04.05.1965
Neðri deild: 81. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (2540)

130. mál, loðdýrarækt

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð í ræðum þeirra hv. þm., sem hér hafa talað í dag og þær brtt., sem fram koma, sem gera það að verkum, að ég tel mig þurfa að koma hér og segja nokkur orð.

Eins og þegar hefur verið vikið að af öðrum flm. þessa frv., hafa flm. talið sín meginrök fyrir flutningi þess í fyrsta lagi þau, að hérlendis væru góð skilyrði til minkaeldis og miðað við reynslu annarra þjóða mætti hafa af því verulegar og tiltölulegar öruggar tekjur, einnig, að þessi atvinnurekstur, ef til kæmi, yrði traustur viðskiptavinur fiskiðjuvera og sláturhúsa og gæti jafnvel stuðlað að aukinni atvinnu, þar sem hennar væri sérstaklega þörf og a.m.k. stuðlað að bættri fjárhagslegri afkomu viðkomandi sveitarfélaga. Í öðru lagi hefur verið á það bent af flm. frv., að með ströngu eftirliti væri hægt að ganga þannig frá minkabúunum, að litlar líkur væru til þess, að dýrin slyppu út og hefur verið í því efni vitnað til reynslu grannþjóða okkar í þessu efni. Í þriðja lagi, að villiminkurinn væri þegar til í landinu og yrði að öllum líkindum ekki upprættur. Og í fjórða lagi hefðum við Íslendingar aðeins skaða og óhagræði af minknum, sem hér veldur sannanlegu tjóni, en við njótum ekki þess hagnaðar, sem minkaeldi veitir okkar nágrannaþjóðum, þótt öll skilyrði séu fyrir hendi til þess, að svo geti orðið hér á landi.

Gegn þessum röksemdum hafa, að mér finnst, komið ákaflega fátækleg gagnrök og það má segja, að þeir, sem tali gegn málinu, séu sífellt að endurtaka sjálfa sig, og ég fæ ekki séð annað, en hv. síðasti ræðumaður hafi aðeins tekið upp rök fyrirrennara síns í því sæti, sem hann situr nú í hér á hv. Alþ., þótt ólíkt hafi þeim farizt í þeim orðaleik, er þeir báðir hafa hér sýnt. En sá, er áður sat í sæti hans, Halldór Ásgrímsson, viðhafði m.a. þau orð um flytjendur frv., að helzt hefði mátt ætla af orðum hans, að þeim, sem frv. þetta flyttu, væri helzt að líkja við hina svokölluðu Hlébarðamenn í hinni svörtu Afríku, en hann kallaði flm. „minkamenn“, og í framhaldi af því ætti auðvitað að kalla þá, sem gegn því berjast, minkabana.

Það hefur nokkuð verið vitnað hér til orða náttúrufræðinga og þ. á m. til bréfs, sem þingmönnum barst frá náttúrugripasafninu og undirritað er af Finni Guðmundssyni. Í framhaldi af bréfi þessu hefur komið fram brtt. við frv. frá hv. l. þm. Norðurl. v., en í bréfinu gerir þessi náttúrufræðingur það að varatill. sinni, að leyfi fyrir minkaeldi verði aðeins veitt í Vestmannaeyjum og virðist hann, þessi hv. maður, sem telur sig náttúrufræðing og fuglafræðing, lítið leggja upp úr fuglalífinu í Vestmannaeyjum, ef minkurinn er sá skaðvaldur, sem talið hefur verið, eins og hv. 3. þm. Sunnl. benti á hér áðan. Þar að auki sést ákaflega vel á bréfi þessu og þessari varatill. þessa fræðings, að þótt hann telji sig hafa vit á villimink, þá hefur hann sáralítið og ég mundi segja eftir þessu að dæma ekkert vit á minkaeldi, því að eitt af því, sem þeir, sem minkaeldi hafa stundað í öðrum löndum, telja að beri að varast, er að vera með minkaeldi á stöðum, þar sem rakastig er hátt og mikil úrkoma. En ég held, að í Vestmannaeyjum sé þetta kannske með mesta móti hér á landi.

