20.04.1965
Neðri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (2516)

130. mál, loðdýrarækt

Halldór Ásgrímsson [frh.] :

Herra forseti. Í tilefni af orðum hv. forseta vil ég geta þess, að ég kvaddi mér nú ekki sérstaklega hljóðs, sökum þess að ég hafði ekki lokið máli mínu, þegar síðast var gert hlé á umræðu um málið.Ég var þá langt kominn með það, sem ég vildi segja, og skal því ekki bæta mjög miklu við. En af því að umræðan er orðin nokkuð fyrnd sökum þess, hve langt er síðan málið var hér til meðferðar, vil ég aðeins fyrst víkja að því, sem ég hafði áður drepið á í sambandi við þetta minkamál.

Ég hafði vikið að raunasögu okkar í sambandi við innflutning lifandi dýra, m.a. innflutning sauðfjár, sem fjárkláðinn á sínum tíma barst með hingað til lands, innflutning karakúlfjárins, sem flutti hingað margs konar sauðfjárpestir, sem ekki er enn séð fyrir afleiðingar af og svo hafði ég vikið að minkainnflutningnum og drepið á þær plágur, sem fylgt höfðu í kjölfar alls þessa dýrainnflutnings, hver á sínu sviði og undantekningarlaust valdið ómældri bölvun og fjártjóni, sem ekki er enn séð fyrir endann á. Allir þessir menn, sem hafa staðið fyrir þessum dýrainnflutningi, hafa vafalaust ætíð verið í góðri trú, að um væri að ræða framkvæmd, sem mundi verða íslenzkum landbúnaði og þjóðinni í heild til hagnaðar og framdráttar á einn eða annan hátt, hafa gyllt fyrir sér og öðrum þá arðsvon, sem um væri að ræða í hvert sinn. Þessum mönnum var á sinum tíma vorkunn, því að þeir vissu þá ekki betur, en þeirra málflutningur bar vott um. En nú erum við reynslunni ríkari og ættum ekki að hafa löngun til að leika okkur t.d. að minkaeldinum eftir allt það, sem er á undan gengið í því efni.

Minkamennirnir virðast nota sömu slagorðin í sambandi við minkaeldið nú og voru notuð, þegar minkurinn var fyrst fluttur inn og vék ég að því áður í ræðu minni. Þeir segja enn á þá lund, að þetta land okkar hafi upp á að bjóða svo einstæða aðstöðu um minkaeldi, að það nái ekki nokkurri átt að nota sér ekki slíkt. Þeir hafa líka fyrr og síðar slegið á þá strengi, að minkaeldið sé stórkostlegt hagsmunamál, m.a. fyrir sjávarútveg okkar, með því að gera að meira verðmæti hvers konar fiskúrgang til minkafóðurs. Og nú ætla þeir einnig að gera að miklu verðmæti blóð og innyfli sláturdýra. En þessi aðstaða um fóður var fyrir hendi á þeim tíma, sem verulegt minkaeldi var hér, þegar minkamennirnir flosnuðu upp að mestu leyti, vegna þess að þetta voru ekki staðreyndir, að hér væru svo sérstaklega óvanalegar aðstæður, sem gerðu minkaeldið svo tiltakanlega verðmætt. Og þegar upp var staðið og minkaeldi var bannað, þá munu hafa verið 5–7 bú, sem hokruðu að nafninu til hér þrátt fyrir allt það sérstæða og góða, sem landið átti að hafa að bjóða í sambandi við loftslag, í sambandi við hráefni til fóðurs og annað slíkt. Þetta eru nú staðreyndirnar í málinu.

Ég hafði svo fyrr í ræðu minni vikið að þessu einstæða minkafrv. og lýst þar skoðun minni og raunar fleiri og vitnaði þar m.a. í 5. þm. Vesturl. um það, hvað frv. væri ófullkomið og fátæklega útbúið til samþykktar, því að það er í raun og veru svo að segja ekkert í frv. af því, sem máli skiptir, þ.e. að varðveita eftir föngum þá möguleika að afstýra því, að villiminkurinn nemi land hér að nýju. Og ég vék að því, að þetta frv. væri furðulegur óskapnaður, eins og maður segir oft um hluti, sem hvorki eru fugl né fiskur.

