15.03.1965
Neðri deild: 54. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

137. mál, héraðsskólar

Flm. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um hluta af því vandamáli, sem það er að sjá börnum og ungmennum fyrir lögbundinni og nauðsynlegri skólafræðslu.

Svo sem kunnugt er, gilda hér á landi allvíðtækir lagabálkar um fræðslumál. Lög þessi eru nú, miðað við gildistöku sína, 18 ára gömul, en full 12 ár eru síðan ákvæði þeirra áttu að vera komin til framkvæmda, en ætlunin var að framkvæma þessi lög á 6 árum. Reyndin hefur orðið sú, að eftir 18 ár er ekki búið að framkvæma fræðslulögin nema að nokkru leyti. Í barnafræðslumálunum er ástandið m.a. þannig, að í meir en 60 skólahverfum er búið við farkennslu, m.ö.o. fræðslufyrirkomulagið er hið sama og var fyrir um það bil 60 árum, þegar almenn fræðsluskylda var lögtekin. Alls munu nálega 1.000 börn vera háð farkennslunni.

Fyrir ca. 30 árum, eða í kringum 1934–35, fór fram athugun á ástandi skólamála í landinu og á þeim árum var farkennsla að sjálfsögðu ekki síður útbreidd en nú, en þá sögðu þeir, sem um þessi mál fjölluðu, að farkennslufyrirkomulagið reyndist mjög illa í alla staði, bæði hvað snerti námsaðstöðu og námsárangur. Það, sem sagt var um farkennsluna fyrir 30 árum, á áreiðanlega eins við nú. Farkennslufyrirkomulagið í 62 hreppum, sem 1.000 börnum er ætlað að búa við, ætlar að reynast lífseigt í landinu og miklu lífseigara, en önnur forneskja. Það var m.a. markmið fræðslulaganna frá 1946 að uppræta þetta skipulag og ætlunin var að gera það á árabilinu 1947–53. En framkvæmdin er eins og ég var að lýsa áðan. Málinu hefur að vísu nokkuð þokað fram á leið síðan 1953, en þó harla stutt. Það er fyrst nú fyrir nokkrum árum, að umr. hefjast að marki um fræðslumál sveitanna og öllum verður ljóst, að þau eru eins og nátttröll, sem dagað hefur uppi í birtu nýrra tíma, nýrra breytingatíma í atvinnuháttum og verkmenningu.

Nú held ég, að allir viðurkenni, að það er ekki hægt að vera nútímaþjóð í atvinnuháttum, en búa jafnframt við hálfgerða miðaldamennsku í fræðslumálum. Af þessu tilefni þykir mér rétt að taka það fram, að kyrrstaðan í skólamálunum á sér ýmsar orsakir. Í fyrsta lagi er alls ekki neina eina ríkisstj. um að saka öðrum fremur og yfirstjórn fræðslumálanna á ekki heldur hér alla sök. Ábyrgðina um kyrrstöðu og afturför ber einnig að skrifa á reikning sveitarstjórna. Allir þessir aðilar eiga sinn hlut í þessari sök og það er til einskis gagns að fara nú að deila um það, hver eigi stærsta hlutinn í aðgerðaleysinu. Á hitt vil ég þó minna, að ríkisstj. og Alþingi hafa frá upphafi vega verið forgönguaðilar um umbætur í skólamálum og svo hlýtur að verða um ófyrirsjáanlega framtíð. Mér er það ljóst, að það kostar margfalt átak að lagfæra á skömmum tíma það, sem vanrækt hefur verið um langt árabil. Við erum í þessu máli staddir í vítahring, sem verður að rjúfa. Ég hef orðið þess áskynja mér til mikillar ánægju, að almennur vilji er vaknaður á því, að hraða þurf barnaskólabyggingum í sveitum og bæta unglingadeild við hina eiginlegu barnaskóla, svo að skilyrði skapist fyrir því, að börn í dreifbýlinu geti lokið skyldunámi sínu við sem eðlilegust kjör, þ.e. í föstum skóla með fullkomnu kennaraliði.

