16.12.1964
Efri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

106. mál, söluskattur

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það var mikið um að vera á stjórnarheimilinu um og eftir áramótin 1960. Þá var hæstv. ríkisstj. og þeir ráðunautar, sem hún hefur sér til aðstoðar, að gera úr garði eins konar guðspjall, sem sent var út á hvert heimili í landinu, og ríkisstj. gekk að því með miklu harðfylgi að boða hinar hagfræðilegu kenningar, sem þá voru settar fram, eigi síður en ötulir trúboðar þær kenningar, sem þeir flytja. En áður en hér var komið sögu, hafði orðið nokkur aðdragandi. Þegar lagt var fyrir hv. Alþingi það fjárlfrv., sem vinstri stjórnin gerði síðast úr garði, haustið 1958, létu þeir, sem nú fara með völdin í landinu, það álít uppi mjög ótvírætt, að það væri auðvelt að koma fram miklum sparnaði í fjármálum ríkisins frá því, sem þá hafði verið. Þegar fjárlagafrv., sem lagt var fram haustið 1958, var tekið til 1. umr., talaði fyrir Alþfl. Emil Jónsson, núv. hæstv. félmrh. Hann sagði þá m.a. í ræðu sinni:

„Fjárlög hvers árs hafa sífellt verið hærri en ársins á undan. Þessi þróun er uggvænleg og stefnir greinilega í fullkomið óefni.“

Við þetta tækifæri talaði af hálfu Sjálfstfl. Magnús Jónsson, hv. 6. þm. Norðurl. e. Hann sagði þá orðrétt:

„Það er áreiðanlega hægt að spara á mörgum sviðum. En það þarf í senn réttsýni og kjark til að gera slíkar ráðstafanir á viðeigandi hátt. Án einbeittrar forustu fjmrh. á hverjum tíma er þess ekki að vænta, að andi sparnaðar og hagsýni ráði í ríkisrekstrinum.“

Og eftir að stjórn Emils Jónssonar hafði setið að völdum um nokkurra mánaða skeið og fengið aðstöðu til þess að kynnast fjármálum ríkisins, jafnvel betur en áður, mælti þáv. fjmrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, svo í ræðu á hv. Alþingi 20. apríl 1959 við 2. umr. um fjárlagafrv. fyrir árið 1959:

„En af þeirri reynslu og þeim kynnum, sem ég hef haft af þessum hlutum, er það sannfæring mín, að mikið megi niður færa og mikið megi spara í ríkisbákninu.“

Þegar þessar kenningar voru fluttar fram, voru fjárlög ríkisins aðeins rúml. 800 millj. kr. Síðan hafa fjárlög farið stórhækkandi ár frá ári. Samkv. fjárl. fyrir 1959 námu útgjöldin 1033 millj., 1960 1501.2 millj., 1961 1588.2 millj., 1962 1748.7 millj., 1963 2198.4 millj., 1964 2677 millj., og þá eru þau útgjöld, sem vegáætlun ákveður, ekki talin með. Séu þau tekin með, sem raunar er rétt til samanburðar við fyrri ár, nálgast útgjöld fjárl. 3 milljarða. Og í þeim fjárl., sem nú á að setja, eru útgjöldin 3200 millj. Með því frv., sem hér liggur fyrir, á að bæta við 372 millj., og samkv. till. til vegáætlunar, sem komin er fram, er þar um að ræða um 200 millj., sem eru innheimtar sérstaklega í tekjustofnum, sem ríkið hafði áður. Þegar þetta er lagt saman, mun það láta nærri, að stofnað sé til þess, að útgjöld ríkisins á árinu 1955 verði a.m.k. 3 1/2—4 milljarðar eða líklega sem næst 3800 millj. kr. M.ö.o. : hækkunin á fjárl. frá því í fyrra, frá ári til árs, er orðin eins há að krónutölu og öll fjárl. voru á tímum vinstri stjórnarinnar, þegar viðvörunarorðin, sem ég drap á í upphafi máls míns, voru fram flutt hér á hv. Alþingi.

Ég verð að segja, að það er ekki óeðlilegt, þó að þm. staldri við, þegar þróun mála er orðin á þennan veg. Hafi þróunin verið uggvænleg, eins og hæstv. félmrh. sagði um hækkun fjárl. frá ári til árs 1957 og 1958, þá er hún miklu uggvænlegri ná, eins og stofnað er til um afgreiðslu þessara mála.

