03.12.1964
Neðri deild: 23. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2448)

61. mál, barnaheimili og fóstruskóli

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það eru 3 atriði í þessu máli, sem ég flyt hér, frv. til l. um aðstoð ríkisins við rekstur og byggingu almennra barnaheimila og um fóstruskóla.

Fyrsta atriðið er, að ákveðið sé að styrkja þau barnaheimili, sem rekin eru. Það skuli vera veittur frá ríkisins hálfu 600 kr. styrkur á hvert barn eða að jafnaði a.m.k. þriðjungur kostnaðar af barnaheimilunum. Barnaheimilin eru orðin það almennt fyrirbrigði og þurfa að verða enn þá almennara fyrirbrigði, þannig að það er ekki nema eðlilegt, að ríkið taki að sér að styrkja þau á svipaðan hátt og það styrkir barnaskólana. Þetta er einn þáttur í uppeldismálum nútímaþjóðfélags, alveg eins og þeir.

Enn fremur er þarna lagt til í öðru lagi, að ríkið leggi fram helming kostnaðar við byggingu barnaheimila. Það er samsvarandi og ríkið gerir nú við skólana og sett þarna inn í frv., 2. gr., svipuð ákvæði og eru um byggingu barnaskólanna. Eitt af því, sem þar með er ákveðið, er, að félmrn. skuli samþ. teikningar að slíkum barnaheimilum. Og ég held, að það sé orðin alveg brýn nauðsyn, að það opinbera láti þessi mál nokkuð til sín taka.

Ég skal geta þess, að ég minntist á það hér, þegar ég flutti þetta mál í fyrra, að þá var á áætlun t.d. Reykjavíkurbæjar bygging heimilisins við Dalbraut. Þá var áætlað, að það mundi kosta — ég held alls um 6 millj. kr. 1963 og 1964. Það sýnir sig nú, þegar farið er að framkvæma þetta, að þessi áætlun hefur verið alveg út í bláinn. Og sú áætlun, sem var lögð fyrir, þegar loksins var lokið öllum teikningum af þessu, var þannig, að það var gengið út frá því, að þetta mundi kosta um 20 millj. kr. Og ýmsir bæjarfulltrúar í Reykjavík tóku sig þá til, til þess að reyna að fá þetta nokkuð lækka, og var áætlunin lækkuð niður í um 15 millj. kr.

Nú held ég, að það sé fjarri lagi, að kostnaðurinn við að byggja barnaheimili sé eitthvað svipaður þessu. En það virðist vera þannig, að einstakir arkitektar, þegar þeir teikna svona hús, þá vilji þeir gjarnan gera þessi hús að einhverju svo að segja fallegu minnismerki um þeirra byggingarlist og það er náttúrlega atriði, sem ekki á við í þessum efnum. Það þarf ekki endilega að vera í svona húsum allt það fínasta erlent, sem til er. Það er orðin tilhneiging, ekki sízt hér í þessu reykvíska þjóðfélagi, til slíkrar sýndarmennsku, slíks bruðls og eyðslusemi í sambandi við ýmislegt, sem gert er af hálfu þess opinbera, að það nær ekki nokkurri átt. Það er tvennt ólíkt að vilja skapa einhverja fagra hluti eða hitt, að allt að því í hvert einasta skipti, sem byggt er á vegum hins opinbera, sé eytt í þessar byggingar miklu meira, en nokkurt hóf er í. Og það er orðið alveg nauðsynlegt, að það opinbera, ríkið sjálft, hafi nokkurt eftirlit með þessum hlutum og þeim peningum, sem teknir eru af almenningi og ekki sízt þegar eins hart er gengið að með útsvörum og öðru slíku og nú er. Þá er alveg nauðsynlegt, að þarna sé höfð nokkur gát, þannig að fé almennings sé ekki eytt í tóm flottheit, ef svo mætti segja. Ég býst við t.d. hvað snertir dagheimilið við Rauðalæk, að þá sé það sama. Það var áætlað 6 millj., í þeirri áætlun, sem ég birti hér með mínu frv. í fyrra, en er áætlað 15 millj. núna. Ég held þess vegna, að afskipti hæstv. ríkisstj., í þessu tilfelli félmrn., af þessum málum séu mjög nauðsynleg og um leið og ríkið færi þarna að leggja fram, mundu þau sem sé koma og mér sýnist, að með svona gífurlegum kostnaði sé alveg vonlaust að ætla að koma upp barnaheimilum, sem að nokkru leyti nægi fyrir eftirspurninni, t.d. hér í Reykjavík, nema því aðeins að aðstoð ríkisins komi til.

