geta ekki styrkt nemendur, eins og lengi vel var, þegar var litið um atvinnu og litlar tekjur hjá þessu fólki og sömuleiðis enn í dag. Þess vegna var það nauðsyn, að foreldrarnir flyttu einmitt hingað til Reykjavíkur, til þess að börn þeirra gætu stundað þetta nám, gætu verið heima á heimilinu, fengið þar bæði að borða og vera, til þess að spara útgjöld fyrir fjölskylduna. Þess vegna má segja, að þetta mál hefur orðið til þess að gera það að verkum, að fleira fólk hefur flutzt í burtu, en ella hefði orðið.

Það getur verið, að þið, sem búið í Reykjavík, og þið, sem hafið þessa aðstöðu, skiljið kannske síður tilfinningar þessa fólks. En ég hef séð það, að þegar nemendurnir heima úr mínu byggðarlagi eru að hverfa að haustinu til framhaldsnáms í menntaskólum landsins, verzlunarskólum og í margs konar tækninám, þá er tómlegt heima á eftir.

Við 1. umr. þessa máls ætla ég ekki að tala miklu lengra mál. En ég vil aðeins minna í örstuttu máli á þær staðreyndir, að fólkinu í landinu fjölgar og þeim, sem vilja stunda langskólanám, fjölgar hlutfallslega enn meira, en fólkinu í landinu, því að alltaf eru það fleiri og fleiri, sem eru að fara út í langskólanám, því að kröfur til náms eru alltaf að verða háværari og háværari. Fram undan er því mjög aðkallandi annaðhvort að stækka menntaskóla eða byggja nýja eða hvort tveggja. Það er því kominn tími til þess, að landsfjórðungur, sem borið hefur fram sínar óskir um menntaskóla hér á hv. Alþingi í tæplega tvo áratugi, fái nú afgreiðslu á þessu máli. Á Vestfjörðum ríkir almennur áhugi og samhugur meðal allra manna, hvar í stjórnmálaflokki sem þeir eru, fyrir þessu máli og mér er kunnugt um það, að í öllum hreppum Vestfjarða fara nú fram undirskriftasafnanir um áskorun til Alþingis að samþykkja þetta frv. um menntaskóla á Vestfjörðum. Mér finnst rétt að segja frá því hér strax við 1. umr., þó að þessar undirskriftir séu ekki komnar, en þær eru almennar og það er almennur vilji hvar sem er á Vestfjörðum fyrir þessu máli.

Nú kunna einhverjir að segja: Er það lausn á námi þeirra Vestfirðinga, sem eru lengst frá Ísafirði, þótt menntaskóli sé þar stofnaður? Geta þeir ekki alveg eins haldið áfram að fara norður til Akureyrar þangað sem flestir Vestfirðingar hafa farið? Ég vil við það bæta, að í menntaskólanum á Akureyri eru nú í vetur um 440 nemendur, þar af eru 176 nemendur í heimavist og 280 nemendur í mötuneyti menntaskólans. Allt þetta er fullsetið og það er ekki hægt að taka við fleiri nemendum og hefur orðið að neita fjölmörgum nemendum um pláss í heimavistinni nú í vetur. Sá mikli skólamaður, skólameistari menntaskólans á Akureyri, er þeirrar skoðunar, að það sé ekki æskilegt að stækka menntaskólann á Akureyri frá því, sem nú er. Liggur því ekki næst að stofna til menntaskóla í þeim landsfjórðungum, sem engan menntaskóla hafa? Á s.l. vetri voru á milli 40 og 50 nemendur frá Vestfjörðum í menntaskólanum á Akureyri og auk þess nokkuð af nemendum í öðrum menntaskólum landsins. Það þarf því ekki að vera að byggja á öðrum stöðum fyrir þá. En við þurfum einnig að byggja heimavist á Ísafirði fyrir þá nemendur, sem koma að, það skulum við gera okkur ljóst í upphafi og engan blekkja á því sviði.

Ég vil segja sem Ísfirðingur, að Ísfirðingar mundu við stofnun menntaskóla greiða ákveðið skólagjald, sem yrði varið til að greiða niður kostnað fyrir aðra Vestfirðinga, sem þurfa að kosta börn sín í menntaskólanum á Ísafirði. En það er atriði, sem við höfum ekki heyrt frá öðrum stöðum, þar sem menntaskólar hafa starfað í marga áratugi.

Ég treysti því, að hv. menntmn., sem væntanlega fær þetta mál til afgreiðslu, sýni þessu máli skilning og geri sér það ljóst, að biðlund Vestfirðinga er að þrotum komin. Það er skylda okkar, sem förum með umboð þeirra hér á Alþingi, að fylgja þessu máli fast eftir og með öllu því afli, sem við eigum yfir að ráða. Ég vænti þess, að aðrir hv. alþm. kynni sér þetta mál vel og sýni því skilning og afgreiði nú þetta gamla baráttumál þessa landshluta á þessu þingi, sem nú stendur yfir.