03.12.1964
Neðri deild: 23. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (2468)

83. mál, veiting prestakalla

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ræða hv. 3. þm. Reykv. gefur mér raunar ekki tilefni til neinna andsvara. Hún var svo falleg, ræða hans, að það hvarflaði að mér, að kirkja okkar hefði farið mikils á mis, að hann skyldi ekki vera einn af klerkum hennar, en ég veit ekki, hvernig frú Jekaterinu Furtsevu hefði líkað þessi ræða, hefði hún verið stödd hérna innan veggja þessa háa salar. Það er annað mál. Og það kemur mér satt að segja dálítið undarlega fyrir sjónir, að sá maður, sem hefur verið talinn einn harðsvíraðasti kommúnisti á Íslandi, skuli afneita öllu ríkisvaldi. En batnandi manni er bezt að lifa.

En ég stóð upp aðeins til þess að mótmæla því harðlega, sem þessi hv. þm. gaf í skyn, að við prestarnir slægjum slöku við að flytja fólkinu kærleiksboðskap kristindómsins. Þetta er ekki rétt. Ég heyri stundum talað um það, að við prestarnir tölum fullmikið um kærleikann. Ég mótmæli þessu algerlega fyrir hönd okkar prestanna, að við flytjum ekki kærleiksboðskap kristindómsins, það gerum við áreiðanlega allir.

Svo minntist hann að lokum á helgidagahaldið. Já, ég kom að því, að mér sýndist, að það gæti vel komið til mála að fækka helgidögum þjóðkirkjunnar. En ég tók þá fram um leið, eins og þessi hv. þm. hefur hlotið að heyra, að ég gerði kröfur til þess, að helgidagalöggjöfin yrði að öðru leyti betur haldin, en er í dag, t.d. með því, að það væri ekki verið að boða til alls konar skemmtanahalds á sama tíma sem kirkjan heldur sínar guðsþjónustur, sem er hreint lögbrot, en því miður á sér stað víða um land.

Ég held, að það sé svo ekkert annað, sem ég þarf að taka fram. Ég sem sagt fagna þessari ræðu hv. þm., því að það var verulega falleg ræða.