16.12.1964
Efri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

106. mál, söluskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki efni til, að ég fari að halda hér langa ræðu út af neinu, sem fram hefur komið, frá því að ég var hér í ræðustólnum. En þó tel ég ástæðu til að gera aðeins að frekara umræðuefni það, sem í fyrsta lagi ég hafði sagt um það, sem ég taldi í minni fyrri ræðu brigð á yfirlýsingum, sem hefðu verið gefnar í sambandi við samkomulagið í vor, og svo í öðru lagi örlitlar aths. við það, sem hæstv. forsrh. hafði um þessa fullyrðingu mína að segja.

Ég endurtek það hér, að ég þykist muna það alveg rétt, að sú yfirlýsing var gefin af fulltrúum ríkisstj., aðalráðunaut hennar í efnahagsmálum, að engar nýjar álögur yrðu lagðar á vegna niðurgreiðslna á árinu 1964. Ég endurtek þetta og fullyrði það, að þetta er rétt munað. Núna í kvöldmatarhléinu hringdi ég í Eðvarð Sigurðsson og bar þetta undir hann, hvort hann teldi, að þarna væri um að ræða misminni hjá mér, og hann bað mig að koma því að hér í umr., að þetta væri algerlega rétt. Ég hlýt að viðurkenna það, að mitt minni er ekki óbrigðult, hvorki um þetta efni né annað, en ég tel, að þar sem um svo veigamikið atriði er að ræða, væri það harla einkennileg tilviljun, ef okkur Eðvarð Sigurðsson misminnti svo hrapallega báða í þessu efni. Ég held líka, að þegar þetta mál er athugað, þá mundu flestir sannfærast um það, að við Eðvarð Sigurðsson og aðrir, sem stóðu í samningum fyrir verkalýðshreyfinguna á s.l. vori, hefðum verið hreinir fábjánar, ef við hefðum ekki knúið fram yfirlýsingu einmitt um þetta atriði. Og þó að minni mitt kunni að vera brigðult, þá treysti ég því a.m.k., að um svo stórvægileg atriði eins og þetta geti ég munað rétt, því að þarna var auðvitað um svo stórt aðalatriði að ræða, að það var útilokað, að nokkur ábyrgur samningsaðili hefði ekki viljað ganga úr skugga um þetta. Hitt er auðvitað líka jafnrétt, að það er ekki við því að búast, að yfirlýsingar um svona efni geti tekið mjög langt fram í tímann, og allt, sem hæstv. forsrh. sagði um það, hvaða skuldbindingar ríkisstj. hefði gert varðandi niðurgreiðslur fram í tímann, er, eftir því sem ég bezt man, alveg rétt.

Ég hlýt að þessu athuguðu að halda mig við það, sem ég sagði hér um þetta, og hef reyndar styrkzt síðan í því, að ég hafi farið með algerlega rétt mál. En ef haldið er fast við gagnstæða fullyrðingu af okkar viðsemjendum, þá er auðvitað ekkert við því að segja. Það stendur þá fullyrðing gegn fullyrðingu, og hver verður að trúa því, sem honum þykir sennilegast. En ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að mér þykir það ekki skemmtilegt að standa í slíkum fullyrðingum á víxl og tel það ekki til gagns í raun og veru fyrir neinn, þó að ég hins vegar mundi telja það brigð við mína umbjóðendur í sambandi við þessa samninga, ef ég færi að gefa þessar 68 millj. kr. eftir, án þess a.m.k. að ég hefði um það allan fyrirvara og öll mótmæli. Þessar 68 millj. svara til rúmlega 1/2% af þeirri 2 1/2% hækkun, sem hér er um að ræða, og hæstv. ríkisstj. hefur enn þá fullkomið tækifæri til að leiðrétta þetta. Og ég vil treysta því, að það verði gert, og teldi það ekki til neinna bóta fyrir seinni tíma, því að enda þótt okkur greindi á við hv. ríkisstj. um þetta frv., eins og hér hefur komið fram, þá kynni svo að fara, að við ættum eftir að semja við hana aftur, og þá skiptir það auðvitað miklu máli fyrir báða aðila, að þeir geti treyst svo mikilvægum yfirlýsingum sem hér er um að ræða. Ég vil þess vegna vænta þess og reyndar treysti því, að hæstv. forsrh., sem ég hef ekki hingað til reynt að neins konar brigðum í sambandi við þetta mál, annað en það, sem hér er um að ræða, — ég vil trúa því, að það sé ekki um vísvitandi brigð að ræða, heldur sé það óviljaverk. Og ég vil treysta því, að hann rannsaki þetta mál til hlítar, áður en þetta mál verður afgr. hér í þinginu, og ef hann sannfærist um, sem ég trúi, að við Eðvarð Sigurðsson séum ekki að skrökva hér upp vísvitandi, og ef athuganir hans að öðru leyti staðfesta okkar mál, þá hlutist hann til um það, að frv. verði breytt í samræmi við það, sem satt reynist í þessu máli.