08.04.1965
Neðri deild: 65. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (2507)

130. mál, loðdýrarækt

Frsm. minni hl. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Með þessu frv. er vakið upp á Alþ. deilumál, sem hér hefur verið öðru hverju í meira en 3 áratugi. Í þessari deilu hafa jafnan togazt á tvö öfl, annað draumurinn um það, að við gætum komið okkur upp nýjum atvinnuvegi, sem veitti þjóðinni miklar tekjur og hins vegar óttinn við það, að illa kynni að fara við innflutning á mink til landsins, óttinn, sem fyrir löngu varð að veruleika. Í staðinn fyrir gullið, sem hér átti að flæða inn, fékk þjóðin hörmulega landplágu, villiminkinn.

Minkaeldi var stundað hér á landi í meira en 20 ár. Það reyndist aldrei sá arðvænlegi atvinnu- og gróðavegur, sem menn höfðu gert sér vonir um. Það var upplýst af reyndum mönnum, m.a. hér á Alþingi, að minkabú voru oft rekin með tapi og gjaldeyristekjur af þeim urðu aldrei svipaðar því, sem menn hafði dreymt um.

Þegar minkaeldi loks var bannað fyrir nokkru, meira en áratug, var þetta hrörnandi, lítil atvinnugrein og aðeins sjö bú starfandi í landinu. Þó var nægur markaður fyrir minkaskinn, þó var nægur fiskúrgangur, sem við þurftum að koma í verð, en samt gekk ekki betur.

Þegar minkurinn var fyrst fluttur inn, vöruðu náttúrufræðingar okkar við því, að mikil hætta væri samfara flutningi þessa „gráðuga og slungna rándýrs“, svo að ég noti þeirra orð, til landsins. Þeir töldu, að aldrei yrði hægt að búa svo um, að eitthvað af þessum dýrum slyppi ekki út og stofn þeirra kæmist upp villtur í landinu.

Aðvaranir náttúrufræðinganna reyndust vera á rökum reistar. Minkurinn slapp fljótt úr búrum, villiminkastofninn óx hröðum skrefum og breiddist út um mestallt landið, þar sem hann hefur valdið gífurlegu tjóni. Nú þarf Alþingi að verja milljónum króna á hverju ári til að reyna að eyða villimink eða a.m.k. að halda honum í skefjum. Þetta er það, sem við fengum í staðinn fyrir gullið, sem menn dreymdi um fyrir 1930 og raunar oft síðan, gullið, sem menn dreymir enn um að hafa upp úr þessum mjög svo varhugaverða og áhættusama atvinnuvegi.

Villiminkur hefur orðið miklu alvarlegri plága hér á landi en hann er t.d. á Norðurlöndum, vegna þess að íslenzk náttúra hefur verið einangruð í milljónir ára, en t.d. á Norðurlöndum er ekki um slíka einangrun að ræða. Þar eru mörg villidýr og hafa verið í þúsundir ára, þannig að náttúran öll hefur á löngu tímabili lagað sig að þeim aðstæðum. En hér er sérstök viðkvæmni fyrir innflutningi dýra, sem við höfum oft rekið okkur á, t.d. á sauðfjárræktarsviðinu og mætti ætla, að við kynnum nú að varast þennan eld, svo oft og illa sem við höfum brennt okkur á honum.

Villiminkastofninn er sérstakur þyrnir í augum þeim, sem unna íslenzkri náttúru og þá sérstaklega hinu fjölskrúðuga fuglalífi, sem setur mikinn svip á þá náttúru. Það er fróðlegt að rifja upp, hvað maðurinn hefur gert við náttúru Íslands. Hann hefur flutzt hingað sjálfur og haft með sér ágæt og gagnleg húsdýr. En maðurinn hefur einnig eytt skógana, sem hér voru, hann hefur spillt veiðivötnum, hann hefur eytt fiskimiðum, hann hefur útrýmt fuglategundum, og hann hefur flutt með sér til þessa lands, langt úti á hjara veraldar, ekki aðeins húsdýrin, heldur líka rottur og mýs, skorkvikindi og villimink.

Á síðustu árum hefur mikið starf verið unnið til að afplána þessa 1.100 ára sekt. Við höfum tekið upp stórfellt skógræktarstarf. Við erum nú á þessu þingi að samþykkja ný lög um áframhaldandi landgræðslu. Við höfum fært út landhelgi. Við höfum tekið upp ræktun fiskivatna. Við höfum bannað minkaeldi og eyðum milljónum til að halda minkastofninum í skefjum. Mundi það frv., sem hér liggur fyrir, verða skref í rétta átt, þegar litið er á málið frá þessum sjónarhóli, eða ekki?

