16.12.1964
Efri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

106. mál, söluskattur

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það var fyrir rúmum 5 árum eða nánar tiltekið hinn 20. dag nóvembermánaðar 1959, sem við Íslendingar hrepptum það hlutskipti, að viðreisnarstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. tók við völdum í þessu landi, og þá var nú sitt hvað sungið og kveðið. Hinir nýju stjórnarherrar þreyttust ekki á að útmála það með ýmsum sterkustu og litríkustu orðum tungunnar, hve frámunalega bágborin vinstri stjórnin sáluga hefði verið. Hún hefði skilið við þjóðarbúið á heljarþröm. Ávirðingar hennar voru taldar upp og það var mjög langur listi. Þó töldu hinir nýju ráðamenn, að tvennt væri það jafnvel öllu öðru fremur, sem sú ríkisstj. hefði unnið sér til dómsáfellis, og væri þó hvort öðru nátengt. Annað var það, að vinstri stjórnin hefði fylgt fram óhóflegri skattpíningarstefnu og sýnt jafnframt fyrirhyggjuleysi og gáleysi í afskiptum af fjármálum ríkis og þjóðar. Hitt er það, að hún hefði engin tök haft á verðbólgunni, hún hefði að lokum hreinlega gefizt upp í glímunni við þennan mikla vágest.

Það var í sjálfu sér ekki mikið undrunarefni, þó að sjálfstæðismenn dæmdu vinstri stjórnina hart. Þeir höfðu verið aðalandstæðingar hennar frá upphafi og allt þar til yfir lauk og hennar ævi var öll. Hitt var kannske dálítið hlálegra, að leiðtogar Alþfl. tóku rösklega undir þennan söng og höfðu þar um engu minni raddstyrk, létu eins og þeir hefðu hvergi nærri komið.

Jæja, nú var mikil áherzla á það lögð, að heldur en ekki skyldi breytt um stefnu. Ellefu mánaða ríkisstj. Emils Jónssonar hefði aðeins verið undanfari, nú átti viðreisnin að hefjast fyrir alvöru. Áhrifamikill, öflugur og reyndur stjórnmálamaður, maður, sem þó var á bezta aldri, tók nú við embætti fjmrh., enda þörfin óvíða meiri en þar að taka fast og myndarlega í taumana. Hinum nýja hæstv. fjmrh. varð ekki skotaskuld úr því fyrir 5 árum að lýsa á mjög dramatískan, — ja, mér liggur við að segja: hrollvekjandi hátt, þeim vesaldómi og því úrræðaleysi, sem honum þótti hafa einkennt fjármálastjórn undanfarinna ára. Hann skorti sannarlega ekki orð til þess að lýsa skattpíningunni, lýsa því, hversu verðbólgan hefði tútnað út eins og púki á fjósbita, hversu fjárausturinn í ríkissjóð og úr ríkissjóði aftur hefði verið hóflítill eða jafnvel hóflaus. Og þá var hæstv. ráðh. ekki heldur orða vant, þegar hann útmálaði, hvernig tekið skyldi á þessum m;álum á nýjan hátt af einbeitni og festu. Og hann hélt mikla ræðu og raunar fleiri en eina um sparnað, um niðurskurð á óþörfum útgjaldaliðum fjárl. Hæstv. ráðh. benti þá á ýmsa liði, ég held nokkra tugi, eina þrjá, þar sem með hagsýni mætti spara drjúgar fúlgur, og þetta væri í rauninni aðeins sýnishorn, skildist manni, nokkur dæmi um það, sem komið gæti og koma skyldi.

Nú í dag stóð þessi sami hæstv. ráðh. hér í þessum ræðustól og flutti þjóðinni boðskap, flutti þm. og þjóðinni boðskap sinn um dálítinn jólaglaðning, svona til að hressa upp á fjárlagaafgreiðsluna, sem einnig fer fram nú þessa dagana undir hans stjórn. Sá jólaglaðningur er enn einn ávöxtur þeirrar stefnu, sem mörkuð var fyrir 5 árum, viðreisnarstefnunnar, sem svo hefur verið kölluð. Og hér gefur á að líta 335 millj. kr. nýjar álögur, nær allt tekið með stórhækkuðum söluskatti. Við þessa fúlgu má í rauninni bæta 95 millj. kr. af þeirri söluskattshækkun, sem lögfest var í janúarmánuði s.l. Þeim 95 millj. var þá ráðstafað sem beinum stuðningi við sjávarútveginn, en nú á að taka þetta fé af útveginum og láta það á næsta ári renna í ríkissjóð, í ríkishítina.

