16.12.1964
Efri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

106. mál, söluskattur

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eg skal á þessu stigi málsins ekki hefja almennar umr. um það vandamál, sem hér er við að etja, hvorki um fjárhag ríkissjóðs né verðbólguvandamálið almennt. Verðbólguvandamálið hefur svo oft verið rætt, að ástæðulaust er að fjölyrða um það nú, enda ekkert nytt komið fram, sem gefi ástæðu til al. mennra umr. af minni hálfu, nú í kvöld a.m.k. En það var ein yfirlýsing frá hv. síðasta ræðumanni, sem gaf mér ástæðu til þess að taka til máls. Hann sagði, að sú leið, sem hér væri farin til tekjuöflunar til ríkissjóðs, bryti í bága við anda þess samkomulags, sem gert var í sumar milli ríkisstj., verkalýðs og atvinnurekenda, en herti síðan á því varðandi eitt atriði, en dró úr varðandi meginefni málsins, því að hann viðurkenndi berum orðum, að það væri ekkert í skriflegum skuldbindingum eða yfir. lýsingum, sem gefnar hefðu verið, sem væri því til fyrirstöðu, að fjár væri aflað til ríkissjóðs með þessum hætti. En hann sagði: Það er eitt atriði, sem verður að skoðast sem bein brigð, og það er að afla fjár — yfirleitt að afla fjár — til þess að standa undir niðurgreiðslum í ár, auknum niðurgreiðslum, og sagðist a.m.k. sjálfur hafa skilið svo yfirlýsingar, sem fram hefðu komið af hálfu fulltrúa ríkisstj., og fleiri hefðu skilið þær á sama veg.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara að ræða hér almennt um anda samkomulagsins frá því í vor. Um það geta menn auðvitað endalaust deilt. En ég fullyrði, að menn gerðu sér þá ljóst, að það kynni að verða þörf tekjuöflunar, einmitt sökum þeirra ráðstafana, sem gerðar voru, og það var síður en svo, að þar væri talað um, að nokkrar skuldbindingar væru gefnar um, að söluskattur kæmi ekki til greina. Þetta er varðandi sjálfan anda málsins. En varðandi þessa tilteknu skuldbindingu, sem hv. þm. segir að hafi verið gefin, kannast ég ekki við hana. Ég veit ekki, hvort hv. þm. telur, að ég hafi gefið hana. Ég skildi hann þó svo, að svo væri ekki, að hvorki ég né samráðh. minn, hæstv. sjútvmrh. og félmrh., hefði gefið hana, heldur einhverjir okkar umboðsmenn. Ég vil taka það alveg skýrt fram af minni hálfu, að ég lýsti því yfir hvað eftir annað og alveg ótvírætt, þegar samkomulagið var gert, að við hygðumst að vísu greiða niður vísitöluna fram á þing og e.t.v. fram til áramóta, en við gætum ekki tekið á okkur neinar skuldbindingar um þetta og endanleg ákvörðun í þessu efni yrði ekki tekin fyrr en á þingið kæmi og menn sæju þá, hver hagur ríkissjóðs yrði. Þessa yfirlýsingu þori ég að ábyrgjast, að ég gaf. Hún hefur ekki getað farið fram hjá neinum, sem viðstaddur var. Hvort einhverjir aðrir hafa á öðrum stigum málsins sagt eitthvað, sem á annan veg hefði verið skilið, eða e.t.v. einhver orð mín fyrr hafa verið skilin á annan veg, get ég auðvitað ekki ábyrgzt. En ég man það fyllilega og hef hvað eftir annað leitað staðfestingar á því meðal þeirra, sem þarna voru viðstaddir, að þessa yfirlýsingu gaf ég. Ég hef leitað staðfestingar á því, vegna þess að ég hef séð annað gefið í skyn í blaðagreinum. Það er öruggt, að þessi yfirlýsing var gefin, áður en endanlega var gengið til samningsgerðarinnar. Og í henni fólst, að ríkisstj. treysti sér ekki til þess að taka á sig skuldbindingar um niðurgreiðslur, ráðgerði að halda þeim áfram, sennilega til áramóta, en hafði sérstakan fyrirvara um, að óvíst yrði, að það yrði lengur en eitthvað fram á þingið, fram í október, og þá yrði með hliðsjón af fjárhag ríkissjóðs að taka afstöðu til þess, hvort menn treystu sér til þess að halda niðurgreiðslunum áfram. Af þessu hlýtur að leiða, að ef niðurgreiðslum var haldið áfram og hagur ríkissjóðs talinn bágborinn, varð að afla til þess tekna. Og um það voru menn með öryggi aðvaraðir.