Mér finnst það vera athyglisvert, að minkamennirnir leggja til, að lögleyfð séu aðeins 5 minkabú næstu tvö árin og síðan má ekki fjölga þeim nema með sérstöku leyfi: Ekki skal ég út af fyrir sig lasta þessa varfærni, þar sem þetta ákvæði bendir þó til þess, að einhver hrollur, einhver ímugustur er nú í minkamönnunum í sambandi við að gera minkinn aftur að borgara hér í þessu landi. En hvað á svo að gera eftir 2 ár? Væri ekki nú þegar ástæða til að hugleiða það? Við skulum segja, að þessi 5 minkabú hafi yfirleitt gefið sæmilega raun, sem að sjálfsögðu er enginn mælikvarði á það, hvað fram undan er, ef horfið er að atvinnufrelsi í þessu efni, eins og ætlazt mun vera til. Og má þá ekki búast við, að eftir tvö ár komi krafa um, að fleiri megi freista gæfunnar í sambandi við minkaeldið? Og enn fremur má spyrja: Fyrst þetta minkaeldi er svo mikilvægt bjargráðamál í sambandi við sjávarútveg og landbúnað, hvernig eiga þeir að þola það, sem bíða tvö ár og kannske þurfa þá að sætta sig við það, að ekki verði fjölgað minkabúunum? Varla kemur til mála, að minkurinn sé svo gráðugur í fiskúrganginn, að hann bjargi sjávarútveginum, ef honum eru ekki ætluð nema þau 5 bú, sem nefnd eru í frv. Það rekst sem sagt hvað á annars horn í þessu máli. Nú hef ég heyrt sagt, að aðrar leiðir séu að finnast um verðmæta fullnýtingu í sambandi við fiskúrgang og muni því kannske ekki þurfa að flýja til minksins til þess að gera fiskúrganginn verðmætari, en hann er nú. Það má sem sagt gera ráð fyrir því, að það geti fleiri en 5 eigendur minkabúa gert kröfu til þess að fá að ala hér upp mink eftir þessi tvö ár og þá er maður kominn að upphafinu eða endanum á þessu fullreynda máli, þá endurtekur sagan sig og sýnir, að það er ekki mikil gróðavon í þessu, enda reynslan áður sýnt það, en við verðum fljótlega nokkrum þúsundum villiminka ríkari.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta. Hv. 5. þm. Vesturl. vék að athyglisverðum fundi, sem haldinn var fyrir skömmu um þetta minkamál, þar sem það var rætt af hálfu náttúrufræðinga og dýrafræðinga, sem geta vel um dæmt, hvaða afleiðingar mundu geta orðið af að leyfa þetta eldi. Hann minntist líka, hv. 5. þm. Vesturl., á reynslu þá, sem fengin er t.d. í Noregi. Það liggur fyrir skjallega, að reynslan er þar í raun og veru dapurleg. Minkurinn sleppur þar úr búrum, hve vel sem frá er gengið og get ég varla búizt við, að hv. minkamenn hér hafi betri ráð til þess að varðveita hann í búrunum, en þær þjóðir, t.d. Norðmenn, sem hafa fengizt við þetta eldi áratugum saman.

Mér hefði verið skapi næst, að þetta frv. yrði fellt. En ég get vel sætt mig við till. hv. 5. þm. Vesturl. að vísa málinu til hæstv. ríkisstj. Hv. þm. benti á, að áður er málið búið að hvíla hjá hæstv. ríkisstj. síðan 1960 og hún hefur öll þessi ár sýnt það lofsverða aðgerðaleysi í málinu, sem raun ber vitni og ég vænti þess og er þar sammála hv. 5. þm. Vesturl., að það er ekki ástæða til annars, en treysta hæstv. ríkisstj. áfram til að sitja sem fastast á þessu máli, ef því er vikið til hennar.

Hv. 5. þm. Vesturl. vék að einu atriði sérstaklega í sambandi við eindæma afgreiðslu þessa máls, að það hefði ekki verið sent til umsagnar náttúruverndarráðs og skal ég ekki fjölyrða um það frekar, en tel það furðulega afgreiðslu af hendi hv. landbn., að slíkt skyldi koma fyrir, að ólöstuðum þeim aðilum, sem fengu málið til meðferðar.

Hér er svo brtt. frá tveimur hv. þm. Ég skal ekki fjölyrða um hana. Hún er athyglisverð fyrir það, að þeir taka nú svo djúpt í árinni, að það á að senda sendinefnd eða kannske ekki nema einn mann, — hefði mátt hugsa sér að senda 3 menn, t.d. flm. þessa frv., — til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur til þess að rannsaka ofan í kjölinn, hvað sagt er um minkinn í þessum löndum. Ég get yfirleitt vel treyst þessum ágætu mönnum til að flytja trúverðuga skýrslu um málið, en tel hins vegar, að það væri heppilegra, að þeir færu allir saman til að skoða þetta, svo að ekki væri hægt að vefengja frásögnina, því að betur sjá augu en auga. (Gripið frsm í: Á ekki að taka flm. brtt.?) Það gæti mjög vel komið til athugunar. En ég sting ekki upp á því, vegna þess að ég treysti þeim enn þá betur að sýna björtu hliðina og ég gæti vel trúað því, að fyrri flm. brtt. væri kannske mjög fær um að hafa minkabú hér með góðum árangri, þótt ég jafnvel vantreysti þessum þremur ágætu þm. að reka saman minkabú, svo að vel fari á. Sem sagt, ég endurtek það, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði, að það er hrein furða, að mál þetta skuli ekki hafa verið sent til þess ráðs, sem það í raun og veru heyrir undir og tel, að það ætti að fresta umr. málsins og fá umsögn um það frá náttúruverndarráði.