16.11.1964
Neðri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (2424)

55. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef áður flutt þetta frv. hér, svo að það ætti nú ekki að þurfa að ræða það mjög lengi, ef það væri einhvern tíma hægt að komast að samkomulagi um, að það fengi að koma til atkv. En það hefur gengið svo undanfarin 10 ár, að það hefur aldrei tekizt að fá þetta frv. út úr hv. fjhn., og öll þau stjórnarfrv., sem hafa verið lögð fyrir þingið og fjallað hafa um áburðarverksmiðju, hafa stöðvazt í fjhn. líka, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur ekki treyst sér til þess að láta greiða atkv. um sín eigin stjórnarfrv. um áburðarverksmiðjuna, vegna þess, hvert öngþveiti þetta mál er komið í. Þetta er orðið slíkt feimnismál fyrir Alþingi, að Alþingi hefur ekki þorað að sýna það við 2. umr. og svona getur það ekki gengið lengur. Það er búið að brjóta lög nú ár eftir ár í sambandi við reikninga áburðarverksmiðjunnar, í sambandi við afskriftirnar og annað slíkt,og meira að segja þegar hæstv. landbrh. hefur sjálfur verið að flytja brtt. við lögin eða flytja stjórnarfrv., þá hefur hann líka látið málið stöðvast í fjhn. til þess að fá ekki atkvgr. við 2. umr. um þessi mál.

Það, sem í stuttu máli er um að ræða í þessu frv., sem ég flyt, er að slá því föstu, að áburðarverksmiðjan sé eign ríkisins og hafi alltaf verið og að það ákvæði, sem er í 13. gr., að hún skuli rekin sem hlutafélag, það tákni aðeins, að hlutafélagið Álburðarverksmiðjan h/f sé rekstrarfélag, sem taki að sér rekstur þessarar verksmiðju, en eigi ekkert í henni. Þetta frv. fer þess vegna fram á, um leið og því sé slegið ótvírætt föstu með því að fella 13. gr. niður, að áburðarverksmiðjan sé eign ríkisins, þá skuli greiða þeim mönnum, sem lögðu fram 4 millj. í rekstrarfé fyrir eitthvað 10 árum, það aftur mjög ríflega. Það skuli sett nefnd af hálfu Alþingis, sem semji við þá, ef þeir vilja fá meira, en sína vexti og eins og ég hef áður sagt við þessa umr. þá getur maður vel hugsað sér, að þeim væri bætt það upp þannig, að þeir fengju annaðhvort vísitölu á þetta eða það væri miðað við erlendan gjaldeyri eða annað slíkt. Það er ekki höfuðatriði, hvort þessar 4 millj. eru orðnar að 10 eða 20 millj., þegar það er greitt til baka, heldur

hitt, að ríkið sé eigandi þessarar verksmiðju, viðurkenndur frá upphafi vega og þessum mönnum sé greitt og það jafnvel ríflega fyrir það fé, sem þeir hafa einu sinni lagt þarna fram.

Fer að verða mjög brýnt að afgreiða þetta mál á Alþingi. Nú liggur fyrir áætlun að þrefalda áburðarverksmiðjuna að stærð fram til 1980. Má ég spyrja: Á að fara að bæta þessu öllu saman við, þrefalda þessa áburðarverksmiðju, sem nú kostar yfir 300 millj., á þetta fyrirtæki að fara upp í 900 millj. kannske að verðmæti, án þess að það sé ljóst, hver eigi það, eða með þá skaðabótakröfu yfir höfði sér, að ef einhver líti svo á, að þetta hlutafélag ætti verksmiðjuna, þá ætti seinna meir, þegar þetta væri orðið 800 eða 900 millj. kr. virði, að borga nokkrum hluthöfum 40% af því andvirði út, m.ö.o. kannske 300–400 millj. kr., þegar komið væri fram til 1980, fyrir þær 4 millj., sem þeir lögðu fram 1953? Ég vona, að menn sjái, í hvert óefni þetta er komið, ef Alþingi treystir sér ekki til að taka á svona máli. Það dugir þess vegna ekki lengur að láta þetta ganga þannig til.

