16.11.1964
Neðri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

55. mál, áburðarverksmiðja

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þetta skal vera stutt. — Það er eins og hv. 3. þm. Reykv. hafi ekki tekið eftir því, að það er skýrt tekið fram í 14. gr. þess frv. sem við fluttum í fyrra, að nefnd, sem hæstiréttur skipar, skuli metasannvirði hlutabréfanna. Hv. þm. metur þau á 140 millj., en hvort sú nefnd, sem hæstiréttur skipaði, gerði það, það er annað mál. En ég vil ekkert vera að þrátta við hv. þm. um það, hvernig slík nefnd mundi meta. Ég er sannfærður um, að hún mundi ekki meta hlutabréfin eftir forsendum hv. þm., það dettur mér ekki í hug og ég efast um, að nokkrum öðrum, en honum, detti það í hug.

En hvað er hann að staglast á því að slá því föstu, að verksmiðjan sé ríkiseign? Hann er alltaf annað veifið að tala um, að hún sé ríkiseign. Af hverju þarf hann þá að vera að slá því föstu, að hún sé það? Er það ekki fast? (Gripið fram í.) Nú, ekki getur Framsfl. breytt l. með einhverjum ummælum úr ræðustól. Hann er einmitt að slá því föstu, sem er óvisst í lögum. Og þó byggir hann alla sína dóma um það, sem ég hef hér sagt, á því, að hún sé ríkiseign, en þarf hann þá að „slá því föstu“. Ekki er nú þetta á föstum grunni hjá honum.