26.11.1964
Neðri deild: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (2442)

60. mál, endurálagning útsvars og tekjuskatts

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. Það er búið að skýra þessi mál hér rækilega og ég vil aðeins undirstrika, að frá þessum málum verður ekki komizt án verulegrar leiðréttingar. Það kæruleysi, sem einkennt hefur það, hvernig tekið hefur verið á þessum málum af hálfu hæstv. ríkisstj., er a.m.k. í mjög miklu ósamræmi við það, sem er nauðsynlegt nú að gera og það gætu þeir launþegar nú sagt bezt um, sem fá umslög sín, sem í eiga að vera kaupgreiðslur, nær tóm af peningum, en aðeins skattakvittanir í staðinn.

Það er einn þáttur þessa máls, sem mig langar að skýra hér nokkuð og sérstaklega vegna þess, hvernig sá þáttur málanna stendur. Skömmu eftir að skattskráin hér í Reykjavík hafði birzt og séð var, hvers konar álögur hér voru á ferðinni, kom miðstjórn Alþýðusambands Íslands á fund til að ræða skattaálögurnar og sendi þá frá sér um miðjan ágústmánuð ríkisstj. mótmæli, þar sem talið var, að þessar drápsklyfjar skatta, sem launþegum væri ætlað að bera, væru langt umfram það, sem gerlegt væri að leggja á þeirra herðar. Ég ætla ekki að lesa þetta, þetta er öllum hv. alþm. kunnugt. En upp úr því, að þetta bréf var sent ríkisstj., hófust viðræður milli ríkisstj. annars vegar og hins vegar nefndar frá Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Það voru tveir viðræðufundir við ríkisstj. um þessi mál,og virtist eins og ríkisstj. vildi gjarnan taka á þeim með fullri alvöru. Það varð niðurstaðan, að sett var starfsnefnd af hálfu þessara aðila þriggja, sem átti að athuga og endurskoða þær álögur, sem fram höfðu farið og koma með till. um, hvernig hægt væri að standa að endurskoðun þeirra mála. Starf þessarar n. dróst æði mikið og allt of lengi, því að það er eins og hér var sagt áðan, að það var nauðsyn á að leysa þessi mál strax og það er þegar orðið allt of seint að gera það, þótt enn væri úr miklu hægt að bæta, ef vilji væri fyrir hendi. Loksins, þegar þessi starfsnefnd skilaði álíti, var það á þá lund, að vissulega væri úrbóta þörf og viðurkennt, að þessar skattaálögur legðust mjög þungt á ýmsa launþega, en niðurstaða n. var þó sú, að hún kom ekki með till. til breytinga, en gerði hins vegar till. um, að skattgreiðendur, sem sérstaklega þyrftu á því að halda, fengju gjaldfrest á sínum greiðslum. Það er vert að athuga, að einn af helztu ráðunautum ríkisstj. um öll efnahagsmál, Jónas Haralz, var í þessari n. og það var niðurstaða hans ekki síður en annarra nm., að álögurnar væru svo gífurlegar, að nauðsynlegt væri að þyrma skattgreiðandanum á einhvern hátt og þá helzt með gjaldfresti, eins og till. þeirra var um.

Eftir að samtökin, Alþýðusamband Íslands og BSRB, höfðu kynnt sér þessa grg. n. og niðurstöður hennar allar, létu samtökin frá sér fara til ríkisstj. grg. sína um þetta og þar var enn lögð áherzla á, að það væri úrbóta þörf og gerð krafa um, að greiðslur útsvars og tekjuskatts verði lækkaðar og gerðar alveg ákveðnar till. um, hvernig með skyldi fara, bæði hvernig lækkanirnar skyldu verða og eins hitt, hvernig skyldi staðið undir þeim útgjöldum eða réttara sagt þeim tekjumissi, sem sveitarfélögin yrðu fyrir vegna lækkunar á útsvörunum. Ég ætla ekki heldur að lesa þetta bréf nákvæmlega, en vil aðeins minna á, að við gerðum þarna strax gagntill. og vildum engan veginn fallast á, að það væri nægjanlegt, að mönnum yrði veittur gjaldfrestur, heldur töldum við álögurnar undanfarin tvö ár og afleiðingar þeirra svo ískyggilegar, að full nauðsyn og brýn nauðsyn væri á beinni eftirgjöf á álögðum gjöldum á þessu ári.

Eftir að við höfðum sent þetta frá okkur, samtökin, til hæstv. ríkisstj. og rætt málið við hana, var enn hlé á og ríkisstj. tók sér æðidrjúgan frest til að athuga þessar till. okkar. En loksins þegar svar hennar barst, sem var, ef ég man rétt, um mánaðamótin október–nóvember, var það aðeins á þann veg, að hæstv. ríkisstj. rakti þá niðurstöðu, sem starfsnefndin hafði komizt að, og lýsti sig fúsa til að létta undir með skattgreiðendum, sem illa stæði á fyrir, á þann hátt, að gjaldfrestur yrði veittur, þannig að mönnum yrði gert kleift að dreifa skattgreiðslunni 1964 fram á árin 1965 og 1966. Það var gert ráð fyrir, að menn tækju lán, nánast víxillán, sem gengið yrði svo í ábyrgð fyrir, en menn áttu sjálfir að hugsa um sín lán á annan hátt: Það hefur a.m.k. ekki annað komið fram.