Í þriðja lagi er svo lagt til í þessu frv., að fóstruskólinn, sem nú er raunverulega einkafyrirtæki, sé ríkisrekinn. Ég hef tekið eftir því, síðan ég flutti þetta mál í fyrra, að bæði hlaut það þá góðar undirtektir ýmissa samtaka og ég hef birt hér sem fylgiskjöl nokkuð af þeim ályktunum, það er bæði frá Menningar- og friðarsamtökum íslenzkra kvenna, enn fremur mjög eindregin ályktun, sem gerð var af hálfu Kvenréttindafélags Íslands, þar sem m.a. er í d-liðnum alveg sérstaklega undirstrikað, með leyfi hæstv. forseta, að brýn nauðsyn sé að koma á heimavistarskóla fyrir börn á skólaskyldualdri, sem af heimilisástæðum, hegðunarvandkvæðum eða öðrum orsökum eiga að álíti sérfræðinga ekki samleið með öðrum skólabörnum. Og enn fremur hefur Bandalag ísl. kvenna á sínum aðalfundi gert mjög eindregna samþykkt um, að það verði að koma upp ríkisreknum fóstruskóla til þess að hjálpa til að leysa úr þeim vandkvæðum, sem nú eru fyrir hendi og sem fskj. VI er þetta álit aðalfundar Bandalags kvenna í Reykjavík birt.

Sú mikla breyting, sem orðið hefur á öllum okkar þjóðfélagsháttum, hefur gert að verkum, að þau félagslegu vandamál hafa aukizt stórkostlega og það eru ekki sízt börnin, sem verða harðast fyrir barðinu á þeirri miklu þjóðfélagslegu breytingu, sem orðið hefur hjá okkur. Með þessu frv. er raunverulega, eins og er raunar líka í barnaverndarl. og þó kannske varla nógu ákveðið, slegið föstu í fyrsta lagi skyldu þjóðfélagsins við þau, en alveg þó sérstaklega reynt að gera ráðstafanir til þess að hjálpa bæði börnunum og foreldrunum, þegar þessi félagslegu vandkvæði steðja að. Annars vegar eru þessi félagslegu vandkvæði þess eðlis, að konur vinna nú úti í miklu ríkara mæli, en áður. Bæði er það orðið lífsnauðsyn fyrir fjölskyldurnar vegna þeirra lágu launa, sem menn búa við og um leið vegna þess, hve mikið fjölskyldurnar gera nú að því að reyna að koma þaki yfir höfuðið, sem þær eigi sjálfar, og verða þess vegna að leggja ákaflega mikla peninga í slíkt. Enn fremur er það svo, að það er orðin þjóðfélagsleg nauðsyn í mjög ríkum mæli, að konur vinni úti. Við könnumst bara við það t.d., hve miklar kröfur eru nú gerðar til þess að fá fleiri hjúkrunarkonur og við vitum, að það er allmikið af hjúkrunarkonum, sem hér er menntað og útskrifað, en ákaflega mikið af þeim fer að vinna á sínum heimilum, eftir að þær giftast. Það er hins vegar gefið mál og kom líka fram, þegar var verið að ræða um vandkvæðin með hjúkrunarkonurnar, hjúkrunarkvennaskortinn, að svo framarlega sem væru til miklu fleiri barnaheimili, mundu miklu fleiri hjúkrunarkonur taka að sér að vinna á spítölunum, þannig að eitt af því, sem getur hjálpað til að leysa þessi miklu vandkvæði, — og við vitum, að það liggur við, að þær viðbætur við spítalana, sem nú eru að koma upp, geti varla tekið til starfa út af hjúkrunarkvennaskorti, — þá mundu barnaheimili, ef þeim væri komið upp í verulega ríkum mæli, hjálpa til þess að bæta úr þessum skorti. Enn fremur vitum við, að kvenfólkið er í miklu ríkara mæli, en áður, að búa sig undir ýmiss konar sérnám og annað slíkt og það er þjóðfélagsleg nauðsyn, að það geri það. Það þýðir um leið, að það er enn þá meiri nauðsyn á því, að þær geti komið sínum börnum fyrir á barnaheimili. Bæði í sambandi við vinnustöðvar og í sambandi við jafnvel Háskóla Íslands og annað slíkt ætti að koma upp svona barnaheimilum og það er gert ráð fyrir því í frv., að slíkt sé gert og víða erlendis er það beinlínis orðið þannig, að t.d. stúdentaheimilin gera alveg eins ráð fyrir, að hjón geti búið á stúdentagörðunum og barnaheimili séu í sambandi við þá.