Eftir að það frv., sem hér er til umr., hefur verið lögfest og ætlunin er að knýja það fram nú fyrir jól, hefur söluskattur verið hækkaður á einu og sama ári úr 3% í 8%, en það þýðir að dómi ríkisstj. sjálfrar 615 millj. kr. Raunar er skattheimta þessi, sjálf skattheimtan, talsvert hærri. Í fyrsta lagi ex það mjög sennilegt, að hvert prósent söluskatts gefi í góðu árferði heldur meira en þær 123 millj., sem ríkisstj. reiknar með að renni til hins opinbera af hverju einu prósenti söluskatts. En svo er hitt vitað og ég held almennt viðurkennt, að innheimtur söluskattur kemur ekki allur til skila. Það er að sjálfsögðu ógerlegt að áætla þau vanhöld með nokkru öryggi. Sé þar um 15—18% að ræða, svo að ekki sé sérlega há hlutfallstala nefnd, kemur allur álagður söluskattur á næsta ári og innheimtur til að nema eitthvað milli 12 og 13 hundruð millj. kr. Hann kemur að vísu ekki allur í ríkissjóð.

Ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma nú að rekja skattheimtuferil hæstv. núv. ríkisstj. á undanförnum árum. Það hefur oft verið gert, sú saga er öllum hv. alþm. kunn, og það hefur enn verið gert allrækilega hér í dag. Ég mun einnig láta hjá líða að segja í löngu máli hina dapurlegu sögu af glímu ríkisstj. við verðbólguna. Þar hafa menn handbærar tölur, sem sanna, að engin stjórn hefur farið jafnhalloka og þessi, og er þá mikið sagt.

Nú hefur það lengi verið játað og viðurkennt af öllum ábyrgum mönnum, að ég hygg, að óðaverðbólga, mjög mikil og ör verðbólga, er þjóðarmeinsemd, sem veldur ófyrirsjáanlegu tjóni, jafnvel hreinu upplausnarástandi í hverju þjóðfélagi. Á slíkri óðaverðbólgu tapa allir, þegar til lengdar lætur, nema tiltölulega fáir verðbólgubraskarar. Ör verðbólga táknar það, að allt er á hverfanda hveli í því þjóðfélagi, þar sem hún er landlæg og verður ekki stöðvuð. Samningar, sem gerðir eru um kaup og kjör, fá í rauninni með engu móti staðizt stundinni lengur. Launþegar geta í sjálfu sér engar öruggar áætlanir gert um framtíð sína og fyrirætlanir. Fjárhags- og framkvæmdaáætlanir atvinnuveganna og opinberra stofnana verða á skömmum tíma, jafnvel fáeinum mánuðum, úrelt pappírsgögn, ef svo má segja. Hagsýni, fyrirhyggja og sparsemi koma mönnum undir þeim kringumstæðum að sáralitlum notum. Fjármálaráðstafanir ríkisstj. og Alþingis hafa ekki heldur raungildi nema skamman tíma, jafnvel fáa mánuði í senn. Þegar þm. eru að reyna að auka svolítið framlög í krónutölu til ýmissa nauðsynjamála: trygginga, sjúkrahúsa, skóla og hafnarbóta, vegamála o.s.frv., gleypir verðbólgan aukninguna og meira til fyrr en varir. Þetta eru alkunnar staðreyndir og menn hafa séð þetta fyrir löngu, og þess vegna er það, sem það hefur verið yfirlýst stefna hverrar ríkisstj. á fætur annarri, að nauðsynlegt sé að beita sér fyrir stöðvun örrar verðbólgu með öllum tiltækum ráðum. Árangurinn hefur að vísu orðið hörmulega smár, og af því súpum við margvíslega seyðið.

