20.04.1965
Neðri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (2515)

130. mál, loðdýrarækt

Frsm. minni hl. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Ég hafði búizt við nokkru lengri umr. um þetta mál, því að allmargir menn voru á mælendaskrá, en það hefur gerzt á milli funda, að þeir hafa fallið frá orðinu. Ég vil þó ekki láta málið ganga svo til atkvgr., að ég bæti ekki örfáum athugasemdum við það minnihlutaálit, sem ég hef áður flutt og þá till. mína, að þetta mál verði látið ganga til ríkisstj., en ekki afgreitt.

Fyrr við þessa umr. kom fram mjög hörð gagnrýni, ekki aðeins frá mér, heldur sérstaklega frá hv. 5. landsk. þm., á því, að mál þetta skuli vera komið til 2. umr., án þess að fyrir þinginu eða fyrir d. liggi álit frá náttúruverndarráði Íslands, frá náttúrugripasafninu eða yfirleitt frá nokkrum náttúrufróðum mönnum. Ég skýrði frá því hér, að ég hefði á síðasta stigi afgreiðslu málsins í hv. landbn. bent á þetta. Ég skýrði frá því, að meðnm. mínir hefðu tekið ábendingunni vel, en málið var það langt komið, að ég taldi mig ekki hafa rétt til þess, af því að ég hafði verið fjarverandi, að krefjast þess, að leitað væri þessarar álitsgerðar. Samt sem áður vil ég nú undirstrika það, sérstaklega af því að fleiri þm. hafa tekið undir þetta álit mitt, að mér finnst vera mikill ábyrgðarhluti að afgreiða þetta mál við 2. umr. án þess að leita eftir áliti hjá stofnun eins og náttúruverndarráði og ég spyr: Til hvers höfum við náttúruverndarráð, ef ekki til þess að fá ráð þess og ráðleggingar í máli eins og þessu?

Nú vill svo til, að síðan mál þetta var síðast til umr. hér fyrir páska, hefur Hið íslenzka náttúrufræðifélag haldið fund í háskólanum, þar sem um þetta mál var fjallað. Þar kom fram ungur náttúrufræðingur og flutti langt og mjög athyglisvert erindi um þetta mál og finnst mér, að það sé rík ástæða til þess, að hv. d. fái að kynna sér það álit hans fyrir milligöngu landbn., áður en gengið er til afgreiðslu á þessu máli.

Það er skemmst frá að segja, að hann lét í ljós mjög svipaðar skoðanir og hv. 5. landsk. lýsti hér í fyrri umr. og menn eins og Finnur Guðmundsson náttúrufræðingur og fleiri sérfróðir menn tóku mjög undir þá sömu skoðun, sem er á þá lund, að aliminkur, sem sleppur úr haldi, kunni ekki að hegða sér í annarlegri náttúru á sama hátt og minkastofn, sem búinn er að vera hér lengi og aðlaga sig þessu landi. Þess vegna sýnir reynslan, að sá nýfrjálsi aliminkur sé miklu skæðari, haldi sig meira í kringum mannabústaði, kringum alifuglabú og hann drepi sér ekki aðeins til fæðu, heldur miklu meira en það. Ef menn líta um öxl, þá hygg ég, að marga renni minni til ýmissa atvika um skaða, áberandi skaða, sem minkurinn olli hér á landi, t.d. það, þegar hann drap hænsni í stórum stíl og raðaði þeim upp, eins og sagt var, án þess að þurfa á þeim að halda sér til viðurværis. Þessar sögur voru miklu algengari fyrr á árum, en eru færri nú, eftir að villiminkurinn hefur samlagazt íslenzkri náttúru að nokkru leyti og er að komast í visst jafnvægi að því er náttúrufræðingar telja.