En svo er hitt, sem er jafnvel enn þá viðkvæmara þjóðfélagslegt vandamál, að það er nú út af ýmsum félagslegum vandkvæðum miklu meira um það, að það verði að taka börn af heimilum til þess að bjarga þeim börnum frá foreldrunum bókstaflega og til þess að veita þeim sæmilegt uppeldi. Og þá er það oft, að það þurfa að vera ekki aðeins þau venjulegu barnaheimili, heldur líka sérstök svo að segja heimavistarheimili, sem þar koma til greina og einmitt Kvenréttindafélagið leggur sérstaka áherzlu á þá hluti. Aðbúnaðurinn, sem sum börn eiga við að búa, — það gildir ekki aðeins um börnin á þeim aldri, sem eru undir barnaskólaskyldualdrinum, heldur líka þar fyrir ofan, — þar er um að ræða orðið brýna nauðsyn á því, að hægt sé að koma þessum börnum fyrir, þannig að það þarf að koma upp barnaheimilum, bæði fyrir þau yngstu og meira og minna líka fyrir þau, sem eru í barnaskólum.

Ég gerði allýtarlega grein fyrir þessu frv., þegar það var hér til umr. í fyrra og ég hef orðið var við það, að þetta frv. hefur vakið nokkra athygli. Og sérstaklega meðal þeirra samtaka kvenna í þjóðfélaginu, sem láta sig félagsmál verulega skipta, er áhugi á því, að það nái í einhverri mynd fram að ganga og við flm. erum auðvitað reiðubúnir til þess að gera þær breytingar á þessu frv., sem nauðsynlegar væru, til þess að slíkt gæti skeð. En ég vil leggja áherzlu á, að það er nauðsynlegt, að eitthvað sé gert í þessu, því að þær úrbætur, sem nú er verið að reyna að gera, þó að góðar séu, í ýmsum bæjarstjórnum, eru í allt of smáum stíl, ganga allt of seint og eru allt of dýrar, þannig að þarna þarf að verða breyting á.

Ég leyfi mér að leggja til við hæstv. forseta, að þetta frv. fari að lokinni þessari umr. til 2. umr. og til menntmn. Ég býst við, að það eigi ótvírætt þar heima. Fóstruskólinn á þar heima, og öll barnaverndarlögin eru þar. Það er að vísu að verða mjög mikið, sem til þeirrar nefndar fer og þótt hún haldi fundi þrisvar sinnum í viku, gengur samt hægt hjá okkur, sem sæti eigum í henni. En ég held þó, að þetta frv. eigi fyrst og fremst þar heima, enda er þar verið að ræða mál, sem eru mjög skyld þessu.

Ég vil svo leyfa mér að vona, að hv. þm. taki vel undir þetta mál og það megi verða að lögum á þessu þingi.