Eins og ég sagði áður, átti að vera búið að skapa þessa aðstöðu þegar árið 1953, þ.e. 6 árum eftir gildistöku fræðslulaga. Og það er í sjálfu sér ekki þakkarvert, þó að nú sé lofað virkum aðgerðum í málinu á næstu árum. Eigi að síður er það öllum, sem áhuga hafa á þessum málum, fagnaðarefni, ef margra ára kyrrstaða í þessum frumþætti fræðslumálanna er rofin. En fræðslumálalöggjöfin geymir fleiri þætti en barna- og unglingafræðslu. Barna- og unglingafræðslan er lágmarksfræðsla, sem skylt er lögum samkvæmt að halda uppi um allt land. Og hún á að tryggja það, að íslenzka þjóðin eða sá hluti hennar, sem ekki er algerir idíótar, sé læs og skrifandi og kunni undirstöðuatriði í reikningi. Það er að vísu rétt, að víða er það talið til stórsigra í þjóðfélagsframförum, þegar því marki hefur verið náð, að allir fullvita menn séu læsir og skrifandi og margar þjóðir eiga enn langt í land að ná því marki. Það fer ekki milli mála, að slíkar þjóðir standa illa að vígi í sókn til annarra framfara. En engin þjóð, sem náð hefur því mikilsverða marki að útrýma ólæsi, lætur þar staðar numið. Allar framfaraþjóðir setja markið hærra en svo.

Í nútímaþjóðfélagi, þar sem atvinnuhættir eru margþættir og sambúðarreglur flóknar, er einnig þörf fyrir mjög víðtæka viðbótarfræðslu, í fyrsta lagi almenna fræðslu og einnig ýmiss konar sérmenntun æðri og lægri. Þess vegna leitast allar framfaraþjóðir við að skapa þegnum sínum skilyrði til þess að njóta almennrar framhaldsmenntunar, þannig að sem flestir og helzt allir geti lokið gagnfræðaprófi í minnsta lagi. Það er að verða svo í þjóðfélagi nútímans, að sá, sem aðeins hefur lokið skyldunáminu svokallaða, á færri kosta völ en þeir, sem meiri fræðslu hafa notið. Skyldunámið er ekki nægilegt veganesti þeim, sem ætlar að takast á hendur hin ýmsu störf, sem fyrir koma í þjóðfélaginu og það virðist a.m.k. alveg víst, að þeir, sem ekki njóta annarrar fræðslu en skyldunámið nær til, standa illa að vígi sem forustumenn eða framtaksmenn á sviði athafna og félagsmála. Sú hætta vofir yfir, að þeir verði út undan í margvíslegu tilliti og fái jafnvel ekki notið lífsgæða að fullu, enda þótt þeir hafi til að bera engu minni hæfileika og eðlisgreind en þeir, sem gengið hafa á skóla. Ef við viljum byggja upp réttlátt þjóðfélag, er nauðsynlegt að búa öllum þegnum landsins, hvar sem þeir eiga heima, sem jöfnust skilyrði til þess að njóta gagnfræðamenntunar, eftir að skyldunámi lýkur. Þá má ekki fara eftir landshlutum, hvort hægt sé að njóta slíkrar menntunar eða ekki. Þetta er þó ekki aðeins einstaklingsbundin réttlætiskrafa, heldur einnig þjóðfélagsleg nauðsyn. Íslenzka þjóðin hefur lengi verið talin í hópi þeirra þjóða, sem gert hafa ólæsi útlægt úr þjóðfélagi sínu. Jafnvel á þeim tímum, þegar formyrkvun útlends valds og verzlunarkúgunar ríkti í landinu og þjóðin var á góðri leið með að farast úr hungri, þá baukuðu alþýðumenn við lestrarnám og sumir lærðu að draga til stafs. Að þessu leyti á íslenzka þjóðin langa og merka sögu. Hún vandist því löngu á undan öðrum að tileinka sér lestrarkunnáttu við mjög erfið skilyrði og það hefur lengi eimt eftir að þeim hugsunarhætti, að það sé endalaust hægt að byggja á þessum grundvelli sáralítið breyttum.