Það var skoðun náttúrufræðinganna, sem fram kom á þessum fundi, að það væri mjög varhugavert, ef hér væri komið upp minkaeldi á nýjan leik, því að þá mundi sá stofn, sem fyrir er, fá stöðuga blóðgjöf frá minkum, sem sleppa út og sú plága, sem verið hefur af þessu dýri, mundi því ekki haldast í skefjum, eins og nú eru vonir um að hægt sé að tryggja, heldur vakna upp á nýjan leik. Það var athyglisvert um þennan fund, að þar voru bæði náttúrufræðingar og náttúruvinir, sem voru á móti minkaeldi og 3 eða 4 menn, sem mæltu mjög eindregið með því, en á þessum fundi kom það fram hjá báðum aðilum, bæði þeim, sem voru á móti minkaeldi og þeim, sem mæltu með því, að þeir töldu, að ganga mætti út frá því, að minkurinn hlyti alltaf að sleppa úr búrum. Þarna voru báðir aðilar sammála um það, að út frá þeirri forsendu yrðum við að dæma þetta mál. Hins vegar hefur það komið fram hér nú eins og ávallt áður, þegar málið hefur verið rætt, að talað er um einhverja nýja tækni, sem eigi að gera það tryggt, að nú sleppi ekkert dýr úr haldi. En þarna gengu bæði sérfróðir menn, sem eru með minkaeldi, og sérfróðir menn, sem eru á móti, út frá þeirri forsendu, að minkurinn sleppur alltaf og bentu m.a. á það, að ekki þyrfti nema illviðri, sem gæti valdið skemmdum á minkabúrum, eða skemmdarverk, sem er ekki óþekkt hér á landi, eða einhver slík atvik og þá væri jafnan við því að búast, að ekki slyppu eitt og eitt dýr, heldur mörg í einu. Náttúrufræðingarnir létu þá skoðun í ljós, að minkastofninn væri að ná, eins og þeir orðuðu það, vissu jafnvægi í landinu og töldu, að með þeim ráðstöfunum, sem gerðar væru, mundi vera hægt að halda honum í skefjum. Þeir bentu á þær staðreyndir, að minkurinn er hér í allt öðru umhverfi, en í öðrum löndum. Hér eru ekki ýmiss konar smádýr, bæði í vatni og á landi, sem minkurinn lifir aðallega á annars staðar, t.d. í Norður-Ameríku og vegna þess að hér eru ekki þau dýr, sem hann virðist aðallega lifa á í öðrum löndum, leggst hann á fugla og fisk og veldur tjóni hér, sem hann er ekki kunnur að því að valda í stórum stíl annars staðar. Það kom fram á þessum fundi, að minkar sleppi mjög úr búrum, t.d. bæði í Noregi og Svíþjóð og þar hafi menn áhyggjur af þessu vandamáli, það sé ekki rétt, sem gert hefur verið, að benda á Noreg og Svíþjóð sem dæmi um það, að hér sé ekki um neitt vandamál að ræða. Það voru nefndar tölur, — ég man ekki, það var einhvers staðar á milli 6 og 10 þús. minnkar, sem eru drepnir árlega í hvoru þessara landa um sig. Ég tel því enn eins og fyrr, að okkur beri að fá fram álít þeirra aðila, sem Alþ. hefur sjálft sett upp til að fjalla um náttúruverndarmál.

Ég tel, að það standi, sem hér hefur áður verið sagt, að í þessu máli hafa engin ný rök komið fram, sem gefi tilefni til þess, að Alþingi breyti ákvörðun sinni frá 1951. Það hefur engin skýring verið á því gefin, hvers vegna nú sé meiri von um það en áður, að hægt verði að halda dýrunum inni. Það, hefur engin skýring verið gefin á því, hvers vegna við getum nú gert ráð fyrir því, að minkar, sem sleppi úr haldi, valdi ekki sama tjóni og þeir hafa valdið áður. Það hafa sem sagt engin sérstök ný rök komið fram, sem breyta þessu máli og þess vegna minni ég á, að fyrir fáum árum, þegar Einar Sigurðsson flutti þetta mál hér inn, talaði um 1½–2 millj. minnka í landinu, — það er sá fjöldi, sem þarf til þess að hagnýta allan fiskúrganginn að hans áliti, — þegar Einar flutti sitt mál hér, var það rannsakað mun betur og ýtarlegar en nú. Þá var fengin frá Noregi, frá Árna G. Eylands, mjög ýtarleg grg. um þetta mál, eins og það horfði við frá norskum sjónarhóli og skoðanir hans á ýmsum þeim vandamálum, sem fram komu. Hann er heldur hlynntur því, að við tökum upp minkaeldi, en samt sem áður þótti þessari hv. d. málið ekki vera á því stigi, að rétt væri að afgreiða það og ákvað að vísa því til ríkisstj. til frekari athugunar. Þar er það nú búið að vera alllengi, og það liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um það, að ríkisstj. hafi látið fram fara athugun, sem gefi Alþ. tilefni til að breyta sinni fyrri afstöðu. Kjarni þessa máls virðist vera af hendi þeirra, sem eindregið mæla með því, að minkarækt verði tekin upp á ný, að við höfum skaðann og skömmina af minknum og hví skyldum við þá ekki hafa gróðann af honum líka? Svarið við þessari einföldu röksemdafærslu er ósköp svipað. Þeir, sem eru á móti því að taka upp minkaræktina aftur, trúa því ekki, að það sé hægt að hafa neinn verulegan gróða af henni, án þess að valda nýju tjóni á sama hátt og fyrr, vegna þeirra skoðana, sem ég hef þegar með fáum orðum lýst. Ég vil því eindregið mælast til þess, að þessari umr. verði ekki lokið, en það verði leitað álitsgerðar frá náttúruverndarráði og hún liggi a.m.k. fyrir, áður en málið er tekið til efnislegrar afgreiðslu hér í þessari hv. deild.