Eins og frsm. skýrði frá, var ég ekki viðstaddur afgreiðslu þessa máls í n., fyrr en rétt í lokin. En ég vakti þar strax athygli á því, að þetta frv. þokast áfram með meðmælum meiri hl. landbn., án þess að fyrir liggi álit frá náttúruverndarráði Íslands, án þess að fyrir liggi umsögn frá þeim náttúrufræðingum okkar, sem vöruðu við þessu máli í upphafi og reyndust sannspáir. Ég get ekki talið, að það sé verjandi fyrir Alþ. afgr. svona mál, án þess að fyrir liggi skoðanir þessara aðila. Vil ég þó taka fram, að meðnefndarmenn mínir tóku því ekki illa, þegar ég stakk upp á, að leitað væri til þessara aðila og ég segi þetta því ekki til þess að ásaka þá, en ég kom of seint aftur inn í n. til að geta gert kröfu um. að krafizt væri álitsgerða frá þessum aðilum.

Þegar við gyllum fyrir okkur þann hagnað, sem sagt er að við getum haft af minkarækt, er rétt að gleyma ekki skuld okkar við íslenzka náttúru og gleyma ekki heldur, hvað hún gefur okkur í aðra hönd á eðlilegan hátt, t.d. í dúntekju, í margs konar arði og yndi, sem við höfum af fuglalífi, fyrir lax- og silungsveiði og jafnvel alifuglarækt, sem nú er vaxandi í landinu. Allt þetta er í hættu vegna minksins og því meiri hættu sem minkastofninn eykst.

Nú er fullyrt, að tækni sé orðin svo mikil, að ekkert dýr muni sleppa úr haldi, jafnvel þó að hér væru 1–2 millj. minka, eins og Einar Sigurðsson talaði um af sínum venjulega stórhug fyrir nokkrum árum hér á Alþ. En það hefur alltaf verið sagt, að hægt væri að búa svo um, að enginn minkur slyppi út, en það hefur aldrei reynzt rétt. Ég veit ekki betur en Íslendingar hafi þekkt vel til steinsteypu og vírneta um 1930 og hafi ekki orðið neinar byltingar í tækni, sem gera það að völdum, að þetta sé ekki vandamál nú, en hafi verið það þá.

Í þessu sambandi vil ég benda á eitt atriði, og hér er í raun og veru um kjarna deilunnar að ræða, því að ég ætla engum manni, að hann sé ekki sammála mér um það, hve villiminkurinn er mikil og hættuleg plága. Þetta frv. gerir aðeins ráð fyrir fáum búum, en svo sem fram kom hjá frsm. meiri hl., á það aðeins að vera byrjunarstig og síðan á að gefa málið frjálst. Ég tel sjálfsagt, að hann hafi ekki átt við, að það eigi að gefa villiminkinn frjálsan. En augljóst er, að þjóðhagslega er lítill hagur af 5, 8 eða 10 búum. Ef teljandi hagur á að verða af minkaeldi, verða að vera mörg hundruð þúsund dýr og Einar Sigurðsson áætlaði á sínum tíma, að við þyrftum frá 1½–2 millj. til þess að hagnýta allan fiskúrganginn. En segjum svo, að við göngum ekki það langt. Nú er talað um, að við mundum geta litið á 1–2 þús. minka bú sem stórbú, þó að þau séu auðvitað til miklu stærri, en allur þorri minkabúa í Noregi mun vera minni. Ef við eigum að koma þessum minkastofni upp svo stórum, að af honum verði einhver efnahagsleg þýðing, þannig að hann verði a.m.k. 100–200 þús. dýr og búin eru aðeins með 1–2 þús. dýrum hvert, verðum við að dreifa minkabúum um allt landið og þau hljóta að verða fljótlega um 100 og síðan fleiri. Það er þetta, sem ég óttast mest, að þegar bú eru komin um allt, farin að skipta tugum og jafnvel komin á annað hundrað, kemur sama hætta og áður, þá er hætta á sömu mistökunum og áður fyrr. Þess vegna óttast ég það fyrst og fremst, að svo geti farið, að nýtt minkaeldi yrði til þess, að út slyppu dýr og það yrði aftur til að auka enn villiminkastofninn.

Þessu til viðbótar má segja, að víðtæk reynsla er fyrir því, að barátta gegn villimink lamast, þegar minkarækt er leyfð og menn vita, að það sleppa alltaf einhver dýr út. Þá finnst þeim að starfið sé tilgangslaust, þar sem minkur komi í minks stað.

