15.03.1965
Neðri deild: 54. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

145. mál, verkfræðiskrifstofa Vestfjarðakjördæmis

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Þetta frv. um stofnun verkfræðiskrifstofu í Vestfjarðakjördæmi er flutt að ósk bæjarstjórnar Ísafjarðar. Efni frv. var í aðalatriðum markað í allýtarlegri ályktun bæjarstjórnarinnar og er hlutur okkar flm. því aðallega sá að móta þá ýtarlegu ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðar í frv.-form. Tilmæli bárust okkur um að flytja frv. þessa efnis fyrir svo sem tæpum mánuði og var þá þegar á eftir unnið að frv.-gerð og síðan leitað eftir því, hvort allir Vestfjarðaþm., sem höfðu fengið áskorun frá bæjarstjórninni um að búa þetta mál til flutnings, mundu ekki verða meðflm. að því. Niðurstaðan varð sú, að við urðum flm. einungis tveir af Vestfjarðaþm.

Hugsun þessa frv. er í meginatriðum hin sama og fram kemur í frv. um verkfræðiráðunauta ríkisins á Norður-, Austur- og Vesturlandi, sem gerð var grein fyrir nú næst áður, en þetta frv. var tekið á dagskrá. Hér virðist því hafa farið eins og stundum hefur hent áður í sögunni, að þegar hugsun eða hugmynd er orðin tímabær og ytri skilyrði eru fyrir hendi, brýzt hún fram í hugskoti jafnvel fleiri manna samtímis og stundum jafnvel í nálega sama formi. Nú sé ég að vísu, að hv. flm. frv. um verkfræðiráðunauta ríkisins á Norður- og Austurlandi segir, að það frv. hafi orðið til fyrir alllöngu, nefnilega á vegum nefndar, svokallaðrar staðsetningarnefndar ríkisstofnana, sem skipuð hafi verið fyrir nokkrum árum og hún hafi samið það frv., sem nú hefur verið flutt á þskj. 303 og skilað því frv. til ríkisstj. Það er að vísu ekki alveg útilokað, að bæjarfulltrúar á Ísafirði hafi haft hugmynd um þetta frv., tilveru þess. Þó þykir mér það frekar ósennilegt.

Ég get í raun og veru sparað mér að mestu leyti að hafa framsögu fyrir þessu máli mínu, því að það er rétt, sem flm. frv. um verkfræðiráðunauta ríkisins á Norður-, Austur- og Vesturlandi sagði, að hér er nálega um sama málið að ræða. Þó skal ég fara örfáum orðum um þetta frv.

