05.11.1964
Efri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (2608)

42. mál, gróðurvernd og landgræðsla

Flm. (Arnór Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég vil í sambandi við ræðu síðasta ræðumanns benda á tvennt. Annað er það, að 15% tollur er ekki mjög hár tollur, eftir því sem gerist hér á Íslandi. Ég gerði það í morgun, þegar ég var að hugsa um þetta mál, að ég tók tollskrána og skrifaði hjá mér, hvaða vörur það væru, sem hefðu 15% toll og fyrst kæmu í hendi. Ég fór náttúrlega ekki langt og ég skal lesa fyrir ykkur það, sem fyrst var nefnt. Það eru sjúkrabifreiðar, það eru snjóbifreiðar, það er snjóplógur, það er kartöflumjöl, það er kopar, steinn og stengur. Lengra nennti ég ekki að fara. Þið sjáið það, að þarna eru þó a.m.k. vörur, sem ekki er síður ástæða til að hlífast nokkuð við, heldur en t.d. erlent kjarnfóður. Svo nefndi ég í grg., að ég ætlaði að leggja fram tillögu um annan 15% toll til eflingar kornrækt. Það er nú kannske til þess að ýta dálítið við mönnum, frekar en ég ætlaði að leggja fram á þessu þingi frv. til nýrra kornlaga. Ég býst við, að þetta verði seinasti dagurinn, sem ég verð hér á þinginu, svo að það verður nú sennilega ekki mikið úr því a.m.k. Svo skrifaði ég upp nokkrar vörutegundir, sem hafa 30% toll. Það er t.d. efni til burstagerðar, það eru röntgenfilmur, það er gúmmí til skógerðar, það er korkur í tappa og svo það, sem allir kannast við, allur pappír og pappi, sem hingað flyzt til landsins. Þetta mundu a.m.k. sumir telja engu síður nauðsyn, að væri tolllétt, heldur en erlendur fóðurbætir, hvernig svo sem á honum stendur.

En það er alger misskilningur og þess vegna bað ég fyrst og fremst um orðið, að þessi skattur muni leggjast fyrst og fremst á bændurna og þá eina. Ég held, að þetta sé mjög fjarri. Þessi tollur hlyti með óbreyttri verðlagningu landbúnaðarvara að verða tekinn inn í verðlagsgrundvöllinn og leggjast á okkur alla jafnt. Það getur verið, að það kosti, að við verðum að greiða niður vörurnar innanlands, enn þá meira en áður. Ég geri ráð fyrir, að við getum fundið ráð gegn því líka. Og eins og ég nefndi, mundi það koma einnig fram sem sparnaður. Ég tel alveg víst, að sparnaður yrði á því, sem ríkið þarf að greiða með útfluttum mjólkurafurðum. Það yrði líka til þess að færa dálítið til, ekki stórkostlega, innan landbúnaðarins frá nautgriparækt til sauðfjárræktar. Það yrði náttúrlega til þess, að við yrðum að breyta ýmislegri skipun á þessum málum frá því, sem nú er. Ég vil ekki þreyta ykkur á að ræða langt um þetta, en þetta er alveg tilbúinn draugur. Það er tilbúinn draugur til þess að hræða menn frá að lóga þessari heilögu kú, sem í raun og veru mjólkar okkur ekki nokkurn skapaðan hlut.