Til þess að benda mönnum á hættuna, sem orðin er í þessu, skal ég minna á, að allmargir þm. Framsfl. lögðu hér fram á síðasta þingi frv. á þskj. 568 um áburðarverksmiðju ríkisins, þar sem þeir leggja til, að núverandi áburðarverksmiðja, sem þeir líta auðsjáanlega á sem eign hlutafélagsins, sé tekin eignarnámi og síðan sé þessum mönnum borgað rétt eins og þegar tekið er eignarnámi, eins og 40% af hlutafénu væri þeirra eign. M.ö.o.: Framsfl. eða meginið af honum leggur til hér í þessari hv. d. á síðasta þingi að fara að greiða þeim hluthöfum, sem lögðu fram í rekstrarfé áburðarverksmiðjunnar 4 millj. fyrir eitthvað 10 árum, raunverulega til baka svona um 140 millj. kr., — það mundi vera um 40% af verðmæti áburðarverksmiðjunnar núna, um 140 millj. kr. nú. Þarna sýnir það sig, hvers konar dýr misskilningur er kominn inn í þessi mál, ekki sízt eftir að ráðh. Framsfl. fyrir nokkrum árum lýstu því yfir, að þeir litu svo á, að áburðarverksmiðjan væri eign hlutafélagsins, þvert ofan í lög, þar sem lögin segja, að verksmiðjan sé sjálfseignarstofnun, eins og stendur í 3. gr. og í 13. gr. segir aðeins, að verksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag. Þess vegna er þarna stór hætta á ferðum, mikið af þm. er farið að ruglast svo í ríminu í þessum málum, að þeir eru farnir að leggja til, að það séu borgaðar út úr ríkissjóði 140 millj. kr. við það, að áburðarverksmiðjan, sem ríkið á sjálft, sé tekin eignarnámi, en áður sé því slegið föstu, að hún sé skoðuð sem eign rekstrarhlutafélagsins, sem á hana ekki. M.ö.o.: Framsfl. virðist leggja til, að þessum mönnum, sem lögðu fram þessar 4 millj., séu gefin 40% af áburðarverksmiðjunni, síðan sé áburðarverksmiðjan tekin eignarnámi og þessum mönnum borguð þessi gjöf út með 140 millj. kr. Mér sýnist ekki öllu hatramlegra atferli hafa verið framkvæmt af hálfu verzlunarauðvaldsins í Reykjavík heldur en þetta, þegar þeir ætla að fara að taka sig saman, fulltrúar Sambandsins og fulltrúar einkabrasksins í Reykjavík, sem eiga þarna báðir sínar 4 millj. til samans, að setja þessar 4 millj. upp í 140 millj. og borga þær úr ríkissjóði. Ef þetta á að ganga svona lengur til og við skulum segja áburðarverksmiðjan er stækkuð, þrefölduð, eins og áætlunin er núna, hún er nú talin 340 millj. kr. virði, — hvað verður hún, þegar hún er þrefölduð? Ætli hún verði ekki allt að 800 millj. kr. virði og ætli við eigum svo eftir að lifa það eftir 10 ár, að Framsfl. komi aftur með till. um að borga nú þessum mönnum út 40% af því, sem þarna er í? Þá væru þessar 140 millj., sem hann vildi borga á síðasta þingi, komnar upp í einar 300 millj., kannske meira.

Ég segi þetta nú til þess að reyna að gera þm. ljóst, að þeir eru kosnir af almenningi í landinu m.a. til að sjá um hagsmuni almennings og hvert verið er að fara með því að þora ekki að snerta á því að afgreiða þetta mál. Það er hneyksli að láta þetta mál standa svona lengur og það er til skammar fyrir þingið og fyrir þessa hv. d., sem stóð sig vel í þessu máli, þegar lögin voru samþ. 1949. Það var samþ. við 3. umr. hér í þessari hv. d., að þetta skyldi vera ótvíræð ríkiseign. 13. gr. er sett inn við síðustu umr. í Ed. 1949, rétt fyrir kosningarnar þá, í öllum þeim önnum, sem þá voru. Og af hverju var hún sett inn? Við vitum ósköp vel, hvernig það er til komið. Við vitum, að það er til komið um leið og Marshallféð var lánað í þetta. Þá var það sett að skilyrði af þeim fulltrúum einkaauðvaldsins bandaríska, sem sáu um þetta, að það yrði að reyna að láta það heita, að það yrði a.m.k. einkarekstur á þessari áburðarverksmiðju, hvað sem snerti ríkiseign, þá yrði að vera einkarekstur á henni. Eitthvað yrði Ameríkaninn að fá fyrir sinn snúð, hann gæti þó ekki verið að styðja sósíalisma á Íslandi, eins og þeir mundu líta á ríkiseign. Þess vegna var látið undan þeirri fyrirskipun frá Washington, og Björn Ólafsson leggur til við síðustu umr. um áburðarverksmiðjuna í Ed. að breyta þessu svona, setja þetta tvíræða orðalag, að verksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag. Og svo þegar allt einkabraskið færðist í aukana og helmingaskiptastjórnin var mynduð og helmingaskiptin gagnsýrðu allt þjóðfélagið, eins og þá var, milli Sjálfstfl. og Framsóknar, þá smitaðist Framsfl. þannig og var smitaður raunar fyrir, að hann lýsti því yfir, að þetta hlyti að vera eign þessa hlutafélags. M.ö.o.: einkareksturinn, sem Ameríkanarnir vildu koma hér inn, átti að flæða þarna inn í áburðarverksmiðjuna, sem enginn maður hafði talað öll þau ár, sem hún var undirbúin, um annað, en sem ríkiseign. Hún átti allt í einu að fara að verða eign þessa hlutafélags.