Það er þannig víðast hvar á landinu og það hendir jafnvel í höfuðborginni líka, að skortur sé sérfræðinga í verklegum efnum, en sérstaklega er þetta ástand tilfinnanlegt úti um landið. Afleiðingar þessa ástands eru þær, að það dregur úr verklegum framkvæmdum eða kemur í veg fyrir, að verk séu nægilega vel tæknilega undirbúin, áður en framkvæmd er hafin eða í bezta tilfelli verður til þess að tefja, að ráðizt sé í jafnvel nauðsynlegar framkvæmdir, vegna þess að alla sérfræðilega og tæknilega þjónustu vegna hvers konar mannvirkjagerðar verður að sækja til Reykjavíkur. Og það er þetta, sem þessu frv. er ætlað að bæta úr. Í frv. er lagt til, að stofnuð skuli verkfræðiskrifstofa á Ísafirði til þess að annast verkfræðilegan undirbúning og síðan, þegar honum er lokið, að fylgjast með framkvæmd opinberra framkvæmda í Vestfjarðakjördæmi. Verkefni skrifstofunnar er hugsað þríþætt. Það er í fyrsta lagi aðalverkefni hennar að annast undirbúning verklegra framkvæmda á vegum ríkisins, þ.e.a.s. undirbúning vega- og brúargerða undir yfirstjórn vegamálastjórans, undirbúning hafnargerða og lendingarbóta undir yfirstjórn vitamálastjóra og í þriðja lagi undirbúning skipulagsmála í kjördæminu undir yfirstjórn skipulagsstjórans. Þá er skrifstofunni einnig ætlað að annast sérhver önnur verkfræðistörf við mannvirki og framkvæmdir, sem að öllu leyti eða einhverju leyti eru á vegum ríkisins sjálfs, svo sem byggingu skóla og sjúkrahúsa, embættisbústaða, sundlauga, félagsheimila o.s.frv. Þetta væri þjónustuhlutverk þessarar verkfræðiskrifstofu að því er snertir að inna af hendi framkvæmdir, sem væru á döfinni í kjördæminu á vegum ríkisins að öllu leyti eða að nokkrum hluta. En annar meginþáttur í starfi þessarar fyrirhuguðu skrifstofu ætti að vera aðstoð við mannvirkjagerð á vegum sveitarfélaganna. Mér er kunnugt um það af gamalli reynslu, að sveitarfélögin eiga oft í erfiðleikum með að fá nægilega verkfræðilega aðstoð í sambandi við framkvæmdir sínar og verða jafnan að leita til meira eða minna störfum hlaðinna sérfræðinga í Reykjavík og bíða með að komast af stað með sínar framkvæmdir eftir því, að þessir sérfræðingar hér komi því í verk að inna þessi nauðsynlegu undirbúningsstörf af hendi. Þetta mundi allt saman vera auðveldara og handhægara, ef útibú frá framkvæmdaskrifstofum ríkisins væru í kjördæminu og þar væri hægt að slíkum sérfræðingi að ganga með allan slíkan undirbúning, hvenær árs sem væri og þessi verkfræðingur væri með allan sinn huga við framkvæmdir á þessu svæði og má því ætla, að hans fyrirgreiðsla fengist auðveldar og greiðar, en með því að sækja hana til manna, sem væru í öllum mögulegum störfum hér suður í Reykjavík. Ég tel, að þetta mundi verða sveitarfélögunum og mannvirkjagerð þeirra til mikillar og þýðingarmikillar fyrirgreiðslu.

Það er ætlunin, að ríkið beri allan kostnað af þeirri þjónustustarfsemi, sem slík skrifstofa innti af hendi fyrir ríkisstofnanirnar, en hins vegar ættu sveitarfélögin að greiða fyrir þau verk, sem skrifstofan ynni fyrir þau á þeirra vegum, og greiðsla fyrir slíka þjónustu ætti auðvitað að deilast á sveitarfélögin í réttu hlutfalli við þá þjónustu, sem hún kynni að veita hverju sveitarfélagi um sig.

Og þá er það þriðji þáttur starfseminnar, sem ætlaður er slíkri verkfræðiskrifstofu í Vestfjarðakjördæmi. Hann er sá að veita einnig einstaklingum og fyrirtækjum í kjördæminu verkfræðilega þjónustu og fyrirgreiðslu við mannvirkjagerð, sem einstaklingar og félög og fyrirtæki hafa með höndum í þessum landshluta og eiga slíkir aðilar að gjalda fyrir þessa þjónustu að fullu.

Hér er að því stefnt að dreifa þeim þjónustustofnunum, sem hingað til hafa nálega undantekningarlaust verið staðsettar í höfuðborginni og geta að vissu leyti innt þessa þjónustu af hendi þaðan, en ættu að fá til þess öllu betri aðstöðu með því að dreifa starfskröftum sínum á þau svæði, þar sem verkin á að vinna.

Ég er líka sannfærður um það, að þegar sæmilega vel verkfræðilega undirbúið mannvirki er hafið, þá er aukin trygging í því, að framkvæmdin verði svo sem til er ætlazt af sérfræðingunum, að verkfræðingur, sem undirbúninginn hefur annazt, sé við höndina og geti fylgzt nákvæmlega með framkvæmdinni. Ég hef hvað eftir annað verið áhorfandi að því, að þótt ekki sé um vandasamari mannvirkjagerð að ræða, en vegagerð undir rétt venjulegum kringumstæðum, sem hefur verið undirbúin af verkfræðingi, þá getur það komið fyrir, að ófaglærðir verkstjórar, sem framkvæmdina eiga að annast, fari ekki að öllu leyti við mannvirkjagerðina eftir ætlun sérfræðinganna og að veruleg missmíði geti orðið á jafnvel vegagerð bara vegna fjarlægðar sérfræðings, sem kemur ekki til þess að líta á verkið, fyrr, en því er jafnvel lokið.