En það, sem ég vildi einkum segja í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, er það, að hversu aftur úr sem barnafræðslan er viða um land, miðað við nútímakröfur, þá tekur ekki betra við, þegar kemur til hins almenna framhaldsnáms. Í þeim efnum er ástandið raunar miklu verra, vegna þess að lítil sem engin skilyrði eru til þess að læra gagnfræðaskólanámsgreinar utanskóla eða á heimilum. Engin skylda hvílir á unglingum til þess að læra gagnfræðafögin og ljúka gagnfræðaprófi og varla til það heimili, sem veitt getur fræðslu á þessu sviði. Það má auðvitað segja, að þeir, sem áhuga hafa, geti orðið sér úti um helztu námsbækurnar og stúderað þær og aukið með því þekkingu sína, enda hafa margir gert þetta bæði fyrr og síðar. En slíkt er þó alls ekki frambærilegt. Það á að vera ófrávíkjanleg stefna í fræðslumálum, að nægilega margir framhaldsskólar séu fyrir hendi til þess að opna öllum sem greiðasta leið til gagnfræðanáms og haga verður staðsetningu skólanna þannig, að gagnfræðaskólar séu fyrir hendi í hverju fræðsluhéraði. Með því eina móti er hægt að fullnægja einstaklings- og þjóðfélags-þörf fyrir gagnfræðamenntun.

Raunar er þetta hin markaða stefna í fræðslulöggjöf landsins, því að þar er beinlínis sagt berum orðum, að í hverju fræðsluhéraði starfi einn gagnfræðaskóli hið minnsta. En þetta mundi merkja, að í hverjum kaupstað og í hverri sýslu eða sýslum, sem mynda sameiginleg fræðsluhéruð, eigi að vera gagnfræðaskóli.

Framkvæmdin á þessu hefur orðið sú, að gagnfræðaskólar eru í öllum kaupstöðum landsins, og víðast hvar, að ég hygg, eru gagnfræðaskólarnir 4 ára skólar, þ.e. veita fullkomið gagnfræðapróf. Gagnfræðaskólar kaupstaðanna eru heimangönguskólar og rými þeirra er ekki meira en það, að þeir fullnægja aðeins þörf heimamanna.

Aðliggjandi sveitir og þorp hafa því ekki möguleika til að njóta kaupstaðarskólanna. Á það er a.m.k. ekki treystandi nema í algerum undantekningartilfellum. Gagnfræðaskólaþörf sveitanna á samkv. l. að fullnægja þannig í stórum dráttum, að hreppar hafi sameiginlega sókn til héraðsgagnfræðaskóla. Mikill misbrestur er á því, að þessu ákvæði hafi verið framfylgt. Síðan fræðslulögin tóku gildi, hefur í rauninni enginn nýr héraðs- eða gagnfræðaskóli komið til sögunnar. Héraðsskólinn að Skógum undir Eyjafjöllum tók að vísu til starfa 1949, en bygging hans var löngu áður ákveðin og hann var reistur í samræmi við héraðsskólalögin frá 1940, en þau voru afnumin 1946, þegar héraðsskólarnir voru gerðir að þætti í almenna gagnfræðaskólakerfinu.

Margir báru kvíðboga fyrir framtíð framhaldsmenntunar í sveitahéruðunum, eftir að héraðsskólalögin voru afnumin. Kvíði manna í sambandi við þessi mál hefur ekki reynzt með öllu ástæðulaus. Héraðsskólalögin, meðan þau giltu, mörkuðu ákveðna stefnu um það, að framhaldsskólar skyldu rísa, þar sem áhugi og þarfir væru fyrir hendi, og af hálfu ríkisvaldsins hafði þá um 12–20 ára skeið verið unnið markvisst að framkvæmd þeirrar stefnu með vinsamlegri afstöðu og fullum áhuga á því að koma slíkum skólum sem víðast upp.