Eins og aðrir hafa bent á, kemur það fram í fjárlagafrv. og afgreiðslu meiri hl. fjvn., að það er hvergi unnið að því að færa niður útgjöld, heldur stefnt að því að ná saman endunum eða brúa bilið milli tekna og gjalda á þann veg að auka tekjurnar. Og í því skyni er verið að kosta kapps um að fá lögfestan þennan nýja tekjustofn, sem nú er hér til umr. Þessa gífurlegu hækkun fjárl. frá ári til árs leiðir vitanlega af stjórnarstefnunni. Það er sagt, að það þurfi tekjur til þess að standa undir niðurgreiðslum. En allt er þetta vegna þess, að stjórnarstefnan er eins konar vítahringur, sem farið verður örar um, því lengur sem haldið er áfram á þessari braut. Sennilega vantar líka réttsýni eða kjark til einbeittrar forustu til sparnaðar, eins og talað var um 1958. Sennilega vantar það í enn ríkara mæli nú og líklega hvort tveggja þetta. En til þess að auka tekjur ríkissjóðs, svo sem talin er þörf á, er gripið til þess ráðs að stórhækka söluskattinn, eins og þetta frv. felur í sér.

Það er orðið nokkuð langt síðan söluskattur var tekinn upp sem einn af skattstofnum ríkisins. Ég ætla, að upphafið hafi verið það, að á tímum nýsköpunarstjórnarinnar frá 1944—1946 var lagður á svonefndur veltuskattur. Þegar veltuskatturinn var felldur úr gildi, mun hafa verið tekinn upp söluskattur í því sérstaka augnamiði að standa straum af kostnaði dýrtíðarsjóðs, sem stofnað var til vegna atvinnuveganna. Og síðan hélzt það um árabil, að nokkur söluskattur var innheimtur, og rann hann að sumu leyti til ríkissjóðs, en að sumu leyti til sérstakra dýrtíðarráðstafana. En sá söluskattur, sem innheimtur var á því árabili, allt til 1960, var bæði nokkuð annars eðlis, þ.e.a.s. skattgrundvöllurinn var annar en sá, sem söluskatturinn nú hvílir á, og allt eru það smámunir einir að krónutölu í samanburði við það, sem nú er um að ræða á þessu sviði.

Með l. um söluskatt frá 1960 var gengið miklu lengra í þessari skattheimtu en nokkru sinni hafði verið fyrr, og þá var gengið svo langt að skattleggja brýnustu neyzluvörur manna, eins og fisksoðningu, sem aldrei hafði verið gert fyrr, svo að mér sé kunnugt um. Með söluskattsl. 1960 var ákveðið að innheimta söluskatt af heildsölu og enn fremur 3% almennan söluskatt, sem leggst á öll eða flest innanlandsviðskipti. Frá því eru aðeins fáar og fremur smávægilegar undantekningar. En til viðbótar þessu var lagður á bráðabirgðasöluskattur í innflutningi. Sú grein var gerð fyrir því af hálfu fjmrh., þegar sá bráðabirgðasöluskattur var lögfestur, að til þess lægju þrjár ástæður. Í fyrsta lagi hefði verið ráðgert, að hinn almenni söluskattur yrði annaðhvort 3 eða 4%, en niðurstaðan varð sú, að hann var lögákveðinn 3%. Í öðru lagi höfðu undanþágur frá hinum almenna skatti orðið nokkru viðtækari í frv. heldur en upphaflega hafði verið hugsað fyrir af hálfu þeirra, sem undirbjuggu frv. En síðan segir orðrétt: „Þriðja ástæðan er sú, að söluskatturinn verður í gildi aðeins 9 mánuði ársins 1960, eða þrjá ársfjórðunga í stað fjögurra, sem að sjálfsögðu dregur mjög úr heildarupphæðinni. Þess vegna er farin sú leið til bráðabirgða að afla viðbótarteknanna, sem með þarf, með nokkurri hækkun á innflutningssöluskattinum. Sá innflutningssöluskattur, sem er nú 7% og hefur verið undanfarin ár, verður hækkaður um 8% upp í 15%.“ En þegar að því kom, að aðstaða var til þess að innheimta hinn almenna 3% söluskatt allt árið, þ.e.a.s. á árinu 1961, er bráðabirgðasöluskatturinn ekki felldur niður og ekki lækkaður, heldur er hann framlengdur á árinu 1961. Hann er enn framlengdur með sérstökum lagaákvæðum 1962, og 1963 er hann ekki felldur niður, heldur felldur inn í tollalöggjöfina og gerður þar með að skatti til frambúðar. 1964 í janúar er svo það skref stigið að hækka hinn almenna 3% söluskatt í 5 1/2%, en sú hækkun var gerð vegna sérstakra ráðstafana í l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, og nú er þróunin orðin svo ör, að það líður ekki heilt ár, þangað til knýja á fram næstu hækkun, þ.e.a.s. þá, sem hér er um að ræða. Það eru aðeins orðnir 10 mánuðir á milli þeirra skrefa, sem stigin eru til stórhækkunar á söluskatti. Nú er stefnt að því með þessu frv. að hækka skattinn upp í 8%. Og verði þetta lögfest, þá hefur þessi eini tekjustofn, söluskatturinn, verið hækkaður á árinu 1964 um rúmar 600 millj. kr. samkv. þeim grundvelli, sem lagður er í grg. þessa frv., að 1% í söluskatti skili 123 millj. í tekjur. Það sjá allir, þegar þessar tölur eru athugaðar, hvað hér er orðið skammt stórra höggva á milli.