Við fórum raunar ekki varhluta af þessum útlendu fyrirskipunum í sambandi við áburðarverksmiðjuna þá. Sú næsta kom 1953, þegar Sogsvirkjunin átti að semja um rafmagnið til þessarar verksmiðju. Þá setti Marshallstofnunin það skilyrði, að ef Sogsvirkjunin ætti að fá lán til að reisa Írafossstöðina, þá yrði að semja til 15 ára um rafmagnið til áburðarverksmiðjunnar. Og Sogsvirkjunarstjórnarmeðlimirnir fjórir beygðu sig fyrir þessari fyrirskipun, ég greiddi einn atkv. á móti henni. Síðan var gerður 15 ára samningur um það ódýra rafmagn, sem áburðarverksmiðjan hefur. Hann rennur út 1968 og það er búið að segja þeim samningi upp. Og ég veit satt að segja ekki, hvort menn ætla að bíða eftir því að, að því komi að ákveða endanlega, að það sé ríkið, sem á þessa verksmiðju og þurfi sjálft að semja þess vegna um rafmagnið, eða hvort á að reyna að fara að koma því inn, að það séu einhverjir einkahluthafar, sem ræna henni úr höndum almennings.

Mér sýndist þess vegna, þegar ég sá þetta frv. Framsóknar koma fram á síðasta þingi, að það væru orðin síðustu forvöð, að þarna yrði gerð sú breyting á, sem ég hef lagt til í heilan áratug, frá því að þáv. landbrh. Framsfl. í fyrsta skipti lýsti því yfir, að hann skoðaði áburðarverksmiðjuna sem eign hlutafélagsins. Ég mótmælti því þá þegar og lýsti því yfir, að ráðh. bæri sjálfur persónulega ábyrgð á þeim skaðabótum, sem ríkið kynni að verða fyrir seinna meir, ef notaðar væru þessar yfirlýsingar hans til þess að reyna að eigna þessu litla hlutafélagi þessa dýru og miklu áburðarverksmiðju.

Ég skal minna á það einu sinni enn þá, að um þetta frv. hefur frá upphafi, þegar það var fyrst flutt, þegar Sósfl. flutti það, þá hafa hann og Alþfl. verið sammála um það og svo hefur líka verið síðan Alþb. flutti það. Stefán Jóh. Stefánsson, sem var forsrh. í ríkisstj., þegar þetta frv. var samþ. í upphafi 1949, var á móti þessu. Ásgeir Ásgeirsson, núv. hæstv. forseti Íslands, var í fjhn. líka sammála því að afgreiða málið á þann hátt, sem ég hef lagt til, þannig að verkalýðsflokkarnir á þingi hafa staðið saman um þetta mál. Spurningin er þess vegna um, hvort þeir flokkar, sem hafa annars nokkra hliðsjón kannske af verzlunarauðvaldinu hérna í Reykjavík, ætla nú að kóróna skömm sína með því að koma sér undan því einu sinni enn þá að skera úr um þetta. Ég álít, að svona óvissa geti ekki gengið lengur, menn verði annaðhvort að hafa hugrekki til að fella þetta frv. eða þá dug í sér til að samþykkja það.