En svo gerðist sá merki atburður á s.l. vori eða snemma sumars, atburður, sem gaf um það töluverðar vonir, vil ég segja, að hægt yrði með árangri að snúast gegn óðaverðbólgu á Íslandi, hægt yrði að draga stórlega úr henni eða jafnvel, ef vei væri að unnið, stöðva hana með öllu. Svo virtist sem ábyrg og áhrifamikil öfl hefðu komizt að þeirri niðurstöðu, að taka þyrfti hér upp ný og betri vinnubrögð en áður höfðu tíðkazt. Fulltrúar launþega, atvinnurekenda og stjórnarvalda settust að samningaborði með þeim árangri, að samningar tókust og það með þeim hætti, að vinnufriður var tryggður í eitt ár, og grundvöllur virtist lagður til að hefta dýrtíðarflóðið og stöðva hið háskalega verðfall peninganna, þar sem þessir samningar voru gerðir á grundvelli þess, að engar verulegar kauphækkanir yrðu. Þjóðin fagnaði þessum atburði, ég held nokkurn veginn einhuga. Menn tóku að gera sér vonir um, að á þessum grundvelli tækist að reisa þann varnarmúr, sem verðbólgualdan brotnaði á. En til þess að slíkt gæti orðið, þurftu allir aðilar að starfa í anda þess samkomulags, sem gert var í vor. Mest hlaut að velta á því hina næstu mánuði og missiri, hver vinnubrögð og stefna ríkisstj. og stuðningsflokka hennar yrðu. Það var á valdi þessara aðila að gera ýmsar ráðstafanir til að tryggja árangur samkomulagsins og samninganna frá í vor til frambúðar. Ríkisstj. og þinglið hennar fékk hér tækifæri, ég vil segja einstætt tækifæri til að sýna það og sanna, að stöðvun verðbólgunnar væri ráðandi mönnum djúpstætt alvörumál. Nú reið á því fremur en nokkru sinni að forðast allt, sem aukið gæti dýrtíðina. Nú var það brýnna en nokkru sinni fyrr að stilla álögum í hóf. Eins og á stóð var ekki aðeins réttlætanlegt, heldur nauðsynlegt og sjálfsagt að viðhafa fyllstu varfærni við afgreiðslu fjárl., framkvæma sparnað, hvar sem við varð komið, og fara jafnvel út í töluverðan niðurskurð þeirra verkefna, sem helzt gátu þá beðið um sinn, og alveg sjálfsagt mátti það heita undir þessum kringumstæðum að neita sér um þann munað að innheimta hjá þjóðinni verulegar fúlgur umfram það, sem ríkiskassinn þarf til að standa undir nauðsynlegum gjöldum, einungis til þess að geta flaggað með háan greiðsluafgang á ríkisreikningi síðar.

Um allt þetta hefði verið viturlegt að hafa sem bezt samráð og samstarf við stjórnarandstöðuna og láta þá til fulls reyna á það, hvort stjórnarandstaðan hefði ekki við þessar aðstæður sýnt þá ábyrgðartilfinningu að vera til viðtals um allróttækar aðgerðir í þessa stefnu, þegar til svo mikils var að vinna að tryggja árangur samninganna frá í vor og stöðva dýrtíðarflóðið. En var þessi leið valin? Nei, þetta var ekki gert. Það var valin þveröfug leið. Og nú er ekki annað sýnna en að stjórnarflokkarnir stefni að því með aðgerðum sínum eða verði þess a.m.k. valdandi með sínum aðgerðum, að það, sem ávannst í vor, verði gert að engu, að hjaðningavígin hefjist að nýju, að verðbólguhjólið fari aftur að snúast og þá með sívaxandi hraða. Fari svo, ber núv. stjórnarmeirihl. á því meginábyrgð, og sú ábyrgð er þung.

Nú mun hæstv. fjmrh. og aðrir ráðh, vafalaust segja eitthvað á þessa leið og hafa reyndar sagt: Eitthvað varð að gera til þess að mæta nýjum útgjöldum vegna hækkaðra niðurgreiðslna. Fjárlög varð að afgreiða greiðsluhallalaus. Og ef ekki þennan nýja söluskatt, hvað þá? Þessari spurningu hefur í raun og veru verið svarað í ræðum hér síðdegis í dag, svo að ég mun ekki fara langt út í þá sálma, en vil í örstuttu máli benda til aukinnar áherzlu á nokkur atriði.

Það er þá fyrst, að sjálfsagt var og er að leiðrétta tekjuáætlun fjárl., sem að þessu sinni ekki síður en oft áður á undanförnum árum mun vera höfð, að því er virðist vísvitandi, of lág, jafnvel svo að nemur verulegum upphæðum. Með því að halda dauðahaldi í þá stefnu við afgreiðslu fjárlaga ár eftir ár að áætla tekjuliði til mikilla muna of lága, eru álögur á þjóðina þyngdar úr hófi fram, með þeirri afleiðingu, að kjör fólks eru skert að óþörfu. Slík stefna knýr svo að sjálfsögðu launþega til að krefjast kauphækkana, auk þess sem aukin skattheimta hefur bein áhrif á vísitölu og kaup, eftir að þessi atriði eru orðin tengd á ný.