Ef litið er á þetta í krónutölu, er, eins og ég sagði áðan, hinn gamli söluskattur á tímabilinu 1947—1960 hreinir smámunir miðað við það, sem hér er um að ræða. En samkv. fjárl. 1960 er söluskatturinn til ríkisins 381 millj. og til sveitarfélaga 56. þ. e. 437 millj., 1961 til ríkisins 438.5, sveitarfélaganna 71, þ.e. 509.5 millj., 1962 til ríkisins 510.4, til sveitarfélaganna 83.4, þ.e. 593.8 millj., 1963 til ríkisins 650, til sveitarfélaganna 104, þ.e. 754 millj. 1964 lækkar þessi tala verulega, vegna þess að þá er bráðabirgðasöluskatturinn kominn saman við tollana, svo að þá er ekki lengur um sambærilegar tölur að ræða. En nú er stefnt að því, að á árinu 1965 verði innheimt með sölusköttum af þjóðinni fast að einum milljarði eða um 930 millj. kr. Og þá ber enn þess að gæta, þegar þessi tala er reiknuð, að bráðabirgðasöluskatturinn, sem áður var innheimtur, er nú tekinn með tollunum. Það er því alveg augljóst, að söluskatturinn er sérstakt eftirlæti núv. hæstv. ríkisstj.

Það hefur verið gert að umtalsefni af þeim, sem talað hafa hér fyrr í dag, að það sé almenn skoðun, að þessi skattheimta missi verulega marks vegna þess, hve hún er örðug í innheimtu, hvað það eru margir, sem eiga að standa skil á fjármunum til ríkissjóðs, og hve erfitt er að koma við fullkomnu og ströngu eftirlíti. Þetta er almenn skoðun, og hún er ekki ný. Hv. 3. þm. Norðurl. v. vék að því mjög greinilega í ræðu sinni hér í dag, að framsóknarmenn væru ekki einir um þessa skoðun, heldur ættu þeir marga skoðanabræður að þessu leyti, bæði utan þings og innan, og hann benti á það, að Alþýðuflokksmenn, þeir sem nú skipa sæti í ríkisstj. og standa að þessu máli, hefðu fyrr á árum varað við þessum gjaldstofni, söluskattinum. Ég skal ekki fara langt út í að ræða þennan þátt málsins, en ég vil þó aðeins þessum almennu orðum til staðfestingar drepa hér á eina tilvitnun úr Alþingistíðindunum, sem tekin er nokkurn veginn af handahófi, það mætti vissulega finna margt fleira. Hinn reyndi þingskörungur, fyrrv. forustumaður Alþfl., Haraldur Guðmundsson, sagði svo í umr. á þingi um söluskattinn, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég álít, og Alþfl. er sömu skoðunar, að af mér liggur við að segja öllum þeim tollum, sem á eru lagðir hjá okkur, sé söluskatturinn ranglátastur og óskynsamlegastur. Hann er ranglátastur af því, að hann lendir langþyngst á þeim, sem minnsta getu hafa til að greiða til opinberra þarfa. Hann fellur langþyngst á barnmargar fjölskyldur og stór heimili, og það þarf ekkí orðum að því að eyða, hversu ranglátt slíkt fyrirkomulag er til innheimtu opinberra gjalda. Aðrir tollar ýmsir, ég vil nú ekki segja flestir, eru þó á lagðir með það sjónarmið fyrir augum, að þeir séu mismunandi þungir, eins og t.d. verðtollurinn eftir því, hvaða vörur eiga í hlut, hvort hægt er að komast af án þeirra eða ekki. En til þessa sjónarmiðs er engan veginn tekið tillit við álagningu söluskattsins, heldur þvert á móti. Í öðru lagi liggur í augum uppi, að söluskatturinn hlýtur að hækka verðlag í landinu og þar með dýrtíðina, a.m.k. sem skattinum nemur og þeirri álagningu, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma á hann í öllum viðskiptum. Sú aukna dýrtíð, sem af þessu stafar, kemur svo fram í hækkuðum framleiðslukostnaði. Af því leiðir aftur, að útflutningsvörur okkar, sem framleiddar eru með þessum háa framleiðslukostnaði, verða torseldari og standa þess vegna lakar að vígi í samkeppni við hliðstæðar vörur á heimsmarkaðinum. Tollur þessi og skattur er því hvort tveggja í senn ranglátur gagnvart þeim, sem greiða hann, og mjög óskynsamlegur frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar. Við leggjum því til, Alþfl.-menn, að þessi skattur verði felldur niður.“

