04.05.1965
Neðri deild: 81. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (2532)

130. mál, loðdýrarækt

Frsm. minni hl. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Afgreiðsla þessa frv. við 2. umr. hefur leitt í ljós, að í þessari hv. d. virðist vera meiri hl. fyrir því að leyfa minkarækt á nýjan leik. Við atkvgr. vakti það sérstaka athygli, að stærsti flokkur þingsins, Sjálfstfl., stóð að heita má einhuga að málinu, nema hvað einn af þm. hans sat hjá. Þetta vekur athygli, fyrst og fremst vegna þess, að það er 20–30 ára venja hér í þinginu, að loðdýraræktarmálin hafa ekki farið eftir flokkslínum og allir flokkar hafa meira eða minna skipzt um þau og nefni ég þetta sérstaklega vegna þess, að fyrir fáum árum voru í röðum Sjálfstfl. menn, sem gengu fram fyrir skjöldu í þessu máli, menn eins og Pétur Ottesen, sem enn eru kosnir til æðstu trúnaðarstarfa í flokknum og ég á erfitt með að trúa að séu hrifnir af því, að flokkurinn skuli einhuga ganga fram á þessari braut.

Ég sé ekki ástæðu til að rifja upp aftur þær röksemdir, sem ég hef flutt á móti þessu frv. En við 2. umr. lagði ég eingöngu til, að málinu væri vísað til ríkisstj. Nú hefur því verið hafnað og vil ég því leyfa mér að flytja 2 brtt. við frv. sjálft og byggjast þær brtt. á þeim viðhorfum, sem nú verður að horfast í augu við um vilja dm.

Í þeim umr., sem fram hafa farið um þetta mál hér í d., hefur komið fram sú höfuðröksemd með því að leyfa minkarækt, að við höfum nú þegar minkaplágu, við höfum skaða og skömm af því máli og hví þá ekki að reyna að hirða einhvern gróða af því um leið? Í sambandi við þetta sjónarmið langar mig til að flytja brtt. við 6. gr. Þar er um fjallað, hvernig rn. skuli velta leyfi fyrir loðdýragörðum, eins og nú á að kalla þá (pelsegård á góðri dönsku). Ég legg til, að það verði bætt einni mgr. við þessa gr., er hljóði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Leyfi til minkaeldis má þó aðeins veita í sveitarfélögum, þar sem villiminkur hefur þegar náð öruggri fótfestu að dómi veiðistjóra.“ Þessi till. þýðir, að stórir hlutar af landinu, sem enn eru lausir við minkapláguna, skuli ekki verða fyrir þeirri áhættu, sem mundi óhjákvæmilega fylgja, ef minkabú væru sett þar upp. Finnst mér, að þessi brtt. sé í fullkomnu samræmi við höfuðröksemd þeirra manna, sem með frv. mæla.

Ég hygg, að þótt hart hafi verið deilt um þetta mál, muni enginn halda fram, að báðum málsaðilum sé ekki jafnannt um að forðast tjón í náttúru Íslands, þó að mat manna á því, hve mikil hætta fylgi minkarækt og endurreisn hennar, sé mismunandi. Þess vegna treysti ég því, að sé meiri hl. þessarar d. þeirrar skoðunar, að óhjákvæmilegt sé fyrir efnahagsafkomu okkar að innleiða minkarækt á nýjan leik, þá fáist þessi sami meiri hl. til að hlífa þeim landshlutum, sem enn hafa losnað við minkapláguna.

Síðari brtt., sem ég flyt, er um nýja gr. á eftir 7. gr. frv. Er lagt til að setja algerlega nýtt efnisatriði inn í frv. Ein af höfuðröksemdunum fyrir því, að við getum gert loðdýrarækt eða minkarækt að arðvænlegum atvinnuvegi, er sú, að hér falli til mikill fiskúrgangur og sé nauðsynlegt að hagnýta hann betur, en gert hefur verið hingað til. Nú höfum við flutt þennan fiskúrgang út fyrir allgott verð. Á árinu 1964 voru flutt út 7.165 tonn, og fyrir þetta fengust, eftir því sem Hagtíðindi skýra frá 22.9 millj. kr. Þá vil ég enn fremur benda á, að samkv. l., sem hv. Alþ. samþykkti fyrir 1½ ári eða svo, er útflutningsskattur á fiskúrgangi til dýrafóðurs 4.2%. Ef þessi fiskúrgangur yrði allur notaður innanlands til þess að ala loðdýr og þau síðan flutt út, er verið að hlífa þessum fiskúrgangi við útflutningsskatti, sem aðrar sjávarafurðir verða að greiða. Af 22–23 millj. kr., sem var útflutningsverðmæti þessa varnings s.1. ár, ætla ég, að til leggist hátt í eina millj. kr. í útflutningsskatti. Nú rennur útflutningsskatturinn að vísu til sjávarútvegsins eða fiskiðnaðarins sjálfs að mestu leyti og mundi því dæmið koma þannig út, að fiskiðnaðurinn og sjávarútvegurinn mundi missa úr sínum aski upp undir millj. kr. að óbreyttu verðmæti. Má þó á vissan hátt segja, að ríkið tapi þessu fé, því að ég er sannfærður um, að ef útflutningsskatturinn væri ekki til að standa undir þessum útgjöldum, yrði ríkið að gera það á annan hátt. Í þessu sambandi finnst mér eðlilegt, meðan leyft er með allri þeirri áhættu, sem fylgir, að breyta fiskúrganginum í loðdýr, sitji atvinnuvegurinn eftir sem áður við svipuð kjör hvað útflutningsskatt snertir. Og ég vil því leyfa mér að leggja fram till., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 7. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: Greiða skal útflutningsgjald af loðdýraskinnum eða lifandi loðdýrum, 4.2% af fob-verði. Gjaldið skal renna til vísindalegra rannsókna á lifnaðarháttum villiminks og til sérstakra ráðstafana til útrýmingar honum.“

Ég tel eðlilegt, að þetta gjald, sem væri í samræmi við það, sem greitt hefur verið af útfluttum fiskúrgangi, renni til að freista þess að hamla á móti því hugsanlega tjóni, sem andstæðingar málsins hafa haldið fram að búast megi við, ef frv. verður samþ. Er lagt til, að í fyrsta lagi renni þetta fé til vísindalegra rannsókna á lifnaðarháttum villiminks, en slíkar rannsóknir munu ekki hafa farið fram nema að mjög takmörkuðu leyti. Vitneskja manna um lifnaðarhætti þessa dýrs byggist að verulegu leyti á upplýsingum, sem leikmenn og þeir, sem berjast við minkapláguna, hafa aflað. Þessar vísindalegu rannsóknir ættu að geta skapað grundvöll fyrir sterkari ráðstöfunum til þess að útrýma villiminknum eða halda honum í skefjum, ef lengra verður ekki komizt.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja fram þessar till., sem ekki hefur verið hægt að flytja á eðlilegan hátt vegna þess, hve stutt er liðið síðan 2. umr. fór fram. Ég mundi telja, þar sem efni þeirra skiptir miklu máli fyrir frv., að mjög væri æskilegt, ef hæstv. forseti vildi veita tíma til þess að prenta þetta, svo að þm. gætu séð till. fyrir sér, áður en þeir taka afstöðu til þeirra.