03.12.1964
Neðri deild: 23. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (2471)

83. mál, veiting prestakalla

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hér er búið að halda svo snjallar og skáldlegar ræður, að það er erfitt að segja nokkur orð á eftir, en mér finnst samt rétt, áður en þetta mál fer til n., að gera í örstuttu máli grein fyrir afstöðu minni til þessa frv., m.a. vegna þess, að ég tók nokkurn þátt í umr., sem urðu um sams konar frv., sem lá hér fyrir Alþingi fyrir 2 árum.

Ég get þá sagt það strax í stuttu máli, að ég er andvígur þessu frv. af tveimur meginástæðum. Önnur ástæðan kom mér greinilega í hug, þegar hæstv. kirkjumrh. var að gera kröfu til þess, að veitingarvaldið í sambandi við prestsembættin yrði lagt í hendur ráðh. Það rifjaðist þá upp fyrir mér samþykkt fundar nokkurs, sem birtist hér í blöðunum fyrir stuttu og ég álít að sé með merkilegri samþykktum, sem hafa komið frá fundi um langt skeið og sé mikil ástæða til þess að Alþingi veiti alveg sérstaka athygli. Þessi fundur, sem hér um ræðir, var þing ungra jafnaðarmanna, Sambands ungra jafnaðarmanna, sem fyrir nokkru var haldið á Akureyri. Á þessum fundi var m.a. gerð eftirfarandi samþykkt, sem ég leyfi mér að lesa upp, með samþykki hæstv. forseta. Hún hljóðar á þessa leið :

„20. þing Sambands ungra jafnaðarmanna er þeirrar skoðunar, að áhrif ýmissa háttsettra embættismanna á löggjöf og stjórn ríkisins séu orðin mjög óeðlilega mikil. Með þessu dregst vald úr höndum þjóðkjörinna fulltrúa og forustumanna stjórnmálaflokkanna. Þingið telur þessa þróun hina varhugaverðustu og skorar því á Alþingi og ríkisstj. að gjalda hér varhug við.“

Þó að segja megi, að það mál, sem hér liggur fyrir, snerti ekki beint þessa samþykkt, gerir það það óbeint, því að það er augljós tilgangur þess frv., sem hér liggur fyrir, að draga vald úr höndum kjósenda og auka í staðinn vald embættismanna. Frv. gerir ráð fyrir því að takmarka mjög þann rétt, sem söfnuðirnir hafa nú til þess að velja sér prest og auka vald biskups og ráðh. í þessum efnum. En þó er að sjálfsögðu enn lengra gengið í þessa átt, ef fallizt væri á þær till., sem hæstv. kirkjumrh. hreyfði hér, þ. e. að láta veitingarvaldið alveg vera í höndum ráðh. Þó að það væri ekki nema þessi ástæða ein, væri hún ærin frá mínu sjónarmiði til þess að standa gegn þessu frv.

Það er alveg rétt, sem kemur fram í samþykkt ungra jafnaðarmanna, að sú þróun er mjög varhugaverð, sem hefur átt sér stað í landinu á undanförnum árum, hvað völdin hafa verið að dragast frá Alþingi og þjóðkjörnum fulltrúum í hendur ýmissa embættismanna utan þeirra, sem eru kjörnir af sjálfri þjóðinni. Við vitum það ósköp vel, að valdið í efnahagsmálunum og fjárhagsmálunum er nú raunverulega að mestu eða öllu leyti komið úr höndum Alþingis og er meira og minna í höndum embættismanna úti í bæ. Þessi þróun er ekki heppileg og hefur ekki heldur haft heppileg áhrif og á þó vafalaust eftir að hafa verri áhrif, ef þannig heldur áfram. Og ég óska alls ekki eftir því, að hliðstæð þróun eigi eftir að eiga sér stað í kirkjumálum þjóðarinnar. En sú mundi hún vafalaust verða, ef þetta frv. yrði samþ. og ég tala þó ekki um, ef gengið yrði alla leiðina og ráðh. hefði veitingarvaldið í þessum efnum.

Það hefur verið talað nokkuð um það í þessu sambandi, að stjórnmál drægjust stundum inn í prestskosningar og þess vegna ætti að afnema þær. En hvað halda menn, að mundi verða í þessum efnum, ef pólitískur ráðh. ætti að ráða því, hvernig prestsembættin væru skipuð? Það er skemmst að minnast þess, hvernig hefur verið skipað í embætti sýslumanna á undanförnum árum og áratugum. Ég minnist þess ekki nema með örfáum undantekningum, að sá ráðh., sem með það vald hefur farið, hafi ekki valið flokksbróður sinn til þess að skipa þau embætti, sem hafa losnað. Og ég held t.d. ef hæstv. forsrh., sem hér er, sem lengi hefur verið dómsmrh., rifjaði upp þær sýslumannaveitingar, sem hafa orðið í ráðherratíð hans sem dómsmrh., þá mundu það ekki hafa verið mjög margir úr hópi andstæðinga hans, sem hafa hlotið embætti á þeim tíma. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að reynslan mundi verða nokkuð á líka leið, ef það yrði lagt í hendur pólitísks ráðh. að ráða mestu um það, hverjir fengju prestsembættin. Það væri að sjálfsögðu hinn vísasti vegur til að gera kirkjuna að pólitískri kirkju, sem við sennilega viljum þó allir helzt forðast.

En önnur meginástæðan ásamt þessari, sem veldur því, að ég er á móti afnámi prestskosninga, er sú, að íslenzk kirkja hefur í stórum dráttum verið fram að þessu frjálslynd kirkja og rúmgóð kirkja. Hún hefur ekki lent í höndunum á neinni einstakri klíku, eins og stundum hefur komið fyrir kirkjufélög annars staðar og ekki sízt ríkiskirkjur. Í staðinn fyrir það hafa rúmazt þar margir ágætir menn með nokkuð mismunandi skoðanir í trúmálum, þótt að sjálfsögðu hafi meginstefna þeirra verið ein og hin sama. Og ég álít, að við eigum að tryggja það, að þessi uppbygging kirkjunnar haldist áfram, þannig að hún sé rúmgóð og frjálslynd kirkja. Og ég held, að það séu einmitt prestskosningarnar, sem hafa tryggt þetta meira, en nokkuð annað. Það er vald safnaðanna í þessum efnum, sem hefur haft í mörgum tilfellum þau áhrif, að einstakar klíkur hafa ekki getað sölsað vald kirkjunnar undir sig og ráðið prestunum, eins og annars hefði orðið. Prestskosningarnar hafa verið freka, en nokkuð annað grundvöllur þess, að hér hefur dafnað eða þróazt frjálslynd og rúmgóð kirkja. Og að því marki eigum við að stefna, að svo verði áfram, og það gerum við því bezt með því að viðhalda prestskosningunum.

Ég vil svo aðeins bæta því við, að síðan við ræddum um þetta mál hér á Alþingi fyrir tveimur árum, hafa t.d. hér í höfuðstaðnum farið fram prestskosningar í 5–6 prestaköllum og ég held, að það verði ekki annað sagt um þær kosningar en að þær hafi farið mjög vel fram og verið öllum hlutaðeigandi til hins mesta sóma. Og ég held, að það sé nokkurn veginn eftir á samnefnt álit manna, að þessar kosningar hafi fallið á þann veg, sem æskilegastur hafi verið, en það er alls ekki víst, að svo hefði verið, ef veitingarvaldið hefði verið í höndum embættismanna, en ekki kjósenda sjálfra. Og þessar kosningar valda því m.a., að ég er enn sannfærðari en áður, um réttmæti þess, að prestskosningum verði áfram haldið.