Það hefur verið nokkuð minnzt á það, að þau dýr, sem kynnu að sleppa úr búrum, — og ég vil undirstrika það, að það verður auðvitað aldrei fyrirbyggt, að slíkt gæti skeð, — það hefur verið bent á og þ. á m. af þessum náttúrufræðingi, að það gæti skeð vegna náttúruviðburða, svo sem jarðskjálfta. Við höfum dæmi þess hér á Íslandi, að það eru nokkrir áratugir síðan það hefur hent, að hús hafi hrunið. Hættan á því, að slíkar girðingar, eins og þær eru útbúnar nú á dögum í nágrannalöndum okkar, fari um vegna slíkra náttúruhamfara, eru í algeru lágmarki móti húsum. Það hefur verið bent á, að slíkar girðingar gætu orðið fyrir snjóskriðum eða öðrum skriðum. Það er líka hægt að telja á fingrum sér þau slys, sem orðið hafa á húsum og öðrum mannvirkjum af slíkum ástæðum hér á Íslandi á undanförnum árum og menn í viðkomandi byggðarlögum, þar sem loðdýrarækt kynni að vera tekin upp, eru auðvitað kunnugir því, hvar hætta er á slíku. Það hefur einnig verið bent á það, að kæruleysi og trassaskapur, sem hér á Íslandi hefur of mikið legið í landi til þessa, gæti einnig valdið því, að minkurinn slyppi út og það er enginn vafi á því, að þetta var stærsta ástæðan til á sínum tíma, að minkurinn slapp út í jafnríkum mæli og raun bar vitni um. En í frv. má sjá, að ráðh. og viðkomandi aðilum er ætlað að refsa þessum mönnum eða setja þannig refsiákvæði við, ef kæruleysi er sýnt, að það eigi að verða það víti, sem til varnaðar verði. En þetta var ekki fyrir hendi á sínum tíma. Eftirlit var ónógt með öllu og í flestum tilfellum ekkert.

Ein ástæðan, sem um hefur verið rætt í sambandi við málið, er sú, að fuglalíf hér á landi muni bíða mikinn hnekki af. Ef hv. þm. litu nánar á það frv., sem nú liggur fyrir þinginu um eyðingu svartbaks, má sjá í því frv., grg. þess, fullyrðingar um, að svartbakurinn eyði eða drepi um 90% af æðarungum, sem út komast. Ég veit ekki, þegar þess er gætt, að slíkur fugl verður auðvitað fyrir margs konar annarri ofsókn og lætur sitt unga líf þess vegna, — ég veit ekki, ef trúnaður er lagður á þessa fullyrðingu, hvað sé þá eiginlega eftir handa minkum, hvað það er, sem hann eigi að drepa af þeirri fuglategund. Það hefur líka verið bent á það, að minkurinn drepi svo og svo mikið af fiski úr ám og vötnum. Það er enginn vafi á því, að hann gerir það. En ég held, að hann vinni þó meira gagn, þar sem slíkt er fyrir hendi í ám og vötnum, nytjaveiði, að hann vinni meira gagn með því að halda frá þessum stöðum fugli, sem drepur seyði í milljónatali á hverju ári og ég vil minna á þá fregn, sem hér barst út ekki alls fyrir löngu, að í svartbak, sem drepinn hafði verið upp við Akrafjall, voru talin 90 laxaseiði.