Þetta frv. byggist þá líka á þeirri hugmynd, að á því fari vel og að því sé styrkur við hinar dreifðu byggðir, að þjónustan, sem þjóðfélagið veitir þeim, verði færð út í byggðarlögin og verði þar fáanleg. Þetta sé því einn þátturinn í að gera opinberar ráðstafanir til aukins byggðajafnvægis.

Vera má, að aðalmótbáran gegn slíku máli sem þessu verði sú, að með þessu fyrirkomulagi verði opinberum framkvæmdum íþyngt um kostnað, að það leiði aukinn kostnað af þessari dreifingu framkvæmdavaldsins út í byggðirnar. Ég þori ekki alveg að neita því, að þetta geti orðið að einhverju leyti, en það tel ég að jafnist upp við það, að hin nýja skipan ætti að veita öllu traustari og fullkomnari þjónustu. Þó vil ég benda á það, að ferðir sérfræðinganna frá höfuðmiðstöðvunum í Reykjavík og út um landið til nauðsynlegs undirbúnings verklegra framkvæmda og til eftirlits með framkvæmd verka, sem ákveðin eru hér á skrifstofum vitamálastjóra og vegamálastjóra og skipulagsstjóra, þær gerast ekki án kostnaðar. Það getur verið allkostnaðarsamt að framkvæma þessa þjónustu héðan frá miðstöðvunum í Reykjavík. En með því fyrirkomulagi, sem nú ríkir, má einnig reikna nokkuð til fjár þá fyrirhöfn og þann tilkostnað, sem lendir á fólkinu, sem verður að sækja þessa þjónustu alla saman til Reykjavíkur, en fær hana við höndina með því að hið nýja skipulag væri komið á. Það eru þessir tveir kostnaðarliðir, sem verða að metast, áður en menn komast að niðurstöðu um það, að af hinni nýju skipan leiði eintóman viðbótarkostnað. Ég skal ekkert segja, hvort fjárfrekara yrði, en hitt er sannfæring mín, að það skipulag, sem hér er lagt til að upp verði tekið, mundi hins vegar veita öruggari og betri þjónustu.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Hitt hafði ég í huga, þó að frv. það, sem hér var gerð grein fyrir áðan, hefði ekki komið fram, að það gæti sennilega staðið eins á, á Norðurlandi og á Austurlandi eins og að dómi bæjarstjórnarinnar og okkar flm. í Vestfjarðakjördæmi og það væri eðlilegt, að sams konar þjónustumiðstöðvar yrðu til og sams konar fyrirkomulag haft á um verkfræðiskrifstofur norðanlands og á Austurlandi og það er einmitt það, sem kemur fram í hinu ýtarlega frv. á þskj. 303. Ekki skal ég leggja nokkurt kapp á það, hvort þessara frv. þætti betur til þess fallið að verða lögfest, enda er megintilgangur beggja, sem að flutningi þessa máls standa, sá að fá betri þjónustu, fá þjónustuvaldinu dreift út um byggðirnar og stuðla þar með að jafnvægi í byggð landsins.

Í þeim fáu orðum, sem fylgdu ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðar til okkar Vestfjarðaþingmanna, sagði, með leyfi hæstv. forseta: „Samþykkt þessi þarfnast naumast skýringa, en aðeins skal bent á það til áréttingar, hversu mikilsverður þáttur verkfræðiskrifstofa á Ísafirði, sem bæjarstjórnin nú hefur gert samþykkt um, hlýtur að verða í byggðarkjarnaskipulagi, sem mikið er rætt um, en of lítið gert að.“ Og bæjarstjórinn lauk máli sínu á þessa leið, hann sagði: „Á vorri storð, eitt verk er meira en þúsund orð.“ Og það er þess vegna von mín, að þetta þyki nú ekki stærra eða áhættusamara í sniðum en svo, það sem felst í þessu frv., að það mætti birtast í verkum í stað orða og að annaðhvort þessara frv., sem mjög fara í sömu áttina, yrði gert að lögum og þessi tilraun um dreifingu framkvæmdavaldsins þannig prófuð í reynd.