09.04.1965
Neðri deild: 66. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (2512)

130. mál, loðdýrarækt

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það hefur vakið nokkra athygli utan þings og innan, að 3 hv. þm. Sjálfstfl. hafa borið fram frv. um loðdýrarækt, sem hér er nú til umr.

Við 1. umr. málsins lögðu hv. flm. til, að málinu skyldi vísað til landbn. þessarar hv. þd., og þar með virðast þeir vilja undirstrika, að þetta mál teljist til landbúnaðarmála, til framdráttar og hagsbóta landbúnaðinum.

Það virðist ekki hægt að segja, að fram hafi komið í sambandi við þetta frv. mikill kunnugleiki eða langminni hv. flm. í sambandi við íslenzka búnaðarsögu, hvað snertir reynslu okkar af innflutningi lifandi dýra fyrr og síðar. Það er fjarlægt að vísu að minnast þess, hvernig fjárkláðinn barst hingað til lands og olli ómældum hörmungum í flestum sauðfjárræktarhéruðum okkar. Í meira en öld hefur sú barátta staðið yfir að fjarlægja og eyða þeim vágest, og er þó tæplega hægt að fullyrða, að þeirri baráttu sé enn lokið.

Innflutningur þess sauðfjár, sem flutti fjárkláðann hingað til landsins, var auðvitað gerður í góðum tilgangi, að bæta íslenzkan sauðfjárstofn, auka arðsemi búfjárins. En afleiðingin varð önnur, allt að því landauðn í sumum landshlutum. Nokkrum áratugum síðar tóku enn áhugamenn sig til og beittu sér fyrir innflutningi hins svokallaða karakúlfjár. Ræktun þessa bústofns átti að fjölga búgreinum bænda og gefa þeim ómældan arð í aðra hönd. Ýmsir sérfróðir menn lögðust á móti þessum innflutningi vegna hættunnar af, að dýrin flyttu með sér hættulega búfjársjúkdóma. En þær raddir voru kveðnar niður og hampað vottorðum erlendra sérfróðra manna um fullkomið heilbrigðiseftirlit þeirra dýra, sem flytja átti inn. Ég skal ekki rekja þá sögu lengra og ekki minnast frekar þeirra hörmunga, sem innflutningur karakúlfjárins hefur valdið hér á landi. Þær hörmungar eru ómældar, og afleiðingar fjárpestanna, sem með þeim bárust í íslenzkan sauðfjárstofn, munu þegar hafa beint og óbeint kostað íslenzku þjóðina milljarða kr. og ekki er enn séð fyrir afleiðingar af þeim innflutningi.

Og árin liðu. Búið var fyrir löngu að drepa karakúlkindurnar, en pestirnar lifðu góðu lífi víðs vegar um landið. Þá komu enn fram á sjónarsviðið menn, sem töldu, að við ættum að fara að eins og frændur okkar á Norðurlöndum, að flytja inn mink til grávöruframleiðslu. Ýmsir merkir menn, svo sem náttúrufræðingar og þ. á m. Guðmundur Bárðarson, vöruðu sterklega við innflutningi minksins. Hann taldi minkinn eitt allra grimmasta og drápfúsasta villidýr, sem þekkt væri og mundi því reynast óútreiknanlegur vágestur í íslenzku dýralífi. Hinir bjartsýnu tilvonandi grávöruframleiðendur töldu allar slíkar aðvaranir tómar kerlingabækur, sem að engu væru í raun og veru hafandi. Þeir bentu á, hversu minkaeldi reyndist arðvænlegt á Norðurlöndum, í Kanada og víðar og að við Íslendingar hefðum ekki efni á að sitja hjá í þessu máli, þar sem við værum hárvissir um að geta á þennan hátt framleitt árlega útflutningsvöru, sem næmi tugum og hundruðum millj. kr. Málflutningi þessara manna fylgdi, að engin hætta væri á, að ekki yrði örugglega frá búrunum gengið, minkabúrin yrðu auðvitað sniðin eftir reynslu frænda okkar á Norðurlöndum. Ofan á þetta bættist sú fullyrðing, að þessi dýr væru líka svo verðmæt, að ekki væri hætta á, að menn gættu þeirra ekki eins og sjáaldurs augna sinna og þar að auki, að ef svo illa tækist til, að eitt og eitt dýr slyppi úr haldi, væri mjög vafasamt, að villiminkur þrifist hér á landi og líklegast, að þau dýr, sem slyppu úr búrum, mundu ekki þola útivistina og drepast á víðavangi.