Að einu leyti hef ég breytt þessu frv. frá því, sem ég flutti það áður og það er seinni hluti 1. gr. Það er búið nú um mörg ár að skattleggja bændur með beinum lagabrotum af hálfu áburðarverksmiðjunnar eða þess hlutafélags, sem er látið stjórna henni, með því að reikna áburðarverðið miklu hærra, en lög leyfa. Afskriftirnar eru hafðar miklu meiri, en lög mæla fyrir. Reikningarnir eru rangir, eins og þeir hafa verið afgreiddir og þess vegna er stolið árlega af bændum svo og svo miklum fjármunum í sambandi við það áburðarverð, sem út er reiknað. Ég hef gert þá till., að um leið og breyting yrði gerð þarna á og kosnir, eins og gert er ráð fyrir í 4. gr. l., 5 í staðinn fyrir 3 aðeins, þá hef ég gert ráð fyrir, að aðalsamtök bænda í landinu, Búnaðarfélagið og Stéttarsamband bænda, mættu tilnefna 2 menn, sem hefðu atkvæðisrétt um verðlagningu áburðarins, þegar stjórn áburðarverksmiðjunnar tæki verðlagninguna fyrir, þá hefðu þessir tveir menn atkvæðisrétt einnig. Þetta er gert til að tryggja hag þeirra aðila, sem þarna eiga mest undir, bændanna, sem kaupa áburðinn, að ekki sé verið að taka meira af þeim, en lög mæla fyrir. Okkur virðist það í alla staði eðlilegt. Enn fremur er í þessari sömu grein lagt til, að þessir menn geti haft atkvæðisrétt um það, hvaða tegundir áburðar séu framleiddar. Það hefur verið frá upphafi kvartað yfir því, að áburðarverksmiðjan framleiddi ekki þá heppilegustu tegund fyrir landbúnaðinn, sem æskilegt væri og með þessu verzlunarauðvalds- og brasksfyrirkomulagi, sem verið hefur á stjórn áburðarverksmiðjunnar, hefur verið erfitt fyrir kaupendur áburðarins að koma sínum hagsmunamálum þarna fram. Þess vegna tel ég rétt, að bændur hafi aðstöðu til að taka þátt í því að ákveða, hvaða áburðartegundir séu þarna framleiddar. Þetta er alveg sérstaklega nauðsynlegt, þegar við hugsum út í það, að það er talað um að þrefalda nú áburðarverksmiðjuna, framleiða í henni nýjar tegundir áburðar líka og kannske blanda þær öðruvísi og þá er alveg nauðsynlegt, að þeir menn, sem eiga að kaupa þennan áburð og nota hann, hafi einhver áhrif og einhvern möguleika til þess að ráða einhverju um þetta, því að raunverulega eru þeir ofurseldir alveg þessari raunverulegu einkasölu, sem þarna er komið á.

Ég skal enn fremur minna á það, að í 3. gr. er þeirri þingnefnd, sem gert er ráð fyrir að skipa í sambandi við endanlegt uppgjör við hlutafélagið, líka gefin heimild, ef hún vill, til að rannsaka tæknilegt gildi og efnahagslegan rekstur verksmiðjunnar, jafnvel frá upphafi, vegna þess að það hafa verið uppi ýmsar kvartanir út af því, hvernig gengið hafi verið frá þessari verksmiðju og hvernig það hafi verið undirbúið allt í upphafi. Það virðist sem sé hafa orðið nokkuð skörp smitun af áhrifunum frá Marshallstofnuninni og Atlantshafsbandalaginu og því öllu saman, sem gerðist, þegar þessi áburðarverksmiðjulög voru samþykkt og tekið var að framkvæma þau, því að það halda sumir því fram, að það sé nær því að vera sprengiefni, það sem menn hafa ætlað sér að geta framleitt í þessu, heldur en áburður og þess vegna hafi þetta allt saman verið gert svo fínlegt eins og það var. Nú hef ég ekki neitt vit á að segja um það. En hitt er víst, að það væri ekki vanþörf á því, því að þetta er einn hinn fyrsti stórrekstur, sem við höfum lagt í, að öll þessi mál væru rannsökuð frá upphafi vega. En það er allt saman smáræði hjá hinu, að koma því endanlega í lag, að þessi áburðarverksmiðja sé, eins og 3. gr. l. mælir fyrir, sjálfseignarstofnun, ríkiseign, á sama hátt og t.d. Landsbankinn er það eða önnur slík og að ljúka þessu óþolandi millibilsástandi, sem þarna hefur verið skapað og er alveg að rugla menn í ríminu.

Ég skal geta þess t.d. í sambandi við frv. Framsfl., að ef þessir hlutir væru framkvæmdir, sem Framsfl. leggur þarna til, þá þýðir það að stórhækka allt áburðarverð á Íslandi. Og ég hélt, að það væri ekki fyrst og fremst það, sem Framsfl. væri að berjast fyrir í sambandi við þessi mál. En hann hefur kannske ekki gert sér ljóst, hvað þetta frv. hans þýddi.

Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að sú n., sem ég legg til að fái þetta frv. til meðferðar, hv. fjhn., treysti sér nú til að afgreiða þetta mál, að hún leggist ekki á þetta mál og reyni að svæfa það, að hún hafi þá ábyrgðartilfinningu, að hún láti þetta mál koma hér aftur til kasta deildarinnar og það verði greidd atkv. um þetta og hver einstakur þm. verði sjálfur að taka ábyrgð á sig af því, hvernig hann afgreiðir þetta mál. Og ég vil vona, af því að ég veit, að það eru alltaf í fjhn. nokkrir menn, sem hafa haft áhuga á því, að þessu máli væri komið á hreint, að þeir taki saman höndum um, líka þeir, sem kannske eru annarrar skoðunar en ég er og við Alþb.-menn, — taki saman höndum um að afgreiða málið úr n. og láti það nú koma til kasta þingsins, þannig að það séu ekki svæfð þessi mál, gerð að slíkum feimnismálum á Alþingi, að menn þori hvorki að ræða þau né afgreiða þau.

Svo legg ég til, að frv. þessu sé vísað til 2. umr. og hv. fjhn., herra forseti.