12.11.1964
Neðri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2413)

44. mál, menntaskóli Vestfirðinga

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í tilefni af þeim umr., sem hér hafa farið fram, tel ég rétt að segja þetta: Ríkisstj. hefur þegar ákveðið að byggja nýjan menntaskóla hér í Reykjavík og verður bygging hans hafin þegar næsta vor. Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að byggja fleiri menntaskóla í landinu, en væntanlegan menntaskóla hér í Reykjavík og gera það sem fyrst. Og ég tel þrjár framkvæmdir í þeim efnum vera nauðsynlegar: Í fyrsta lagi að byggja við heimavist Menntaskólans á Laugarvatni til þess að geta fullnýtt þá kennslukrafta, sem við Menntaskólann á Laugarvatni starfa, en þeir eru ekki fullnýttir nú, þ.e.a.s. bekkjardeildir eru ekki fullskipaðar vegna skorts á heimavistarhúsnæði við Menntaskólann á Laugarvatni. Auk þess tel ég eðlilegt og sjálfsagt, að menntaskólar verði reistir á Vestfjörðum og á Austurlandi, þannig að menntaskólar séu starfræktir í öllum fjórðungum landsins.

Menntaskólalöggjöfin er nú í mjög ýtarlegri endurskoðun. Sú endurskoðun beinist að vísu fyrst og fremst að námsefni menntaskólanna. En ég tel einnig sjálfsagt, að n. fjalli um staðsetningu væntanlegra menntaskóla í landinu. Auk þess hefur nú um nokkurt skeið undanfarið verið unnið að mjög ýtarlegri áætlun, eins konar framkvæmdaáætlun um skólabyggingar fyrir næstu ár. Því verki er ekki enn lokið, en bygging nýrra menntaskóla og staðsetning þeirra hlýtur að sjálfsögðu að verða tekin til mjög rækilegrar athugunar af þeim trúnaðarmönnum og sérfræðingum, sem að framkvæmdaáætluninni í skólamálum vinna.