Þetta var um hinn eldri söluskatt, sem var, eins og ég hef áður sagt, hreinir smámunir hjá því, sem nú á að flétta inn í verðlagið. En ég hygg, að þessi ummæli séu í fullu gildi enn í dag og því meira gildi sem hér er um hærri fjárhæðir að ræða. Hér er sem sé stefnt að því að innheimta með söluskatti álag á nær allar vörur í landinu, þar með taldar brýnustu neyzluvörur, til þess að greiða síðan niður verðlag á nauðsynjavörum. En þessi aðferð, sem er eins konar hringferð, sem ríkisstj. fer, leiðir til þess, alveg eins og ummæli Haralds Guðmundssonar bera með sér, að verðlag hækkar og það þyngist fyrir fæti hjá útflutningsframleiðslunni og atvinnuvegum þjóðarinnar og kostnaður allur við framkvæmdir stóreykst.

Það er ekki heldur nýtt álit, sem komið hefur fram í þessum umr., að söluskatturinn sé að því leyti viðsjálli tekjustofn heldur en aðrir tekjustofnar ríkisins, að hann komi ekki allur til skila. Einn af núv. hæstv. ráðh. hefur látið uppi álít opinberlega hér á þingi í því efni, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. drap á í ræðu sinni hér í dag. Gylfi Þ. Gíslason, hæstv. viðskmrh., hefur hér á hv. Alþingi farið um söluskattinn svolátandi orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Við þetta allt saman bætist svo, að söluskatturinn er í eðli sínu ranglátur. Það er einhver ranglátasti skattur, sem lagður hefur verið á af íslenzka löggjafanum. Og það er ekki nóg með það, að hann sé ranglátur í eðli sínu, framkvæmdin á söluskattsinnheimtunni hefur og verið þannig, að á því er enginn vafi, að enginn skattur hefur verið svikinn jafnstórkostlega og söluskatturinn. Það er ekki aðeins ríkissjóður, sem tekur inn mikið fé í skjóli þessara lagaákvæða um söluskattinn, heldur taka ýmiss konar atvinnurekendur einnig inn stórfé í skjóli þessara ákvæða. Það er auðvelt að svíkja tekjuskatt fyrir þá, sem hafa stórfelldan atvinnurekstur með höndum. Það er þó margfalt auðveldara að svíkja söluskatt. Það er jafnopinbert leyndarmál og skattsvikin í tekjuskattinum, að þau eru gífurleg í söluskattinum.“

Hér er vitnisburður eins hæstv. ráðh., sem stendur að flutningi þessa frv. (Fjmrh.: Hvaða ár var þetta? ) Þetta er í B-deild Alþingistíðinda 1953. (Fjmrh.: Voru þær umr. um söluskatt þáv. fjmrh.?) Ja, ætli þessi söluskattur sé af nokkuð betri náttúru, sem nú er verið að ræða um? Ég hygg ekki.

Eins og ég hef rakið, er með þessu frv. og þeirri stórfelldu hækkun á sölusköttum, sem endurtekin er hvað eftir annað og nú orðið með stuttu millibili, verið að vega oft í sama knérunn. Og það hefur frá fornu fari ekki þótt hyggilegt eða vænlegt til giftu að fara þannig að.