Ég ætla ekki að gagnrýna það, að héraðsskólarnir voru settir inn í almenna fræðslukerfið sem skólar gagnfræðastigsins. Það var áreiðanlega óhjákvæmileg nauðsyn. En hitt hefur áreiðanlega ekki verið tilætlun Alþingis 1946, að tekið yrði fyrir byggingu héraðsgagnfræðaskóla, eins og reynslan hefur orðið. Það er tvímælalaust í andstöðu við tilgang fræðslulöggjafarinnar. Þetta aðgerðaleysi í því að byggja smám saman og með jafnri þróun fleiri gagnfræðaskóla í þágu sveitanna segir orðið alvarlega til sín á margan hátt. Það er skortur héraðsskóla. Gömlu héraðsskólarnir, þrátt fyrir endurbætur á þeim, fullnægja ekki þörf sveitaæskunnar fyrir gagnfræðanám. Afleiðingin hefur orðið sú, að unglingar í sveitum verða að hætta alveg við gagnfræðanám eða fresta því sér til óhags. Eftirspurn eftir vist í héraðsskólum er svo mikil, að ekki hefur verið hægt að fullnægja henni. Það er álit margra, sem gerst munu vita, að hundruð nemenda fari á mis við gagnfræðamenntun vegna skorts á héraðsskólum. En það verður líka að hafa í huga, að fjöldinn allur af unglingum sækir alls ekki um neina skólavist, vegna þess að þeim eru allir skólar fjarlægir og ekkert, sem sérstaklega kveikir áhuga þeirra á því að leita eftir skólavist, enda mundu þeir fá að kenna á því, að allir gagnfræðaskólar, bæði í bæjum og sveitum, eru yfirfullir af heimamönnum.

Allir hljóta að sjá, að úr þessu verður að bæta. En hvernig á að bæta aðstöðu unglinga í sveitunum til þess að njóta gagnfræðamenntunar? Við, sem að þessu frv. stöndum, teljum aðeins eina lausn frambærilega og til frambúðar. Hún er sú, eins og í frv. greinir, að reistir verði fleiri héraðsskólar. Við teljum, að það sé í samræmi við orð og anda gildandi laga um gagnfræðanám, að reistir verði gagnfræðaskólar í öllum fræðsluhéruðum landsins. Það er sú stefna, sem ber að keppa að. Það er eðlileg þjóðfélagsleg krafa, að öllum landsmönnum sé gert sem jafnast undir höfði í sambandi við skólamál,og búseta á sízt af öllu að varða aðstöðuleysi til almennrar skólagöngu.

Í 1. gr. frv. segir, að markmið laganna sé að jafna aðstöðu ungmenna til gagnfræðanáms og 2. gr., að reisa skuli 7 nýja héraðsskóla með heimavist, þ.e. í Eyjafjarðarsýslu, í Norður-Þingeyjarsýslu, á Reykhólum á Barðaströnd, í Skagafirði, á Suðausturlandi, á Laugum í Dalasýslu og á Snæfellsnesi.

Í 3. gr. er ákvæði um 10 ára áætlun um smíði 7 nýrra héraðsskóla og er ætlazt til, að menntmrh. láti gera slíka áætlun í samráði við hlutaðeigandi sýslunefndir. Skal áætlunin við það miðuð, að hafizt verði handa um smíði fyrsta skólans eigi síðar, en 1966 og að smíði allra skólanna verði lokið árið 1976. Að sjálfsögðu væri æskilegt, að hægt væri að koma þessum skólum upp á skemmri tíma og eins og orðalag frv. er, er ekkert, sem hindrar það. Hins vegar þótti okkur rétt, að nokkurt svigrúm væri í framkvæmdaáætluninni, og við teljum 10 ára framkvæmdatímabil viðunandi eftir atvikum.