Ég tel, að þær brtt., sem hér hafa komið, eigi ekki erindi inn í frv. á þessu stigi málsins. Ég tel, að þær séu ekki til bóta. Ég hef minnzt á till. 1. þm. Norðurl. v. Þótt hún sé byggð ekki aðeins á misskilningi og fáfræði viðkomandi vísindamanns um minkaeldi, heldur og á hinum mikla húmoríska sans, sem þessi þm. hefur, tel ég það sízt til bóta. Brtt. hv. 5. þm. Vesturl. og þó sérstaklega sú síðari bera þó með sér, að innra með sjálfum sér hefur þm. trú á því, að þessi atvinnuvegur geti orðið til nokkurs gagns, ef hann telur, að hægt sé að leggja 4.2% útflutningsgjald á væntanlegar afurðir af atvinnuvegi þessum, sem eigi að fara til vísindalegra rannsókna á lifnaðarháttum villiminka. Ég tel, að það megi til sanns vegar færa, að þessi till. ætti nokkurn rétt á sér, þótt ég telji hins vegar, að á þessu stigi og meðan tveggja ára tilraunatíminn stendur yfir og er að líða sé ekki kannske ástæða til þess að leggja þennan skatt á þau 5 tilraunabú, sem frv. gerir ráð fyrir að leyfð verði. Hitt er annað mál, að ég teldi það ekki illa farið á seinna stigi, að einmitt þessi atvinnuvegur gæti lagt eitthvað af mörkum til þess að rannsaka lifnaðarhætti þessa dýrs og reyndar margra annarra hér á landi, sem full þörf er á. En á þessu stigi sé ég ekki ástæðu til að samþykkja þessa tillögu.

Það hafa komið fram sem gagnrök gagnvart frv. þessu tilvitnanir hjá þm. til þess gagns eða þeirrar hagkvæmni, er minkaeldi og önnur loðdýrarækt gaf af sér hér áður fyrr og það er vitnað til þess árangurs, er varð hér á landi og talað um þann árangur sem mjög lakan. Ég tek undir það að því leyti, að það var auðvitað mikill skaði, þegar dýrin sluppu út og ég vil líka taka undir þau orð hv. 2. flm. þessa frv., að ég er efins í, að ég hefði verið með í flutningi slíks frv., ef villiminkur hefði ekki verið hér á landi. En það er vitnað til þess árangurs, er þá fékkst af minkaeldi og svo til þess, sem er nú í nágrannalöndum okkar. En ef á að fara að vitna til þess árangurs, er hér var, verður líka að vitna til þess árangurs, er fékkst hjá okkar grannþjóðum. En loðdýraeldi í þeirri mynd, sem hér var og þar á Norðurlöndum t.d., hófst ekki fyrr en skömmu fyrir 1930 og hér á landi skömmu eftir 1930. Og það er sama sagan á Norðurlöndum eins og hér, að það reyndist ákaflega lítill hagnaður af þessum rekstri á Norðurlöndum á þessum árum. Ég geri ráð fyrir eins og um þau bú, sem enn voru hér við lýði 1939–1940 og gáfu góðan arð sum þeirra, að það hafi verið sama sagan á Norðurlöndum, að það hafi ekki verið nema lítill hluti þeirra loðdýragarða, sem þá voru komnir þar upp, sem gaf góðan arð. Það var hins vegar eftir stríðið og fram undir 1950, sem þessi atvinnugrein fór að þróast á Norðurlöndum. Hún fór að þróast vegna þess, að það tóku saman höndum þeir, sem áhuga höfðu á minkaeldinu, og vísindamenn, sem kynntu sér það, sem með þurfti í sambandi við þessa búgrein. Og það er ekki sízt fyrir það, sem þessi atvinnugrein vex svo á Norðurlöndum, að hagnaður hennar er orðinn þýðingarmikill fyrir búskap þessara þjóða. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, þótt ég sé ekki jafnstórhuga eða bjartsýnn um ágæti málsins og Einar Sigurðsson var hér á hv. Alþ. á sínum tíma, að þessi atvinnugrein, ef af henni verður, getur fært þeim, sem í henni taka þátt, mikinn ágóða, sem ég held að verði langt um fram þann skaða, sem gæti hlotizt af því, ef einhver dýr slyppu út, sem ég þó tel að sé á þessu ári tækni og vísinda hægt að halda í algeru lágmarki, þótt ég geti hins vegar alls ekki fullyrt, að slíkt komi aldrei til með að ske.