17.12.1964
Neðri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra. forseti. Mér finnst rétt, áður en þetta frv. fer úr d., að gera í örstuttu máli grein fyrir því, vegna hvers ég hef ekki talið mér fært að taka þátt í afgreiðslu þessa máls og setið hjá við þær atkvgr., sem hér hafa farið fram um það, þegar ég hef verið viðstaddur.

Í prinsipinu er ég mótfallinn lögþvinguðum gerðardómi, nema þegar þannig stendur á, að um það sé samkomulag málsaðila. Þannig mun ástatt hér, að málsaðilar eru sammála um þessa málsmeðferð eða gerðardómsleiðina, og hef ég því ekki talið rétt að vera á móti málinu. Hins vegar lízt mér illa á þá skipan oddamannsins, sem hér er ákveðin, þar sem svo er ákveðið, að það skuli vera forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar svokölluðu. Um þessa svokölluðu Efnahagsstofnun eru engin lög, og má því segja, að starfsemi hennar svífi fullkomlega í lausu lofti. Það er engin trygging fyrir því, þar sem engin löggjöf er til um hana, að hún haldi áfram, eða a.m.k. ekki trygging fyrir því, að hún haldi áfram í því formi, sem nú er. Þess vegna held ég, að það sé ekki rétt, sem hér hefur komið fram, að það sé einhver trygging fyrir föstum oddamanni að tilnefna forstöðumann Efnahagsstofnunar til þessa starfs. Eins og nú er háttað um starfsemi og fyrirkomulag Efnahagsstofnunarinnar, er forstöðumaðurinn fyrst og fremst ráðunautur ríkisstj. í efnahagsmálum og að miklu leyti eða mörgu leyti málpípa og fulltrúi ríkisstj. Mér finnst það þess vegna vera nokkuð svipað að fela honum þetta oddavald og að fela það sjálfri ríkisstj. Það fyrirkomulag álft ég ekki heppilegt og er því mótfallinn. Þar sem hins vegar virðist svo, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að því máli, sem gerðardómurinn á að fjalla um, geti sætt sig við þetta fyrirkomulag, hef ég ekki viljað sporna gegn því hér á Alþingi, að það næði fram að ganga, en tekið þann kost að sitja hjá við atkvgr. um málið.