Það vantaði ekki, að slegið var upp miklum gyllivonum í sambandi við minkaeldið og skinnaframleiðsluna. Það var talið, að fáar eða engar þjóðir mundu geta keppt við Íslendinga í minkaeldi og því sjónarmiði er enn haldið fram og að þar kæmi margt til. Mætti þar til nefna, að íslenzkt loftslag væri svo gott með tilliti til skinnavörugæða, að fágætt mundi vera og ekki var gleymt að geta fiskúrgangsins, sem lítt væri nýttur og enn fremur innyfla og blóðs sláturdýra, sem víða væri fleygt. Allur þessi matvælaúrgangur væri mjög hentugur til minkafóðurs og auðvelt að afla þess fyrir lítið eða ekkert fé.

Þetta voru röksemdirnar þá og menn munu e.t.v. kannast við, að þær eru þær sömu í dag. Og við fengum minkinn, en engan milljónagróða með. Eftir 20 ára baráttu við þá búgrein voru flestir hættir minkaræktinni, en fáein bú hjörðu á horriminni. En í stað milljónagróðans höfðum við eignazt villiminkinn, eitt hið versta og grimmasta villidýr, sem sögur fara af og eirir engu lifandi, eins langt og kjaftur þess og klær fá við að ráða. Og þetta dýr hefur nú áratugum saman eytt og ógnað íslenzku dýralífi, fuglum og nytjafiskum vatna og áa.

Þetta minkaævintýri endaði fyrir tæpum hálfum öðrum áratug. Þá var minkaeldi bannað hér á landi. En villiminkurinn lifði og varð ekki við hann ráðið og hann hafði þá numið land í 2–3 landsfjórðungum. Það getur enginn metið til fjár, hvaða tjóni hann hefur valdið, hvorki með tilliti til nytjafiska í veiðivötnum né á fuglum í varplöndum og því síður kemur til greina verðmætamat, þegar um er að ræða þá eyðingu, sem minkurinn hefur valdið á hinu fagra fuglalífi okkar, sem kynslóð eftir kynslóð hefur verið okkur yndi og fegurðarauki. Við getum aðeins talið saman og metið til peninga þær stórkostlegu fjárhæðir, sem ríki og sveitarfélög hafa árlega lagt fram til að eyða villiminknum. Þær fjárhæðir skipta mörgum milljónatugum og vandséð, að meiri árangri verði náð, en þeim að halda villiminknum í skefjum.

Ef hugleidd er hrakfarasaga íslenzks landbúnaðar í sambandi við innflutt dýr, er furðulegt, að menn skuli rísa upp hér á hv. Alþ. og það þrír mætir alþm., sem láta sér detta í hug að óska eftir, að enn sé bætt við einum kapítula í þessa ömurlegu ófarnaðar- og hrakfallasögu. Og það er að mínum dómi því furðulegra, að hv. flm. þessa frv. ýfa við ógróinni kviku, þar sem um er að ræða reynsluna af villiminknum. Og þetta gerist á þeim árum, þar sem vandséð er og raunar vonlítið, hvað sem í sölurnar er lagt, að hægt sé að viðhalda dýralífi landsins ósködduðu og þar á meðal nytjafuglum og fiskum vegna eyðileggingarmáttar villiminksins.

Ég vil nú aðeins leyfa mér að víkja lítils háttar að þessu frv., sem hér er til umr. og mun lesa upp nokkra kafla frv., með leyfi hæstv. forseta. En áður en ég geri það, vil ég taka undir það álit, sem hv. 5. þm. Vesturl. setti fram í sinni ræðu gegn þessu frv. hér í hv. d. í gær, að frv. væri furðulega ófullkomið og fjallaði fyrst og fremst mjög lítið um þau atriði málsins, sem mestu varðaði.

Í 1. gr. frv. er tekið fram, hvað eigi að skilja með nafninu loðdýr. Viðmiðunin er fyrst og fremst verðmæti, en þó sagt „eingöngu eða aðallega“. Hvað þýðir þetta orð, „aðallega“, sem er ákaflega víða notað í frv. og væri fróðlegt, að hv. flm. skilgreindu það orð í sambandi við málið. Það gengur eins og rauður þráður gegnum allt þetta mál hjá hv. flm., að þeir minnast ekki á það, sem þeim er efst í huga, þ. e. minkinn. Í 1. gr. frv. og ætíð síðan er talað um loðdýr og hv. flm. sýna annaðhvort bragðvísi eða svo mikla fáfræði í þessum efnum, að þeir treysta sér ekki til að skilgreina, hvað er loðdýr,og þeir taka það ráð, að það skuli vera á valdi og eftir úrskurði landbrh. á hverjum tíma.