Hér er að sjálfsögðu um mjög mikið fjárhagsátak að ræða, en þessu átaki verður þó að lyfta. Það er ekki hægt að ýta þessum vanrækslusyndum á undan sér til langframa og verkefnið verður því stærra sem lengra líður.

Í 4. gr. frv. er ákvæði um byggingar- og rekstrarkostnað þessara fyrirhuguðu skóla. Þar er svo mælt fyrir, að ríkið kosti byggingu þeirra og rekstur að fullu. Þetta ákvæði er byggt á þeirri staðreynd, að þróunin í fjárhagsmálefnum héraðsskólanna hefur alltaf stefnt í þessa átt. Með lögum nr. 34 frá 1962 var opnuð leið til þess, að ríkið yfirtæki héraðsskólana að fullu og öllu, enda hefur reynslan sýnt, að flestum sýslum er ofvaxið að rísa undir skólunum. Nú munu ýmsir segja, að þetta sé ekki sambærilegt, vegna þess að núverandi héraðsskólar hafi verið reistir með fjárhagslegri þátttöku sýslnanna. Það er að vísu rétt og það er ekki að öllu leyti gott að þurfa að leggja þetta til, en hjá því verður ekki komizt. Sýslutekjur eru litlar og sýslusjóðir eru ekki aflögufærir, þegar um mörg og stór verkefni er að ræða. Auk þess má á það benda, að heimamönnum er það ærin byrði og nóg byrði að rísa undir sínum hluta af byggingar- og rekstrarkostnaði barna- og unglingaskólanna, enda eru á því sviði mörg verkefni óleyst, sem kunnugt er.

Í frv. er kveðið á um það, að byggingu skólanna skuli hagað með það fyrir augum, að þar megi reka sumargistihús. Trúlega mun ferðamannaþjónustan vaxa á komandi árum og sú stefna hefur verið viðurkennd, að æskilegt sé að samhæfa rekstur heimavistarskóla og sumargistihúsa, eftir því sem við verður komið.

Þeir skólastaðir, sem nefndir eru í frv., eru fyrst og fremst þeir staðir, sem flm. er kunnugt um, að sérstök þörf sé á skólum, og þar sem ákveðnar hreyfingar eru uppi um það að hrinda skólabyggingum í framkvæmd. Að áliti okkar flm. er skylt að koma til móts við vilja og þarfir þess fólks, sem hér um ræðir. Á miklu veltur um undirtektir Alþ. í málum sem þessum. Alþ. ber að fylgja djarflegri og víðsýnni stefnu í skóla- og fræðslumálum. Þörf fyrir menntun hefur auðvitað alltaf verið mikil, en engum mun nú dyljast, að fræðslumálin eru einn af hornsteinum nútímaþjóðfélags. Án víðtæks og öflugs skólakerfis og sem jafnastrar aðstöðu til þess að njóta skólagöngu verður hvorki komið á réttlátu þjóðfélagi né sköpuð skilyrði til þess að efla tæknilegar og efnahagslegar framfarir. Almenn menntun er mikilvæg undirstaða framfara og umbóta og hana verður að tryggja, jafnframt því sem sérmenntun og vísindanám er aukið. Því fleiri sem njóta hinnar almennu framhaldsmenntunar, því betri undirstaða undir æðra nám og því meiri líkur til þess, að fólk í öllum starfsstéttum tileinki sér þann hugsunarhátt, þau viðhorf, sem þurfa að vera til staðar, ef vísindi og tækni eiga að koma að fullu þjóðfélagslegu gagni.

Herra forseti. Ég skal láta máli mínu lokið. Ég vona, að þetta mál fái góðar undirtektir hér í hv. þd. og Alþ. yfirleitt. Ég geri að till. minni, að málinu verði vísað til menntmn.