Nú held ég, að þetta mál sé alveg nógu vandasamt, þótt við séum ekki að bera hver annan sökum, að menn hafi gengið á bak orða sinna. Ef hér verður sýnt fram á, að eitthvað, sem ég hef sagt eða mínir umboðsmenn, hafi verið með þeim hætti, að það hafi mátt skilja á þann veg, sem hv. þm. segir, þá er sjálfsagt að taka til athugunar og kanna það til hlítar, hvort það fær staðizt og hvaða afleiðingar það á að hafa. En ég er mér ekki þess meðvitandi, og ég hef spurt að því nú, frá því að hv. þm. gaf þessa yfirlýsingu hér áðan, þann mann, sem aðallega var fyrir okkur, hvort hann mundi eftir slíkri yfirlýsingu, og hann man það ekki. Með þessu er ég ekki að segja, að hv. þm. fari hér með vísvitandi rangt mál, því fer fjarri. Í löngum umr. kann sitthvað að skolast og sitthvað að vera sagt á ýmsum stigum málsins. Það er rétt, að þetta sé athugað hlutlaust og í rólegheitum. En það, að ríkisstj. hafi hér gengið á bak orða sinna, á bak skriflegra skuldbindinga eða gefinna yfirlýsinga, það fær ekki staðizt að mínu viti.

Hv. þm. veit auðvitað einnig, að því miður hefur ekki orðið fullkomin verðstöðvun í landinu og hækkunin, sem við sáum fyrir að mundi verða einhver, hefur orðið jafnvel örari en við bjuggumst við. Hún hefur orðið örari vegna þess, að landbúnaðarvörurnar hækkuðu meira en við gerðum ráð fyrir, þegar júnísamkomulagið var gert, og með því hafa verið lagðir mun þyngri baggar á ríkissjóð en menn gerðu ráð fyrir á s.l. sumri. Það er því eðlilegt, að hagur ríkissjóðs sé nú lakari en menn bjuggust við, af því að niðurgreiðslunum hefur verið haldið áfram. Eins verður aldrei fram hjá því komizt, að mikið af þeim miklu hækkunum, sem hv. þm. talaði um að hefðu orðið á útgjöldum ríkissjóðs nú á einu ári, eru afleiðingar atburða ársins 1963 og þeirra miklu hækkana, þ. á m. kauphækkana, sem á því ári urðu.

Um þetta mætti tala endalaust. Ég skal ekki fjölyrða um það. Það er eðlilegt, að stjórnarandstæðingar hafi uppi gagnrýni á slíku frv. sem þessu. Það fylgir þingræðinu, að slíkur háttur er hafður. Það er ekki heldur nein ástæða til þess að furða sig á því, þótt við séu höfð sterk orð til áfellis ríkisstj. af hálfu hennar andstæðinga. Það er venja. En ég held, að við eigum allir að gera okkur grein fyrir því, að hér er of viðurhlutamikið mál fyrir velfarnað íslenzku þjóðarinnar í heild, til þess að við truflum eðlilega málsmeðferð og möguleika til lausnar með ásökunum, sem ekki fá staðizt.