08.03.1965
Efri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í C-deild Alþingistíðinda. (2622)

141. mál, íþróttalög

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 1. þm. Vesturl. að bera fram frv. það til breytinga á íþróttalögum, sem nú er hér til 1. umr.

Með íþróttal., sem sett voru 1940, var stigið stórt og heillarikt skref á sviði uppeldismála. Þá var með skipulegum hætti tekið að framkvæma af hálfu ríkisvaldsins eftirlit með íþróttastarfsemi í landinu og veita árlega fjárupphæð til stuðnings þessari starfsemi. Íþróttasjóður hefur að sönnu verið mjög fjárvana, eins og hv. alþm. kannast við, til þess að fullnægja eftirspurn eftir fjárframlögum til íþróttamannvirkja, en eigi að síður hefur verið stigið verulegt skref áleiðis á þessari braut á þessum árum, síðan íþróttal. voru sett. Tilgangur íþróttal. er að auka heilbrigði manna og hreysti, líkamsfegurð, vinnuþrek og táp. Síðan íþróttal. voru sett, hefur sund verið gert að skyldunámsgrein í skólum, svo og fleiri íþróttir og er þar með fyrir því séð, að æska landsins almennt leggi nokkra stund á íþróttaiðkanir. Samhliða þessu hefur þróazt frjáls íþróttastarfsemi, sem nýtur stuðnings samkv. íþróttal., bæði með fjárframlögum úr íþróttasjóði til íþróttamannvirkja og með fyrirgreiðslu af hálfu íþróttafulltrúa á ýmsan hátt. Þetta er svo undirstaða að því, að þjóðin á í sínum hópi afreksmenn í ýmsum greinum íþrótta, sem hafa unnið íþróttaafrek bæði á innlendum og erlendum vettvangi, bæði sjálfum sér og þjóðinni í heild til vegs. Þótt það sé mikilvægt, tel ég þó uppeldisgildi íþróttanna enn þá mikilvægara í þessu sambandi. Atvinnuhættir þjóðarinnar breytast mjög ört á þá leið, að það verður hlutfallslega stærri og stærri hluti þjóðarinnar, sem vinnur störf sín innanhúss við kyrrsetur, en hlutfallslega minni hl., sem hefur þannig starfsaðstöðu að njóta við starfið útivistar og hreyfingar. Af þessu leiðir, að íþróttir hafa auknu hlutverki að gegna með þjóðinni í samræmi við þessa breytingu á atvinnuháttum hennar.

Stjórn íþróttamála er þannig háttað og svo hefur verið nú um nærri aldarfjórðungsskeið, að íþróttafulltrúi hefur á hendi daglega stjórn íþróttamála og yfirlit um þau mál, yfir landið í heild. Íþróttanefnd tilnefnd af félagasamtökum áhugamanna kemur saman á fundi við og við og leggur meginlínur um starfið, en aðallega hvílir það á íþróttafulltrúa.

Við, sem stöndum að þessu frv., lítum þannig á, að með fjölgun þjóðarinnar og stórauknu íþróttastarfi, bæði í sambandi við skólastarfið og hin frjálsu íþróttafélög, sé það nægilegt starf fyrir íþróttafulltrúa að hafa á hendi yfirlit um þessi málefni og daglega stjórn íþróttamála. Það sé mjög takmarkað, sem hann geti komið því við að ferðast úti um land og hafa persónulegt samband og á þann hátt örvandi áhrif á starf íþróttafélaganna og starfsemi skólanna á þessu sviði. Við leggjum því til með þessu frv., að landinu verði skipt í íþróttaumdæmi og skuli miða skiptinguna við landsfjórðunga og í hverju íþróttaumdæmi starfi íþróttanámsstjóri. Hann sé ráðinn af menntmrn. til þriggja ára í senn, að fengnum till. íþróttanefndar.

Samkv. frv. á íþróttanámsstjóri að hafa á hendi þessi störf á sínu svæði: Að vera íþróttafulltrúa og íþróttanefnd til aðstoðar um stjórn og framkvæmd íþróttamála í íþróttaumdæminu, að efla frjálsa íþróttastarfsemi og veita íþróttafélögum og einstaklingum aðstoð og leiðbeiningar um íþróttamál, enn fremur að hafa eftirlit með íþróttanámi í skólum og vinna að því að gera það sem fjölbreyttast. Í fjórða lagi ber íþróttanámsstjóra samkv. frv. að leitast við að efla hollt félagsstarf og reglusemi æskufólks. Það er kunnugt, að áfengisnautn fer því miður vaxandi með þjóðinni og hefur það í för með sér margvísleg vandamál. Sérstaklega geta þau vandamál orðið alvarleg, þegar í hlut eiga unglingar á örasta þroskaskeiði. Margra ráða hefur verið leitað til að koma í veg fyrir þessa þróun eða draga úr þessari þróun. Ég tel og það er álit okkar flm. þessa frv., að ekki sé þess að vænta, að ein ráðstöfun eða aðferð reynist fullnægjandi til þess að koma í veg fyrir áfengisnautn æskufólks, í því efni þurfi að beita fleiri ráðum samtímis og reyna á þann hátt að færa þetta til betra horfs, en nú er og verið hefur um sinn. En íþróttaiðkanir hafa mikil og góð áhrif í þessu efni. Íþróttamaðurinn, sem stefnir að því að auka hreysti sína, vinnuþrek og táp, á ekki samleið með þeim, sem oft neytir áfengis. Nú er það alkunnugt, að félagsskapurinn, sem æskumaðurinn tekur þátt í, hefur mjög mikil áhrif á hið persónulega viðhorf unglingsins. Og sá æskumaður, sem starfar í félagsskap íþróttamanna, er líklegur til þess að gæta að sér í sambandi við áfengisnautnina og þau vandamál, sem af henni stafa. Samkv. frv. á því íþróttanámsstjóri að hafa áhrif á að efla hollt félagsstarf og reglusemi æskufólks á því svæði, þar sem hann starfar og teljum við, að af því megi vænta góðs árangurs.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta mál fleiri orðum, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.