Í 2. gr. er svo talað um loðdýraræktina og uppeldi dýra vegna skinnaframleiðslunnar og svo kemur: „eingöngu eða aðallega“. Það er eins og það megi ala fleiri dýr í þessum loðdýragörðum, fleiri dýr en þau, sem gefa skinnaverðmæti, ef svo kann að vilja til, að einhverjir vilji t.d. ala þar upp broddgölt og geta fengið landbrh. til að samþykkja það dýr inn í garðinn o.s.frv. Í 2. gr. er talað um mjög virðulegt nafn í sambandi við dýrabúrin, þ.e. loðdýragarðar. Þetta er áheyrilegt og virðulegt nafn, sbr. búgarðar, herragarðar og ýmislegt slíkt hjá frændum okkar Norðmönnum. Það hlýtur þess vegna að mega búast við því, að sá maður, sem kemur upp svona búgarði, geti talizt loðdýraherramaður eða eitthvað slíkt. Þetta skal ég þó ekki lasta, því að eitthvað þurfa þeir menn að hafa sér til ágætis, sem gefa sig við að ala upp þessi skaðræðisdýr. Það má ekki minna vera en þeir hafi vænlegan titil.

Í 3. gr. er sjálfsagt réttilega fram tekið, að þessi loðdýrarækt megi ekki fara fram nema í þessum viðurkenndu og virðulegu loðdýragörðum.

Í 4. gr. er sagt, að meginstefna þessara laga sé, að loðdýr verði eingöngu ræktuð hér á landi í sérstaklega tilbúnum og vönduðum loðdýragörðum. Hver er aukastefnan? Hvaða afbrigði má koma þar við? Vilja hv. flm. útskýra þetta, þótt ekki væri nema fyrir hæstv. núv. landbrh. og þá, sem koma á eftir honum, sem eiga að ákveða alla hluti í þessu efni, að þeir geti þó miðað við eitthvað af því, sem flm. hafa meint í málinu.

Í 5. gr. er að sjálfsögðu tekið fram, að sá embættismaður, sem fékk embætti vegna villiminksins og er að öllu góðu kunnur í sínu starfi, þótt hann hafi ekki hrokkið til að eyða villiminknum, eigi allra mildilegast að fá að líta á garðana og dæma um það, hvort allt sé þar í röð og reglu.

Í 6. gr. er talað um, að þegar stofna skuli loðdýragarð, á að senda landbrh. mikinn bunka af skjölum, þ. á m. vafalaust það, sem fram er tekið áður, að öll þau dýr, sem fá inngöngu í þessa dýragarða, skuli vera með „stamtöflu“, sem sagt virðulega ættartöflu langt fram í ættir, þannig að það á ekki að sleppa inn í garðinn einhverju óhræsis kvikindi, sem getur spillt kyninu og eyðilagt árangur vísindalegrar ræktunar. Þessa „stamtöflu“ á auðvitað m.a. að senda til landbrh., um leið og honum er sent sýnishorn af þessum dýrum, sem eiga að komast inn á þennan virðulega búgarð, þannig að hann fái þó a.m.k. tvennt að gera, strjúka feld dýranna og meta, hvort þetta eru virkilega loðdýr eða eitthvað annað og svo í öðru lagi að líta á ættartöfluna og sjá, hvort það er óhætt að veita þessu dýri inngöngu í þennan herragarð. Auðvitað eiga svo að fylgja alls konar upplýsingar þar að auki, m.a. um fjármálaáætlun búgarðsins og væntanlegar framkvæmdir, ýmislegt það, sem hv. flm. málsins telja að ekki varði þingheim, þegar hann á að löggilda þetta furðulega afkvæmi hinna hv. þingmanna.

Auðvitað á líka að fylgja samkv. 7. gr. rekstrarfyrirkomulagsáætlun langt fram í tímann og annað slíkt, sem reglugerð á að ákveða um og er hlaupið fram hjá í þessu frv. eins og flestu öðru, sem máli skiptir.

Í 8. gr. kemur í ljós, að hv. flm. hafa gert sér grein fyrir því, að það þurfi eitthvað að koma meira til í þessu máli en þetta fátæklega frv. og það eigi að setja reglugerð í málinu. Og þar er m.a. sagt, að það skuli setja reglugerð um starfsemina og ef út af sé brugðið þessum lögum og þeirri reglugerð, sem sett kann að verða, skuli koma til sekt. Það er ekki verið að nefna það, hver hún er, hve hún á að vera há. Það kannske duga 10 kr. að dómi flm. eða eitthvað þvílíkt. Flm. gera sér enga rellu út af slíku, en þykir þó viðkunnanlegra, að fram sé tekið, að það skuli vera einhver sekt. Þá er náttúrlega hugsanleg réttarsætt og er þá þægilegt að vera ekki bundinn við neitt ákveðið sektarákvæði.