Þegar er við höfðum kynnt okkur þetta svar ríkisstj., varð enn viðræðufundur og við vildum fá það alveg ljóst fram, hvort um væri að ræða af hálfu hæstv. ríkisstj. lækkun á álögðum gjöldum 1964 eða hvort það væri hið eina, sem hún gæti hugsað sér, að gjaldfrestur væri veittur. Í þessum viðræðum — það var aðeins einn viðræðufundur — var það greinilega tekið fram, að ríkisstj. neitaði öllum lækkunum á álögðum útgjöldum ársins 1964 og það eina, sem hún vildi koma til móts við gjaldendur með, var að veita þennan gjaldfrest og þó aðeins í tilteknum tilfellum, sem nánar átti síðan að fjalla um. Eftir að þetta hafði komið fram, tóku nefndirnar sér örlítinn frest til að forma sitt svar og það var sent hæstv. ríkisstj., ef ég man. rétt, daginn eftir, 6. nóv. s.l. og það bréf ætla ég að leyfa mér að lesa hérna, með leyfi hæstv. forseta og er það þannig:

,,Reykjavík, 6. nóv. 1964.

Á viðræðufundi fulltrúa ASÍ og BSRB með fulltrúum ríkisstj. 5. þ. m. var kröfu launþegasamtakanna um lækkun tekjuskatts og útsvara á árinu 1964 hafnað. Jafnframt kom það fram í skriflegu svari ríkisstj., að hún væri fús til þess að gera ráðstafanir til að draga úr erfiðleikum skattgreiðenda á þessu ári með lánveitingum í samræmi við tillögur starfsnefndar aðila. Nefndir ASÍ og BSRB telja leið þessa alls ófullnægjandi, en vilja þó eigi hafna aðild að henni, ef eftirfarandi skilyrðum fæst fullnægt:

1. Lánin verði vaxtalaus og án vísitölubindingar (en slík hugmynd hafði komið fram).

2. Lánstími verði 3 ár.

3. Lánveitandi verði ríki og/eða sveitarfélög.

4. Lánin séu talin jafngilda greiðslu á útsvari fyrir áramót og því frádráttarbær á næsta ári:.”

Ég held, að það sé ekki nauðsynlegt að rekja hér hvert einstakt atriði, en vil þó aðeins ræða um töluliðina, þ.e.a.s. þau skilyrði, sem við vildum setja fyrir því að verða á einhvern hátt aðilar að þessari lánastarfsemi til einstaklinga á þennan hátt. Það var í fyrsta lagi, að lánin verði vaxtalaus og án vísitölubindingar. Það þarf náttúrlega ekki útskýringar við. Og í öðru lagi, að lánstími verði 3 ár í staðinn fyrir 2, sem ríkisstj. hafði látið í skína. Í þriðja lagi, að lánveitandi verði ríki og/eða sveitarfélögin; þ.e.a.s. að hver einstaklingur þurfi ekki að fara að standa í því að taka lán, enda er þetta naumast lán í þeim skilningi, sem venjulega er heldur er hér um að ræða, að hið opinbera hefur gengið of nærri gjaldþoli þegnanna og það er þess vegna þess að sjá fyrir því, að menn geti greitt þessar óhæfilegu álögur á lengri tíma en annars, ef það er einasta úrbótin, sem hægt er að fá. Það er þess vegna ríkisins og/eða sveitarfélaganna að afla sér lánsfjár, ef þau geta ekki veitt þennan greiðslufrest án þess að afla sér fjár í staðinn. Í síðasta og fjórða lagi var svo, að lánin væru talin jafngilda greiðslu á útsvari fyrir áramót og því frádráttarbær á næsta ári.

Eins og ég sagði áðan, var þetta bréf eða þetta svar okkar sent 6. nóv., strax daginn eftir að síðasti viðræðufundur var við ríkisstj: eða fulltrúa hennar. Síðan eru liðnar þrjár vikur og við höfum ekki heyrt eitt einasta orð frá hæstv. ríkisstj: eða fulltrúum hennar, þannig að við höfum nú fyllstu ástæðu til að ætla, að ekki einungis það, að neitað sé öllum lagfæringum á álögunum, heldur og að þessum möguleika, sem einn virtist vera í boði, þ.e.a.s. að greiðslufrestur yrði veittur, — við höfum fulla ástæðu til að ætla, að ekki einu sinni hann muni verða í boði.

Það hefur ekki verið haft hátt um þær viðræður, sem fram hafa farið milli ríkisstj. og samtaka launþega um þetta mál, en þegar nú eru liðnar 3 vikur frá því, að við sendum okkar síðasta svar, og höfum ekkert heyrt, þá tei ég, að ekki sé um neitt þagmælskubrot að ræða, þó að hér sé skýrt frá því, hvernig þessi mál hafa gengið til. Ég held, að menn verði að gera sér ljóst, að hvað sem menn telja, að mögulegt sé að sanna með alls konar tölulegum skýrslum, þá er sjálfur raunveruleikinn þannig, að það eru hundruð manna hér í þessum b, og ég tel, að það sé og víðar, en a.m.k. hér, sem verða nú á hverjum útborgunardegi eða svo til, hvert sinn sem þeir fá laun sín greidd, að taka á móti kvittunum fyrir skatta, sem eru miklu hærri en það, sem eftir er í umslaginu og mörg dæmi eru þess, að menn fá svo til alveg tóm umslög. Menn hafa og þegar orðið að grípa til sérstakra ráðstafana. Menn eru í skuld við kaupmennina, menn reyna að fá fjölskyldulán og hvað eina. Þannig er þetta í veruleikanum. Og það er enginn efi á því, að það var fullra úrbóta þörf og launþegasamtökin voru ekkert að leika sér að því að fara þessa bónarferð til ríkisstj. En við höfum gengið bónleiðir til búðar með þetta erindi; og ég hygg, að þó að síðar verði, eigi margur launþeginn eftir að þakka fyrir sig á annan hátt.