Ég skal ekki fjölyrða um þá samninga, sem áttu sér stað í sumar milli atvinnurekenda, ríkisstj. og Alþýðusambandsins. Ég fjallaði ekki um það mál og er því ekki kunnugur. En mér sýnist þó sem leikmanni, sem hefur staðið utan við þá samningagerð, að þetta frv. hljóti að stríða gegn anda þess samkomulags, sem þá var gert, enda hefur það komið berlega fram af hálfu annarra ræðumanna, sem talað hafa, að þeir, sem þar eru kunnugir málum, líta svo á. Með þessu frv. er að sönnu ráðgerð 3% kauphækkun, sem komi fram í greiðslu verðlagsuppbóta. En sú kauphækkun kemur eftir á, eftir að launþeginn hefur áður orðið að taka á sig hækkun verðlagsins. Og mér finnst margt benda til þess, að launþegasamtökin muni ekki sætta sig við svo litlar bætur sem felast í þessu frv., eftir að hin mikla hækkun á söluskattinum, sem hér er stefnt að, hefur verið lögfest. Og ég ætla, að ég muni það rétt, að frá því hafi verið skýrt fyrir skömmu, að stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hafi samþykkt að fara fram á hvorki meira né minna en 23% launahækkun nú á næstunni. Þessi samþykkt mun þó hafa verið gerð áður en kunnugt varð um ákvæði þessa frv., en allar líkur benda til þess, svo að vægt sé til orða tekið, að ákvæði þessa frv. ýti undir kröfugerð af þessu tagi.

Þó að launþegar eigi að fá bætta hækkun verðlagsins samkv. vísitölu, er þess að gæta, að sú hækkun verðlagsins, sem kemur í kjölfarið á samþykkt þessa frv., fléttast um allt efnahagskerfi þjóðarinnar. Hún kemur miklu víðar fram en í þeim gjaldaliðum, sem teknir eru inn í vísitöluna, þannig að hinn almenni þjóðfélagsþegn ber vitanlega byrðar umfram það, sem hann fær bætt í vísitölunni. Eða hvað skyldu menn segja um húsnæðiskostnaðinn? Vitanlega leiðir hækkun söluskatts af sér hækkun byggingarkostnaðar. Það kallar aftur á hærri húsaleigu og hærri húsnæðiskostnað. Hið sama er að segja um atvinnureksturinn. Hinn margvíslegi rekstrarkostnaður atvinnuveganna er ekki færður inn í vísitölugrundvöllinn. En auðvitað verða þeir, sem fyrir atvinnurekstri standa, að bera þessar hækkanir án þess að fá það bætt í vísitölunni. Og þetta frv. stríðir að ýmsu leyti gegn því, sem hæstv. ríkisstj. telur nú stefnu sína öðrum þræði, t.d. gegn því að halda við verðgildi sparifjár. Vitanlega minnkar kaupmáttur sparifjár við þá hækkun verðlagsins, sem í kjölfarið á söluskattshækkuninni kemur, og þannig verða afleiðingar þessa frv., ef að lögum verður, svo víðtækar, að það er ekki aðeins um að ræða þá hækkun á kaupgjaldi og launum, sem greidd eru úr ríkissjóði, sem koma fram í fyrstu umferð, heldur fléttar þetta sig óðar en varir inn í nær alla þætti efnahagslífsins og kyndir þannig undir framhaldandi verðhækkanir og aukna verðbólgu.

Þegar á þetta er litið, er það auðsætt, að við þessu máli þarf að gjalda mikinn varhuga. Það má segja, að það sé tvennt eftirtektarvert sérstaklega við þetta frv. auk hinnar almennu stefnu, sem í því felst. Annað er það, að þess verður ekki vart, að í því séu nein ákvæði um að auka eftirlitið með innheimtu söluskattsins og herða á ráðstöfunum í því skyni að tryggja sem bezt skil á þessum tekjustofni ríkisins. Hitt er það, að þrátt fyrir þá verðhækkun, sem bersýnilega leiðir af samþykkt þessa frv., virðist mér, að ekki eigi að bæta hlut sveitarfélaganna að neinu leyti. Augljóst er þó, að þau verða fyrir skakkaföllum af þeim verðhækkunum, sem koma munu í kjölfarið á þessu frv., ef að lögum verður, og hefði því verið mjög eðlilegt, að tillit væri tekið til þess, þegar söluskatturinn er stórhækkaður, og sveitarfélögunum ákveðinn ríflegri hluti af söluskattinum í heild en ráðgert er í þessu frumvarpi.

Ég skal nú fara að stytta mál mitt. Ég vildi aðeins láta þessa skoðun mína koma fram við 1. umr. málsins. Sennilega telur ríkisstj. sig hafa nægilegt þingfylgi enn sem fyrr til þess að knýja þetta mál gegnum þingið og það líklega á skömmum tíma. Vel má vera, að svo reynist. En þetta mál og raunar fjárl. bera þess vott, að þó að ríkisstj. kunni enn að hafa atkvæðamagn hér á þingi til þess að knýja frv. fram, ræður hún raunverulega ekki orðið við efnahagsmál landsins. Það væri eðlilegast, það væri sómi fyrir hana og réttast af henni að gera sér grein fyrir þessu og draga rökréttar ályktanir af því.