08.04.1965
Neðri deild: 65. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (2506)

130. mál, loðdýrarækt

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson) :

Herra forseti. Frv. þetta til l. um loðdýrarækt hefur legið fyrir hv. landbn. Nd. og n. ræddi það á nokkrum fundum, sendi það til umsagnar nokkurra aðila og þær umsagnir bárust og eru, svo sem hv. alþm. hafa séð, prentaðar sem fskj. með nál.

Nefndin varð ekki einhuga um afgreiðslu málsins, en það vildi svo til, meðan þetta frv. var til athugunar hjá n., að það urðu skipti vegna tilkomu varaþm. einmitt í n., þannig að t.d. hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson, var fjarverandi að mestu, á meðan þetta var rætt í n., en varamaður hans hins vegar með, en þegar kom til, að það væri afgr., var hv. þm. Ágúst Þorvaldsson hins vegar kominn, en þá taldi hann sig hafa of lítil kynni haft af málinu, til þess að hann vildi taka afstöðu til þess. Einnig má segja svipað um hv. 5. þm. Vestf., hann var fjarverandi við lokaafgreiðsluna, en fylgdist að öðru leyti nokkuð með umr. um málið í n., en kaus þó vegna þess að standa ekki að þessu nál. En um afstöðu hans að öðru leyti skal ég þó ekki neitt segja, enda mun hann sjálfur gera grein fyrir því við þessa umr., ef hann sér ástæðu til. En svo sem nál. ber með sér, erum við 4 nm., sem stöndum hér að áliti meiri hlutans og þó einn með fyrirvara og við leggjum til, að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir, þó með nokkurri orðalagsbreytingu á ákvæði til bráðabirgða, eins og fram kemur á þskj. 383.

Ég vil aðeins víkja að umsögnum þeim, sem bárust um þetta mál, m.a. og sérstaklega því, sem segir í niðurlagi umsagnarinnar frá búnaðarþingi, þar sem vikið er að því, að samkv. l. um stofnlánadeild landbúnaðarins sé gert ráð fyrir, að heimilt sé úr þeirri deild að lána til loðdýraræktar. Út af þessu vil ég aðeins benda á það, að þar er gert ráð fyrir ýmsum fleiri verkefnum, sem enn hefur ekki verið unnt vegna takmarkaðra fjárráða í stofnlánadeildinni að sinna og ég tel ástæðulaust að óttast, þó að í einhverjum mæli yrði farið af stað með loðdýrarækt, að stjórn stofnlánadeildarinnar teldi sér fært að hefja lánveitingar í því skyni, meðan ýmsum öðrum sviðum, sem þar er einnig gert ráð fyrir að lán séu veitt til, hefur ekki verið unnt að sinna. Ég taldi rétt að benda á þetta vegna þess, sem fram kemur í niðurlagi grg. búnaðarþings.

Þá er annað atriði, sem fram kemur í umsögn veiðistjóra. Hann bendir á, að það muni vera hyggilegt að setja inn í frv. ákvæði um hámarksfjölda dýra í væntanlegum loðdýrabúum. Ég fyrir mitt leyti tel þetta mjög skynsamlega ályktun. En það er kannske á þessu stigi, þó að hann bendi þarna á 1.000 fullorðnar læður, dálítið örðugt að slá því föstu, hvort það er einmitt hið rétta, en auk þess er þetta í raun og veru framkvæmdaatriði, sem eins og við víkjum að í nál., liggur hér fyrir til athugunar, þegar til leyfisveitinganna kemur, ef lög verða sett.

Að öðru leyti ætla ég ekki á þessu stigi málsins að fjölyrða um það. Það er svolítið sérstakt með þetta mál, að það virðist vera nokkurt tilfinningamál með þjóðinni og það kann að vera, að ekkert sé óeðlilegt við það vegna forsögu þess. En ég held, að það sé mjög örðugt að færa rök gegn því, að við eigum að hefja tilraun með ræktun minka í búrum hér, með þeim rökstuðningi, að það sé svo hætt við, að þeir sleppi úr haldi, vegna þess að við höfum villiminkinn fyrir. Ég get sagt það fyrir mitt leyti, að vitanlega hefði mér aldrei komið til hugar að flytja frv. um það að hefja hér ræktun minka, ef þeir hefðu aldrei til landsins borizt. En við höfum reynt að setja þetta frv. fram í því formi, að það sé gætt fyllstu varúðar og það sé ýtt úr vör eða farið af stað með það í huga að skapa nokkra reynslu í þessari atvinnugrein, áður en segja má, að það verði gefið með öllu frjálst. Ég held, að það sé gætt skynsamlegrar varúðar. Það má deila um það, hvort búin ættu að vera 2, 5 eða 10 í byrjun, það má líka deila um það, hvort tímabilið, sem þetta er bundið til að byrja með, eigi að vera 2 eða t.d. 3 ár. Einhvers staðar þarf að setja markið og það er sem sagt mat okkar, — við ræddum þetta allmikið í n., — en það var mat okkar, að við hefðum hitt þarna nokkuð nærri meðalhófinu.

Við þessir 4 í meiri hluta landbn. leggjum sem sagt til, að þetta frv. verði samþykkt.