16.11.1964
Neðri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

55. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Það er alveg hárrétt hjá hv. 3. þm. Vestf., það væri hreinasta firra að ætla að borga þessum mönnum, sem leggja fram 4 millj., 140 millj. Það er bara það, sem Framsfl. leggur til. Það er það, sem hann leggur til. Af hverju þorir hv. þm. ekki að svara þeirri spurningu, sem ég legg fyrir hann? Það er alveg rétt, að 10 millj., sem menn lögðu fram um árið, hafa aldrei skapað neitt í þessu, þær eru hlægilegt atriði. Ríkið lagði fram sínar 140–200 millj. í þetta sem lánsfé. 10 millj. hafa aldrei skipt neinu máli í þessu. Þær voru settar fram til þess að fullnægja kröfum Marshallstofnunarinnar. En það, sem gerðist og það, sem var hættulegt, var, að landbrh. Framsfl., Hermann Jónasson, lýsti því yfir, að áburðarverksmiðjan væri eign þessa hlutafélags, þessa 10 millj. kr. hlutafélags og því mótmælti ég þá. Ég man ekki, hvort hv. 3. þm. Vestf. var á þingi þá, en hann hefur a.m.k. aldrei mótmælt því. Af hverju var ég að mótmæla þessu? Af því að ef það var litið þannig á, að áburðarverksmiðjan væri eign þessa hlutafélags, þá hlutu eigendur þessara 10 millj. kr. hlutabréfa að skoðast eigendur áburðarverksmiðjunnar. Skilur hv. 3. þm. Vestf. það, að ef hann ætti t.d. í dósaverksmiðju og það væru 100 þús. kr. hlutabréf í henni og þótt hún væri orðin 10 millj. kr. virði, þá mundu þeir, sem ættu hlutabréfin í henni, engu að síður eiga hana eftir sem áður og ef t.d. 10 þús. kr. hlutabréf í þessu væri selt, þá mundi það vera metið sem 1/10 hluti úr þessari dósaverksmiðju? Alveg sama mundi gilda, ef hæstiréttur tæki orð landbrh. Framsóknar gild og liti svo á, að hlutafélagið væri eigandi áburðarverksmiðjunnar. Þá mundi vera litið svo á, að þetta væru eigendurnir og þeim ætti að greiða.

Ég hef ekki slegið því föstu, að hún væri 340 millj. kr. virði, en hún hefur verið áætluð það, miðað við t.d. þann stofnkostnað, miðað við, hvað mundi kosta núna að byggja hana og miðað við það, sem farið er að innleiða nú, sem ég álít mjög vitlaust í sambandi við skattframtöl, að það sé leyft að láta menn meta til endurbyggingarverðs, þá býst ég við, að áburðarverksmiðjan mundi verða metin á eitthvað slíkt. Þess vegna er stór hætta á, ef ætti að taka áburðarverksmiðjuna eignarnámi núna, að þeir menn, sem til væru kvaddir, t.d. annaðhvort hæstiréttur eða dómarar, dæmdu svo, m.a. með því að styðja sig við yfirlýsingar ráðh. Framsfl. úr ráðherrastólum, að þessi áburðarverksmiðja væri eign hlutafélagsins, þá yrði dæmt svo: Þeir menn, sem eiga 40% af hlutafénu, eiga að fá 40% af verðinu. Og ég er hræddur um, að það sé nokkuð rökrétt. (SE: Stendur það í frv.?) Nei, en það er inntakið í því öllu saman. Allt frv. byggist á því að taka þetta eignarnámi og skoða þetta sem eign Áburðarverksmiðjunnar h/f, skoða þetta sem eign hlutafélagsins.

Framsóknarmennirnir, sem fluttu þetta frv., voru Ágúst Þorvaldsson, Sigurvin Einarsson, Halldór E. Sigurðsson, Ingvar Gíslason, Jón Skaftason, Einar Ágústsson, Björn Fr. Björnsson og Halldór Ásgrímsson. Það sýnir sig sem sé, að a.m.k. annar aðalmaðurinn af þessum hefur ekkert vitað, hvað hann gerði, þegar hann flutti þetta, ekkert skilið í því, hvað hann var að fara. Það á nú víst að fyrirgefa mönnum, ef þeir vita ekki, hvað þeir gera. En þeir verða þá að sýna einhverja iðrun. Þeir verða þá að koma hér fram og segja: Þetta var hreinn misskilningur hjá okkur, alveg misskilningur, við biðjumst afsökunar á þessu, við ætlum alls ekki að fara að ná þarna 140 millj. úr ríkissjóði handa mönnum, sem lögðu fram 4 millj. — Mér þætti vænt um þann heiðarleika, sem kæmi fram hjá hv. 3. þm. Vestf., þegar hann rekur sig á þetta, að hann ætlaði alveg óvart að fara svona djúpt í vasa ríkissjóðs og henda þar 140 millj. fyrir 4 millj. Ég skil það vel og met það vel við hann, hve fráleitt slíkt væri. En þetta hefur verið sú hrapallega stefna forustumanna Framsfl.

Það eina, sem getur afstýrt þessu og ég hef verið að berjast við að afstýra nú í 10 ár, er að því sé slegið föstu með því að fella 13. gr. burt, þar sem talað er um þetta hlutafélag sem rekstrarfélag, að verksmiðjan sé ríkiseign. En ef 13. gr. fellur burt, þá er þetta áburðarverksmiðjufélag ekki lengur til og enginn grundvöllur fyrir því og það er hægt að semja við þá menn, sem þar voru og bæta þeim það, sem þeir hafa lagt fram. En þá er ríkið ekki að neinu leyti bundið við neinar spurningar um það, að einstakir menn geti haldið, að þessir aðilar væru einhverjir eigendur þessarar áburðarverksmiðju, sem er sjálfseignarstofnun eftir 3. gr. l. Og nú vil ég enn einu sinni, af því að hv. þm. í sinni einfeldni og trú kom hér fram og talaði alveg réttilega um það, hve fráleitt það væri að ætla að greiða mönnum, sem hefðu lagt fram 4 millj., 140 millj., — nú vil ég skora á hann að koma fram og segja: Þessi áburðarverksmiðja er eign ríkisins og þetta hlutafélag á hana ekki. (SE: Ég er búinn með ræðutímann.) Viltu ekki skjóta því fram, meðan ég er hérna? Ég skal þegja á meðan. Ég vona, að hv. þm. noti tækifærið og ég skírskota til forseta að gefa honum tækifæri til að bera af sér sakir og hann gæti sagt þetta til þess að forða sínum heiðri.