En þó að hv. flm. hafi gleymt flestu, nærri því öllum ákvæðum, sem máli skipta í þessu efni, hafa þeir þó ekki gleymt rúsínunni í pylsuendanum. Í 9. gr. er sagt: „Með lögum þessum eru úr gildi numin lög nr. 32 8. marz 1951, um loðdýrarækt.“

Mig furðar ekki, þó að hv. 5. þm. Vesturl. fyndi að því og kvartaði undan því, að flm. skyldu ekki meta þetta mál svo mikils og líta ekki meir á alvöru þess en svo, að þeir köstuðu fram svona ófullkomnu frv. í sambandi við minkarækt. Og það mun því ekki vera of í árina tekið, þó að sagt sé, að þetta frv. sé hvorki fugl né fiskur og sneiði yfirleitt fram hjá flestu því, sem máli skiptir í þessu efni.

Það er sömu sögu að segja og varla við öðru að búast, þegar athuguð er grg. frv. Hún er einskis virði og er aðeins nokkur línufyllir með frv. Sama er í raun og veru að segja í sambandi við þau fskj., sem fengin hafa verið með frv., þær álitsgerðir, sem komið hafa frá nokkrum málsmetandi aðilum og eiga að styðja þetta mál, en segja furðulítið.

Ég vil aftur og enn vekja athygli hv. þd. á því, hversu furðulega hv. flm. málsins hafa sneitt fram hjá að opinbera hug sinn í sambandi við málið. Þeir tala eingöngu um loðdýr, en hafa þó eingöngu í huga minkana og hefði þess vegna farið betur á því, að þeir hefðu ekki leynt þeim tilgangi, sem býr á bak við frv. Slík bragðvísi, ef það má nefna því orði, er að vísu sýnishorn af því, að þessir menn eru hyggnir og klókir, en þetta er þó tæplega að koma hreint fram gagnvart hv. þd., sem á að meta rök með og móti í þessu máli. Ég nefndi, að hér mundu hyggindi að einhverju leyti á bak við búa. Og það má vera afsakanlegt, vegna þess að m.a. það að lögfesta minkinn opinberlega í þessu frv. er ekki hyggilegt til framgangs málinu. Þeir vita, eins og flestir aðrir, þessir hv. flm., að í augum landsmanna er minkurinn vágestur og réttdræpt dýr, óalandi, óferjandi og óráðandi öllum bjargráðum, eins og sagt var áður um aðra aðila meira virði, en minkinn. Það var þess vegna ekki hyggilegt að koma beint fram að hv. þm. og segja þeim: Það er minkurinn, sem við viljum fá inn aftur,og okkur varðar ekki um það, hvaða afleiðingar hann getur haft í íslenzku dýralífi, ef einhver arðsvon kann að vera fyrir fáeinar hræður í sambandi við grávöruframleiðslu og eldi dýranna.

Það mætti flytja hér lengra mál um þetta efni.

Ég vonast eftir, að slíks sé ekki mjög mikil þörf, því að ég sé, að hv. minkaforustumenn þessarar d. eru lagðir á flótta úr deildinni og mætti það benda til nokkurs sigurs í sambandi við viðhorf mitt í málinu. Ég tel, að þingheimur eigi skilyrðislaust að fella þetta mál. Ef þess er ekki kostur, mun ég fylgja till. hv. 5. þm. Vesturl. að vísa málinu til hæstv. ríkisstj. í von um, að hún grafi það svo, að það komi ekki aftur upp að hennar tilhlutan og í þeirri von, að þótt hæstv. ríkisstj. sé nú bjargráðalítil um úrlausn mála, muni henni aldrei detta í hug að líta og lúta svo lágt að veita þessu minkamáli framgang eða fyrirgreiðslu. Ég vona líka, að afgreiðsla þessa máls hér á hv. Alþ. verði hv. flm. þörf lexía, að þótt þeir kunni að finna til undan því, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur leikið ýmsa gráa leiki í sambandi við íslenzkan landbúnað og þar sé umbóta og leiðréttinga þörf, sé ekki að vænta þess, að svo verði á litið að minkamál þeirra verði nokkurn tíma til umbóta á þeim vettvangi. [Frh.]