09.02.1965
Neðri deild: 40. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (2487)

119. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Frv. samhljóða því, sem hér liggur nú fyrir til umr., höfum við flm. þessa frv. flutt tvívegis áður á Alþingi. Frv. er um breyt. á l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Gert er ráð fyrir því í þessu frv., að nýr kafli verði tekinn upp í lögin og beri sá kafli heitið: Um félagsbúskap. Gert er ráð fyrir samkv. þessu frv., að tveir bændur eða fleiri geti stofnað til félagsbúskapar á jörð í stað þess að stofna á henni nýbýli eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum.

Sett eru í þessu frv. nokkur meginskilyrði fyrir því, að félagsbúskapur sé viðurkenndur. Gert er ráð fyrir, að nýbýlastjórn ákveði, hverjir geti fallið undir þennan kafla laganna, en þessi eru þau meginskilyrði, sem sett eru í frv. fyrir því, að hægt sé að viðurkenna bú sem félagsbú: Í fyrsta lagi, að landstærð og önnur skilyrði til búrekstrar séu að dómi nýbýlastjórnar nægilega góð til að fullnægja þeim fjölda heimila, sem til skal stofnað. Í öðru lagi, að fyrirhuguð sé eigi minni bústærð, en 20 kúgildi eða 400 ær fyrir hvert heimili. Í þriðja lagi, að hver fjölskylda í félagsbúrekstrinum hafi séríbúð. Í fjórða lagi, að allar vélar og verkfæri til ræktunar, fóðuröflunar og annars, er tilheyri hinum sameiginlega rekstri, sé sameign búsins. Og í fimmta lagi, að gerður verði samningur um fyrirkomulag hins sameiginlega félagsrekstrar og sé hann þinglesinn. Skulu þar tilgreind eignarhlutföll aðila í jörð, húsum, búvélum, mannvirkjum jarðar og bústofni. Enn fremur sé tilgreint, hvernig reikningshald, arðskiptingu og áhættu sé fyrir komið. Þetta eru nokkur helztu skilyrðin, sem sett eru fyrir því, að viðurkennt sé, að um félagsbúskap sé að ræða.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv., að þeir, sem fullnægt hafa settum skilyrðum og fengið bú sín viðurkennd sem félagsbú, eigi rétt á hærra láni úr Stofnlánadeild landbúnaðarins til ræktunar og útihúsabygginga, en gildir um einstaklingsbúskap. Og ráð er gert fyrir því, að þessi hækkun umfram hin venjulegu lán nemi um 20%, þannig þó, að hámarkslán verði ekki yfir 80% af stofnkostnaðarverði búsins. Í þeim tilfellum, þar sem er um að ræða sérstök framlög samkv. gildandi lögum, yrði einnig um sams konar hækkun á fyrirgreiðslu að ræða eða gert ráð fyrir því, að framlög og lán geti numið samanlagt 80% af kostnaðarverði framkvæmdanna.

Það er einnig gert ráð fyrir í þessu frv., að lánakjör til þessara aðila verði nokkru betri, en eru til annarra samkv. stofnlánadeildarlögunum, m.a. því, að lánin verði veitt til þriðjungi lengri tíma, en lán til einstaklingsbúskapar.

Þetta eru meginatriðin í efni þessa frv. Frv. stefnir að því að dómi okkar flm. að hafa áhrif á þróun búskaparins. Með hærri lánum og betri lánskjörum er ætlað að sveigja búskapinn í auknum mæli inn á félagslegan rekstur. Ætlunin er, að á þennan hátt verði hægt að stækka búin og koma á meiri verkaskiptingu, en annars yrði.

Miklar umr. hafa nú um skeið verið um skipulagsmál landbúnaðarins. Og mikið er um það rætt, að aðkallandi sé að marka skýrari og nokkuð breytta stefnu í landbúnaðarmálum. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að það sé mikil þörf á því að taka landbúnaðarmálin til nokkurrar athugunar með það fyrir augum að koma þar fram allverulegum breytingum til bóta. Það leikur t.d. enginn vafi á því, að það eru allt of mörg smábú í landinu nú, bú sem hljóta að leiða það af sér, að framleiðslukostnaður búvara á slíkum búum verður allt of mikill, þó að það hins vegar standi eftir á sama tíma, að þeir bændur, sem á þessum búum starfa, séu allajafna tekjulægstu menn í þjóðfélaginu. Það þarf því ábyggilega að reyna að gera allstórt átak til þess að koma fram breytingum í þessum efnum, breytingum, sem a.m.k. miða að því að stækka meðalbúið og auka afrakstur þess. En þó að á þetta sé bent, er ástæðulaust að líta fram hjá því að miklar breytingar hafa orðið í íslenzkum landbúnaði á seinustu árum í ýmsum greinum. Meðalbúið hefur farið stækkandi, framleiðslan hefur stórlega aukizt og afkoman hefur í flestum tilfellum farið batnandi hjá þeim, sem við landbúnað starfa. En þrátt fyrir það, sem áunnizt hefur í þessum efnum, er ekkert um það að villast, að þau búin, sem eru undir meðaltalsstærðinni, eru allt of mörg og allt of smá bú og það er alveg vonlaust, að þau geti gefið ábúendum hliðstæð kjör og hin almennu kjör eru í öðrum starfsgreinum.

Okkur flm. þessa frv. er auðvitað ljóst, að það eitt út af fyrir sig getur ekki valdið neinni grundvallarbreytingu í landbúnaðarstefnunni. Með þessu frv. er aðeins gripið í einn þátt þessa vandamáls. Það er með efni frv. að því stefnt að reyna að hafa áhrif á það, í hvaða átt búskapurinn þróast á næstu árum. Það er reynt að ýta undir, að búin geti stækkað, að um stærri búeiningar geti verið að ræða og reynt að ýta undir það, að um meiri félagslegan rekstur verði að ræða. En með því að búin stækka og um meiri félagslegan rekstur yrði að ræða, þá er miklu auðveldara að hagnýta sér nútímatækni, þá er miklu auðveldara að koma við þeirri verkaskiptingu, sem alveg er óhjákvæmilegt að taka upp í íslenzkum landbúnaði. Það er augljóst mál, að það verður ekki nema takmarkaðan tíma hægt að grundvalla landbúnaðarstefnuna á því, að eingöngu sé um fjölskyldubú að ræða. Í mörgum tilfellum þurfa að koma til miklu stærri einingar. Með því, sem lagt er til í þessu frv., að hækka eða auka stuðning hins opinbera einmitt við bú af þessari gerð og gera lánskjörin betri, þá er reynt að ýta undir það, að þróunin verði í þessa átt.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls, höfum við flm. þessa frv., ég og hv. 5. þm. Vestf., flutt þetta frv. hér á Alþingi tvívegis áður. Það er því í rauninni engin ástæða til þess að kynna þetta mál í löngu máli fyrir hv. alþm. Ég geri ráð fyrir því, að efni frv. sé öllum nægilega kunnugt. Hitt mundi skipta meira máli, að sú n., sem fær málið og hefur í rauninni fengið það áður, vildi nú taka á málinu betur, en áður hefur verið eða á þann hátt, að afgreiðsla fengist á þessu máli á yfirstandandi þingi. Ég er ekki í neinum vafa um það, að með þessu frv. væri stefnt í rétta átt, þó að hitt skuli fúslega játað, að miklum mun meira þarf að gera til þess að valda þáttaskiptum í sambandi við þróun íslenzks landbúnaðar.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn.