11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (2555)

134. mál, Landsspítali Íslands

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Frv. til l. um Landsspítala Íslands, þ.e.a.s. frv. um fjórðungsdeildir landsspítalans í öllum landsfjórðungum, var flutt á síðasta þingi, en fékk þá ekki afgreiðslu og er nú endurflutt af sömu þm., nefnilega þeim hv. 5. þm. Austf. (LJós) og hv. 5. þm. Norðurl. e. (IG) ásamt mér.

Þær till. um breytta skipan heilbrigðismála, sem í frv. felast, hafa, að því er ég bezt veit, vakið almenna athygli og eignazt djúpan hljómgrunn í hugum fólks víðs vegar um land, enda miða þessar breytingar einungis að auknu jafnrétti og jafnræði þegnanna í heilbrigðismálum, án alls tillits til þess, hvar fólk er búsett á landinu. Strax þegar frv. kom fram, gerði bæjarstjórn Ísafjarðar einróma samþykkt, þar sem skorað var á Alþ. að samþykkja frv. Var sú áskorun til þingsins lögð hér fram á lestrarsal í þeim tilgangi auðvitað, að hún færi ekki fram hjá hv. þm. Nú fyrir skemmstu sendi bæjarstjórn Ísafjarðar frá sér allýtarlegar og fjölþættar till. um ráðstafanir til öruggara atvinnulífs, betri lífsafkomu, en einnig um ýmiss konar menningarmál snertandi byggðarlagið og þ. á m. var vikið í þessum tillögum að heilbrigðismálunum. Í þeim tillögum segir svo, með leyfi hæstv. forseta, að því er varðar skipun heilbrigðismálanna:

„Væri þá æskilegt, að fullkomin sérfræðiþjónusta fengist við sjúkrahúsið á Ísafirði. Það hlýtur að teljast eðlilegt, að byggðarlögin á Vestfjörðum sameinist um að gera fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði svo vel úr garði sem nokkur kostur er á. Jafnframt verði með atbeina ríkisvaldsins komið á miklu nánari samvinnu við landsspítalann, þannig að hér verði ávallt unnt að veita sem fullkomnasta sérfræðiþjónustu á öllum sviðum heilbrigðismálanna.“

En það hafa fleiri, en bæjarstjórn Ísafjarðar, látið til sín heyra um þetta mál. Nú í haust barst mér t.d. bréf um heilbrigðismál á Vestfjörðum frá Lionsklúbbi Bolungarvíkur, þar sem skorað er á heilbrigðisstjórnina og Alþingi að samþykkja frv. um deildaskipan landsspítala. Bréfið er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, það er Lionsklúbbur Bolungarvíkur 29. nóv. 1964:

„Í Lionsklúbbi Bolungarvíkur hefur oft verið vikið að heilbrigðisþjónustu þeirri, sem Vestfirðingar eiga við að búa, og er þessi mál bar á góma nú nýlega, þótti rétt að vekja athygli heilbrigðisyfirvalda á nokkrum atriðum í þessu sambandi. En almennt talað mun ekki ofsagt, að ýmislegt sé hér áratugum á eftir tímanum. Hér skal aðeins bent á örfá atriði þessari staðhæfingu til rökstuðnings, en af mörgu er að taka. Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði, aðalsjúkrahús Vestfirðinga, er gamalt hús, víðs fjarri því að vera í samræmi við það, sem nú er almennt talið við hæfi í slíkum stofnunum. Starfsaðstaða er að ýmsu leyti erfið og óhentug. Húsrými vantar til þess, að unnt sé að koma fyrir ýmsum rannsóknar- og lækningatækjum, sem sjálfsögð þykja á hverju sæmilega búnu sjúkrahúsi og auk þess vantar beinlínis sjúkrarúm, þannig að ekki er einsdæmi, að sjúklingar verði að hafast við á göngum sjúkrahússins. Við slíkar aðstæður reynist að sjálfsögðu erfitt að fá eða halda læknum og hjúkrunarliði og má í því sambandi nefna, að um skeið hefur aðeins einn læknir starfað við sjúkrahúsið og þótt hann njóti einhverrar aðstoðar héraðslæknisins á staðnum, hefur hann oftlega orðið að framkvæma hvers konar skurðaðgerðir einn að læknum til, en auk þess er sjúkrahúslæknirinn störfum hlaðinn sem heimilislæknir og hann er eini læknirinn á þessu svæði, sem framkvæmt getur skurðaðgerðir að nokkru marki, hvað sem við liggur. Sé þessi eini skurðlæknir einhverra hluta vegna forfallaður, er því einsætt, að ekkert er hægt að gera. Þarf ekki að fjölyrða um, hvílíkt öryggisleysi hér er um að ræða og hver háski stendur af slíku ástandi. Þurfi fólk á meiri háttar læknisrannsókn að halda, er yfirleitt ekki um annað að ræða, en að fara til Reykjavíkur og hvers konar sérfræðiþjónustu að kalla verður að sækja þangað. Stafa af þessu margvísleg óþægindi, fyrirhöfn og kostnaður, sem ýmsum reynist ofviða.

Með skírskotun til ofanritaðs leyfum við okkur að beina þeim tilmælum til heilbrigðisstjórnarinnar, að hafizt verði handa um úrbætur á því ófremdarástandi, sem hér um ræðir. Jafnframt leyfum við okkur að skora á þingmenn Vestfirðinga að beita áhrifum sínum til framgangs hverjum þeim umbótum, sem hér getur orðið um að ræða. Viljum við í því sambandi benda sérstaklega á frv. til laga um Landsspítala Íslands, er flutt var á síðasta þingi.

Virðingarfyllst.

F.h. Lionsklúbbs Bolungarvíkur.

Finnur Th. Jónsson. Geir Guðmundsson. Jón F. Einarsson.“

Þessu bréfi fylgdi sú orðsending, að bréfið hefði einnig verið sent öðrum Vestfjarðaþingmönnum, svo og landlækni og heilbrmrh.

Það er því auðsætt, að Bolvíkingar líta svo á að það væri til mikilla bóta og aukins öryggis í heilbrigðismálum á Vestfjörðum, ef farið væri að till. þeirri, sem í frv. felst, að stofna til deildar úr landsspítalanum á Vestfjörðum, þ.e.a.s. á Ísafirði og einnig taka þeir undir þá till. frv. varðandi hina landsfjórðungana.

Eins og vikið hefur verið að, byggist frv. á þeirri hugsun, að ríkinu beri til þess skylda að tryggja þegnum sínum sem jafnast öryggi í heilbrigðismálum án tillits til þess, hvar menn eru búsettir á landinu. Menn telja það naumast réttlátt, að ríkið reki stórt og fullkomið sjúkrahús í Reykjavík, létti þannig nálega öllum útgjöldum af herðum skattborgara höfuðborgarinnar að því er þetta málasvið snertir, en ætli hins vegar tiltölulega fámennum bæjarfélögum úti á landi að bera þungar byrðar vegna rekstrarhalla sjúkrahúsa. Með þessu er, eins og við sjáum, gert allfreklega upp á milli þegnanna eftir því einu, hvort þeir hafa valið sér búsetu í Reykjavík eða annars staðar á landinu.

Ég er ekki viss um, að allir hv. þm. hafi gert sér það ljóst, hvaða byrði lögð er á ríkissjóð, þ.e.a.s. á alla þegna landsins, vegna sjúkrahúsrekstrar ríkisins í Reykjavík, þ.e.a.s. landsspítalans, en við þurfum ekki annað, en að líta í fjárl. yfirstandandi árs til þess að ganga úr skugga um, hvaða upphæðir hér er um að ræða. Það eru engar smáupphæðir. Það eru sem sé 58 millj. 806 þús. kr., sem ríkið leggur fram úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar til þess að reka sjúkrahús í Reykjavík. Þetta er vitanlega ekki nema gott og það er nauðsynlegt. En hins vegar er á það að líta, að hvort sem um er að ræða Ísafjarðarkaupstað eða Akureyrarkaupstað eða Neskaupstað, sem reka fjórðungssjúkrahúsin á þessum stöðum, þá lenda á þessum litlu bæjarfélögum mörg hundruð þúsunda sem halli af rekstri þessara sjúkrahúsa og halli á þessum sjúkrahúsum er ekki sjálfskaparvíti þessara bæjarfélaga. Það er nefnilega þannig á málum haldið, að bæjarfélögunum, þar sem fjórðungssjúkrahúsin eru og önnur sjúkrahús reyndar líka, þar fá bæjarstjórnirnar ekki að ákveða daggjaldið. Það eru fyrirmæli heilbrigðisstjórnarinnar, að daggjaldið við þessi sjúkrahús skuli vera hið sama og það daggjald, sem ákveðið er vegna legusjúklinga á landsspítalanum, en legugjaldið þar stendur ekki undir nema örlitlum hluta af rekstrarútgjöldum landsspítalans. Hitt, sem til vantar, sem er hvorki meira né minna en nærri 59 millj. kr., er borgað til rekstrar landsspítalans í Reykjavík úr ríkissjóði.

Þetta er því óréttlátara, þegar á það er litið, að þessi nefndu sjúkrahús taka við sjúklingum langt út fyrir lögsagnarumdæmi viðkomandi bæjarfélaga og eftir síðustu skýrslum, sem ég hef séð, er það svo um öll þessi þrjú fjórðungssjúkrahús, að minni hluti sjúklinganna, sem njóta þar læknismeðferðar, er úr bæjarfélögunum sjálfum, meiri hlutinn er utanbæjarsjúklingar.

