04.05.1965
Neðri deild: 81. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

130. mál, loðdýrarækt

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Einn af flm. þessa frv., hv. 8. þm. Reykv., flutti ræðu hér áðan. Eitt af því, sem hann fræddi okkur um, var það, að þeir, sem settu upp loðdýrabú og létu dýr sleppa úr þeim, mundu verða fyrir þungum refsingum. Hvað segir frv. hans um þetta? Ég hef ekki fundið annað um þetta efni í frv. en 8. gr. þess og hún er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, er settar verða samkv. þeim, varða sektum.“ Það er ekkert um það getið, hvað þær sektir eiga að verða miklar, svo að mér finnst þetta nú vera nokkuð út í hött hjá hv. þm.

Þá var hann einnig að tala um það, að svartbakurinn gerði mikið tjón í fiskastofninum. Ekki skal það dregið í efa, að hann valdi þar tjóni, en hitt fæ ég ekki skilið, að einmitt vegna þess að svartbakurinn er svona skæður, sé nauðsynlegt að fá mink til þess að hirða meira og minna af því, sem hann skilur eftir af laxi og silungi, það er ofvaxið mínum skilningi. Og það var ýmislegt fleira í ræðu hv. 8. þm. Reykv., sem kom undarlega fyrir mín eyru. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að minkurinn mundi vinna gagn, en þó sagði hann skömmu síðar, að það væri vafasamt, að hann hefði verið meðflm. að þessu frv., ef minkur hefði ekki verið fyrir í landinu.

Þá er það hv. 3. þm. Sunnl., sem flutti hér ræðu fyrir skömmu. Hann á heima í Vestmannaeyjum og er bæjarstjóri þar, eftir því sem ég veit bezt. En hann segir, að með till. minni, þeirri sem nú var verið að útbýta hér, væri ég að senda Vestmannaeyjum kalda kveðju eða kaldranalega hefur hann e.t.v. nefnt hana. Mér finnst nú, að hv. þm. hefði heldur átt að flytja þakkarávarp til mín fyrir það, að ég, sem er andstæður minkum, vil þó hafa þarna einhverja smugu fyrir hann og hans heimamenn til þess að hagnýta sér minkinn til þess að græða á honum, sem hann telur að sé hægt að gera. Þetta finnst mér, að hann hefði fremur átt að gera. En þetta er ekki í fyrsta skipti, sem það sannast, að laun heimsins eru vanþakklæti. En það er fjarri mér að vilja setja minkinn á þá í Vestmannaeyjum gegn vilja þeirra, það er ekkert um það í minni till., og því aðeins verður sett þar upp minkabú, þótt mín till. verði samþ., að þar séu einhverjir, sem vilja fara að rækta þar mink. Og það vil ég þá einnig segja að lokum sem svar til hv. 5. þm. Vestf., sem var hér að ljúka máli sínu áðan, hann sagðist ekki vilja stuðla að því, að Vestmanneyingar fái minkinn, því að hann álítur eins og ég, að hann sé plága, en ég vil endurtaka, að það er alls ekki gert ráð fyrir því, að honum sé dembt á þá án þeirra vilja og býst ég við, að hv. 5. þm. Vestf. sé mér sammála um, að það sé þó skárra, að hann verði einangraður í þeirri eyju, heldur en að honum sé hleypt inn á sjálft meginlandið.