Í öðru lagi var og er bein siðferðileg skylda hæstv. ríkisstj. að fela nú sérfræðingum sínum að fara rækilega í saumana á fjárlagafrv. og framkvæma umtalsverðan sparnað. Þetta var hægt og er raunar enn, ef vilji væri fyrir hendi.

Í þriðja lagi, að svo miklu leyti sem þetta tvennt: leiðrétting tekjuáætlunar og sparnaður lítt þarfra útgjalda, hrökk ekki til, var að mínum dómi ekki aðeins réttlætanlegt, heldur skylt, eins og á stóð, að fara út í nokkurn frekari niðurskurð á fjárl., svo að ekki þyrfti til þess að koma, að neinir nýir skattar yrðu á lagðir að þessu sinni. Um slíkan niðurskurð, ef til hans þyrfti að taka, og raunar um allar hugsanlegar leiðir til áframhaldandi stöðvunar verðbólgu hefði hæstv. ríkisstj. átt að freista þess, eins og ég áðan sagði, að hafa samráð og samvinnu við stjórnarandstöðuna um þetta alvarlega mál. Með því hefði verið sýnt, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar vildu gera sitt ýtrasta til að tryggja áframhald og árangur þeirra samninga, sem gerðir voru í vor, og ég trúi því ekki, að stjórnarandstaðan hefði sýnt ábyrgðarleysi eða skorazt undan því að taka á sig nokkurn vanda í sambandi við lausn þessara mála.

Ég trúi því ekki enn, get ekki sætt mig við þá tilhugsun, að sá sáttmáli, sem ríkisstj. gerði við verkalýðshreyfinguna og aðrar launastéttir og atvinnurekendur s.l. vor, hafi verið fláttskapur til þess að kaupa sér stundarfrið. Ég vil trúa því, að af hálfu samningsaðila allra hafi verið að málum staðið í þeirri von og með það fyrir augum, að þarna væri verið að gera alvarlega tilraun til að reisa varnarvegg gegn óðaverðbólgunni, vegg til varnar, sem kosta þyrfti kapps um að efla og treysta á komandi missirum. En það er eins og hin furðulega efnahagsmálapólitík þessarar hæstv. ríkisstj., viðreisnarstefnan svokallaða, sé orðin svo magnaður draugur, að hann taki öll ráð af þeim, sem eitt sinn vöktu hann upp, þeir fái nú engu tauti komið við þennan uppvakning. Svo mikið er víst, að með því hátterni, sem nú er uppi haft við afgreiðslu fjárl., og við stóraukna skattheimtu með nýrri löggjöf er verðbólguskrúfan sett í fullan gang að nýju.

Vissulega hefði ég getað unnt hæstv. fjmrh. betra hlutskiptis en þess að standa nú hér frammi fyrir þingi og þjóð eftir 5 ára fjármálastjórn í eindæma góðæri með þetta nýja söluskattsfrv. í höndunum. 5 ár eru nú liðin, síðan hann stóð hér á Alþingi sem vel hervæddur og vopnglaður riddari, albúinn í stríð við eyðslusemi, við óðaverðbólgu og aðrar meinvættir. Og nú undir jól 1964 er svo komið, að þegar almenningur í þessu landi lítur til baka, finnst honum Eysteinn Jónsson fyrrv. ráðh. hafa verið næsta mildur skattheimtumaður í sinni ráðherratíð og bara töluvert sparsamur.

Hæstv. fjmrh. á eitt blóm eftir, eitt blóm í sínu hnappagati nú, og honum er vafalaust dálítið sárt um það. Blómið er þetta: fjárlög skulu, hvað sem tautar og raular, afgreidd fyrir jól. Nú vil ég heita á hæstv. fjmrh., þótt það kunni að vera svolítið sárt, að taka þetta skrautblóm úr hneppslunni að þessu sinni, að beita sér nú fyrir því, að fjárlagaafgreiðslu og söluskattsmálinu og dýrtíðarmálunum sé frestað fram yfir hátíðar, en þegar að þeim loknum verði tekið til óspilltra málanna um lausn þeirra í samstarfi við stjórnarandstöðuna og þá aðila, sem stóðu ásamt ríkisstj. að samkomulaginu í sumar. Væru slík vinnubrögð upp tekin, þótt á elleftu stundu sé, kynni enn að mega bægja vá óðaverðbólgu frá dyrum þjóðarinnar. Til þess er miklu fórnandi, og þeir, sem beittu sér fyrir slíkri lausn, gerðu þjóð sinni verulegt gagn og væru menn að meiri.