Þessu fyrirkomulagi, sem nú ríkir, fylgir og sá annmarki, að rekstur fjórðungssjúkrahúsanna, þrátt fyrir lítið eitt meiri greiðslu úr ríkissjóði vegna rekstrar þeirra, heldur en til annarra sjúkrahúsa, er svo þungbær, að bæjarfélögin ráða ekki við þetta og þar af leiðir, að þessi sjúkrahús fá ekki það viðhald, sem þau þyrftu að fá, það er sparað meir en góðu hófi gegnir til rekstrarins, þau fá ekki þann búnað, lækningatæki og rannsóknartæki, sem með þyrfti, af því að efnahagur bæjarfélaganna leyfir það ekki. Og þannig verður það niðurstaðan, sem að er vikið í bréfi frá Lionsklúbbi Bolungarvíkur, að endurnýjun þessara stofnana fylgir ekki kröfum tímans og þau dragast aftur úr smám saman um margvíslegan nauðsynlegan búnað.

Það er trú okkar flm., að hjá þessum annmörkum væri hægt að komast og eigi að komast með því, að ríkið taki að sér alveg hliðstæðar skyldur við eitt sjúkrahús a.m.k. í hverjum landsfjórðungi og hér er lagt til og leggi fram alveg sams konar fjárframlög til rekstrar þeirra og búnaðar og kostnaðar vegna nauðsynlegra sérfræðinga eins og til landsspítalans sjálfs og að þessi sjúkrahús verði hluti af þessari ríkisstofnun, sem þjónar svo vel Reykvíkingum, en þarf að veita slíka þjónustu öðrum landslýð alveg á sama hátt og auðvitað með sömu kjörum, sama rétti.

Ég fæ ekki betur séð, en að ef sú skipan væri komin á, að landsspítalinn væri starfandi sem aðalspítali hér í Reykjavík og með þremur deildum af þeirri stofnun, þá kæmi ekkert síður til mála að flytja sérfræðinga til í landinu, heldur en eins og nú er gert, að flytja ávallt sjúklingana til. Ég get ekki séð annað en það væri eðlilegt, að færustu sérfræðingar landsspítalans skryppu til Ísafjarðar eða Akureyrar eða Neskaupstaðar til þess að inna af hendi þar vandasöm sérfræðileg störf við þessar deildir stofnunarinnar, sem þeir þjónuðu, heldur en að sjúklingarnir væru ávallt fluttir til Reykjavíkur og jafnvel að sérfræðingar gætu tekið sér dvöl í deildum landsspítalans, þegar ástæða þætti til, eftir því sem á stæði.

Með þessu tel ég, að stórt réttlætisspor væri stigið og í annan stað sérfræðiþekking læknastéttarinnar væri hagnýtt skynsamlegar og betur, en gert er við núverandi skipulag. Með deildaskiptingu landsspítala væri fólkinu úti um byggðir landsins í öllum landsfjórðungum gert jafnhátt undir höfði og íbúum höfuðborgarinnar og það ber að gera jafnt á þessu þýðingarmikla sviði þjóðfélagsmála sem öðrum, eftir því sem hægt er. Fólkið fengi aukið öryggi í heilbrigðismálum, og hin fullkomnasta læknisfræðilega sérþekking notaðist betur, en með núverandi fyrirkomulagi.

Það er þess vegna sannfæring okkar flm. þessa frv., að auk landsspítalans í Reykjavík eigi Vestfirðingar að fá sína fjórðungsdeild landsspítala, Austfirðingar með sama hætti sína landsspítaladeild, Norðlendingar sína og í frv. er jafnvel tekið í mál, að rétt þætti að hafa tvær fjórðungsdeildir landsspítala í Norðlendingafjórðungi sökum fjölmennis hans, en einnig er heimild til þess skv. þessu frv. að stofna landsspítaladeild í Sunnlendingafjórðungi, ef heilbrigðisyfirvöldin teldu, að Sunnlendingar fengju með því betri og fullkomnari heilbrigðisþjónustu, en með því að sækja þessa þjónustu til aðalspítalans í Reykjavík.

Ég hef áður gert grein fyrir þeim annmörkum, sem ég tel að fylgi núverandi skipulagi sjúkrahúsmálanna, eins og lög ákveða nú og tel, að úr þeim ágöllum flestum mætti stórlega bæta með því að samþ. þetta frv. Vafalaust mundu fylgja því auknar fjárhagslegar byrðar fyrir ríkið, en það væri þá líka veitt miklu fullkomnari þjónusta og meira réttlætis væri gætt, að því er snertir þessa þjónustu við landsbyggðina.

Frv., ef það yrði að lögum, mundi að mínu álíti og okkar flm. auka jafnrétti og öryggi í heilbrigðismálum.

Ég skal ekki orðlengja meira um þetta mál. Ég kynnti það allrækilega með framsöguræðu á síðasta þingi og það liggur algerlega ljóst fyrir, hvað í þessu frv. felst og þarf í raun og veru engra útskýringa við.

Ég legg því til, að frv. verði að lokinni þessari umr., herra forseti, vísað til hv. heilbr.- og félmn.