29.04.1965
Neðri deild: 75. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (2525)

130. mál, loðdýrarækt

Fram. meiri hl. (Jónas Pétursson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 5. þm. Vesturl., þar sem hann kom inn á það, að ég hefði talað um, að andstaðan gegn þessu væri mest tilfinningamál. Ég er alveg ákveðið þeirrar skoðunar. Hins vegar er það alger misskilningur, að ég sé þannig gerður, að ég telji, að tilfinningar geti ekki haft lög að mæla, það er fjarri því og eins og hann vitnaði í, að ég hefði sjálfur flutt hér mál á þann veg, að það væri sýnilegt, að ég teldi, að í tilfinningum gætu einnig falizt rök.

Hann vildi halda því fram, að ég hefði sýnt mikið skilningsleysi í þessu máli. Ég vil nú ekki deila um það. Ég fæ ekki séð, að það hafi nokkur áhrif á þá villiminkaplágu, sem við höfum fyrir í landinu, hvort við leyfum minkarækt í búrum, án þess þó að mér detti í hug að fullyrða, að það geti ekki hent, að einn og einn minkur sleppi úr vörzlu. Það mun vera staðreynd á Norðurlöndum, að þetta kemur einstaka sinnum fyrir. Og það er raunar algert matsatriði. Menn geta haft um það mismunandi skoðanir, hvort það sé líklegt, að það kunni að gerast hér í þeim mæli, að það hafi einhver áhrif á villiminkastofninn í landinu. Ég er þeirrar skoðunar, að það muni ekki verða, að það hafi teljandi áhrif eða jafnvel nokkur áhrif á þann villiminkastofn, sem við eigum fyrir í landinu.

Ég heyrði sagt hér sem rök gegn þessu máli, að ef farið væri að leyfa ræktun minka hér í búrum, þá mundi það slæva, þá mundi það draga úr þeirri herferð, sem haldið er uppi um eyðingu villiminksins. Ég get ekki séð, að fyrir þessu geti verið nokkur rök. Ég lít svo á, að það hljóti að verða haldið áfram hér eftir sem hingað til af fullum krafti með allar hugsanlegar útrýmingarráðstafanir gegn villimink.

Þá sagði hv. þm. út af umsögnum þeim, sem hafa ekki borizt frá náttúruverndarráði, að skv. íslenzkum lögum væri ekki hægt að framkvæma þetta mál nema bera það undir ráðið. Vitanlega er það rétt, að skv. íslenzkum lögum á að leita álits þess á innflutningi á dýrategundum. Og það er heldur ekkert því til fyrirstöðu, eins og gefur að skilja, að það verði gert eins og lög standa til, þó að þetta frv. nái fram að ganga. En hitt fæ ég ekki séð, að með löggjöf um náttúruverndarráð hafi því verið seldur allur réttur til að ráða um löggjöf hér á Alþingi, að því er snertir innflutning á dýrum.

Ég skal ekki fara í neitt karp um það, hvort við óskum eftir, að þessar umsagnir liggi fyrir, áður en 2. umr. lýkur. Hins vegar taldi ég, að við gætum vel við það unað að fá þessar umsagnir fyrir lok 3. umr. En nú hafa komið fram mjög eindregnar óskir um það, að 2. umr. verði ekki lokið, fyrr en þessar umsagnir liggja fyrir, og ég skal ekki vera að fara í karp um það, en láta það í vald hæstv. forseta.