02.03.1965
Efri deild: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (2619)

133. mál, aðför

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og menn vita, er aðalreglan sú, að allar eignir manns standa til fullnustu á hans skuldbindingum. Það eru samt reistar nokkrar skorður við því, hversu nærri manni megi ganga. Ein slík takmörkun, sem á því er gerð, felst í 27. gr. aðfararl., en þar er mönnum heimilað að undanskilja fjárnámi nokkrar lífsnauðsynjar upp að tilteknu hámarki. Þessi heimild hefur verið í aðfararl. frá öndverðu, var upphaflega samkv. 27. gr. þeirra, þegar aðfararl. nr. 19 frá 1887 voru sett, á þá lund, að þar mætti undanþiggja lífsnauðsynjar, muni fyrir 20 kr., en fyrir 120 kr., ef hann átti fyrir heimili að sjá. Þessum upphæðum var svo breytt 1932 í það horf, sem nú er, að reglan er þannig nú skv. lögum, að maður má undanskilja fjárnámi lífsnauðsynjamuni að upphæð 100 kr., ef hann er einhleypur maður, en 500 kr., ef hann á fyrir heimili að sjá og svo 100 kr. fyrir hvert barn í báðum tilvikum.

Þessar breytingar á upphæðum voru gerðar 1932 vegna þeirra verðlagsbreytinga, sem þá höfðu átt sér stað, frá því að aðfararl. voru sett. Það er öllum ljóst, að á því tímabili, sem liðið er síðan þessu var breytt 1932, hafa stórfelldar verðlagsbreytingar átt sér stað og þessar upphæðir, sem greindar eru í lögunum, eru ef við þær ætti að miða, bókstaflega einskis virði. Það mun þó í framkvæmdinni eitthvað slakað á í þessum efnum, þannig að nauðsynlegustu lífsnauðsynjar munu metnar mjög lágt. En samt sem áður virðist nú rétt að gera hér breytingu á og breyta þessum fjárhæðum nokkuð til samræmis við þær verðlagsbreytingar, sem átt hafa sér stað. Og það er sú meginbreyting, sem felst í því frv., sem hér liggur fyrir, að breytt er þeim fjárhæðum, sem um getur í 27. gr. aðfararlaganna. Það er sjálfsagt álitamál, hverjar þær fjárhæðir eiga að vera og það getur komið til athugunar í nefnd, hvort þetta eru þær réttu fjárhæðir, sem hér eru nefndar, eða ættu að vera einhverjar aðrar.

Það má sjálfsagt segja, að það séu ýmis önnur atriði í lögunum um aðför, sem þörf er á að breyta, enda eru þau orðin gömul og í vissum atriðum orðin úrelt, þótt þau séu sérstaklega vel samin á sínum tíma. En ég held, að þetta sé svo afmarkað ákvæði og einstakt út af fyrir sig, að það séu engin vandkvæði á því að breyta því, þó að ekki sé að öðru leyti hreyft við lögunum, enda var það gert á sínum tíma, 1932.

Önnur breytingin, sem í þessu frv. felst, er sú, að niður er fellt úr 27. gr. upphaf síðustu málsgr., en þar segir: „Rétt þann, er ræðir um í 2. og 3. málsgr., á skuldunautur þó ekki, þegar aðför er gerð fyrir sköttum eða opinberum gjöldum.“ Þ.e.a.s. skuldunautur hefur ekki skv. orðanna hljóðan notið þessa hagræðis, þessa undanþáguréttar, þegar skattar og opinber gjöld hafa verið innheimt. Mér hefur alltaf verið þetta ákvæði þyrnir í augum. Þó að það hafi kannske ekki mikið á það reynt í framkvæmdinni, þá finnst mér það í hæsta máta óviðeigandi, að hið opinbera áskilji sér rétt umfram aðra menn til að ganga frá skuldunaut þannig, að hann sé algerlega rúinn inn að skyrtunni. Þess vegna er lagt til í þessu frv., að þetta ákvæði sé fellt niður úr lögunum.

Herra forseti. Þetta er mjög einfalt mál í sjálfu sér og ég sé ekki ástæðu til að hafa um það lengri framsögu, en legg til, að málinu sé vísað til 2. umr. og allshn.