Það frv. að lögum um loðdýrarækt, sem nú er fram komið, er styttra og efnisminna, en fyrri lög um sama efni. Mun veikari ákvæði eða réttara sagt engin ákvæði eru um það, hvernig hin minkaheldu bú skuli vera. Finnst Alþ. ástæða til að fara þannig með sauðkindina, að ekki megi minnast á girðingar í lögum, nema það sé nákvæmlega tiltekið, hvernig þær girðingar skuli vera, eins og við gerum í landgræðslul., í girðingal. og mörgum fleiri, en að minkinn sé hægt að afgreiða með einni setningu um, að landbrn. muni gæta hans? Mér finnst vera mjög mikið ósamræmi í þessu og sé ekki rétt að hverfa frá því, sem áður var, að hafa í l. ákvæði um þessa hluti, heldur ætti frekar að hafa um þetta ýtarlegri ákvæði, en áður voru.

Með þessu frv. eða þeim skýringum, sem fengizt hafa, eru engar nánari útskýringar á því, hvernig afkoma þessara búa gæti orðið eða til hvers er að vinna, hvað milljónirnar eru margar, sem við eigum að hafa af þeim vafasama atvinnuvegi. Það er oft talað um tölur frá öðrum löndum, þar sem um er að ræða hundruð og jafnvel þúsundir milljóna, en ég veit ekki, hvaða raunverulegar hugmyndir flm. hafa um þau efni eða hvaða upplýsingar liggja fyrir um það. Mætti þó ætla, eins mikið og er í húfi, að þetta atriði væri þess virði, að lagðar væru fram allýtarlegar grg. eða skýrslur um það, hvernig þessi fyrstu bú ættu að vera og hvers konar afkomu mætti búast við, því að það þykir ekki vel undirbúið fyrirtæki nú á dögum, ef festa á í því fé eða taka einhverja áhættu, ef ekki er allýtarlega búið að leggja drög að því fyrir fram og jafnvel teikna hvern nagla og hverja skrúfu.

Þá er ekkert talað um þá sérþekkingu, sem þarf til að setja upp minkabú, en það er álit manna, sem um þetta hafa fjallað og kom m.a. mjög skýrt fram í ýtarlegri álitsgerð, sem prentuð var sem fskj. með máli á þinginu 1960–1961, að sérþekking er nauðsynlegasta atriði þessa máls. Það þýðir ekki að leggja út í minkaeldi án þess að hafa þá sérþekkingu og reynslu og sá, sem skrifaði grg., talaði beinlínis um, að sá íslenzki háttur að hlaupa til útlanda í 1–2 mánuði, koma svo heim og halda sig sérfræðing, dugi ekki með viðkvæman atvinnuveg eins og minkaeldi, ef það á að bera árangur. Það skyldi þó ekki vera, að við höfum ekki gert okkur grein fyrir þeirri sérþekkingu, sem þurfti eða því, sem leggja þurfti fram, áður fyrr og því hafi Íslendingum aldrei tekizt að gera arðvænlegan, stóran atvinnuveg úr minkaeldi.

Mér finnst, að ekki séu færðar fram með þessu frv. þær röksemdir, sem gefi Alþingi ástæðu til að breyta ákvörðun sinni á þinginu 1950–51, sem gefi Alþ. ástæðu til að afgreiða þetta mál nú á annan hátt, en það gerði, þegar Einar Sigurðsson flutti það, en þá var því vísað til ríkisstj. Fylgdi þá löng og ýtarleg grg. með miklum upplýsingum, en ekkert slíkt hefur sézt að þessu sinni. Mér finnst, að málið sé engan veginn þannig undirbúið, að forsvaranlegt sé að samþykkja það með tilliti til forsögu þess, sem er stórbrotinn harmleikur í íslenzkri náttúru. Finnst mér, að hér eigi að beita ýtrustu gætni, en ekki að afgreiða málið á tiltölulega einfaldan hátt og með eins lítilli athugun og nú hefur farið fram.

Af þessum ástæðum tel ég, að nauðsynlegt sé að rannsaka þetta mál og íhuga mun betur, en gert hefur verið. Þessu máli hefur fyrir skömmu verið vísað til ríkisstj. og ég hef ekki heyrt, að hún hafi látið frá sér fara neina álitsgerð eða neina niðurstöðu. Þess vegna tel ég sjálfsagt, að þessu máli verði nú aftur vísað til ríkisstj., þar sem það geti fengið betri athugun, betri íhugun, en hingað til.